Archive of ‘Glútenlaust’ category

Eplasnarl

IMG_5796Innihald: / 4 græn epli / 3-5 cm engiferrót / 30 blöð fersk mynta / 1/2 – 1 lime.

Aðferð: allt sett í safapressuna og best að pressa myntublöðin og engiferið milli eplanna.

Þetta er einn uppáhalds djúsinn minn. Svo ferskur og einfaldur með aðeins fjórum innihaldsefnum. Ég fékk þessa uppskrif senda frá Telmu Matt á fitubrennsla.is. Telma er algjör heilsusnillingur og er með frábæra facebook síðu.

Súkkulaði-hindberja þeytingur með grænni bombu

IMG_6461Innihald: / 1 mæliskeið prótein (ég nota Dr. Mercola Pure Power vanilla prótein)  / 4 tsk hreint kakó / 1 tsk grænt duft (Græna Bomban frá Jurtaapótekinu eða pHion Green Superfood Powder) / 1 tsk akai duft / 1 tsk chia fræ / 1 tsk hampfræ / 3 dl möndlu- eða hrísmjólk / 2 dl frosin hindber (getið líka sett 1 dl hindber og 1 dl frosið spínat eða annað grænt kál).

Aðferð: allt sett í blandarann!

Ég tók út ávexti í nokkrar vikur og þurfti að finna mér gott boost með engum banana. Ég sleppti því hindberjunum fyrst um sinn og setti frosið spínat í staðinn. Þá kemur auðvitað allt annað bragð en það bragðaðist bara ágætlega. Núna finnst mér eiginlega betra að hafa bæði eitthvað grænt kál og hindber, ekki bara hindberin. Og ég elska kakóbragð.

Þetta boost er mjög gott, stútfullt af vítamínum, steinefnum og er próteinríkt. Tilvalið eftir æfingu eða sem sem orkuskot síðdegis. Þegar ég kaupi spínat finnst mér best að kaupa það beint af Lambhaga. Svo er um að gera að breyta til og nota eitthvað annað grænt kál.

 

Kókossúpa

IMG_4218Innihald: / 1 msk ghee eða olía / 1 laukur / 3 gulrætur / 1/2 sæt kartafla / 1 sellerístilkur / 2 hvítlauksgeirar / 2 msk hollur grænmetiskraftur / 1/2 l vatn / 1 dós kókosmjólk / 1 tsk karrý / smá salt / ögn cayenne pipar.

  1. Setjið olíu í pott, saxið laukinn, skerið grænmetið niður og setjið út í.
  2. Bætið vatninu við þegar grænmetið er orðið gullið.
  3. Kryddið og látið sjóða í ca. 15 mín.
  4. Maukið með töfrasprota í pottinum.
  5. Síðan bætiði kókosmjólkinni út í og hitið smá.

Ég setti smá kasjúhnetur út í en þá er uppskriftin auðvitað ekki lengur hnetulaus. Mild og góð súpa. Algjört uppáhalds, love it!

Þú finnur kókosmjólk hjá asísku vörunum í flestum búðum og svo er til hollari útgáfa sem er yfirleitt í lífrænu deildinni.

Holla gulrótarkakan góða

IMG_6837-2Innihald: / 200 g möndlumjöl / 3 msk kókoshveiti / 3/4 tsk matarsódi / 1 tsk vínsteinslyftiduft / 2 tsk kanill / 1 tsk engifer / 1/2 tsk múskat / smá salt / 3 egg / 1/2 bolli (110 g) kókosolía (fljótandi) / 1/2 bolli (140 g) hlynsíróp / 4 tsk vanilla extract / 100 g rifnar gulrætur.

  1. Stillið ofninn á 175 gr.
  2. Smyrjið  23 cm form að innan og setið bökunarpappír í botninn.
  3. Blandið þurrefnunum saman og geymið í skál.
  4. Blandið saman eggjum, kókosolíu, hlynsírópi og vanillu í hrærivél.
  5. Hellið síðan þurrefnunum út í og bætið rifnu gulrótunum varlega út í.
  6. Bakið í ca. 20 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn úr ef þið stingið í miðju kökunnar.
  7. Látið kólna alveg áður en þið setjið kremið á.

Krem: / 150 g rjómaostur / 50 g ósaltað smjör (við stofuhita) / 70 g sukrin melis eða flórsykur / 1 tsk vanillusykur (helst heimagerður) eða 1/2 tsk vanillu extract / 1 tsk sítrónusafi.

  1. Setjið allt í hrærivél og hrærið vel saman. Ef ykkur finnst kremið of þykkt er hægt að bæta einni teskeið af mjólk út í.

Hönnu Birnu minni (9 ára) finnst súkkulaðibragð ekki gott svo hún biður mig stundum að gera gulrótarköku. Ég fór því að leita að eins hollri og góðri gulrótarköku og ég gat og ég held ég hafi fundið hana. Ef þið skoðið innihaldið þá sjáið þið að þessi dásemdar kaka er ekkert nema meinholl. Nema þið klárið sjálf alein alla kökuna :)IMG_6709Þessi uppskrift er frá http://www.texanerin.com

Thai-salat

IMG_6077Innihald: / 1 lambalund / 1 brokkolíhöfuð / 1 rauð paprika / 1 rauðlaukur / 1 gúrka / 3 tómatar / 3 gulrætur / belgbaunir.

Dressing: 1/2 msk fiskisósa / 2 msk ristuð sesamolía / 1 msk hlynsýróp eða akasíuhunang / 1 msk tamarisósa / 2 hvítlauksrif / 2-3 cm engifer / 1/2 rautt saxað chili / smá limesafi.

Hnetur: setjið kasjúhnetur í eldfast mót og kryddið með karríi, smá agave eða einhverju til að sæta og chili. Hitið í ofni í smá stund eða þar til þær verða pínu harðar.

  1. Kryddið lambalundina og eldið.
  2. Sjóðið vatn í katli og hellið yfir brokkolíið, látið standa í ca. 1 mínútu.
  3. Skerið niður grænmetið og setjið í fallega skál.
  4. Skerið lambalundina í þunnar sneiðar og blandið saman við grænmetið.
  5. Hellið dressingunni yfir.
  6. Stráið ristuðum sesamfræjum yfir og hnetunum.

Ég fékk þetta salat hjá Jönu vinkonu minni þegar ég heimsótti hana til Lúxemborgar. Jana er algjör snillingur í eldhúsinu og stútfull af alls konar fróðleik varðandi mat og heilsu almennt. Hún sér um eldhúsið á HaPP Luxembourg. Þannig að þetta salat klikkar alls ekki.

Verði ykkur að góðu :)

 

 

 

Berjabrauð

IMG_6347Innihald: / 2 dl maísmjöl / 1/2 dl hörfræ (mulin í kaffikvörn) / 1 msk psyllium husks / 3 tsk vínsteinslyftiduft / smá salt / 3 dl möndlu- eða hrísmjólk / 3-4 msk kókosolía / 1 dl frosin hindber.

  1. Hitið ofninn á 250gr.
  2. Blandið saman öllum þurrefunum.
  3. Blandið saman kókosolíunni og mjólkinni og hellið saman við þurrefnin.
  4. Látið deigið standa í ca. 5-10 mínútur.
  5. Bætið varlega nokkrum berjum við deigið en passið að liturinn smiti ekki með því að vera að hræra mikið í deiginu eftir að berin eru komin út í.
  6. Setjið í form og bakið í ca. 12-15 mínútur.

Þetta fallega brauð er ég búin að gera nokkrum sinnum. Mér finnst betra að setja það ekki í of djúpt form, þ.e.a.s. það er betra að brauðið sé í þynnra lagi. Ótrúlega gott nýbakað brauð með uppáhalds berjunum mínum.

IMG_6364Þessi uppskrift er frá http://www.hurbrasomhelst.se

Eggjahræra

IMG_6086Innihald: / smá ólífuolía, kókosolía eða ghee / 3-4 egg / 1 lúka spínat eða grænkál / 2 hvítlauksgeirar / 1-2 cm engifer / smá turmeric / smá salt / 1 msk hörfræ / 1 msk sesamfræ / smá hampfræ.

  1. Setjið olíuna á pönnu léttsteikið spínatið.
  2. Þið getið hrært eggin saman í skál, kryddað og sett svo allt á pönnuna en ég set eggin bara beint á pönnuna. Kreisti hvítlaukinn yfir og engiferrótina líka í hvítlaukspressu og krydda. Hræri svo öllu saman á pönnunni til að gera þetta eins einfalt og hægt er.
  3. Setjið 1 msk hörfræ og 1 msk sesamfræ í kaffikvörn og búið til mulning sem þið stráið yfir þegar eggjahræran er komin á diskinn. Þar með er þetta orðið omega/kalk bomba!
  4. Setið smá hampfræ yfir líka.

Þessa eggjahræru geri ég mér rosalega oft á morgnana eftir æfingu því egg eru það einfaldasta sem hægt er að elda og súperholl. Stundum þegar ég á turmeric rót nota ég hana í staðinn fyrir duft, kreisti bara úr hvítlaukspressu eða ríf í litlu rifjárni. Turmeric rót er erfitt að fá á Íslandi því miður og er oft auglýst sérstaklega fyrstur kemur fyrstur fær þegar hún er til. Þegar ég fer í vinnuna til Ameríku fer ég yfirleitt í dásamlegu Whole Foods og næli mér í turmeric rót.

Glútenlausar vöfflur

IMG_5973Innihald: / 1 bolli bókhveiti / 1 bolli rísmjöl / 1/2 bolli hirsiflögur / 1 1/2 tsk vínsteinslyftiduft / smá sjávarsalt / 1 1/2 msk sesamfræ / 1 1/2 msk hampfræ / 2 egg / 4-5 msk ólífuolía/kókosolía eða smjör / 2 bollar vatn, möndlu- eða hrísmjólk / smá erythritol eða stevia.

  1. Blandið þurrefnunum saman og hrærið út með hluta af vökvanum.
  2. Bætið eggjunum út í og hrærið vel.
  3. Blandið olíunni saman við og síðan restinni af vökvanum.
  4. Skellt í vöfflujárnið eða búið til lummur.

Namminamminamm…….. það er svo gott að fá sér nýbakaða vöfflu. Þessar komu svo sannarlega á óvart og ekki skemmir fyrir hvað þær eru hollar. Ég notaði 3 msk af ólífuolíu og 2 msk af kókosolíu í þessa uppskrift en það er örugglega bragðbest að nota smá smjör. Mér finnst allt verða gott með smjöri, úps!  Reyndar átti ég ekki nema 1/2 bolla af rísmjöli svo ég notaði 1/2 bolla af Tapica mjöli á móti en svo las ég einhvers staðar að Tapica er víst ekki gott fyrir skjaldkirtilinn. Alla vega, þá vitum við það :)

IMG_6007

 

Hrökkbrauð með laukbragði

IMG_5068Innihald: 1 dl maísmjöl / 1 dl bókhveiti (eða möndlumjöl) / 1 dl sesamfræ / 1/2 dl mulin hörfræ (í kaffikvörn) / 1/2 dl sólblómafræ / 1/2 dl hampfræ / 1/4 dl chiafræ  / 2 1/4 msk kókosolía / 2 1/2 dl soðið vatn / 1-2 tsk laukduft / birkifræ / smá salt í deigið og til að strá yfir

  1. Hrærið saman þurrefnunum (ég nota frekar mikið laukduft, gefur svo gott bragð).
  2. Sjóðið vatnið, setjið kókosolíuna út í og hrærið saman við deigið.
  3. Setjið bökunarpappír á plötu, síðan deigið og annan bökunarpappír ofaná og dreifið um plötuna með höndunum. Þannig klístrast ekki hendurnar og mun auðveldara að eiga við.
  4. Stráið smá birkifræjum og salti yfir og setjið aftur bökunarpappírinn yfir og þrýstið smá.
  5. Skerið í kex með pizzaskera.
  6. Bakið við 175gr í 25-35 mín.

Ég elska hrökkbrauð og gæti borðað það í öll mál. Þetta hrökkbrauð er svooooo gott og svakalega einfalt að gera. Áður en ég komst upp á lagið með að búa það til sjálf var ég áskrifandi á Finn Crisp, þessu þunna brúna. Núna geri ég mér mitt eigið hrökkbrauð sem er svo mikliu, miklu betra og hollara. Svo ótrúlega gott með t.d. hummus, rauðrófumauki eða bara smjöri og osti þess vegna. Ég hef einnig bætt við rifnum parmesan osti ofaná og sett svo inn í ofn og það var algjör snilld. Ég skora á þig að prófa, þú verður ekki fyrir vonbrigðum.

IMG_5896-4

Hugmyndin að þessu hrökkbrauði kemur frá yndislegu síðunni hennar Hönnu Göransson http://hurbrasomhelst.se

Heimsins besta quinoa súkkulaðikaka

IMG_6197Innihald: / 2 bollar (300 g) soðið quinoa (ca. 3/4 bollar ósoðið lagt í bleyti) / 1/3 bolli (1 dl) möndlumjólk (ósæt) / 4 egg / 1 tsk vanillu extract / 1/2 bolli (50 g) smjör  / 1/4 bolli (3/4 dl) kókosolía / 1 bolli (150 g) kókospálmasykur / 1 bolli (100 g) kakóduft / 1/2 tsk matarsódi / 2 tsk vínsteinslyftiduft / 1/2 tsk maldon salt

Krem: / 1 dós kókosmjólk / 200 g 70% eða 85% súkkulaði.

Hefur þú prófað að baka köku úr quinoa? Spennandi! Áður en þið byrjið er gott að vera búin að græja quinoa og kremið. Það þarf að láta quinoa liggja í bleyti yfir nótt, skola síðan vel, elda og kæla. Quinoa á að vera mjúkt og létt þegar það er tilbúið. En ef ekki þá verður kakan eins og frönsk súkkulaðikaka sem er líka allt í lagi. U.þ.b. 3/4 bollar af þurru quinoa gera 2 bolla af því soðnu. Til að búa til kremið þá er best að geyma kókosmjólkina inni í ísskáp yfir nótt svo að hún nái að skilja sig. Það er mjög gott að búa til kremið daginn áður en þó ekki nauðsynlegt.

  1. Stillið ofninn á 175 gr.
  2. Takið fram tvö kökuform, klippið börkunarpappír í tvo hringi og leggið í botnana.
  3. Bræðið smjörið, kælið það smá og setjið kókosolíukrukkuna undir heitt vatn til að fá hana fljótandi.
  4. Blandið saman eggjum, mjólk og vanillu extract í blandaranum í ca. 10 sek.
  5. Bætið síðan tilbúnu quinoa, smjörinu og kókosolíunni út í blandarann þar til allt verður mjúkt eða í ca. 1/2 – 1 mín.
  6. Setjið þurrefnin í skál og hrærið blöndunni úr blandaranum vel saman við.
  7. Skiptið deiginu í tvennt og bakið í 30 mínútur og kælið þegar tilbúið.
  8. Til að búa til kremið þá bræðið þið súkkulaðið á lágum hita í potti.
  9. Takið kókosmjólkina úr ísskápnum en passið að hrista ekki dósina. Við viljum nota þykka hlutann af kókosmjólkinni. Setið hann út í pottinn og bræðið saman við súkkulaðið. Ef blandan er enn mjög dökk þá bætið þið meira af kókosmjólkinni út í.
  10. Setjið síðan kremið í skál og látið kólna í smá stund á borði, lokið skálinni og kælið í ísskápnum í nokkrar klukkustundir eða þar til kremið hefur þykknað. Þess vegna gæti verið gott að gera kremið kvöldið áður.
  11. Þegar kremið er orðið þykkt þá er það þeytt með handþeytara á miklum hraða í 1/2 – 1 mínútu eða þar til það er orðið að flottu kökukremi.

Þessi kaka er frekar viðkvæm svo færið hana bara einu sinni. Ég mundi taka hana beint úr mótinu, setja hana á fallegan kökudisk og setja kremið á hana þar. Látið botninn snúa upp á kökunni og ekki gleyma að setja krem á milli botnanna! Geymið kökuna í ísskáp þar til á að bera hana fram því kremið bráðnar þegar það er heitt en við vitum að þannig veður er ekki vandamál hér á Íslandi svo kakan ætti að vera góð í nokkra tíma á borði.

Líka gaman að segja frá því að Edda mín 12 ára vill hafa þessa í afmælinu sínu. Ekki slæm meðmæli!

Verði ykkur að góðu :)

IMG_6262

Þessa köku fann ég á makingthymeforhealth.com

 

 

1 3 4 5 6 7 8