Archive of ‘Sykurlaust’ category

Bakaður rauðlaukur með valhnetusalsa

IMG_2510-1024x683

Þessi réttur er fyrir ca. 4

Innihald: / 4 rauðlaukar / 1 1/2 msk ólífuolía / 1 bolli (20 g) rucola salat / 15 g steinseljulauf / 60 g mjúkur geitaostur (hægt að nota fetaost eða jafnvel Havarti) / smá salt og svartur pipar.

Salsa: / 65 g valhnetur / 1 rautt chili / 1 hvítlauksgeiri / 3 msk rauðvínsedik / 1 msk ólífuolía / smá himalayan salt.

  1. Hitið ofninn í 220 gráður.
  2. Takið utan af rauðlauknum og skerið toppinn og botninn af.
  3. Skerið hvern lauk í þrennt þversum eða þannig að bitarnir séu ca. 2 cm þykkir og setjið á bökunarpappír.
  4. Penslið laukana með olíunni, saltið (ca. 1/4 tsk) og piprið með svörtum pipar og grillið eða bakið í ofninum í u.þ.b. 40 mínútur eða þar til laukarnir eru tilbúnir.
  5. Látið kólna lítillega.
  6. Á meðan laukarnir eru í ofninum búið þá til salsað með því að setja allt í skál. Gott er að brjóta valhneturnar í tvennt eða þrennt.

Til að bera fram setjið rucola salat og steinselju á fat. Setjið heita laukana ofan á (ekki taka þá í sundur), ostinn og helminginn af salsanu.

Enn og aftur Ottolenghi. Ég bara eeelska hann. Sætleiki rauðlaukanna leikur hér aðalhlutverkið en hann eykst einmitt þegar rauðlaukur er grillaður eða bakaður. Frábært meðlæti með allskonar mat, sérstaklega með appelsínu saffran kjúklingasalatinu. Það þarf ekkert endilega að hafa salsað með en grillaður rauðlaukur ásamt smá granateplum svínvirkar alltaf.

 

Ljomandi-bordi4

Appelsínu saffran kjúklingasalat

IMG_2541Réttur fyrir ca. 6 manns.

Appelsínu- og saffran paste: / 1 appelsína / 50 g hunang (ég notaði akasíu) / 1/2 tsk saffranþræðir / ca. 300 ml. vatn

Salat: / 1 kg kjúklingabringur / 4 msk ólífuolía / 2 lítil fennel / 15 g kóríanderlauf / 15 g basillauf rifin / 15 g myntulauf rifin / 2 msk sítrónusafi / 1 rautt chili / 1 hvítlauksgeiri / salt og pipar.

Svona gerið þið appelsínupaste-ið:

  1. Byrjið á að hita ofninn í 180 gr.
  2. Skerið toppinn og botninn af appelsínunni, skerið í 12 báta og takið kjarnann burt.
  3. Setjið bátana með hýðinu í pott ásamt saffranþráðunum, hunanginu og vatni þannig að rétt fljóti yfir appelsínurnar.
  4. Látið suðuna koma upp og sjóðið við vægan hita í klukkustund.
  5. Útkoman á að vera mjúkar appelsínur og ca. 3 msk af þykku sýrópi en það gerðist ekki hjá mér. Appelsínurnar urðu mjúkar en ég fékk ekki þykkt sýróp svo ég notaði ekki allan vökvann þegar ég setti appelsínurnar í matvinnsluvélina til að mauka þetta saman. En úr matvinnsluvélinni á að koma þykkt mauk en samt þannig að það renni.

Salatið:

  1. Skolið kjúklingabringurnar, þerrið, setjið í ílát og veltið þeim upp úr helmingnum af ólífuolíunni og nægu af himalayan salti og pipar.
  2. Setjið síðan á heita pönnu, helst grillpönnu og brúnið í 2 mínútur á hvorri hlið.
  3. Því næst í eldfast mót og inn í 180 gr. heitan ofninn og eldið í 15-20 mínútur eða þar til tilbúið.
  4. Útbúið salatið á meðan með því að skera fennelið í þunnar sneiðar, rífa basiliku og myntu niður, bæta við kóríander og skera eitt rautt chili í þunnar sneiðar og setjið á það fat sem þið viljið bera fram á.
  5. Ég setti svo sítrónusafann, restina af ólífuolíunni og kraminn hvítlauksgeirann í litla skál og hrærði saman, setti yfir salatið og blandaði vel.
  6. Þegar kjúklingurinn hefur kólnað lítillega rífið hann þá í strimla með höndunum og setjið í skál. Hellið helmingnum af appelsínu- og saffran maukinu yfir og veltið kjúklingnum upp úr því. Hinn helminginn getið þið geymt í kæli og notað í alls konar sem ykkur dettur í hug t.d. með feitum fisk.

Gott að bera fram með bökuðum rauðlauk í valhnetusalsa. Uppskrift kemur inn von bráðar.

Jana vinkona mín benti mér á að prófa þennan rétt en hann kemur frá Ottolenghi og er mjög vinsæll réttur á veitingastað þeirra. Trikkið við þennan rétt er appelsínan, það gerist eitthvað meiriháttar þegar hún er soðin heil í mauk  Óóótrúlega gott.

 

 

Ljomandi-bordi4

Quesadillas à la Ottolenghi

IMG_2426_2Svartbaunamauk: / 1 1/2 bolli (400g) svartar baunir (niðursoðnar eru fínar) / 1 tsk kóríanderduft / 1/2 tsk cuminduft / 1/4 tsk cayenne pipar / 30 g ferskt kóríander (lauf og stiklar) / safi úr einni lime / 1/4 tsk himalayan salt

  1. Allt sett í matvinnsluvél og búið til mauk.

Salsa: / 1/2 rauðlaukur, skorinn í mjög þunnar sneiðar / 1/2 msk hvítvínsedik / 3 vorlaukar (grænu blöðin) skornir smátt / 5 tómatar, kjötið tekið burt innan úr / 1 pressaður hvítlauksgeiri / 1 rautt chili, skorið smátt / 30 g ferskt kóríander (lauf og stilkar) skorið smátt / 3/4 tsk himalayan salt / 2 avókadó skorið í teninga

  1. Leggið rauðlaukinn í bleyti í hvítvínsedikið í nokkrar mínútur. Skerið allt grænmetið niður, hrærið saman og setjið í skál.

Annað: / tortillur – sýrður rjómi – mosarella eða cheddar ostur, jafnvel parmesan – etv. pikklað jalapeno.

  1. Smyrjið baunamaukið á tortillu, setjið sýrðan rjóma ofan á og rifinn ost yfir.
  2. Setjið smá salsa ofaná og jafnvel pikklað jalapeno.
  3. Brjótið tortilluna saman í tvennt.
  4. Setjið á grillið eða á rifflaða pönnu og hitið í 2-3 mínútur á hvorri hlið. Fyllingin á að vera heit og tortillurnar lítilsháttar brenndar.
  5. Skerið tortillurnar í helming og berið fram með auka salsa og fersku kóríander.

Við gerðum þetta aðeins öðruvísi. Við byrjuðum á að hita tortillurnar í ofni, settum svo allt gúmmelaðið innan í og borðuðum þannig eða eiginlega meira eins og vefjur. Það kom mjög vel út en ég hlakka til að prófa þessa uppskrift aftur og þá að grilla þegar allt er komið innan í tortillurnar.

IMG_2360_2

 

IMG_2376_2

 

Þetta eru tortillurnar sem ég kaupi yfirleitt þegar ég er í Ameríku. Aðrar eru hveitilausar og úr lífrænu, spíruðu korni og hinar eru lífrænar heilhveititortillur. Tortillurnar eru kælivara og svo miklu, miklu betri en pappatortillur með geymsluþol út í hið óendanlega. Svona vara þarf virkilega að fást hér á landi og ef einhver veit um ferskar, flottar tortillur þá endilega megið þið láta mig vita.

 

IMG_2357_2

Ég kíkti í Barnes and Nobles í Seattle og datt í fjórar bækur eftir Yotam Ottolenghi. Hann hefur skrifað bækurnar Ottolenghi: The Cookbook –  Plenty – Plenty More og Jerusalem. Ottolenghi og samstarfsaðili hans, Sami Tamimi, sem eru mennirnir á bak við fyrirtækið Ottolenghi og velgengni þess, ólust upp í Ísrael og Palestínu og nutu góðs af því í sínum uppvexti að borða mat eldaðan frá grunni af foreldrum sínum sem aðallega notuðu ferskt, árstíðabundið hráefni keypt af heimamönnum sem voru arabískir bændur og gyðingar. Þó svo að bókin Plenty, þaðan sem þessi uppskrift kemur, er grænmetisbók notar Ottolenghi bæði kjöt og fisk í sínum uppskriftum en út af uppruna sínum finnst honum ekkert tiltökumál að elda aðeins úr grænmeti að eigin sögn. Bókin er full af skemmtilegum frásögnum og maður bókstaflega finnur ástríðu hans gagnvart matseld.

Ottolenghi rekur fimm veitingastaði í London. Ef þú rekst á bækurnar hans þá skora ég á þig að kíkja í þær. Fallegar myndir, frábærar uppskriftir og fallegur heimur.

IMG_2359_2

 

 

Ljomandi-bordi4

Sólþurrkað tómatpestó

IMG_2133_2Sólþurrkað tómatpestó: 1 bolli sólþurrkaðir tómatar (eða ein krukka sem er ca. 300 g) / smá sítrónusafi og sítrónubörkur / 2 hvítlauksgeirar / lúka af ferskri basilíku / 1/2 rauður laukur / 1/2 bolli kaldpressuð ólífuolía / 1/2 bolli furuhnetur / smá himalayan salt / 1/3 bolli parmesan ostur.

  1. Setjið alllt í matvinnsluvélina eða blandara og mixið í smá stund en samt ekki þannig að það verði of þunnt, gott að hafa smá áferð.
  2. Frábært að setja innan í grænmetisblað í staðinn fyrir brauð og fá próteinið úr eggjunum.

IMG_2117_2

Ég elska pestó og gæti lifað á því. Þegar við förum í ferðalög tek ég alltaf eitthvað svona með okkur. Frábært meðlæti með mat og milli mála.

 

Ljomandi-bordi4

Makrílsalat með graslaukssósu

IMG_2277_2Salat: / 2 flök af reyktum makríl (má líka nota lax) / fullt af grænu salati  / 1 sæt kartafla / 1/2 rauðlaukur / 1/2 púrrulaukur / 1 rauð papríka / 1 avókadó / parmesanostur yfir.

Graslaukssósa: / 125 g sýrður rjómi / 2 msk himneskt lífrænt majónes (eða bara venjulegt) / 1 msk sítrónusafi / 2 msk fínsaxaður graslaukur / 1 msk fínsöxuð mynta / himalayan salt og pipar.

  1. Skerið sætu kartöfluna í bita, setjið olíu yfir og kryddið að ykkar hætti. Ég notaði salt, pressaðan hvítlauk, turmeric, timian og eitthvað fleira.
  2. Bakið í ofni þar til tilbúið (ca. 20-25 mín).
  3. Skerið grænmetið fallega niður og setjið í skál.
  4. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar er gott að láta þær kólna smá (mega samt alveg vera volgar) og setjið yfir salatið.
  5. Berið fram með graslaukssósunni og kannski góðu brauði.

Ég fór á Matarmarkað Búrsins í Hörpunni fyrir nokkru og keypti þar heitreyktan, handfæraveiddan makríl frá Hornafirði. Mér fannst hann líta svo vel út að ég ákvað að prófa en ég hef ekki oft borðað makríl. Ég ákvað að setja hann í salat og gerði þessa frábæru graslaukssósu með sem passar einmitt svo ótrúlega vel með reyktum fiski. Einhver sagði mér að það væri ger í parmesanosti svo ef þú vilt það ekki þá bara sleppurðu honum. Makríll inniheldur mikið magn af B-12 og ómega-3 fitusýrum.

Þetta salat er ekkert svo stórt, kannski fyrir ca. þrjá fullorðna. Mér finnst samt alltaf erfitt að áætla með magn matar, það er svo misjafnt hve mikið hver borðar og ef við erum með börn eða bara fullorðna í mat. Ég hef líka gert þetta salat og notað lax sem kom mjög vel út. Við keyptum of mikið af laxi og notuðum afganginn af honum í svona salat daginn eftir. Mjög gott.

 

IMG_2270_2

 

IMG_7668

 

 

Ljomandi-bordi4

Þorskhnakkar með sellerírótarmauki og fetasalati

10961790_10153157697720844_2056615964_nInnihald: / þorskhnakkar kryddaðir með sítrónupipar (hvert stykki ca. 150 gr).

Þessi uppskrift er fyrir ca. 4 og er reiknað með ca. 150-170 gr. af fiski á mann.

Sólþurrkað tómatpestó: / 1 bolli sólþurrkaðir tómatar / sítrónusafi og sítrónubörkur / 2 hvítlauksgeirar / lúka fersk basilíka / 1/2 rauður laukur / 1/2 bolli kaldpressuð ólífuolía / 1/2 bolli furuhnetur / smá himalayan salt / 1/3 bolli parmesan ostur.

  1. Setjið alllt í matvinnsluvélina eða blandara og mixið í smá stund en samt ekki þannig að það verði of þunnt, gott að hafa smá áferð.
  2. Setjið maukið ofan á þorskhnakkana og inn í ofn í 16-18 mínútur við 180 gr (fer eftir þykkt stykkjanna).

Sellerírótarmauk: / 1/2 sellerírótarhöfuð / 2-4 msk smjör / smá himalayan salt / pipar / kanil.

  1. Sellerírótin er skorin í smá bita og soðin í potti með smá salti þar til mjúk.
  2. Þegar tilbúið þá takið upp úr pottinum og látið vatnið renna af.
  3. Hrærið 2-4 msk af smjöri eða ólífuolíu út í og kryddið með salti, pipar og kanil.
  4. Setjið í matvinnsluvél og maukið.
  5. Setjið maukið á disk og þorskhnakkann þar ofan á.

Rauðrófu- og fetasalat: / 400 gr rauðrófur / 1-2 avókadó / lime / vorlaukur / fetaostur

  1. Hreinsið rauðrófurnar, takið utan af þeim og skerið í litla, fallega bita.
  2. Kreistið smá limesafa yfir avókadóið svo það verði síður brúnt.
  3. Skerið vorlaukinn fallega niður og setjið fetaostinn yfir.

Dressing yfir salatið: / 6 msk kaldpressuð ólífuolía / 3 msk limesafi / 2 msk hlynsíróp / smá himalayansalt og pipar.

  1. Setjið allt í skál, blandið vel saman og hellið yfir rauðrófusalatið.

 

11031202_10153168814065844_1080720240_o

 

Heil og sæl kæru vinir, ég heiti Kristjana en alltaf kölluð Jana. Ég bý í Lúxembourg ásamt eiginmanni mínum og stelpunum okkar þrem en hingað fluttum við fyrir rúmlega sjö árum. Ég starfa sem heilsukokkur á veitingastaðnum Happ sem opnaður var í mars árið 2011 en árinu áður byrjaði ég að vinna sem hráfæðiskokkur á heilsustað hér í Luxembourg. Ég hef rosalegan áhuga á mat, heilsu, næringarfræði, hreyfingu og öllu því sem því tengist. Fyrir tveimur árum útskrifaðis ég sem heilsumarkþjálfi frá IIN (Institute for Integrative Nutrition, New York) og hef síðan þá verið með kúnna í leiðsögn. Ég held reglulega matreiðslunámskeið bæði hráfæðis og matreiðslunámskeið þar sem aðal áherslan er á hollustu umfram allt. Ég vona að þér líki uppskriftin mín hér og ef þú átt leið til Luxembourgar þá endilega kíktu á Happ og ég tek vel á móti þér með gómsætum mat.

 

Ljomandi-bordi4

Eggja-Quiche með beikoni & grænum baunum

IMG_1717_2Innihald: / 1 tsk kókosolía eða ghee / 1 laukur / 1 vorlaukur / 2 pressaðir hvítlauksgeirar / 150 g beikon / 6 egg / 250 ml rjómi / 1 1/2 bolli frosnar grænar baunir (peas) látnar þiðna / 150-200 g mosarella eða cheddar ostur / smá himalayasalt / smá mulinn svartur pipar / nokkur fersk myntublöð / skreytt með avocado og ferskum myntublöðum.

  1. Hitið ofninn á 175 gr og setjið kókosolíu eða ghee á pönnu.
  2. Byrjið á að saxa laukinn og mýkið hann í olíunni í ca. 5 mínútur, bætið hvítlauknum út í í smá stund og takið laukinn til hliðar í stóra skál.
  3. Setjið beikonið á pönnuna og eldið í ca. 5 mínútur á hvorri hlið eða þar til brúnt og stökkt.
  4. Setjið svo beikonið á disk með eldhúsbréfi og látið renna aðeins af því. Skerið í bita þegar það hefur kólnað.
  5. Brjótið 6 egg í stóru skálina.
  6. Bætið rjómanum út í ásamt baununum, ostinum, beikoninu, myntunni og salti og pipar.
  7. Smyrjið eldfast mót að innan með kókosolíu eða smjöri og hellið blöndunni í.
  8. Bakið við 175 gr í u.þ.b. klukkustund eða þar til gullið.
  9. Skreytið með myntu og avocado og berið fram með fullt af salati.

Ég notaði 26 cm eldfast mót. Það tekur ekki langan tíma að undirbúa þennan rétt en hann þarf að vera í ofni í klukkustund.

IMG_1694_2-2

Þegar ég var au-pair í Frakklandi fyrir langa löngu kynntist ég fyrst Quiche Lorraine og váááá hvað ég elskaði það. Quiche Lorraine er með hveitibotni og svo er fylling sett ofan á botninn. Ég stenst engan veginn svona bökur, finnst þær sjúklega góðar og þegar ég rakst á þessa uppskrift á netinu varð ég bara að prófa. Þetta quiche eða þessi baka er ekki með hveitibotni, sem mér finnst reyndar alveg hrikalega gott að hafa, en hún er alveg ótrúlega bragðgóð og flottur hádegis- eða kvöldmatur. Alla vega kláraðist allt upp til agna hjá okkur og enginn afgangur var til að hafa með í vinnuna daginn eftir.

IMG_1708_2

 

Þessi hugmynd kemur frá http://zagleft.com

 

 

Ljomandi-bordi_3

Bolludagsbollur / sænskar semlur

IMG_1938_2-5Deig: / 100 g mjúkt smjör / 1/2 bolli mjólk / 25 g þurrger / 2 1/3 bolli (325 g) glútenlaust hveiti eins og Miel Mix (sjá mynd neðar) eða All Purpous Baking Flour / 1 egg / 50 g erýtrítól með stevíu / 1 tsk vínsteinslyftiduft / 2 tsk kardimommukrydd / 1/2 tsk salt.

Þessi uppskrift gerir 9 bollur

  1. Byrjið á að skera smjörið niður í litla bita, setjið í pott og bræðið við vægan hita.
  2. Bætið mjólkinni út í og hitið að 37 gráðum.
  3. Setjið þurrefnin í hrærivélaskál ásamt egginu og hellið vökvanum yfir. Hnoðið saman með hnoðaranum í hrærivélinni (ég er svo lánsöm að eiga Kitchen Aid græju). Deigið á að vera aðeins klístrað en samt verða þau að vera meðfærlegt.
  4. Setjið klút yfir hrærivélaskálina og látið hefast í 45 mín.

Möndlumassi/fylling: / 100 g möndlumjöl / 80 g erýtrítól / 3 msk vatn / 1/2-1 tsk kardimommukrydd / 1/4 tsk vanilluduft / 3 msk rjómi (óþeyttur) / VAL: 25 g fínt saxaðar eða hakkaðar, hvítar möndlur (hægt að rista á pönnu eða í ofni í 5 mín).

  1. Fyllinguna getið þið geymt í kæli meðan þið gerið bollurnar.
  2. Möndlumassinn er frekar sætur en það er hægt að minnka sætukeiminn með því að mylja deigið sem kemur úr holunni á bollunum út í möndlumassann (sjá neðar).

Þeyttur rjómi: / 300 ml rjómi / 1 msk fínmöluð strásæta frá Via Health eða flórsykur / smá vanilluduft eða 1/2 tsk vanilla extrakt / fínmöluð strásæta eða flórsykur til skreytingar.

 

Þegar deigið hefur hefast í 45 mínútur þá er hægt að búa til bollur og þá kveikir þú á ofninum og hitar í 220 gr. Ég vigtaði bollurnar (ca. 80 gr hver) og hnoðaði hverja mjög vel í höndunum. Síðan smurði ég smá eggi yfir til að fá gljáa. IMG_1870_2-2

Setjið klút yfir plötuna og látið hefast aftur í ca. 45 mínútur og bakið svo við 220 gr. í ca. 10-13 mínútur.

Þegar bollurnar eru tilbúnar og búnar að kólna þá skerið þið toppinn af og búið til smá holu í miðjunni á bollunni. Setjið fyllinguna þar í og dreifið henni líka um yfir brúnirnar.

Ég bjó einu sinni í Svíþjóð og Svíar borða svona bollur frá áramótum og fram að páskum, eða þá fást þær í bakaríunum. Í þeim er marsípanfylling en ekki sulta en hér notuðum við þessa möndlufyllingu.

IMG_1887_2-2

 

IMG_1888_2-2

 

IMG_1906_2

 

Þeytið rjómann, setjið í sprautupoka og ofan á hverja bollu og setjið lokið ofaná. Skreytið bollurnar með flórsykrinum/fínmöluðu strásætunni.

IMG_1908_2

 

IMG_1922_2-2

 

IMG_1953_2-3

 

IMG_1881_2Þessi frábæra hveitiblanda frá Bauckhof er glútenlaus og frábær í svona bakstur því hún er sterkjumikil. Ég hef stundum notað All Purpous Baking Flour í bakstur en finn alltaf eitthvað skrítið bragð af því. Ég fann það ekki þegar ég notaði þessa blöndu. Ég fékk þessa á Gló Fákafeni. Þeir hjá Bauckhof eru alveg frábærir – 100% lífrænir og vinna eftir hugsjónum Rudolph Steiner. Eru með eina allra, allra flottustu mylluna þar sem allt er steinmalað.

Ég rakst á þessa uppskrift á hinni ómótstæðilegu vefsíðu: http://www.callmecupcake.se en átti smá við uppskriftina. Ég held hreinlega að callmecupcake sé ein flottasta síða í heimi, myndirnar hennar Lindu Lomelino eru hreint ævintýri. Ég fann hana fyrst á Instagram. Fáránlega flott svo ég varð að prófa þessa uppskrift. Ég ólst upp við að mamma bakaði bollur á bolludaginn og sá dagur var alltaf svolítið hátíðlegur en litla fjölskyldan mín er ekki mikið bolludagsfólk, krakkarnir mínir eru ekki mikið fyrir rjóma og maðurinn minn er ekki mikið fyrir sætabrauð. En þau voru öll rosa ánægð með þessar bollur. Ég er heldur ekkert rosalega góð í svona gerbakstri og enn og aftur hringdi ég hotline í Elínu vinkonu sem er alltaf með svörin við öllu. Takk fyrir hjálpina elsku vinkona. Þú ert bara snillingur.

 

Ljomandi-bordi_3

Kakópróteinsjeik með lakkrísrótardufti

IMG_1547_2Innihald: / 2 dl haframjólk (oat) eða möndlumjólk, hrísmjólk / 1 kúfuð mæliskeið vanilluprótein / 1 msk hrátt kakóduft / 1/2 avocado / 1/2 tsk lakkrísrótarduft / 1 msk hörfræolía / 1 msk chiafræ / smá himalayasalt / klakar / VAL: smá acai-duft

  1. Setja allt í blandarann, mixa vel og drekka. Bragðgóður og súperhollur sjeik.

Mig langar aðeins að segja þér hvað lakkrísrótarduft gerir fyrir líkamann.

Lakkrísrótarduft er ekki bara gott á bragðið og harmónar vel með hráu kakódufti (hver elskar ekki bragðið af súkkulaði og lakkrís) heldur hefur það nokkra frábæra eiginleika:

  • verndar lifrina og lætur blóðið streyma í gegnum hana.
  • örvar lifrina til að framleiða meira gall. Alveg nauðsynlegt!
  • jafnar starfsemi í brisi og þá verður blóðsykurinn svooo happy.
  • örvar hægðir og eykur þol gegn streitu. Ef það er ekki nauðsynlegt þá hvað???
  • losar slím úr öndunarfærum.
  • mýkir og græðir meltingarveg.
  • er bólgueyðandi.

Að sjálfsögðu getum við fengið allt okkar prótein úr venjulegum mat og það væri æskilegast en mér líkar að nota hreint mysuprótein og geri það af og til. Spirulina er t.d. mjög próteinrík og ég nota hana líka stundum. Plöntuprótein úr hamp er líka mjög flott. Ég persónulega er ekki hrifin af casein próteini og hér getur þú lesið af hverju. Flókið mál en bara ekki fyrir mig. Ást og friður :)

IMG_1556_2

 

Ljomandi-bordi_3

 

 

 

Einfaldur kókos & karrý baunapottréttur

IMG_1265_2Innihald: / kókosolía til steikingar / 1 laukur / 1 bolli (þurrar) rauðar eða grænar linsubaunir / 1 sæt kartafla / 2 stórar gulrætur / 1/2 tsk turmeric / 1 msk karrý / 1 tsk engiferkrydd / smá salt / nokkur svört piparkorn / 3 – 3 1/2 bolli vatn / 1 msk grænmetiskraftur / 1/2 bolli kókosmjólk.

  1. Laukurinn skorinn frekar smátt.
  2. Skerið sætu karföfluna niður í teninga og gulræturnar langsum.
  3. Hitið olíuna og mýkið laukinn.
  4. Bætið svo kartöflunni, gulrótunum, baununum og kryddinu útí.
  5. Setjið vatnið út í pottinn og hitið að suðu, minnkið þá hitann og sjóðið í amk. 25 mínútur. Mér finnst betra að nota minna vatn en meira, annars verður þetta meira súpa.
  6. Bætið kókosmjólkinni út í.
  7. Berið fram heitt og jafnvel með quinoa.

Þessi vegan pottréttur er ótrúlega einfaldur og góður grænmetisréttur fyrir ca. 4.  Mér finnst algjör snilld að gera frekar stóra uppskrift og eiga daginn eftir í afgang til að taka með í vinnuna. Ef þú átt cast iron pott þá er gott að nota hann í þetta.

Þar sem ég er að taka út allan sykur og korn (þá sleppi ég quinoa-inu) í ákveðinn tíma er ég eiginlega búin að lifa á svona mat sem er alls ekkert mál þegar maður dettur niður á svona lostæti því þetta er mjög bragðgóður og ljúffengur pottréttur sem fljótlegt er að gera og frábært að bera fram með fullt af grænmeti.

IMG_1251_2

Uppskrift frá http://www.detoxinista.com

 

 

Bordi2

 

 

 

1 2 3 5