Archive of ‘Kökur og sætt’ category

Hveitilausar súkkulaðimuffins

IMG_0158-2Innihald: / 1 bolli hnetusmjör / 2 mjög þroskaðir bananar / 1/4 bolli hlynsíróp / 1/3 bolli kakóduft.

  1. Hitið ofninn í 180 gr.
  2. Setjið öll innihaldsefnin í matvinnsluvélina, þú þarft kannski að stoppa og skafa meðfram hliðunum en deigið er mjög klístrað og á að vera svoleiðis.
  3. Þegar allt er vel blandað saman þá seturðu deigið í muffinsform með skeið. Mér finnst best að bleyta skeiðina af og til út af deiginu.
  4. Þú ræður hvort þú brytur smá súkkulaði yfir.
  5. Inn í ofn í 12-15 mínútur og bíddu með að taka þær úr muffinsformunum þar til þær eru orðnar alveg kaldar.

Ég fann þessa litlu uppskrift á mywholedoodlife.com. Bara fjögur innihaldsefni. Þú ert fljótari að skella í svona en að keyra út í bakarí og kaupa sykursnúð. Svo bara að toppa með rjóma…

 

Gulrótarköku paleokúlur & súkkulaði paleokúlur

IMG_0067GULRÓTARKÖKUKÚLUR

Innihald: / 3/4 bollar möndlur / 6 döðlur / 1/3 bolli kókosmjöl / 2 meðalstórar gulrætur / 1/2 msk kanill / 1/4 tsk negull / 2-4 msk kókosmjólk eða kókosolía.

  1. Setjið möndlur í matvinnsluvél og mixið þar til möndlurnar verða að fínu mjöli. Setjið til hliðar.
  2. Setjið döðlurnar og kókosmjölið í matvinnsluvélina og blandið saman þar til myndast hálfgert deig.
  3. Rífið gulræturnar niður með rifjárni.
  4. Setjið möndlurnar, gulræturnar og kryddið út í og blandið saman.
  5. Setjið að lokum kókosmjólkina út í og látið vélina vinna þar til að deigið hefur náð góðum þéttleika. Ef þú notar kókosolíu þá læturðu krukkuna standa smá stund í heitu vatnsbaði, þannig verður hún fljótandi á örskot stund. Ég notaði kókosmjólk.
  6. Mótið kúlur og geymið í kæli í ca. 2 tíma.

SÚKKULAÐIKÚLUR

Innihald: / 1/2 bolli möndlur / 1/2 bolli graskersfræ / 1/2 bolli heslihnetur / 6 döðlur / 1/4 bolli kókosmjöl / 2-3 msk kakóduft / 2-4 msk kókosmjólk eða kókosolía.

  1. Setjið hnetur og fræ í matvinnsluvélina og blandið þar til verður að fínu mjöli. Setjið til hliðar.
  2. Setjið döðlurnar og kókosmjölið í matvinnsluvélina og blandið saman þar til myndast hálfgert deig.
  3. Setjið mjölið út í og bætið kakóduftinu við. Hér má setja 1-2 msk af möluðu kaffi út í fyrir þá sem vilja það en ég sleppti því að þessu sinni.
  4. Að lokum setjiði kókosmjólkina út í.
  5. Mótið kúlur og geymið í kæli í 2 tíma.
  6. Það er örugglega mjög gott að súkkulaðihúða helminginn af þessum kúlum. Þ.e.a.s. að setja 85% súkkulaði á helming hverrar kúlu fyrir sig. Ég ætla að prófa það næst. Það er örugglega alveg geggjað að nota hvíta kókossúkkulaðið frá Rapunzel sem er uppáhalds súkkulaðið mitt og algjört spari. En eins og ég segi þá hef ég ekki prófað það, ennþá.

Mig vantaði eitthvað til að taka með í skemmtilegt boð fyrir Justin Timberlake tónleikana. Ég fann þessar bollur á heimasíðunni icookfree.com og ákvað að prófa. Heppnaðist voða vel og allir fóru saddir og sælir á frábæra tónleika í Kórnum :) Þetta eru samt meira svona kaffiboðs treat eða desert eftir máltíð heldur en partýsnakk mundi ég segja. Mig langaði alla vega í kaffibolla með og ég sem drekk varla kaffi.

 

Mömmukaka

IMG_4463Botn: / 100 g möndlur / 100 g kókosmjöl / 4 msk kakó / 250 g döðlur lagðar í bleyti í ca 15 mín í volgt vatn

Aðferð: setjið allt í matvinnsluvél + þrýstið með fingrum í fallegt mót.

Súkkulaði: / 1 dl kakó / 1 dl kókosolía (fljótandi) / 1/2 dl hlynsíróp (maple syrup) / val: 2-3 dropar piparmyntuolía út í súkkulaðið (Young Living) eða 3 dropar piparmyntu-stevia.

Aðferð: hrært saman + hellt yfir botninn + sett í frysti + tilbúið eftir ca. 1-2 tíma.

Ég hef alltaf notað 1/2 dl af agave sírópi í súkkulaðið en núna notaði ég hlynsíróp í staðinn. Hér getið þið lesið um muninn á hlynsírópi og agave. Svo bætti ég út í þremur dropum af piparmyntu-steviu. Kannski er alveg eins gott að nota bara piparmyntuolíuna og sleppa steviunni. Alveg nóg af sykri hinsegin. Ég prufa það næst. En þessi kaka kom mjög vel út og eiginlega miklu betur með hlynsírópinu.

Ég nota eldfast mót undir þessa köku sem er 18×25 (innri botn). Svo set ég bara filmu :/ yfir og inn í frysti.

Þetta er uppáhaldskakan á heimilinu og við eigum þessa köku mjög oft til í frystinum. Krakkarnir fundu nafnið á hana því ég var alltaf að stelast í frystinn endalaust og þau urðu forvitin hvað ég væri alltaf að ná mér í. Þeim finnst kakan svo góð að þau biðja mig reglulega um að búa hana til. Hún er samt full af sykri (döðlur, agave eða hlynsírópið, kókosmjöl) svo ég hef róast mjög mikið í því að stelast í frystinn :) Ef þið setjið piparmyntudropa út í skúkkulaðið eru þið komin með After Eight bragð!

Já kókosmjöl hagar sér pínu eins og sykur í líkamanum því miður, eins og það er nú dásamlega gott.

Súkkulaðibitakökur

IMG_8400Innihald: / 1 1/2 bolli bókhveiti / 1 tsk vínsteinslyftiduft / 1 tsk vanilluduft / 1/2 tsk maldon salt / 100 g kókosolía / 1/2 bolli hlynsíróp / 1 egg / 100 g dökkt súkkulaði 85%.

  1. Hitið ofninn á 160 gr og setjið bökunnarpappír á tvær bökunarplötur.
  2. Blandið saman hveiti, lyftidufti, vanilludufti og salti í skál.
  3. Blandið saman kókosolíunni og hlynsírópinu í aðra skál og þeytið eggið saman við.
  4. Blandið vökvanum saman við þurrefnin með trésleif og setjið brytjað súkkulaðið út í að lokum.
  5. Búið til litlar kökur með teskeið og bakið í ca. 20 mín eða þar til gullið.

Nammigott í útileguna :)

 

 

Holla gulrótarkakan góða

IMG_6837-2Innihald: / 200 g möndlumjöl / 3 msk kókoshveiti / 3/4 tsk matarsódi / 1 tsk vínsteinslyftiduft / 2 tsk kanill / 1 tsk engifer / 1/2 tsk múskat / smá salt / 3 egg / 1/2 bolli (110 g) kókosolía (fljótandi) / 1/2 bolli (140 g) hlynsíróp / 4 tsk vanilla extract / 100 g rifnar gulrætur.

  1. Stillið ofninn á 175 gr.
  2. Smyrjið  23 cm form að innan og setið bökunarpappír í botninn.
  3. Blandið þurrefnunum saman og geymið í skál.
  4. Blandið saman eggjum, kókosolíu, hlynsírópi og vanillu í hrærivél.
  5. Hellið síðan þurrefnunum út í og bætið rifnu gulrótunum varlega út í.
  6. Bakið í ca. 20 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn úr ef þið stingið í miðju kökunnar.
  7. Látið kólna alveg áður en þið setjið kremið á.

Krem: / 150 g rjómaostur / 50 g ósaltað smjör (við stofuhita) / 70 g sukrin melis eða flórsykur / 1 tsk vanillusykur (helst heimagerður) eða 1/2 tsk vanillu extract / 1 tsk sítrónusafi.

  1. Setjið allt í hrærivél og hrærið vel saman. Ef ykkur finnst kremið of þykkt er hægt að bæta einni teskeið af mjólk út í.

Hönnu Birnu minni (9 ára) finnst súkkulaðibragð ekki gott svo hún biður mig stundum að gera gulrótarköku. Ég fór því að leita að eins hollri og góðri gulrótarköku og ég gat og ég held ég hafi fundið hana. Ef þið skoðið innihaldið þá sjáið þið að þessi dásemdar kaka er ekkert nema meinholl. Nema þið klárið sjálf alein alla kökuna :)IMG_6709Þessi uppskrift er frá http://www.texanerin.com

DYI – heimagerður vanillusykur

IMG_6533Innihald: 1 1/2 bolli erythritol / 2 vanillustangir

  1. Setjið erythritol í glerkrukku.
  2. Skerið vanillustangirnar í tvennt, langsum.
  3. Skafið vanillubaunirnar innan úr með hnífi og setjið baunirnar saman við erythritol.
  4.  Skerið vanillustangirnar í nokkra bita og setjið í krukkuna.
  5. Hristið vel saman og látið standa í amk. eina viku.
  6. Takið vanillustangirnar upp úr krukkunni og setjið í matvinnsluvél/blandara ásamt helmingnum af erythritol. Mixið saman þar til baunirnar eru alveg saxaðar niður.
  7. Setjið þetta í fallega krukku ásamt restinni af erythritol og hristið. Tilbúið!

Af hverju að gera sinn eigin vanillusykur? Jú þessi vanillusykur er miklu, miklu kaloríuminni og kolvetnasnauðari en sá sem þú kaupir út í búð. 200 g af venjulegum vanillusykri innihalda 770 kaloríur á meðan þessi inniheldur 50 kaloríur. HALLÓ!!! Ég verð að viðurkenna að ég gleymdi minni krukku upp í hillu og þar sat hún í alla vega 3 vikur áður en ég fattaði að klára ferlið. En það kom ekki að sök og úr varð þetta fallega hráefni. Tilvalið í allan bakstur.

Súkkulaði espresso kaka

IMG_6511-3Botn: / 3/4 bolli (100 g) heslihnetur / 1/4 bolli (60 ml) kókosolía / 3 msk hlynsíróp / 1/4 tsk maldon salt / 1 1/2 bolli (150 g) haframjöl (má vera glútenlaust).

  1. Hitið ofninn í 180 gr. og smyrjið 23 cm form að innan með kókosolíu.
  2. Myljið 1/2 bolla af höfrum í blandara þar til þeir verða að grófu mjöli og setjið í skál.
  3. Malið síðan heslihneturnar þar til þær verða sandkenndar.
  4. Bætið út í blandarann kókosolíunni, hlynsírópinu, saltinu og hafrablöndunni þar til verður að deigi.
  5. Setjið svo restina af höfrunum út í en passið að blanda þeim ekki í mauk. Deigið á að festast saman milli fingra. Ef ekki prufið þá að setja meira hlynsíróp og blandið betur saman.
  6. Þrýstið deiginu í form með fingrunum og farið vel upp kantana. Því betur sem þú þrýstir, því betur helst botninn saman.
  7. Stingið með gaffli á nokkrum stöðum í botninn til að hleypa út gufu.
  8. Bakið í 10-13 mínútur eða þar til gullið. Látið svo kólna í ca. 15 mín.

Fylling: / 1 1/2 bolli (200 g) kasjúhnetur lagðar í bleyti í amk. 4 tíma / 3/4 bolli (175 ml) hlynsíróp / 1/2 bolli (125 ml) kókosolía / 1/3 bolli (30 g) kakóduft / 1/3 bolli (75 ml) dökkt bráðið súkkulaði (ca ein plata) / 2 tsk vanilla extract / 1/2 tsk maldon salt / 1/2 tsk espresso duft eða annað kaffiduft / smá súkkulaði til skrauts og kókosflögur eða kasjúkrem.

  1. Skolið kasjúhneturnar, setjið í blandarann ásamt restinni af uppskriftinni nema skrautinu og blandið þar til verður mjúkt. Getur alveg tekið smá stund, fer eftir blandaranum. Hægt að bæta við matskeið af möndlumjólk ef það þarf meiri vökva.
  2. Hellið fyllingunni í botninn og skreytið með rifnu súkkulaði eða kókosflögum.
  3. Setjið beint í frysti í nokkra tíma, þar eftir lokiði fatinu með filmu og frystið yfir nótt eða amk. í 4-6 tíma.

Leyfið kökunni að standa í 10 mínútur áður en hún er skorin. Kökuna á að bera fram frosna. Einnig er hægt að bera hana fram með kasjúkremi og rifnu súkkulaði. Ef það er afgangur þá geymist kakan í loftþéttum umbúðum í frysti í 1 – 1 1/2 viku.

Kasjúkrem: / 1/2 bolli kasjúhnetur lagðar í bleyti í amk. 4 tíma / 3 msk hlynsíróp / 4 msk vatn / smá sjávarsalt.

  1. Skolið kasjúhneturnar.
  2. Setjið allt í blandarann og blandið þar til silkimjúkt.
  3. Saltið og sætið að vild og geymið í kæli.

Þessi kaka er algjört lostæti og inniheldur bæði kaffi og súkkulaði sem gerir hana að spariköku. Þess vegna er tilvalið að eiga hana um páskana. Hún er upprunalega frá Oh She Glows en ég fann hana á http://www.mynewroots.org sem er æðislega falleg matarbloggsíða.

IMG_6478-2

Heimsins besta quinoa súkkulaðikaka

IMG_6197Innihald: / 2 bollar (300 g) soðið quinoa (ca. 3/4 bollar ósoðið lagt í bleyti) / 1/3 bolli (1 dl) möndlumjólk (ósæt) / 4 egg / 1 tsk vanillu extract / 1/2 bolli (50 g) smjör  / 1/4 bolli (3/4 dl) kókosolía / 1 bolli (150 g) kókospálmasykur / 1 bolli (100 g) kakóduft / 1/2 tsk matarsódi / 2 tsk vínsteinslyftiduft / 1/2 tsk maldon salt

Krem: / 1 dós kókosmjólk / 200 g 70% eða 85% súkkulaði.

Hefur þú prófað að baka köku úr quinoa? Spennandi! Áður en þið byrjið er gott að vera búin að græja quinoa og kremið. Það þarf að láta quinoa liggja í bleyti yfir nótt, skola síðan vel, elda og kæla. Quinoa á að vera mjúkt og létt þegar það er tilbúið. En ef ekki þá verður kakan eins og frönsk súkkulaðikaka sem er líka allt í lagi. U.þ.b. 3/4 bollar af þurru quinoa gera 2 bolla af því soðnu. Til að búa til kremið þá er best að geyma kókosmjólkina inni í ísskáp yfir nótt svo að hún nái að skilja sig. Það er mjög gott að búa til kremið daginn áður en þó ekki nauðsynlegt.

  1. Stillið ofninn á 175 gr.
  2. Takið fram tvö kökuform, klippið börkunarpappír í tvo hringi og leggið í botnana.
  3. Bræðið smjörið, kælið það smá og setjið kókosolíukrukkuna undir heitt vatn til að fá hana fljótandi.
  4. Blandið saman eggjum, mjólk og vanillu extract í blandaranum í ca. 10 sek.
  5. Bætið síðan tilbúnu quinoa, smjörinu og kókosolíunni út í blandarann þar til allt verður mjúkt eða í ca. 1/2 – 1 mín.
  6. Setjið þurrefnin í skál og hrærið blöndunni úr blandaranum vel saman við.
  7. Skiptið deiginu í tvennt og bakið í 30 mínútur og kælið þegar tilbúið.
  8. Til að búa til kremið þá bræðið þið súkkulaðið á lágum hita í potti.
  9. Takið kókosmjólkina úr ísskápnum en passið að hrista ekki dósina. Við viljum nota þykka hlutann af kókosmjólkinni. Setið hann út í pottinn og bræðið saman við súkkulaðið. Ef blandan er enn mjög dökk þá bætið þið meira af kókosmjólkinni út í.
  10. Setjið síðan kremið í skál og látið kólna í smá stund á borði, lokið skálinni og kælið í ísskápnum í nokkrar klukkustundir eða þar til kremið hefur þykknað. Þess vegna gæti verið gott að gera kremið kvöldið áður.
  11. Þegar kremið er orðið þykkt þá er það þeytt með handþeytara á miklum hraða í 1/2 – 1 mínútu eða þar til það er orðið að flottu kökukremi.

Þessi kaka er frekar viðkvæm svo færið hana bara einu sinni. Ég mundi taka hana beint úr mótinu, setja hana á fallegan kökudisk og setja kremið á hana þar. Látið botninn snúa upp á kökunni og ekki gleyma að setja krem á milli botnanna! Geymið kökuna í ísskáp þar til á að bera hana fram því kremið bráðnar þegar það er heitt en við vitum að þannig veður er ekki vandamál hér á Íslandi svo kakan ætti að vera góð í nokkra tíma á borði.

Líka gaman að segja frá því að Edda mín 12 ára vill hafa þessa í afmælinu sínu. Ekki slæm meðmæli!

Verði ykkur að góðu :)

IMG_6262

Þessa köku fann ég á makingthymeforhealth.com

 

 

Bláberjamuffins

IMG_6146-2Innihald: / 3 egg / 1 eggjarauða / 1 1/2 dl sukrin melis (eða flórsykur) / 4 msk kókosolía / 3/4 dl möndlumjólk / 3/4 dl kókoshveiti / 3 msk whole psyllium husk / smá salt / 1 1/2 tsk vínsteinslyftiduft / 2 tsk kanill / 1/2 tsk vanilluduft / 1 tsk kardimommuduft / 3 dl bláber / 1 msk kartöflumjöl eða tapica mjöl / 2 msk sukrin melis (eða flórsykur) / ca. 1/2 dl hakkaðar möndlur.

  1. Þeytið saman í hrærivél egg, eggjahvítu og sukrin melis þar til það verður létt og ljóst.
  2. Bræðið kókosolíuna (ég set krukkuna bara undir sjóðandi vatn), blandið henni saman við mjólkina ásamt vanilluduftinu, kardimommunni og saltinu og hellið öllu saman við eggin. Þeytið saman.
  3. Blandið saman kókoshveiti, vínsteinslyftidufti, huski og salti og setjið saman við deigið.
  4. Hrærið saman þar til þetta fer að líta út eins og deig og látið svo standa í 15-20 mín.  Deigið er samt klístrað og er ekki eins og venjulegt deig.
  5. Því næst hrærið þið saman kartöflumjölinu og sukrin melis og veltið bláberjunum upp úr. Þá blandið þið bláberjunum varlega saman við deigið.
  6. Setjið í muffinsform og stráið hökkuðum möndlum yfir.
  7. Þessi uppskrift er í ca. 8 muffinsform.
  8. Bakið við 175gr í 12-15 mínútur eða þar til liturinn er orðinn fallegur.

Hverjum finnst ekki bláber góð? HALLÓ! Bláber eru ofurfæða og eitt það allra hollasta sem fyrirfinnst. Ég notaði frosin bláber en það er örugglega alveg rosalega gott að nota fersk.

Glútenlaus bakstur er alls ekki eins og venjulegur bakstur og deigin eru oftast mjög blaut. Þannig eiga þau að vera og þess vegna á ekki að bæta við hveitimjöli til að ráða betur við deigið því þá verður útkoman algjör steypuklumpur.

Súkkulaði-hrákaka með “mousse” kremi

IMG_4491Botn: / 2 bollar valhnetur / 1 1/2 bolli hlynsíróp / 1 bolli vatn / 1 tsk lífrænir vanilludropar / 2 bollar hreint kakó / 3 bollar kókosmjöl / 1 tsk sjávarsalt

  1. Setjið kókosmjöl í matvinnsluvél/blandarann til að fá fínlega áferð og setjið til hliðar.
  2. Setjið valhnetur, agave, vatn og vanilludropa í blandara og maukið.
  3. Blandið svo kakói og salti saman við. Setjið í skál og blandið saman við kókosmjölið.
  4. Setjið í 24 cm smelluform klætt að innan með bökunarpappír og þjappið vel.

Mousse: / 2 bollar kasjúhnetur / 1 bolli gróft kókosmjöl / 1 1/4 tsk bolli vatn / 1 msk kakó / 2 1/2 tsk lífrænir vanilludropar / smá salt / 1 bolli hlynsíróp / 1 1/2 bolli kókosolía (fljótandi).

  1. Kasjúhnetur, kókosmjöl, og vatn sett í blandara og þeytt saman.
  2. Restinni blandað út í, síðast kókosolíunni og blandað vel.
  3. Þá er “mousse” kremið sett ofan á botninn og formið sett í frysti í amk. 2 tíma.

Ég bauð upp á þessa í afmæli og var beðin um uppskiftina sem er besti mælikvarðinn á hversu vel heppnast að mínu mati.

1 2 3