Archive of ‘Morgunmatur’ category

Eggjahræra

IMG_6086Innihald: / smá ólífuolía, kókosolía eða ghee / 3-4 egg / 1 lúka spínat eða grænkál / 2 hvítlauksgeirar / 1-2 cm engifer / smá turmeric / smá salt / 1 msk hörfræ / 1 msk sesamfræ / smá hampfræ.

  1. Setjið olíuna á pönnu léttsteikið spínatið.
  2. Þið getið hrært eggin saman í skál, kryddað og sett svo allt á pönnuna en ég set eggin bara beint á pönnuna. Kreisti hvítlaukinn yfir og engiferrótina líka í hvítlaukspressu og krydda. Hræri svo öllu saman á pönnunni til að gera þetta eins einfalt og hægt er.
  3. Setjið 1 msk hörfræ og 1 msk sesamfræ í kaffikvörn og búið til mulning sem þið stráið yfir þegar eggjahræran er komin á diskinn. Þar með er þetta orðið omega/kalk bomba!
  4. Setið smá hampfræ yfir líka.

Þessa eggjahræru geri ég mér rosalega oft á morgnana eftir æfingu því egg eru það einfaldasta sem hægt er að elda og súperholl. Stundum þegar ég á turmeric rót nota ég hana í staðinn fyrir duft, kreisti bara úr hvítlaukspressu eða ríf í litlu rifjárni. Turmeric rót er erfitt að fá á Íslandi því miður og er oft auglýst sérstaklega fyrstur kemur fyrstur fær þegar hún er til. Þegar ég fer í vinnuna til Ameríku fer ég yfirleitt í dásamlegu Whole Foods og næli mér í turmeric rót.

Hrökkbrauð með laukbragði

IMG_5068Innihald: 1 dl maísmjöl / 1 dl bókhveiti (eða möndlumjöl) / 1 dl sesamfræ / 1/2 dl mulin hörfræ (í kaffikvörn) / 1/2 dl sólblómafræ / 1/2 dl hampfræ / 1/4 dl chiafræ  / 2 1/4 msk kókosolía / 2 1/2 dl soðið vatn / 1-2 tsk laukduft / birkifræ / smá salt í deigið og til að strá yfir

  1. Hrærið saman þurrefnunum (ég nota frekar mikið laukduft, gefur svo gott bragð).
  2. Sjóðið vatnið, setjið kókosolíuna út í og hrærið saman við deigið.
  3. Setjið bökunarpappír á plötu, síðan deigið og annan bökunarpappír ofaná og dreifið um plötuna með höndunum. Þannig klístrast ekki hendurnar og mun auðveldara að eiga við.
  4. Stráið smá birkifræjum og salti yfir og setjið aftur bökunarpappírinn yfir og þrýstið smá.
  5. Skerið í kex með pizzaskera.
  6. Bakið við 175gr í 25-35 mín.

Ég elska hrökkbrauð og gæti borðað það í öll mál. Þetta hrökkbrauð er svooooo gott og svakalega einfalt að gera. Áður en ég komst upp á lagið með að búa það til sjálf var ég áskrifandi á Finn Crisp, þessu þunna brúna. Núna geri ég mér mitt eigið hrökkbrauð sem er svo mikliu, miklu betra og hollara. Svo ótrúlega gott með t.d. hummus, rauðrófumauki eða bara smjöri og osti þess vegna. Ég hef einnig bætt við rifnum parmesan osti ofaná og sett svo inn í ofn og það var algjör snilld. Ég skora á þig að prófa, þú verður ekki fyrir vonbrigðum.

IMG_5896-4

Hugmyndin að þessu hrökkbrauði kemur frá yndislegu síðunni hennar Hönnu Göransson http://hurbrasomhelst.se

Bleikur próteinsjeik

IMG_5581Innihald: / 3 dl möndlumjólk1 mæliskeið vanilluprótein / 1/2 avocado eða banani / 1 dl frosin hindber og bláber / 1 msk hörfræ (möluð) / 1 msk sesamfræ (möluð) / smá sítrónusafi / smá kanill / bee pollen ofaná.

Aðferð: Ég mala hörfræin og sesamfræin í kaffikvörn eða bara í blandaranum á undan og skelli svo öllu hinu útí.

Frábær sjeik eftir æfingu. Þið getið notað hvaða fræ sem er eins og t.d. hampfræ eða chiafræ.

Hrökkbrauð með paprikubragði

IMG_5172Innihald: / 1 dl möndlumjöl / 1 dl rísmjöl / 2 1/2 dl fimmkornablanda frá LÍF eða önnur fræ / 2 msk kókosolía / 2 1/2 dl soðið vatn / 1 msk paprikuduft / smá salt

  1. Blandið þurrefnunum saman.
  2. Sjóðið vatn, setjið kókosolíuna út í og blandið saman við deigið.
  3. Setjið bökunarpappír á plötu, deigið þar ofaná og breiðið úr deiginu með því að setja annan bökunarpappír ofaná deigið og fletið þannig út með höndunum.
  4. Hægt að strá salti eða einhverjum fræjum yfir og ef ég geri það þá finnst mér gott að setja aftur bökunarpappírinn yfir og þrýsta smá.
  5. Skerið í deigið með pizzaskera.
  6. Bakið í 30-40 mín á 175gr.

Chiagrautur með ávöxtum

IMG_4964Innihald: / 1/2 dl chiafræ / 1/4 dl sólblómafræ / 1/4 dl sesamfræ / 1/4 dl graskersfræ / 1/4 dl hampfræ / 1 tsk kanill / smá salt / 3 1/2 dl vatn / ávextir að eigin vali.

  1. Setjið allt í skál, hrærið saman og látið standa inni í ísskáp yfir nótt.
  2. Setið svo ávextina út á morguninn eftir og fáið ykkur morgunmat.

Það segir sig sjálft að ef þú ferð beint úr Kelloggs pakkanum yfir í þennan morgunmat mun þér ekki finnast hann góður. Það þarf fyrst að setja bragðlaukana í smá sykurafvötnun. En ég lofa að mallinn þinn mun elska hann. Ef þið viljið hafa grautinn sætari má setja döðlur í litlum bitum út í og láta standa með yfir nótt. Ég sleppti því hér en notaði smá kardimommukrydd og smá vanillu extract því mér finnst vanillubragð svo gott.

Jarðarberja-sultulína

IMG_5500Innihald: / 250g jarðarber /  2 msk chiafræ / 10 steviudropar.

  1. Setjið fersk eða frosin jarðarber í pott ásamt chiafræjunum og hitið eða sjóðið í ca. 5 mínútur.
  2. Hrærið í þar til verður að mauki.
  3. Sætið með steviudropunum. Tilbúin sulta!

Þessi sulta er svo mikið lostæti og yfirburða holl að auki. Elín vinkona mín er snillingur í eldhúsinu og meistari í kökugerð. Hún kenndi mér að gera þessa sultu og þess vegna heitir hún sultulína :O)

Hafra- og chiagrautur

IMG_5221Innihald grautsins: / 1 bolli möndlu- eða hrísmjólk / 2/3 bollar tröllahafrar (ekki verra ef þeir eru glútenlausir) /2 msk chiafræ / 1 tsk vanilluduft / 1 tsk kanill / 1/2 tsk sítrónusafi / smá salt.

  1. Þessu er öllu hrært saman og látið standa yfir nótt í ísskáp.

Innihald ávaxtablöndunnar:1 epli / 2 dl frosin hindber / 1-2 cm rifinn engifer.

  1. Allt sett í matvinnsluvél og léttsaxað, ekki maukað.
Finnið glerkrukku og setjið fyrst smá graut í botninn, þar næst hluta af epla/berjablöndunni og svo þunnar bananasneiðar ofaná ef þið viðjið. Ég sleppti þeim hér en þannig er þessi grautur náttúrulega algjört æði. Svo geriði eins aftur og fyllið krukkuna. Algjör snilld að taka með sér í vinnuna og ég í flugvélina.
Þessi uppskrift er ca. ein stór eða tvær litlar máltíðir.

Þennan graut bjó Solla til í Heilsugenginu og hann er bara geggjaður.

Ebbugrautur

IMG_4422Innihald: / 1 dl quinoa / 2 dl vatn / 1/2 dl chiafræ / ferskir mangóbitar eða annar ávöxtur / smá sítrónuólífuolía

  1. Munið að leggið quinoa í bleyti yfir nótt.
  2. Morguninn eftir skolið quinoa með köldu vatni, setjið í pott ásamt 2 dl af vatni og sjóðið í 10-15 mín.
  3. Á meðan setjið þið chiafræ í bleyti og hrærið af og til í á meðan fræin eru að drekka í sig vökvann.
  4. Þegar grauturinn er tilbúinn fer quinoa í skál, blandið chiafræjunum saman við og skerið mangó út í.
  5. Hellið svo aðalatriðinu út, sítrónuólífuolíunni. Hún gerir svo mikið bragð og þá fáum við einnig aukaskammt af omega-9. Tilbúinn dásamlegur morgunmatur!

Mangó er með mjög hátt frúktósamagn þannig að ef þú ert að minnka við þig sykur og ávaxtasykur gæti verið sniðugt að nota kiwi í staðinn. Mangó er samt basískur ávöxtur en ekki súr fyrir líkamann. Kíkið á Dr. Mercola, þar finnið þið lista yfir frúktósamagn í nokkrum ávöxtum. Þið verðið að skrolla aðeins niður á síðunni þegar þið eruð búin að klikka á linkinn hér við hliðina til að finna þetta (1).

Þessi morgunmatur er svo mikil tær snilld og mér líður svo ótrúlega vel þegar ég byrja daginn á honum. Reyndar borða ég morgunmat frekar seint því mér líður yfirleitt best ef ég drekk bara í byrjun dags. Þessi grautur er fullur af næringarefnum og svo er höfundur hans bara svo dásamlega sjarmerandi kona, Ebba Guðný. Og það besta er að Edda mín 12 ára er farin að biðja um hann reglulega á morgnana sem er frábært.

http://www.mbl.is/smartland/heilsa/2012/08/21/chiagrautur_ebbu_gudnyjar/

Súkkulaði og bananasmoothie fyrir krakka

IMG_4662Innihald: 1 banani / 1 dl spínat / 2 dl möndlumjólk / 2 msk kakó / 1 tsk sólblómafræ / 1 tsk kasjúhnetur / 3-4 pecanhentur / 2 tsk akasíuhunang / 1 tsk hörfræolía eða hampolía (omega-3) / 1/2 tsk vanilluduft / smá salt

  1. Malið sólblómafræin, kasjúhneturnar og pecanhneturnar í kaffikvörn.
  2. Allt sett í blandarann og nokkrir klakar. Sólblómafræin gefa frá sér sérstakt bragð svo ef krakkarnir eru ekki að fýla þennan prufið þá að sleppa sólblómafræjunum.

Ég klippti þessa uppskrift úr Morgunblaðinu fyrir löngu, löngu síðan og man ekkert frá hverjum hún kemur.

Hinn daglegi græni djús

IMG_4789 Innihald: / 2-3 lúkur spínat eða annað kál / 1/2 sítróna eða lime / 1/2 – 1 grænt epli / 1/3 gúrka / 1-2 sellerístilkar / 2-3 cm engiferrót / 4 dl vatn / val: lúka af myntu eða kóríander.

Aðferð: ég set allt í blandarann og sía svo hratið frá gegnum síupoka sem fæst í Ljósinu Langholtsvegi. Stundum þegar ég hef ekki mikinn tíma set ég allt í blandarakönnuna nema vatnið og geymi inni í ísskáp. Bæti svo vatninu út í um morguninn, sía hratið frá og þá er djúsinn tilbúinn strax fyrir tvo.

Ég hef gert þennan djús á morgnana í mörg ár og ætla að gera hann út lífið. Stundum tek ég pásu en mér finnst alltaf jafngott að byrja daginn á grænum djús og ekki bara mér heldur manninum mínum líka. Þetta er innblástur frá djúsnum hennar Sollu, hinn daglegi græni djús en stundum bæti ég í hann myntu og þá er hann extra góður. Hvar værum við án Sollu segi ég bara :)

EN það er vandlifað og ég má ekki ofnota spínat vegna þess að ég er með vanvirkan skjaldkirtil. Þess vegna er mjög gott að skipta um káltegund reglulega og festast ekki í einni tegund eingöngu heldur reyna að nota sem fjölbreyttast. Það tekur enga stund að útbúa hann þegar þetta er komið í rútínu.

1 2 3