Archive of ‘Kjöt og fiskur’ category

Sesam tamari kjötbollur

IMG_2681_2Fyrir 4

Kjötbollur: / 450 g nautahakk / 2 vorlaukar / 1 stórt egg / 1/4 bolli brauðteningar / 3 msk kóríanderlauf / 1 msk tamarisósa / 2 tsk ristuð sesamolía / 1 tsk ferskt rifið engifer / smá himalayan salt / smá svartur mulinn pipar.

  1. Hitið ofninn í 200-220 gr.
  2. Saxið laukinn gróft niður, pískið eggið létt, saxið kóríanderlaufin smátt og rífið engiferið niður.
  3. Setjið nautahakkið í stóra skál ásamt lauknum, egginu, brauðteningunum (bara rista brauð og skera smátt), kóríanderlaufunum, tamarisósunni, sesamolíunni, engiferinu, saltinu og piparnum og blandið öllu vel saman.
  4. Notið hendurnar til að búa til kjötbollur.
  5. Setjið bollurnar á bökunarpappír í ofnskúffu eða í eldfast mót og inn í ofn í ca. 15-20 mínútur eða þar til þær eru gullnar og að fullu eldaðar. Eldunartíminn fer auðvitað eftir því hversu stórar þið viljið hafa bollurnar en þessi uppskrift miðast við ca. 12 bollur.
  6. Gott að bera fram með fetaosti, sultuðum rauðlauk, sultu og hvítlauksbrauði.

Rauðrófu- og elpasalat: / 1 rauðrófa / 2 lífræn epli / safi úr hálfri lime eða sítrónu / 1-2 cm rifið engifer / smá sesamfræ / ólífuolía / salt.

  1. Rífið rauðrófuna og eplin niður.
  2. Ágætt er að láta rauðrófurnar liggja aðeins í sítrónusafanum áður en öllu er blandað saman því þá mýkjast þær smá.
  3. Síðan er hægt að bæta hverju sem er útí eins og sellerí, kóríander, zukkini eða bara hverju sem er.

Ég er í ótrúlega skemmtilegum matarklúbbi sem samanstendur af 16 hressum stelpum. Við höldum klúbb tvær og tvær saman og hver klúbbur eldar mat frá ákveðnu landi. Þegar klúbburinn er búinn að fara einn hring drögum við hverjar elda saman og hvert teymi dregur land. Það er alltaf svaka spenna. Ég og Gunna sæta fengum Noreg… roooosa spennandi! En við dóum nú alls ekki ráðalausar og skelltum í kjötbollur. Það er alltaf svo skandinavískt eitthvað. Gunna er svona heilsugúrú eins og ég og fannst ekkert að því að færa kjötbollurnar í aðeins hollari búning. Hún bjó svo til ótrúlega hollt og gott salat með úr rauðrófum og eplum sem kom rosalega vel út með kjötbollunum. Frábær matarklúbbur og ísinn hennar Ebbu sló í gegn í desert.

Heimild: http://www.yummly.com

 

Ljomandi-bordi4

 

Appelsínu saffran kjúklingasalat

IMG_2541Réttur fyrir ca. 6 manns.

Appelsínu- og saffran paste: / 1 appelsína / 50 g hunang (ég notaði akasíu) / 1/2 tsk saffranþræðir / ca. 300 ml. vatn

Salat: / 1 kg kjúklingabringur / 4 msk ólífuolía / 2 lítil fennel / 15 g kóríanderlauf / 15 g basillauf rifin / 15 g myntulauf rifin / 2 msk sítrónusafi / 1 rautt chili / 1 hvítlauksgeiri / salt og pipar.

Svona gerið þið appelsínupaste-ið:

  1. Byrjið á að hita ofninn í 180 gr.
  2. Skerið toppinn og botninn af appelsínunni, skerið í 12 báta og takið kjarnann burt.
  3. Setjið bátana með hýðinu í pott ásamt saffranþráðunum, hunanginu og vatni þannig að rétt fljóti yfir appelsínurnar.
  4. Látið suðuna koma upp og sjóðið við vægan hita í klukkustund.
  5. Útkoman á að vera mjúkar appelsínur og ca. 3 msk af þykku sýrópi en það gerðist ekki hjá mér. Appelsínurnar urðu mjúkar en ég fékk ekki þykkt sýróp svo ég notaði ekki allan vökvann þegar ég setti appelsínurnar í matvinnsluvélina til að mauka þetta saman. En úr matvinnsluvélinni á að koma þykkt mauk en samt þannig að það renni.

Salatið:

  1. Skolið kjúklingabringurnar, þerrið, setjið í ílát og veltið þeim upp úr helmingnum af ólífuolíunni og nægu af himalayan salti og pipar.
  2. Setjið síðan á heita pönnu, helst grillpönnu og brúnið í 2 mínútur á hvorri hlið.
  3. Því næst í eldfast mót og inn í 180 gr. heitan ofninn og eldið í 15-20 mínútur eða þar til tilbúið.
  4. Útbúið salatið á meðan með því að skera fennelið í þunnar sneiðar, rífa basiliku og myntu niður, bæta við kóríander og skera eitt rautt chili í þunnar sneiðar og setjið á það fat sem þið viljið bera fram á.
  5. Ég setti svo sítrónusafann, restina af ólífuolíunni og kraminn hvítlauksgeirann í litla skál og hrærði saman, setti yfir salatið og blandaði vel.
  6. Þegar kjúklingurinn hefur kólnað lítillega rífið hann þá í strimla með höndunum og setjið í skál. Hellið helmingnum af appelsínu- og saffran maukinu yfir og veltið kjúklingnum upp úr því. Hinn helminginn getið þið geymt í kæli og notað í alls konar sem ykkur dettur í hug t.d. með feitum fisk.

Gott að bera fram með bökuðum rauðlauk í valhnetusalsa. Uppskrift kemur inn von bráðar.

Jana vinkona mín benti mér á að prófa þennan rétt en hann kemur frá Ottolenghi og er mjög vinsæll réttur á veitingastað þeirra. Trikkið við þennan rétt er appelsínan, það gerist eitthvað meiriháttar þegar hún er soðin heil í mauk  Óóótrúlega gott.

 

 

Ljomandi-bordi4

Lambalæri að hætti Viðars Garðars

IMG_2491

Úrbeinað lambalæri:

  1. Lambalærið er úrbeinað með því að skera mjaðmabeinið og hálfan legginn burt en smá hluti leggsins er skilinn eftir. Til eru leiðbeiningar á netinu sem er hægt að kíkja á hvernig á að úrbeina lambalæri. Beinin notar maður til að búa til soðsósu.
  2. Þegar búið er að úrbeina er skorið í vöðvann og kjötið flatt út þannig að kjötið verður allt svipað á þykkt.
  3. Kjötið er svo brúnað í smjöri eða ghee og kryddað á pönnunni með himalayan salti og pipar.
  4. Þá er það penslað bæði að utan og innan með góðri hvítlauksolíu og kryddað með kryddi eftir smekk. Gæti verið rósmarín, timian, einiber…
  5. Kjötið er svo vafið saman eða lagt saman, jafnvel bundið saman og sett í svartan ofnpott.
  6. Kjötið er sett í ofninn án þess að setja lokið á pottinn og brúnað við 180 gr í ca. 15-20 mínútur.
  7. Þá er hitinn lækkaður í 100 gr. og lokið sett á og látið malla í ofninum í rúma 2 tíma.
  8. Síðan er lokið tekið af, soðið í pottinum notað í sósugrunninn og kjötið látið aftur inn í ofninn við 180 gr. án þess að setja lokið á í ca. 15-20 mínútur.

Sósan:

  1. Leggirnir og mjaðmabeinið sem voru úrbeinuð úr lærinu eru brúnuð í smjöri/ghee í stórum potti.
  2. Út í það er svo sett laukur, gulrætur, púrrulaukur, sellerí, hvítlaukur og það grænmeti sem er að verða slappt í ísskápnum, nema kál.
  3. Síðan er 1 lítra af vatni bætt út í pottinn og hollum grænmetiskrafti eftir smekk og þetta soðið til að fá kraft í sósuna. Því lengur sem þetta er soðið því betra og jafnvel gott að gera daginn áður ef lærið er úrbeinað deginum áður en á að bera fram.
  4. Soðinu af kjötinu í svarta ofnpottinum er bætt út í sósupottinn.
  5. Soðið af beinunum er síðan sigtað og þykkt eftir smekk með maizena mjöli.
  6. Smá rjóma bætt út í í restina og smökkuð til með salti og pipar.

Borið fram með því meðlæti sem hugur girnist. Við tókum þetta hefðbundna, sykurbrúnaðar kartöflur (það eru nú einu sinni páskar), rauðkál, Ora grænar, grænt salat og að sjálfsögðu rabbarbarasultan hennar mömmu. Það besta við að elda í sveitinni er að allir taka þátt stórir og smáir eins og sjá má. Gleðilega páska.

IMG_2443IMG_2472IMG_2467IMG_2460

IMG_2474Le Chef

Viðar er blessunarlega í fjölskyldunni minni, maður systur minnar. Hann er kokkur af guðs náð og það er dásamlegt að fylgjast með honum í eldhúsinu. Hann er líka frábær kennari og hefur kennt mér allt sem ég veit um í sambandi við þessa vefsíðu mína og án hans væri hún ekki til. Fyrir það er ég honum óendanlega þakklát.

Ljomandi-bordi4

Makrílsalat með graslaukssósu

IMG_2277_2Salat: / 2 flök af reyktum makríl (má líka nota lax) / fullt af grænu salati  / 1 sæt kartafla / 1/2 rauðlaukur / 1/2 púrrulaukur / 1 rauð papríka / 1 avókadó / parmesanostur yfir.

Graslaukssósa: / 125 g sýrður rjómi / 2 msk himneskt lífrænt majónes (eða bara venjulegt) / 1 msk sítrónusafi / 2 msk fínsaxaður graslaukur / 1 msk fínsöxuð mynta / himalayan salt og pipar.

  1. Skerið sætu kartöfluna í bita, setjið olíu yfir og kryddið að ykkar hætti. Ég notaði salt, pressaðan hvítlauk, turmeric, timian og eitthvað fleira.
  2. Bakið í ofni þar til tilbúið (ca. 20-25 mín).
  3. Skerið grænmetið fallega niður og setjið í skál.
  4. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar er gott að láta þær kólna smá (mega samt alveg vera volgar) og setjið yfir salatið.
  5. Berið fram með graslaukssósunni og kannski góðu brauði.

Ég fór á Matarmarkað Búrsins í Hörpunni fyrir nokkru og keypti þar heitreyktan, handfæraveiddan makríl frá Hornafirði. Mér fannst hann líta svo vel út að ég ákvað að prófa en ég hef ekki oft borðað makríl. Ég ákvað að setja hann í salat og gerði þessa frábæru graslaukssósu með sem passar einmitt svo ótrúlega vel með reyktum fiski. Einhver sagði mér að það væri ger í parmesanosti svo ef þú vilt það ekki þá bara sleppurðu honum. Makríll inniheldur mikið magn af B-12 og ómega-3 fitusýrum.

Þetta salat er ekkert svo stórt, kannski fyrir ca. þrjá fullorðna. Mér finnst samt alltaf erfitt að áætla með magn matar, það er svo misjafnt hve mikið hver borðar og ef við erum með börn eða bara fullorðna í mat. Ég hef líka gert þetta salat og notað lax sem kom mjög vel út. Við keyptum of mikið af laxi og notuðum afganginn af honum í svona salat daginn eftir. Mjög gott.

 

IMG_2270_2

 

IMG_7668

 

 

Ljomandi-bordi4

Þorskhnakkar með sellerírótarmauki og fetasalati

10961790_10153157697720844_2056615964_nInnihald: / þorskhnakkar kryddaðir með sítrónupipar (hvert stykki ca. 150 gr).

Þessi uppskrift er fyrir ca. 4 og er reiknað með ca. 150-170 gr. af fiski á mann.

Sólþurrkað tómatpestó: / 1 bolli sólþurrkaðir tómatar / sítrónusafi og sítrónubörkur / 2 hvítlauksgeirar / lúka fersk basilíka / 1/2 rauður laukur / 1/2 bolli kaldpressuð ólífuolía / 1/2 bolli furuhnetur / smá himalayan salt / 1/3 bolli parmesan ostur.

  1. Setjið alllt í matvinnsluvélina eða blandara og mixið í smá stund en samt ekki þannig að það verði of þunnt, gott að hafa smá áferð.
  2. Setjið maukið ofan á þorskhnakkana og inn í ofn í 16-18 mínútur við 180 gr (fer eftir þykkt stykkjanna).

Sellerírótarmauk: / 1/2 sellerírótarhöfuð / 2-4 msk smjör / smá himalayan salt / pipar / kanil.

  1. Sellerírótin er skorin í smá bita og soðin í potti með smá salti þar til mjúk.
  2. Þegar tilbúið þá takið upp úr pottinum og látið vatnið renna af.
  3. Hrærið 2-4 msk af smjöri eða ólífuolíu út í og kryddið með salti, pipar og kanil.
  4. Setjið í matvinnsluvél og maukið.
  5. Setjið maukið á disk og þorskhnakkann þar ofan á.

Rauðrófu- og fetasalat: / 400 gr rauðrófur / 1-2 avókadó / lime / vorlaukur / fetaostur

  1. Hreinsið rauðrófurnar, takið utan af þeim og skerið í litla, fallega bita.
  2. Kreistið smá limesafa yfir avókadóið svo það verði síður brúnt.
  3. Skerið vorlaukinn fallega niður og setjið fetaostinn yfir.

Dressing yfir salatið: / 6 msk kaldpressuð ólífuolía / 3 msk limesafi / 2 msk hlynsíróp / smá himalayansalt og pipar.

  1. Setjið allt í skál, blandið vel saman og hellið yfir rauðrófusalatið.

 

11031202_10153168814065844_1080720240_o

 

Heil og sæl kæru vinir, ég heiti Kristjana en alltaf kölluð Jana. Ég bý í Lúxembourg ásamt eiginmanni mínum og stelpunum okkar þrem en hingað fluttum við fyrir rúmlega sjö árum. Ég starfa sem heilsukokkur á veitingastaðnum Happ sem opnaður var í mars árið 2011 en árinu áður byrjaði ég að vinna sem hráfæðiskokkur á heilsustað hér í Luxembourg. Ég hef rosalegan áhuga á mat, heilsu, næringarfræði, hreyfingu og öllu því sem því tengist. Fyrir tveimur árum útskrifaðis ég sem heilsumarkþjálfi frá IIN (Institute for Integrative Nutrition, New York) og hef síðan þá verið með kúnna í leiðsögn. Ég held reglulega matreiðslunámskeið bæði hráfæðis og matreiðslunámskeið þar sem aðal áherslan er á hollustu umfram allt. Ég vona að þér líki uppskriftin mín hér og ef þú átt leið til Luxembourgar þá endilega kíktu á Happ og ég tek vel á móti þér með gómsætum mat.

 

Ljomandi-bordi4

Eggja-Quiche með beikoni & grænum baunum

IMG_1717_2Innihald: / 1 tsk kókosolía eða ghee / 1 laukur / 1 vorlaukur / 2 pressaðir hvítlauksgeirar / 150 g beikon / 6 egg / 250 ml rjómi / 1 1/2 bolli frosnar grænar baunir (peas) látnar þiðna / 150-200 g mosarella eða cheddar ostur / smá himalayasalt / smá mulinn svartur pipar / nokkur fersk myntublöð / skreytt með avocado og ferskum myntublöðum.

  1. Hitið ofninn á 175 gr og setjið kókosolíu eða ghee á pönnu.
  2. Byrjið á að saxa laukinn og mýkið hann í olíunni í ca. 5 mínútur, bætið hvítlauknum út í í smá stund og takið laukinn til hliðar í stóra skál.
  3. Setjið beikonið á pönnuna og eldið í ca. 5 mínútur á hvorri hlið eða þar til brúnt og stökkt.
  4. Setjið svo beikonið á disk með eldhúsbréfi og látið renna aðeins af því. Skerið í bita þegar það hefur kólnað.
  5. Brjótið 6 egg í stóru skálina.
  6. Bætið rjómanum út í ásamt baununum, ostinum, beikoninu, myntunni og salti og pipar.
  7. Smyrjið eldfast mót að innan með kókosolíu eða smjöri og hellið blöndunni í.
  8. Bakið við 175 gr í u.þ.b. klukkustund eða þar til gullið.
  9. Skreytið með myntu og avocado og berið fram með fullt af salati.

Ég notaði 26 cm eldfast mót. Það tekur ekki langan tíma að undirbúa þennan rétt en hann þarf að vera í ofni í klukkustund.

IMG_1694_2-2

Þegar ég var au-pair í Frakklandi fyrir langa löngu kynntist ég fyrst Quiche Lorraine og váááá hvað ég elskaði það. Quiche Lorraine er með hveitibotni og svo er fylling sett ofan á botninn. Ég stenst engan veginn svona bökur, finnst þær sjúklega góðar og þegar ég rakst á þessa uppskrift á netinu varð ég bara að prófa. Þetta quiche eða þessi baka er ekki með hveitibotni, sem mér finnst reyndar alveg hrikalega gott að hafa, en hún er alveg ótrúlega bragðgóð og flottur hádegis- eða kvöldmatur. Alla vega kláraðist allt upp til agna hjá okkur og enginn afgangur var til að hafa með í vinnuna daginn eftir.

IMG_1708_2

 

Þessi hugmynd kemur frá http://zagleft.com

 

 

Ljomandi-bordi_3

Kjúklingaréttur með kasjúhnetum

IMG_1617_2Innihald: / 1 msk kókosolía / 2 rauðar paprikur / 200g heilar kasjúhnetur / 1 kg kjúklingabringur / 1 msk kókoshveiti (eða annað hveiti) / 1/2 tsk himalayan salt / 1 búnt vorlaukur.

Sósa: / 1/3 bolli tamarisósa eða sojasósa / 1/4 bolli eplaedik (eða hrísgrjónaedik) / 2 msk tómatpúrra / 2 msk kókospálmasykur / 1 msk akasíuhunang eða hrátt hunang (eða bara 3 msk af annarri hvorri sætunni) / 3 hvítlauksgeirar / 1 msk ferskt rifið engifer / smá svartur mulinn pipar.

  1. Byrjið á að skera paprikurnar og kjúklinginn í munnbita.
  2. Hitið olíuna á pönnu, skellið papríkunni yfir og látið malla í nokkrar mínútur eða þar til mjúkar. Takið svo af pönnunni.
  3. Setjið kjúklingabitana á pönnuna, setjið kókoshveitið eða það hveiti sem þið viljið nota yfir, saltið og hrærið af og til í þar til kjúklingurinn er að mestu eldaður í gegn.
  4. Á meðan kjúklingurinn er að eldast er hægt að gera sósuna sem fer yfir og hún fer á pönnuna þegar kjúklingurinn er að mestu tilbúinn.
  5. Bætið paprikunni út á pönnuna ásamt kasjúhnetunum.
  6. Lækkið hitann og látið malla í nokkrar mínútur.
  7. Setjið vorlaukinn yfir réttinn þegar hann er tilbúinn.

 Réttur fyrir ca. 4-6, tekur 10 mínútur að undirbúa og ca. 15 mín  að elda.

IMG_1646_2

Þessi ótrúlega einfalda og góða uppskrift dugar fyrir ca. 4-6, tekur 10 mínútur að undirbúa og ca. korter að elda. Í upprunalegu uppskriftinni er notað hrísgrjónaedik en ég skipti því út fyrir eplaedik. Þessi kjúklingaréttur hefur algjörlega slegið í gegn hérna á heimilinu og er orðinn okkar nýjasta uppáhald. Gott að bera fram með fullt af brakandi salati og flottu brauði.

Þessi kemur frá http://www.aspicyperspective.com

 

 

Ljomandi-bordi_3

Fiskisúpa

IMG_0025Innihald: / 1 kg langa og keila / 1 msk ghee eða kókosolía / 1 laukur / 2-3 sellerístilkar / 4 gulrætur / 1 rauð papríka / 1/2 ferskur jalapeno / 2-3 cm engifer / 3-4 hvítlauksrif / 3-4 lárviðarlauf / lúka ferskt kóríander / 2 msk grænmetiskraftur / smá salt / 2 tsk fennil / 1 líter vatn / 1 flaska (450gr) maukaðir tómatar / 2 dl hvítvín eða mysa / 1 dós kókosmjólk.

  1. Byrjið á að skola og skera allt grænmetið niður, passið að fræhreinsa jalapeno-ið (seinna mauka ég grænmetið með töfrasprota en ef þú vilt það ekki þá skerðu bara grænmetið smátt).
  2. Setjið olíu í meðalstóran pott, byrjið á að setja laukinn í pottinn og mýkið svo allt grænmetið upp í dágóða stund ásamt kryddinu. Ég setti kóríander út í grunninn, s.s. ekki bara sem skraut.
  3. Bætið síðan vatninu út í ásamt maukuðu tómötunum og hvítvíninu og hitið að suðu við meðalhita.
  4. Setjið kókosmjólkina út í.
  5. Maukið síðan grænmetið í pottinum með töfrasprota.
  6. Rétt áður en súpan er borin fram þá setjið þið fiskinn út í. Ég skar hann í litla bita og lét malla í heitri súpunni í örfáar mínútur.
  7. Gott að setja ferskan kóríander og rifinn parmesan yfir fyrir þá sem vilja.

Mig langaði allt í einu svo ótrúlega mikið í fiskisúpu. Ég skoðaði nokkrar uppskriftir á netinu og gerði þessa svo bara uppúr mér. Hún kom ljómandi vel út og krökkunum fannst hún æðisleg. Ég reyndar byrjaði á grunninum um miðjan dag og slökkti svo undir grænmetinu því ég þurfti að skreppa út. Þegar ég kom heim rétt undir kvöldmatarleytið hélt ég áfram og bætti þá vökvanum út í. Þannig fékk grænmetið góðan tíma í pottinum og kannski gerði það galdurinn. Mér finnst betra þegar ég geri súpur að mauka grænmetið með töfrasprota, þannig slepp ég við að þykkja súpuna með hveiti eða maizenamjöli.

Ég vissi ekki alveg hvaða fisk ég ætti að hafa í súpunni en fékk súpergóða þjónustu í Fiskbúðinni Sundlaugarvegi 12 og mig langar að þakka konunni sem afgreiddi mig. Hún á nokkuð í þessari uppskrift :)

Ég gerði speltbollur með úr bókinni hennar Sollu Grænn Kostur og kryddaði þær með fersku rósmarín og timjan. Það var bara geggjað með :)

Beikonvafðir þorskhnakkar með brokkolísalati

IMG_8200Innihald: / þorskhnakkar / beikon

  1. Reiknið með einum til tveim bitum af fiski á mann.
  2. Skerið niður í fallega bita og vefjið beikoninu utan um.
  3. Grillið í nokkrar mínútur á hvorri hlið, passa vel að ofelda ekki.

Kartöflur: / 1 sæt kartafla / 1 gulrófa / 1 sellerírót / 1 rauðlaukur / smá olía / smá salt

  1. Grænmetið er skorið niður í bita og sett í eldfast mót.
  2. Setjið olíu yfir, saltið og kryddið að vild og setjið inn í ofn á 180gr í 20-30 mín.

Brokkolísalat: / 150 g brokkolí / 2 dósir (200 g) sýrður rjómi / 1 rauðlaukur / 1 msk akasíu hunang / 2 msk rúsínur / salt og pipar.

  1. Brokkolíið mýkt í sjóðandi vatni í ca. 2 mín og kælt.
  2. Rauðlaukur fínt saxaður og svo er öllu blandað saman.
  3. Æðislega gott salat með fisk.

Ég fékk þennan rétt hjá mömmu eitt sinn er ég fór norður í heimsókn og hann var svo góður að ég varð að láta hann hér inn. Ég borða afar sjaldan beikon en þetta var alveg dásamlega gott og brokkolísalatið frábært. Ég væri líka til í að prófa að nota hráskinku utan um fiskinn en beikonið átti mjög vel með þorskhnökkunum. Verði ykkur að góðu.

IMG_8183-2

Fiskur í sinnepssósu

IMG_7280Innihald: / 2 ýsu- eða þorskflök (bein- og roðlaus) / 1 laukur / 2 gulrætur / 1 lítið brokkolí / 2 msk grænmetiskraftur / 2-3 cm engifer / 150-200 ml rjómi / 3 msk dijon sinnep / salt og pipar / kókosolía til steikingar.

  1. Mýkið grænmetið á pönnu í olíunni og kryddið með grænmetiskraftinum.
  2. Takið grænmetið af pönnunni og setjið fiskinn á pönnuna.
  3. Hellið rjómanum út á, bætið sinnepinu út í og engiferinu. Leyfið að malla í smá stund.
  4. Setjið grænmetið út á pönnuna. Tilbúið fyrir 5 manna fjölskyldu :)

Ég verð að deila þessum fiskrétti sem ég bjó til því hann tókst svona ljómandi vel. Meira að segja krökkunum fannst hann rosa góður… eða kannski voru þau bara svona svöng :) Ég hef alla vega gert hann nokkrum sinnum og þeim finnst hann alltaf jafn góður. Ég viðurkenni að ég kaupi mjög oft tilbúna fiskrétti en passa alltaf að spurja hvað sé í þeim og vel hollasta kostinn ef mér líst á hann.

 

 

 

1 2