Archive of ‘Millimál’ category

Hráfæðipasta Jönu

IMG_7555-2Innihald: / 1 kúrbítur / 1 sæt kartafla / 1 rauðrófa

  1. Skerið grænmetið í pastastrimla með julienne peeler eða mandólín rifjárni og mýkið milli fingra með ólífuolíu. Ég set pínu salt líka.

Avocado basil pestó: / 2 avocado / 2 hvítlauksrif / handfylli af ferskri basilíku / hálf lúka af steinselju / 1/4 tsk þurrkar chili / 1/2 lime / smá ólífuolía / salt og pipar

  1. Allt sett í blandarann.
  2. Notið safann og börkinn úr lime-inu.

Kasjú”osta”sósa: / 1 bolli kasjúhnetur / 2 msk næringager / 1 tsk laukduft / lúka af graslauk / smá sítrónusafi / smá vatn til að þynna / salt og pipar

  1. Setjið kasjúhnetur í bleyti í ca. 2 klst.
  2. Setjið þær ásamt öllu hinu í blandarann og blandið þar til verður að sósu.

Mangótwist: / 1-2 mangó / bláber / mynta söxuð yfir. Svooooo gott!!!

Ég fékk þessa dásemdar uppskrift hjá elsku vinkonu minni henni Jönu. Hún heldur úti frábærri facebook síðu, Healthy Jana sem er full af allskonar fróðleik. Kíkið á hana.

Grísk jógúrt með chiafræjum

IMG_8015Innihald: / 350 g grísk jógúrt / 4 msk tröllahafrar / 3 msk chiafræ / 1/2 dl kalt vatn / 1-2 msk jarðarberjasulta.

  1. Hrærið öllu saman og geymið í ísskáp í amk. 3 klst eða helst yfir nótt.
  2. Ég hræri sultunni saman við rétt áður en ég fæ mér þennan dásamlega góða morgunmat en auðvitað er alveg hægt að setja sultuna út í um leið og allt hitt.
  3. Ég nota frönsku sultuna í löngu glösunum því í henni er enginn viðbættur sykur.

Þetta er held ég uppáhalds morgunmaturinn minn sem inniheldur mjólkurvöru. Hann er alveg ótrúlega einfaldur og svakalega góður. Þessi uppskrift dugar fyrir ca. tvo og krökkunum mínum finnst mjög gott að skera banana út í. Þetta er líkja frábært nesti og ég tek þetta oft með mér í flug á morgnana því þetta er svo einfalt að búa til og svakalega gott. Ég fékk þessa uppskrift senda frá Telmu á Fitubrennslu. Hún hefur oft búið til prógram fyrir mig, bæði matarprógram og æfingaprógram og er algjör snillingur í því sem hún er að gera.

 

Grunnur að morgungraut

IMG_5673-2Innihald: / 1-2 dl tröllahafrar (e.t.v. glútenlausir) / 1/2 dl chiafræ / möndlumjólk (helst heimagerð) / kanill / vanilluduft / salt.

  1. Setjið allt saman í skál og látið liggja í bleyti helst yfir nótt. Mjólkin á rétt að fljóta yfir.

Ég geri mér stundum svona morgunmat. Hægt er að leika sér fram og tilbaka með því að bæta við ávöxtum og alls kyns fræjum en þetta er amk. grunnurinn. Hann er ekki tilbúinn hér á myndinni heldur tilbúinn í ísskápinn fyrir nóttina.

Hvítlaukshummus

IMG_4375Innihald: / 1 dós kjúklingabaunir / 2 msk sesamsmjör eða tahini / 1-2 pressuð hvítlaukrif / 1 tsk ferskur sítrónusafi / 1 tsk rifið engifer / 1 tsk cumin / 3 msk ólífuolía / smá cayenne pipar / salt og pipar / vatn ef þarf.

Aðferð: skolið kjúklingabaunirnar undir köldu vatni, blandið öllu saman í blandara eða matvinnsluvél.

Hummus geymist 4-5 daga í loftþéttum umbúðum í kæli. Algjör snilld með t.d. hrökkbrauði.

Súkkulaði-hindberja þeytingur með grænni bombu

IMG_6461Innihald: / 1 mæliskeið prótein (ég nota Dr. Mercola Pure Power vanilla prótein)  / 4 tsk hreint kakó / 1 tsk grænt duft (Græna Bomban frá Jurtaapótekinu eða pHion Green Superfood Powder) / 1 tsk akai duft / 1 tsk chia fræ / 1 tsk hampfræ / 3 dl möndlu- eða hrísmjólk / 2 dl frosin hindber (getið líka sett 1 dl hindber og 1 dl frosið spínat eða annað grænt kál).

Aðferð: allt sett í blandarann!

Ég tók út ávexti í nokkrar vikur og þurfti að finna mér gott boost með engum banana. Ég sleppti því hindberjunum fyrst um sinn og setti frosið spínat í staðinn. Þá kemur auðvitað allt annað bragð en það bragðaðist bara ágætlega. Núna finnst mér eiginlega betra að hafa bæði eitthvað grænt kál og hindber, ekki bara hindberin. Og ég elska kakóbragð.

Þetta boost er mjög gott, stútfullt af vítamínum, steinefnum og er próteinríkt. Tilvalið eftir æfingu eða sem sem orkuskot síðdegis. Þegar ég kaupi spínat finnst mér best að kaupa það beint af Lambhaga. Svo er um að gera að breyta til og nota eitthvað annað grænt kál.

 

Græn og guðdómleg sósa

IMG_5945Innihald: / 4 lúkur spínat eða annað grænt kál / 1 dl grænar ólífur / 1 lúka fersk basil (líka hægt að nota þurrkaða) / 1 dl kasjúhnetur / 3 dl ólífuolía / smá salt / smá svartur pipar.

Aðferð: setjið allt í blandarann og maukið. Gæti verið gott að setja ólífuolíuna út í í mjórri bunu. Smakkið til.

Þessa afar einföldu sósu sá ég í Happ Happ Húrra bókinni. Þar heitir hún einfaldlega græn sósa og er pizzasósa. Ég veit ekki hversu oft ég hef gert þessa sósu og ég nota hana yfirleitt sem álegg eða meðlæti því hún er svo þykk og bragðgóð. Hún er góð með brauði, hrökkbrauði, með fersku grænmeti eins og gulrótum og gúrku. Hún er einfaldlega frábær til að eiga í ísskápnum og reddar manni oft þegar sykurpúkinn mætir seinnipartinn og vill fá sitt. Það tekur enga stund að búa hana til, ekkert að leggja í bleyti eða neitt þannig. Sósan geymist ekki mjög lengi svo mér finnst betra að búa til minna en meira og þá geri ég hana bara oftar.

IMG_5925

Berjabrauð

IMG_6347Innihald: / 2 dl maísmjöl / 1/2 dl hörfræ (mulin í kaffikvörn) / 1 msk psyllium husks / 3 tsk vínsteinslyftiduft / smá salt / 3 dl möndlu- eða hrísmjólk / 3-4 msk kókosolía / 1 dl frosin hindber.

  1. Hitið ofninn á 250gr.
  2. Blandið saman öllum þurrefunum.
  3. Blandið saman kókosolíunni og mjólkinni og hellið saman við þurrefnin.
  4. Látið deigið standa í ca. 5-10 mínútur.
  5. Bætið varlega nokkrum berjum við deigið en passið að liturinn smiti ekki með því að vera að hræra mikið í deiginu eftir að berin eru komin út í.
  6. Setjið í form og bakið í ca. 12-15 mínútur.

Þetta fallega brauð er ég búin að gera nokkrum sinnum. Mér finnst betra að setja það ekki í of djúpt form, þ.e.a.s. það er betra að brauðið sé í þynnra lagi. Ótrúlega gott nýbakað brauð með uppáhalds berjunum mínum.

IMG_6364Þessi uppskrift er frá http://www.hurbrasomhelst.se

Hrökkbrauð með laukbragði

IMG_5068Innihald: 1 dl maísmjöl / 1 dl bókhveiti (eða möndlumjöl) / 1 dl sesamfræ / 1/2 dl mulin hörfræ (í kaffikvörn) / 1/2 dl sólblómafræ / 1/2 dl hampfræ / 1/4 dl chiafræ  / 2 1/4 msk kókosolía / 2 1/2 dl soðið vatn / 1-2 tsk laukduft / birkifræ / smá salt í deigið og til að strá yfir

  1. Hrærið saman þurrefnunum (ég nota frekar mikið laukduft, gefur svo gott bragð).
  2. Sjóðið vatnið, setjið kókosolíuna út í og hrærið saman við deigið.
  3. Setjið bökunarpappír á plötu, síðan deigið og annan bökunarpappír ofaná og dreifið um plötuna með höndunum. Þannig klístrast ekki hendurnar og mun auðveldara að eiga við.
  4. Stráið smá birkifræjum og salti yfir og setjið aftur bökunarpappírinn yfir og þrýstið smá.
  5. Skerið í kex með pizzaskera.
  6. Bakið við 175gr í 25-35 mín.

Ég elska hrökkbrauð og gæti borðað það í öll mál. Þetta hrökkbrauð er svooooo gott og svakalega einfalt að gera. Áður en ég komst upp á lagið með að búa það til sjálf var ég áskrifandi á Finn Crisp, þessu þunna brúna. Núna geri ég mér mitt eigið hrökkbrauð sem er svo mikliu, miklu betra og hollara. Svo ótrúlega gott með t.d. hummus, rauðrófumauki eða bara smjöri og osti þess vegna. Ég hef einnig bætt við rifnum parmesan osti ofaná og sett svo inn í ofn og það var algjör snilld. Ég skora á þig að prófa, þú verður ekki fyrir vonbrigðum.

IMG_5896-4

Hugmyndin að þessu hrökkbrauði kemur frá yndislegu síðunni hennar Hönnu Göransson http://hurbrasomhelst.se

RMVJ

IMG_4402Innihald: / 2 gulrætur / 2 stk sellerí / 2 græn epli / 1/3 rauðrófa / 1/3 gúrka eða eitthvað grænt eins og spínat / 1/2 sítróna / 1 hvítlauksgeiri / smá engiferbiti

Aðferð: þessi safi er pressaður í safapressu en ef þið eigið ekki svoleiðis þá notiði bara blandarann og síið djúsinn frá hratinu gegnum síupoka (fæst í Ljósinu Langholtsvegi).

RMVJ stendur fyrir Raw Mixed Vegetable Juice og er talinn einn sá næringarríkasti sem þið getið skellt í ykkur. Sumum finnst kannski skrítið að djúsa hvítlauk en hvítlaukur er t.d. ótrúlega sveppa- og bakteríudrepandi. Þessi safi er notaður í The Great Liquid Diet eða GLD sem Dr. Leonard Mehlmauer þróaði í sinni lækningafræði (1). Try it!

 

Bleikur próteinsjeik

IMG_5581Innihald: / 3 dl möndlumjólk1 mæliskeið vanilluprótein / 1/2 avocado eða banani / 1 dl frosin hindber og bláber / 1 msk hörfræ (möluð) / 1 msk sesamfræ (möluð) / smá sítrónusafi / smá kanill / bee pollen ofaná.

Aðferð: Ég mala hörfræin og sesamfræin í kaffikvörn eða bara í blandaranum á undan og skelli svo öllu hinu útí.

Frábær sjeik eftir æfingu. Þið getið notað hvaða fræ sem er eins og t.d. hampfræ eða chiafræ.

1 2 3 4 5