Archive of ‘Millimál’ category

Grísk jógúrtsæla með bláberjum

photo-7 copyInnihald: / 1 dós grísk jógúrt / 1 dós lífræn mangójógúrt / 1-2 tsk hunang / smá múslí / örlítið af söxuðu lakkríssúkkulaði / bláber eins mikið og þú vilt.

  1. Hrærið saman grísku jógúrtinni og mangójógúrtinni með skeið eða gaffli og setjið í botninn á nokkrum fallegum glösum eða skálum. Þessi uppskrift er fyrir ca. 5.
  2. Setjið smá hunang þar ofan á í hvert glas. Það er kannski alveg óþarfi að setja heila teskeið í hvert glas sérstaklega ef múslíið er sætt. Ég notaði akasíuhunang.
  3. Því næst veljið þið ykkar uppáhalds múslí (gott að hafa köggla) og setjið ofaná ásamt söxuðu lakkríssúkkulaðinu og bláberjunum.
  4. Geymið í kæli þar til borið fram.

Ég fékk þennan guðdómlega desert í matarboði hjá vinkonu minni og gat ekki hætt að hugsa um hann. Ég fékk því góðfúslegt leyfi hjá henni til að deila honum með ykkur. Frábær sem desert og örugglega ekki verri sem morgunmatur. En hann er kannski örlítið í sætari kantinum sem morgunmatur og þá mundi ég sleppa súkkulaðinu, nema það væru sjálf jólin :)

Og talandi um jólin að þá er örugglega alveg ótrúlega smart að nota jólalakkrísinn frá LAKRIDS by Johan Bulow en hann er gylltur. Ég ætla að prófa að saxa hann niður næst, sko þegar ég geri desert, ekki morgunmat :) :)

 

Edduhjarta

IMG_0412Innihald: / hnetusmjör / banani / 100 gr brætt súkkulaði 70% eða 85%

  1. Byrjið á að bræða eina plötu af flottu súkkulaði.
  2. Setjið dágott magn af hnetusmjöri í botninn á formunum.
  3. Setjið bananasneiðar þar ofan á.
  4. Að endingu setjiði brædda súkkulaðið ofan á og inn í frysti.

IMG_0356

Einn daginn þegar ég kom heim úr vinnunni var dóttir mín 12 ára búin að búa til þetta frábæra nammi handa sér. Hún smakkaði þetta hjá vinkonu sinni og fékk uppskriftina hjá henni. Hún var búin að tala lengi um að fá að búa þetta til og þar sem ég gaf mér ekki tíma til að hjálpa henni tók hún sig til og græjaði sjálf með hjálp litlu systur sinnar. Við gerðum þetta svo aftur saman og tókum nokkrar myndir því þetta var svo gott og fallegt að setja í hjartaform.

IMG_0371Myndirnar eru af Hönnu Birnu aðstoðarkonu, 9 ára krúttsprengjan mín.

Kúrbíts-eggjaklattar

IMG_3946Innihald: / 450 g kúrbítur / 30 g ferskur parmesan / 2 egg / 4 tsk bókhveitimjöl / 1 tsk whole psyllium husks / smá chili / salt og pipar

  1. Rífið kúrbítinn, setjið í síupoka (fæst í Ljósinu Langholtsvegi) og kreistið vatnið úr.
  2. Blandið saman við restina.
  3. Hitið pönnu með ghee, ólífuolíu eða kókosolíu, búið til klatta og steikið í 2-3 mínútur á hvorri hlið. Gott bara eintómt eða með góðu salati og rauðrófuhummus.

 

 

 

Hveitilausar súkkulaðimuffins

IMG_0158-2Innihald: / 1 bolli hnetusmjör / 2 mjög þroskaðir bananar / 1/4 bolli hlynsíróp / 1/3 bolli kakóduft.

  1. Hitið ofninn í 180 gr.
  2. Setjið öll innihaldsefnin í matvinnsluvélina, þú þarft kannski að stoppa og skafa meðfram hliðunum en deigið er mjög klístrað og á að vera svoleiðis.
  3. Þegar allt er vel blandað saman þá seturðu deigið í muffinsform með skeið. Mér finnst best að bleyta skeiðina af og til út af deiginu.
  4. Þú ræður hvort þú brytur smá súkkulaði yfir.
  5. Inn í ofn í 12-15 mínútur og bíddu með að taka þær úr muffinsformunum þar til þær eru orðnar alveg kaldar.

Ég fann þessa litlu uppskrift á mywholedoodlife.com. Bara fjögur innihaldsefni. Þú ert fljótari að skella í svona en að keyra út í bakarí og kaupa sykursnúð. Svo bara að toppa með rjóma…

 

Gulrótarköku paleokúlur & súkkulaði paleokúlur

IMG_0067GULRÓTARKÖKUKÚLUR

Innihald: / 3/4 bollar möndlur / 6 döðlur / 1/3 bolli kókosmjöl / 2 meðalstórar gulrætur / 1/2 msk kanill / 1/4 tsk negull / 2-4 msk kókosmjólk eða kókosolía.

  1. Setjið möndlur í matvinnsluvél og mixið þar til möndlurnar verða að fínu mjöli. Setjið til hliðar.
  2. Setjið döðlurnar og kókosmjölið í matvinnsluvélina og blandið saman þar til myndast hálfgert deig.
  3. Rífið gulræturnar niður með rifjárni.
  4. Setjið möndlurnar, gulræturnar og kryddið út í og blandið saman.
  5. Setjið að lokum kókosmjólkina út í og látið vélina vinna þar til að deigið hefur náð góðum þéttleika. Ef þú notar kókosolíu þá læturðu krukkuna standa smá stund í heitu vatnsbaði, þannig verður hún fljótandi á örskot stund. Ég notaði kókosmjólk.
  6. Mótið kúlur og geymið í kæli í ca. 2 tíma.

SÚKKULAÐIKÚLUR

Innihald: / 1/2 bolli möndlur / 1/2 bolli graskersfræ / 1/2 bolli heslihnetur / 6 döðlur / 1/4 bolli kókosmjöl / 2-3 msk kakóduft / 2-4 msk kókosmjólk eða kókosolía.

  1. Setjið hnetur og fræ í matvinnsluvélina og blandið þar til verður að fínu mjöli. Setjið til hliðar.
  2. Setjið döðlurnar og kókosmjölið í matvinnsluvélina og blandið saman þar til myndast hálfgert deig.
  3. Setjið mjölið út í og bætið kakóduftinu við. Hér má setja 1-2 msk af möluðu kaffi út í fyrir þá sem vilja það en ég sleppti því að þessu sinni.
  4. Að lokum setjiði kókosmjólkina út í.
  5. Mótið kúlur og geymið í kæli í 2 tíma.
  6. Það er örugglega mjög gott að súkkulaðihúða helminginn af þessum kúlum. Þ.e.a.s. að setja 85% súkkulaði á helming hverrar kúlu fyrir sig. Ég ætla að prófa það næst. Það er örugglega alveg geggjað að nota hvíta kókossúkkulaðið frá Rapunzel sem er uppáhalds súkkulaðið mitt og algjört spari. En eins og ég segi þá hef ég ekki prófað það, ennþá.

Mig vantaði eitthvað til að taka með í skemmtilegt boð fyrir Justin Timberlake tónleikana. Ég fann þessar bollur á heimasíðunni icookfree.com og ákvað að prófa. Heppnaðist voða vel og allir fóru saddir og sælir á frábæra tónleika í Kórnum :) Þetta eru samt meira svona kaffiboðs treat eða desert eftir máltíð heldur en partýsnakk mundi ég segja. Mig langaði alla vega í kaffibolla með og ég sem drekk varla kaffi.

 

Gerjaður hvítkálssafi

IMG_7982Ég sat eitt sinn námslotu í Heilsumeistaraskólanum í lifandi fæði og lærði ég að gera kornspírusafa (rejuvelac). Kornspírusafi er ein aðal uppistaðan í lifandi fæði, sem er ekki það sama og hráfæði, en hann inniheldur góðgerla sem eru afar mikilvægir fyrir meltinguna því þeir framleiða ensím sem hjálpa okkur að melta matinn. En hvort sem þú ert með einhver heilsuvandamál eins og t.d. meltingarvandræði eða stútfull af orku- og vítamínum þá er gott fyrir þig að drekka kornspírusafa af og til. Þegar við förum í hreinsun eða detox einblínum við á að losa okkur við slæmu bakteríurnar í meltingarveginum en eigum það til að gleyma að byggja flóru hans aftur upp og styrkja. Það er hægt að gera á margan hátt eins og m.a. að taka inn mjólkursýrugerla, borða gerjaðan mat eins og súrkál eða annað gerjað grænmeti, borða ósæta AB-mjólk og drekka kornspírusafa. Gæða kornspírusafi á að bragðast eins og skrítið sódavatn og alls ekki drekka hann ef hann er hrikalega vondur á bragðið og vond lykt því þá hefur eitthvað ekki heppnast í ferlinu. Það er hægt að búa til kornspírusafa úr t.d. hveitikorni og quinoa.

Að búa til hvítkálssafa finnst mér auðveldasta leiðin að búa til gerjaðan safa því ég mikla oft fyrir mér að spíra fræ þó það sé í raun og veru ekkert mál. Hann inniheldur þó fullt af góðgerlum og mér finnst hann bragðbetri. Þetta er samt ekkert það besta sem ég drekk :) en þá er um að gera að setja safann í fallegar flöskur. Ég tek tarnir í að drekka hann og þá helst eftir e.k. tiltekt í mataræðinu. Þú getur sett hann í boost en mér finnst best að drekka hann á morgnana og milli mála.

Hvítkálssafi: / 4 dl vatn / 7 dl ferskt grófskorið hvítkál.

  1. Setjið í blandarann og blandið þar til kekkjalaust.
  2. Setjið í glerkrukku og látið standa á borði í 3 sólarhringa við stofuhita. Ég loka krukkunni ekki alveg heldur leyfi smá lofti að komast inn og klæði krukkuna með viskastykki. Annars er hætta á að hann súrni.
  3. Eftir 3 daga ef safinn tilbúinn en þá síið þið hratið frá gegnum síupoka (fært í Ljósinu Langholtsvegi). Setjið á flösku og geymið í kæli.
  4. Hægt er að gera annan skammt og þá hellið þið 1/2 dl af nýja safanum í blandarann ásamt 3,5 dl vatn og 7 dl af söxuðu hvítkáli. Blandið saman og látið standa á borði í sólarhring.
  5. Eftir þann tíma gerið þið eins, síið safann gegnum pokann og geymið í kæli í vel lokaðri flösku.

Kornspírusafi úr spíruðu hveitikorni: / 1-2 dl heil hveitikorn.

  1. Byrjið á því að leggja 1-2 dl af heilum hveitikornum í bleyti í 6-12 tíma.
  2. Skolið og látið kornin spíra. Mér finnst best að setja kornin í glerkrukku, setja viskastykki yfir opið og láta krukkuna standa á hvolfi en samt þannig að loft komist inn um opið. Skolið 2-3x á dag.
  3. Þegar spírurnar eru orðnar 2-3x lengri en kornin eru þau tilbúin. Skolið vel og krukkuna líka.
  4. Setjið spírurnar aftur í krukkuna, setjið 3x meira vatn yfir, hyljið með grisju eða viskastykki og látið standa á borði í 2 sólarhringa.
  5. Eftir þann tíma þá síið þið safann frá gegnum síupoka (fært í Ljósinu Langholtsvegi). Setjið á flösku og inn í kæli.
  6. Hægt er að gera annan skammt en þá setjið þið 2x meira vatn yfir sömu spírur og látið standa í sólarhring. Síið aftur frá og hendið spírunum. Geymið í kæli í vel lokaðri flösku.

 

 

 

 

 

Piparmyntu-avókadó nammi

IMG_0193-2Botn: / 2 1/2 dl möndlur / 2 1/2 dl döðlur / 1 msk kakóduft.

Myntufylling: / 1 avókadó / 3 msk fljótandi kókosolía / 2-3 msk hlynsíróp / 1 banani / 1/2 tsk vanilla extraxt eða vanilludropar / 5-10 dropar piparmyntuolía (eða dropar) / smá salt.

Súkkulaði: / 3 msk kakóduft / 3 msk fljótandi kókosolía / 2 msk hlynsíróp.

  1. Setjið allt sem á að fara í botninn í matvinnsluvélina og búið til deig. Ef döðlurnar eru ekki mjúkar er gott að leggja þær í bleyti í volgt vatn í ca. 15 mín.
  2. Setjið bökunarpappír í form sem er 18x18cm innanmál (8×8-inch) og pressið deigið ofan í.
  3. Búið síðan til mjúku, grænu fyllinguna í matvinnsluvél og hellið í formið ofan á botninn. Ég læt kókosolíukrukkuna standa í heitu vatni til að fá hana fljótandi.
  4. Setjið inn í frysti í ca. 30 mínútur.
  5. Græjið súkkulaðið með því að hella öllu í skál og hræra vel saman. Hellið því svo yfir og setjið í frysti. Ef botninn og græna fyllingin eru mjög köld (alveg frosið) þegar þið hellið súkkulaðinu yfir þá harðnar það mjög fljótt. Þannig að þið þurfið að vera svolítið snögg að ná því yfir allt.
  6. Þegar þið berið þessa dásemd fram er gott en alls ekki nauðsynlegt að láta hana þiðna í ca. 10-20 mínútur áður. Mér finnst reyndar best að borða þetta ískalt :)

Ég sá þessa uppskrift í bók sem heitir Rawsome Vegan Baking og leist svo vel á að ég ákvað að prófa. Ég var ekki illa svikin og Edda mín 12 ára elskar hreinlega þetta nammi. Ég nota Young Living piparmyntuolíu og þá þarf ég ekki svona mikið heldur ca. 5 dropa því þeir eru sterkir. Það er hægt að nota hvaða piparmyntuolíu sem er, jafnvel piparmyntu extract. Prófið ykkur bara áfram. Ég bara elska Young Living vörurnar og finnst svo mikil snilld að nota þær í matargerð því ekki skemmir fyrir að þær hafa ákveðinn undrakraft :)

Hér getur þú lesið meira um ilmkjarnaolíur.

 

 

Geimfarafæði fyrir æfingu

IMG_8618Innihald: / 2 dl vatn / 1 dl eplasafi (trönuberjasafi) / 1 msk spirulina duft eða grænt duft / 1 msk omega 3-6-9 olía (ég set yfirleitt hörfræolíu) / 2 dl rauðrófusafi.

Þessa uppskrift er að finna í bókinni hennar Þorbjargar Hafsteinsdóttur 10 árum yngri á 10 vikum. Ég hef nokkrum sinnum hlaupið 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu og sumarið 2011 var ég mjög dugleg að hlaupa úti. Ég náði mínum besta tíma í ágúst 2011 og ég byrjaði hlaupadaginn á þessum drykk. Ég er alveg sannfærð um að hann hjálpaði mikið til. Rauðrófusafi er súper hollur, eykur úthald og lækkar blóðþrýsting. Stundum nenni ég að djúsa hann en kaupi oftast tilbúinn rauðrófu-heilsusafa í flöskum.

Ég nota yfirleitt trönuberjasafa frá Healthy People í staðinn fyrir eplasafa.

Hér getur þú lesið mjög góða grein um rauðrófusafa.

Rosa Mexicano Guacamole

IMG_8715Innihald: / 1 laukur / 1/2 – 1 ferskt jalapeno / 4 kúfullar msk kóríander / 3 avocado / 1-2 saxaðir tómatar / tortilla flögur.

Chile paste: uppskrift fyrir ca fjóra

  1. Takið ca. 3 msk af fínsöxuðum lauk, 2 kúfullar msk af fínsöxuðu kóríander, 2 msk eða meira af fínsöxuðu jalapeno og 1 tsk salt.
  2. Setjið allt í mortel og stappið eða kremjið þar til laukurinn er næstum horfinn og þar til allt er vel blandað saman. Ef þú átt ekki mortel gætir þú notað gaffal og víða skál.

IMG_8669

  1. Takið síðan þrjú miðlungsþroskuð avocado og skerið eftir endilangri miðju. Snúið helmingunum til að skilja þá að. Takið steininn úr með hníf og skerið svo fjórar renndur niður og fjórar þversum án þess að skera niður í skinnið. Þannig náið þið avocadoinu best upp úr skinninu (sést betur í myndbandinu hér að neðan).

IMG_8680

  1. Bætið út í 2 kúfullum msk af fínsöxuðu kóríander, 2 msk af fínsöxuðum lauk, smá salti og blandið varlega saman. Þið ráðið hversu þykka þið viljið hafa avocado bitana eftir því hversu mikið þið stappið þessu saman.
  2. Setjið 3-4 msk af söxuðum tómötum út í síðast. Ég reyndar set alltaf svolítið mikið meira af tómötum, mér finnst það svo miklu betra.
  3. Ef ykkur finnst mikið eftir af hráefni þá bara bætið þið meiru út í grunninn eins og af lauknum eða kóríander. Þetta er ekkert heilagt heldur notið bara sem viðmið. Kannski einna helst að passa upp á jalapeno-ið því það er svo sterkt.

IMG_8695

Stundum þegar ég fer til New York stelst ég á veitingastað sem heitir Rosa Mexicano við Union Square og fæ mér besta guacamole í heimi. Það eru þrír Rosa Mexicano veitingastaðir í New York og þeir eru víðar um Bandaríkin. Það sem gerir þetta guacamole svo ómótstæðilegt er að það er handgert í mortel og búið til við borðið þitt. Rosa Mexicano opnaði fyrst árið 1984 og þeir eru þekktir fyrir guacamole gerð sína. Ef þú átt leið til New York eða aðra staði í Bandaríkjunum þar sem Rosa Mexicano er þá verður þú að prófa guacamole-ið þeirra.

Hér getur þú horft á stutt og flott myndband hvernig þeir á Rosa Mexicano gera þetta og heldur betur af lífi og sál.

Ég keypti mortelið mitt í DUKA fyrir löngu, löngu síðan en mig langar að segja þér frá dásamlegri eldhúsbúð sem heitir SUR-LA-TABLE sem er að finna í Bandaríkjunum. Ég hreinlega elska þessa búð og fer yfirleitt í hana þegar ég fer til Seattle en hún er niðri við Pike Place markaðinn. Hún er líka í Soho NY og á mörgum öðrum stöðum. Rauðu sleifarnar á uppskriftarmyndunum hér að ofan eru úr þeirri búð og þær eru meiriháttar.

IMG_8526

Verði ykkur að góðu :)

 

Súkkulaðibitakökur

IMG_8400Innihald: / 1 1/2 bolli bókhveiti / 1 tsk vínsteinslyftiduft / 1 tsk vanilluduft / 1/2 tsk maldon salt / 100 g kókosolía / 1/2 bolli hlynsíróp / 1 egg / 100 g dökkt súkkulaði 85%.

  1. Hitið ofninn á 160 gr og setjið bökunnarpappír á tvær bökunarplötur.
  2. Blandið saman hveiti, lyftidufti, vanilludufti og salti í skál.
  3. Blandið saman kókosolíunni og hlynsírópinu í aðra skál og þeytið eggið saman við.
  4. Blandið vökvanum saman við þurrefnin með trésleif og setjið brytjað súkkulaðið út í að lokum.
  5. Búið til litlar kökur með teskeið og bakið í ca. 20 mín eða þar til gullið.

Nammigott í útileguna :)

 

 

1 2 3 4 5