February 2014 archive

Avocado- og wasabimajónes

IMG_4312Avocadomajones: / 4 msk heimagert majónes eða tilbúið frá Himneskt / 1 stk avocado / 1 hvítlauksrif / 1 tsk Dijon sinnep / 1 tsk grænt wasabimauk / smá lime.

Aðferð: pressið hvítlaukinn, maukið avocadoið og blandið því og öllu hinu við heimagerða majónesið.

Stundum vantar mann einhverja sósu sem er rík og þung eins og t.d. með hamborgara en vill ekki tilbúna Gunnars :O) Þessi sósa er snilld og ég sá hana í bókinni hennar Berglindar Sigmarsdóttur. Það tekur ekki langan tíma að gera hana sérstaklega ef þú kaupir majónesið en þá mundi ég kaupa frá t.d. Himneskt.

Sætkartöflumix

IMG_3503Innihald: / 1 sæt kartafla / 1 rauðlaukur / 2-3 rifin hvítlauksrif / 2-3 cm ferskt engifer / 3 msk kaldpressuð lífræn ólífuolía / smá ekta sítrónusafi.

  1. Kartaflan er skorin í teninga
  2. Laukurinn skorinn í sneiðar
  3. Hvítlaukur og engifer pressað yfir og kryddað með rósmarín, turmeric og salti.
  4. Ólífuolíu er hellt yfir og bakað í ofni í ca 20-25 mín við 180g.

Þetta meðlæti elska ég og verð aldrei þreytt á því. Tilvalið í nestisboxið daginn eftir með fullt af grænmeti.

Hveitigrasskot

IMG_4008Hveitigras er mjög orkugefandi og inniheldur allt að 70% blaðgrænu. Safinn sem pressaður er úr lífrænt ræktuðu hveitigrasi er fullur af næringarefnum, vítamínum, steinefnum, ensímum og  blaðgrænu (chlorophyll).

Blaðgrænan svipar mjög til uppbyggingar hemoglobíns í blóði, er auðmeltanleg og gefur orku því hún frásogast hratt út í blóðið. Þá losar hveitigrasið okkur við uppsöfnuð eiturefni. Það er best að fá sér hveitigras á morgnana, sérstaklega á fastandi maga. Til að gera hveitigrasskot heima þarftu að eiga safapressu með snigli.

Ég tek stundum svona tarnir í hveitigrasi og gleymi því svo lengi inn á milli. En ég finn það gerir mér gott þegar ég nenni þessu.

http://thechalkboardmag.com/50-reasons-to-drink-wheatgrass-everyday

Möndlumjólk

IMG_4078Innihald: / 2 dl möndlur / 8 dl vatn / smá salt / ½  tsk kanill / ½ tsk ekta vanilluduft  / það má sæta með t.d. 2 döðlum (mjúkum), smá agave, steviu… en þá er þessi uppskrift ekki lengur sykurlaus.

  1. Möndlurnar þurfa að liggja í bleyti í minnst 5-6 tíma eða yfir nótt.
  2. Vatninu er hellt af og allt sett í blandara (8 dl vatn). Möndluhratið er sigtað frá gegnum sigtipoka (fæst í Ljósinu Langholtsvegi). Hellið í flösku, geymist í kæli í 3 daga.

Ef þú vilt bæta kalki í möndlumjólkina má setja tahini í blandarann eða leggja sesamfræ í bleyti og blanda með möndlunum en þá fær mjólkin allt annað bragð. Sesamfræ eru beisk en mjöööög kalkrík. Ekki nota hratið af sesamfræjunum og munið að skola alltaf fræ vel eftir að þau hafa legið í bleyti.

Ég kaupi yfirleitt tilbúna möndlumjólk en auðvitað væri best að gera alltaf sína eigin. Kókosvatn er líka snilld sem grunnur í boost og eftir æfingar því það er svo ríkt af söltum og steinefnum.

 

 

 

 

1 2