Posts Tagged ‘glútenlaust’

Heimagert sushi

IMG_7922Sushihrísgrjón: / 3 bollar sushi hrísgrjón eða stutt hýðishrísgrjón / 3 1/3 bolli vatn (10% meira en grjón).

  1. Skolið grjónin vel í köldu vatni. Mér finnst best að leggja þau í bleyti í 10-15 mín og hella af þeim 3-4x þar til vatnið er orðið glært. Tekur þá ca. 45-60 mín. Þetta er gert til að losna við umfram sterkju. Ef þetta er ekki gert verða grjónin klístruð og ónothæf eftir suðu.
  2. Þegar búið er að skola grjónin þá setjiði þau í pott sem er ekki of breiður og vatnið mælt út í.
  3. Næst er lok sett á pottinn og stillt á háan hita. Um leið og grjónin byrja að sjóða (gufa sleppur framhjá lokinu) má ALLS EKKI taka lokið af pottinum heldur er stillt á lágan hita og tími tekinn í 15 mín. Ef þið notið hrísgrjónasuðupott þá verða grjónin alltaf fullkomin.
  4. Gerið edikblönduna (sjá neðar).
  5. Eftir þessar 15 mín er potturinn tekinn til hliðar og látinn standa í aðrar 15 mín.
  6. Þá má taka lokið af, grjónin sett á breytt fat og edikblöndunni dreift vel yfir á meðan hrært er varlega í með trésleif.
  7. Gott er að kæla grjónin og velta þeim fram og aftur með léttum hreyfingum þar til engir kekkir eru eftir.
  8. Grjónin eru tilbúin þegar þau eru stofuheit.
  9. Ég sá Sollu nota quinoa í einum þætti af Heilsugenginu sem er svo miklu hollara og ég ætla svo sannarlega að prófa það. Hér sérðu hvernig á að sjóða quinoa.

Edikblanda: / 1/2 bolli hrísgrjónaedik / 1/4 bolli hrásykur / 1/2 tsk salt.

  1. Sjóðið saman í potti þar til allt er uppleyst (ca.1-2 mín).

Að gera maki-rúllur:

  1. Leggið nori þarablað á bambusmottu og látið glansandi hliðina snúa niður.
  2. Setjið hrísgrjónin á 2/3 hluta noriblaðsins, smá brún á að vera auð á blaðinu nær ykkur og ca. 3 cm fjær ykkur (grjónin mega alveg vera aðeins hærra upp á noriblaðinu en myndin sýnir). Þrýstið þeim niður með höndunum. Grjónin eiga að vera ca. 1/2 cm þykk á blaðinu.
  3. Smyrjið þunnu lagi af wasabi mauki langsum á grjónin.

IMG_0538

  1. Ég setti smá spicy mayo (sjá neðar) þar ofaná, ekki alveg það heilsusamlegasta en… svooo gott.

IMG_0547

  1. Hér notar þú hugmyndaflugið og það sem þér finnst gott. Ég notaði t.d. lax sem ég skar í þunnar ræmur, avocado, gúrku og klettasalat. Í aðrar rúllur notaði ég bara gúrku og avocado því krakkarnir borða það en ég setti alltaf wasabi maukið fyrst (alls ekki mikið) og svo majónesið. Ég skar einnig niður rauða papriku og setti í nokkrar rúllur.

IMG_0571

  1. Notið bambusmottuna til að hjálpa ykkur að rúlla þessu þétt upp. Byrjið á endanum næst ykkur og rúllið svo frá ykkur en togið alltaf á móti til að þetta verði þétt (vona að þetta skiljist).
  2. Gott er að bleyta kantinn efst til að loka blaðinu svo rúllan límist vel saman.
  3. Skerið í bita og berið fram með soja- eða tamarisósu og pikluðu engifer.

Spicy mayonaise: / japanskt majónes (fæst t.d. í asískum matvörubúðum) og sterk chilisósa blandað saman. Ég kaupi stundum bara tilbúið spicy majo á Tokyo sushi.

Soyasósa/tamarisósa er alltaf notuð með sushi til að krydda sushi-ið og oft er wasabi maukið sett út í hana til að gefa meira bragð. Ég nota alltaf tamarisósu því hún er búin til úr óerfðabreyttum, lífrænum sojabaunum, er glútenlaus og náttúrulega gerjuð.

Wasabi er japönsk, græn piparrót sem er rotverjandi og bakteríudrepandi og er sett á nigiribita og innan í maki rúllur en aðeins í litlu magni því hún er rótsterk.

Piklað engifer er borðað milli bita til að sótthreinsa munninn, hreinsa bragðlaukana og bæta meltinguna.

Hún Hildigunnur vinkona mín, sem eldar svo ótrúlega góðan mat, dró mig einu sinni fyrir nokkrum árum á sushi námskeið. Ég ætlaði varla að nenna því ég hélt ég mundi aldrei hafa það í mér að búa til sushi heima og svo er Hildigunnur svo skemmtileg að ég gat ekki sagt nei við hana. Síðan þá hef ég oft gert sushi og sé sko aldeilis ekki eftir því að hafa drifið mig með henni. Það er mjög gaman að búa til sitt eigið sushi en þið þurfið að gefa ykkur smá tíma því í það. Það tekur ca. 45 mín að skola grjónin og svo 1/2 tíma að sjóða þau. Síðan þarf að kæla þau og þá getiði byrjað að rúlla þannig að þetta er ekki eitthvað sem er gert á hálftíma. Ef þið skoðið myndina hér að ofan þá notaði ég bæði venjuleg hvít grjón og brún hrísgrjón. Þau hvítu er auðveldara að vinna með og krökkunum finnst þau betri en mér fannst mjög gaman að prófa hin. Hvít grjón eru nú ekki alveg það hollasta í heimi svo næst ætla ég að prófa að nota quinoa eins og áður sagði. Bambusmottan sem ég nota keypti ég í EPAL og er frá STELTON.

Verði ykkur að góðu!

 

Sítrónukaka

photo-7Innihald: / 1 1/2 bolli (ca 180gr) möndlumjöl / 1/4 tsk kardimomma / 2 tsk vínsteinslyftiduft / 4 egg (rauður og hvítur aðskildar) / 1/2 bolli kókospálmasykur (skipt í helming) / 1/2 bolli kókosolía / 1/2 tsk vanillusykur  / 1 tsk vanillu extract eða vanilludropar / 1/2 tsk sítrónudropar / rifinn sítrónubörkur af einni sítrónu (ca 1/2 tsk) / smá sítrónusafi / 1 tsk hvítt edik / smá salt

  1. Smyrjið 20 cm (8 in) kökuform eða klippið til bökunarpappír i botninn. Þessi uppskrift/kaka er frekar lítil.
  2. Setjið möndlumjöl, kardimommu og vínsteinslyftiduft í skál og geymið til hliðar.
  3. Skiljið að eggjarauður og hvítur. Setjið eggjarauðurnar bara beint í hrærivélaskálina og hvíturnar í skál sem þið getið þeytt þær í. Passið vel að engin rauða sé í hvítunum þá verða hvíturnar ekki léttar og loftkenndar eins og við viljum.
  4. Hrærið saman í hrærivél eggjarauðum, rúmlega helmingnum af sykrinum, kókosolíunni, vanillusykrinum, vanilludropunum, sítrónudropum og sítrónusafanum. Hér má líka nota sítrónuilmkjarnaolíu frá t.d. Young Living en þá er nóg að setja bara 6-7 dropa.
  5. Bætið þurrefnunum út í og að lokum sítrónuberkinum. Deigið er frekar klístrað og á ekki að vera þurrt.
  6. Þeytið hvíturnar. Ég gerði það s.s. í annarri skál með handþeytara. Byrjið rólega og þegar loftbólur byrja að myndast setjið þá smá salt út í ásamt edikinu því það hjálpar hvítunum að flottar. Bætið síðan restinni af sykrinum út í hvíturnar hægt og rólega og hrærið saman.
  7. Setjið eggjahvíturnar saman við deigið rólega svo deigið verði léttara.
  8. Bakið í ca. 30 mínútur við 175 gráður.

Þessi litla kaka er alveg dásamleg en það er búið að taka nokkrar tilraunir í að mastera hana. Fyrst varð hún rosalega stökk að utan en það var vegna þess að eitthvað tókst ekki nógu vel með eggjahvíturnar hjá mér. Ég notaði líka mjög mikið af skálum fyrst en nú er ég búin að einfalda vinnuaðferðina eins og ég mögulega get. Ég elska möndlu, sítrónu- og vanillubragð og vantaði hollan staðgengil möndlukökunnar með bleika kreminu. Þessi gefur henni ekkert eftir. Fjölskyldan mín eru bestu dómararnir á það sem tekst vel og ekki vel hjá mér og maðurinn minn sem borðar aldrei kökur borðaði hálfa kökuna loksins þegar hún tókst vel svo ég varð að gera hana aftur til að ná almennilegri mynd af henni. En það eru bestu meðmælin og gladdi mig óendanlega mikið :) Svo er þetta uppáhaldskakan hans Bjarka míns. Eddu kaka er gulrótarkakan svo nú eigum við bara eftir að finna uppáhaldið hennar Hönnu Birnu sykursætu :)

Ég studdist við uppskrift af http://www.simplyrecipes.com en breytti henni smá.

IMG_8652

Edduhjarta

IMG_0412Innihald: / hnetusmjör / banani / 100 gr brætt súkkulaði 70% eða 85%

  1. Byrjið á að bræða eina plötu af flottu súkkulaði.
  2. Setjið dágott magn af hnetusmjöri í botninn á formunum.
  3. Setjið bananasneiðar þar ofan á.
  4. Að endingu setjiði brædda súkkulaðið ofan á og inn í frysti.

IMG_0356

Einn daginn þegar ég kom heim úr vinnunni var dóttir mín 12 ára búin að búa til þetta frábæra nammi handa sér. Hún smakkaði þetta hjá vinkonu sinni og fékk uppskriftina hjá henni. Hún var búin að tala lengi um að fá að búa þetta til og þar sem ég gaf mér ekki tíma til að hjálpa henni tók hún sig til og græjaði sjálf með hjálp litlu systur sinnar. Við gerðum þetta svo aftur saman og tókum nokkrar myndir því þetta var svo gott og fallegt að setja í hjartaform.

IMG_0371Myndirnar eru af Hönnu Birnu aðstoðarkonu, 9 ára krúttsprengjan mín.

Grænmetispottrétturinn minn

IMG_0477Innihald: /  1-2 msk olífuolía, kókosolía eða ghee / 1 laukur / 1/2 jalapeno / 2-3 cm ferskt engifer / 1 sæt kartafla / 2 stilkar sellerí / 1 lítið brokkolíhöfuð / 3-4 gulrætur / 1 rauð papríka / 1 bolli rauðar linsubaunir.

Krydd: / 2 msk hollur grænmetiskraftur / 1/4 tsk kardimomma / 1/4 tsk kanill / 1/2 tsk karrí / 1/2 tsk turmeric / 2-3 lárviðarlauf / nokkur svört piparkorn / smá maldonsalt / 1/2 líter vatn / 1 dós kókosmjólk / 3 dl maukaðir tómatar í flösku.

Þessi uppskrift er frekar stór eða fyrir ca. 6-8 manns. En mér finnst gott að elda mikið og taka með í nesti daginn eftir.

  1. Byrjið á skera allt grænmetið niður.
  2. Skerið laukinn frekar smátt og mýkjið hann í olíu eða ghee en ekki brúna.
  3. Skerið engiferið og jalapeno-ið smátt niður og setjið út í.
  4. Bætið síðan við sætu kartöflunni, selleríinu, gulrótunum, brokkolíinu og papríkunni.
  5. Kryddið.
  6. Setjið svo vatnið út í og látið malla í ca. 1/2 tíma þannig að rétt sjóði. Ekki hafa of mikinn hita.
  7. Hreinsið linsubaunirnar og setjið út í.
  8. Bætið tómötunum í flösku og kókosmjólkinni út í.
  9. Látið malla í 1/2 tíma.
  10. Því lengur sem þið getið látið réttinn vera í pottinum, því betra. Ég t.d. set þennan rétt stundum upp á morgnana þegar ég er heima og læt hann malla við lágan hita. Ég slekk bara undir þegar ég skrepp út og kveiki aftur undir seinnipartinn þegar ég kem heim. En auðvitað þarf það alls ekki, bara svo gott svoleiðis ef tími leyfir.

Ég keypti mér leirpott síðast þegar ég fór til Seattle í búðinni Sur la Table. Ég var að skoða Le Creuset potta en þessi var á svo frábæru tilboði að ég gat ekki annað en keypt hann þó hann væri nýþungur og erfitt að rogast með alla þessa leið. Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim (eftir að ég var sko búin að hvíla mig) var að kíkja á netið og googla cast iron pot recipes. Ég skoðaði nokkrar og ákvað svo bara að skella því sem ég átti í pottinn. Úr varð þessi dásamlegi pottréttur sem átti fyrst að vera súpa. Systir mín kom svo daginn eftir og fékk að smakka hann kaldan. Kannski var hún súpersvöng en hún alla vega malaði meðan hún borðaði :) Ég elska þegar fólk verður svona hrifið af því sem ég geri. Best í heimi!

Það sem er svo frábært við þennan pott er að hann getur líka farið inn í ofninn. Hér geturðu kíkt á pottinn og séð litina sem til eru :http://www.surlatable.com/product/PRO-1315373/Sur+La+Table+Red+Round+Oven+7+qt.

IMG_0403

Kúrbíts-eggjaklattar

IMG_3946Innihald: / 450 g kúrbítur / 30 g ferskur parmesan / 2 egg / 4 tsk bókhveitimjöl / 1 tsk whole psyllium husks / smá chili / salt og pipar

  1. Rífið kúrbítinn, setjið í síupoka (fæst í Ljósinu Langholtsvegi) og kreistið vatnið úr.
  2. Blandið saman við restina.
  3. Hitið pönnu með ghee, ólífuolíu eða kókosolíu, búið til klatta og steikið í 2-3 mínútur á hvorri hlið. Gott bara eintómt eða með góðu salati og rauðrófuhummus.

 

 

 

Hveitilausar súkkulaðimuffins

IMG_0158-2Innihald: / 1 bolli hnetusmjör / 2 mjög þroskaðir bananar / 1/4 bolli hlynsíróp / 1/3 bolli kakóduft.

  1. Hitið ofninn í 180 gr.
  2. Setjið öll innihaldsefnin í matvinnsluvélina, þú þarft kannski að stoppa og skafa meðfram hliðunum en deigið er mjög klístrað og á að vera svoleiðis.
  3. Þegar allt er vel blandað saman þá seturðu deigið í muffinsform með skeið. Mér finnst best að bleyta skeiðina af og til út af deiginu.
  4. Þú ræður hvort þú brytur smá súkkulaði yfir.
  5. Inn í ofn í 12-15 mínútur og bíddu með að taka þær úr muffinsformunum þar til þær eru orðnar alveg kaldar.

Ég fann þessa litlu uppskrift á mywholedoodlife.com. Bara fjögur innihaldsefni. Þú ert fljótari að skella í svona en að keyra út í bakarí og kaupa sykursnúð. Svo bara að toppa með rjóma…

 

Piparmyntu-avókadó nammi

IMG_0193-2Botn: / 2 1/2 dl möndlur / 2 1/2 dl döðlur / 1 msk kakóduft.

Myntufylling: / 1 avókadó / 3 msk fljótandi kókosolía / 2-3 msk hlynsíróp / 1 banani / 1/2 tsk vanilla extraxt eða vanilludropar / 5-10 dropar piparmyntuolía (eða dropar) / smá salt.

Súkkulaði: / 3 msk kakóduft / 3 msk fljótandi kókosolía / 2 msk hlynsíróp.

  1. Setjið allt sem á að fara í botninn í matvinnsluvélina og búið til deig. Ef döðlurnar eru ekki mjúkar er gott að leggja þær í bleyti í volgt vatn í ca. 15 mín.
  2. Setjið bökunarpappír í form sem er 18x18cm innanmál (8×8-inch) og pressið deigið ofan í.
  3. Búið síðan til mjúku, grænu fyllinguna í matvinnsluvél og hellið í formið ofan á botninn. Ég læt kókosolíukrukkuna standa í heitu vatni til að fá hana fljótandi.
  4. Setjið inn í frysti í ca. 30 mínútur.
  5. Græjið súkkulaðið með því að hella öllu í skál og hræra vel saman. Hellið því svo yfir og setjið í frysti. Ef botninn og græna fyllingin eru mjög köld (alveg frosið) þegar þið hellið súkkulaðinu yfir þá harðnar það mjög fljótt. Þannig að þið þurfið að vera svolítið snögg að ná því yfir allt.
  6. Þegar þið berið þessa dásemd fram er gott en alls ekki nauðsynlegt að láta hana þiðna í ca. 10-20 mínútur áður. Mér finnst reyndar best að borða þetta ískalt :)

Ég sá þessa uppskrift í bók sem heitir Rawsome Vegan Baking og leist svo vel á að ég ákvað að prófa. Ég var ekki illa svikin og Edda mín 12 ára elskar hreinlega þetta nammi. Ég nota Young Living piparmyntuolíu og þá þarf ég ekki svona mikið heldur ca. 5 dropa því þeir eru sterkir. Það er hægt að nota hvaða piparmyntuolíu sem er, jafnvel piparmyntu extract. Prófið ykkur bara áfram. Ég bara elska Young Living vörurnar og finnst svo mikil snilld að nota þær í matargerð því ekki skemmir fyrir að þær hafa ákveðinn undrakraft :)

Hér getur þú lesið meira um ilmkjarnaolíur.

 

 

Sellerírótarsúpa

IMG_5110Innihald: / ghee eða kókosolía til steikingar / 1 sellerírót / 3 gulrætur / 100 g þurrkaðir tómatar / 2 hvítlauksrif / 2 msk grænmetiskraftur / 1 msk oregano / 1 msk turmeric / 500-750 ml vatn / 1 dós kókosmjólk / nokkrir dropar fiskisósa / salt og pipar.

  1. Skerðu sellerírótina og gulræturnar smátt og láttu mýkjast í olíunni.
  2. Bættu svo tómötunum, hvítlauknum og kryddinu við og passaðu að láta tómatana mýkjast.
  3. Settu vatnið út í og láttu malla í ca. 10 mín.
  4. Taktu þá töfrasprota og maukaðu súpuna. Áferðin á að vera frekar gróf.
  5. Settu svo kókosmjólkina út í og kryddaðu til .

Þessi súpa er sprengholl og stútfull af frábærri næringu. Haustið er einmitt súputími og snilld að nota haustuppskeruna í súpugerð. Þessi klikkar ekki og mér finnst frábært að nota kókosmjólk í súpur. Ég sá þessa uppskrift í bókinni hennar Þorbjörgu Hafsteinsdóttur 9 leiðir til lífsorku en breytti henni bara örlítið. Ég er að lesa bækurnar hennar þessa stundina og rekst á svo endalaust mikið gott og sniðugt sem ég verð bara að deila. Þessi bók hennar Þorbjargar er frábær og fullt af flottum og súperhollum uppskriftum þar.

Mömmukaka

IMG_4463Botn: / 100 g möndlur / 100 g kókosmjöl / 4 msk kakó / 250 g döðlur lagðar í bleyti í ca 15 mín í volgt vatn

Aðferð: setjið allt í matvinnsluvél + þrýstið með fingrum í fallegt mót.

Súkkulaði: / 1 dl kakó / 1 dl kókosolía (fljótandi) / 1/2 dl hlynsíróp (maple syrup) / val: 2-3 dropar piparmyntuolía út í súkkulaðið (Young Living) eða 3 dropar piparmyntu-stevia.

Aðferð: hrært saman + hellt yfir botninn + sett í frysti + tilbúið eftir ca. 1-2 tíma.

Ég hef alltaf notað 1/2 dl af agave sírópi í súkkulaðið en núna notaði ég hlynsíróp í staðinn. Hér getið þið lesið um muninn á hlynsírópi og agave. Svo bætti ég út í þremur dropum af piparmyntu-steviu. Kannski er alveg eins gott að nota bara piparmyntuolíuna og sleppa steviunni. Alveg nóg af sykri hinsegin. Ég prufa það næst. En þessi kaka kom mjög vel út og eiginlega miklu betur með hlynsírópinu.

Ég nota eldfast mót undir þessa köku sem er 18×25 (innri botn). Svo set ég bara filmu :/ yfir og inn í frysti.

Þetta er uppáhaldskakan á heimilinu og við eigum þessa köku mjög oft til í frystinum. Krakkarnir fundu nafnið á hana því ég var alltaf að stelast í frystinn endalaust og þau urðu forvitin hvað ég væri alltaf að ná mér í. Þeim finnst kakan svo góð að þau biðja mig reglulega um að búa hana til. Hún er samt full af sykri (döðlur, agave eða hlynsírópið, kókosmjöl) svo ég hef róast mjög mikið í því að stelast í frystinn :) Ef þið setjið piparmyntudropa út í skúkkulaðið eru þið komin með After Eight bragð!

Já kókosmjöl hagar sér pínu eins og sykur í líkamanum því miður, eins og það er nú dásamlega gott.

Blómkáls-Fusilli “Alfredo” pasta

IMG_6374Innihald: / 1 blómkálshöfuð (lítið eða meðalstórt) / 1/2 msk ólífuolía / 3 hvítlauksgeirar / 1 dl hrís- eða möndlumjólk / 1/2 dl næringarger / 1 msk ferskur sítrónusafi / 1/2 tsk laukduft / 1 tsk hvítlauksduft / 1-2 msk smjör (má sleppa) / smá sjávarsalt / smá pipar / 250 g glútenlaust fettuccini pasta (eða bara ykkar val af pasta) / 1 brokkolíhöfuð / 1 rautt chili / nokkrir sólþurrkaðir tómatar / steinselja.

  1. Setjið blómkálið í pott og látið vatnið ná alveg yfir. Látið suðuna koma upp og sjóðið í 5-7 mín. eftir að suðan er komin upp eða þangað til að blómkálið er orðið mjúkt. Látið svo vatnið renna af.
  2. Setjið olíu á pönnu og mýkið hvítlaukinn, ekki brúna.
  3. Skerið brokkolíið og sólþurrkuðu tómatana í fallega bita og saxið chili. Ég sýð vatn og helli yfir brokkolíið til að mýkja það aðeins.
  4. Setjið blómkálið, hvítlaukinn ásamt olíunni af pönnunni, mjólkina, næringargerið, sítrónusafann, laukduftið, hvítlauksduftið, smjörið, saltið og piparinn í blandarann og blandið þar til það verður að fallegri sósu. Gæti alveg tekið smá stund. Hér má setja smjörið út í ef þið viljið gera sósuna aðeins extra.
  5. Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum og látið vatnið renna af þegar tilbúið gegnum sigti.
  6. Setjið pastað aftur í pottinn ásamt grænmetinu og hellið svo sósunni yfir allt. Hitið aðeins og smakkið til. Stráið steinseljunni yfir í lokin. Tilbúið!

Þessi uppskrift er frá Oh She Glows sem er frábær síða. Þar heitir uppskriftin Fettuccini “Alfredo” pasta en þar sem ég hef vanið mig á að borða ekki hvítt pasta heldur brúnt þá gat ég bara ekki keypt hvítt, glútenlaust fettuccini pasta. Ég fann mjög flott brúnt lífrænt glútenlaust pasta og notaði það í þessa uppskrift. Að sjálfsögðu má alveg nota venjulegt pasta, heilhveiti- eða speltpasta með þessum rétti og sjálfri finnst mér speltpasta lang bragðbest. Ég er sem betur fer ekki með neitt glútenóþol heldur langaði mig bara að prófa að taka það út sem ég gerði í nokkra mánuði og fann þá þessa uppskrift. Sósa er mjög góð “rjóma”pastasósa án þess að innihalda rjóma né ost og því góður kostur fyrir þá sem vilja ekki nota mjólkurvörur. Það væri líka hægt að skella kjúklingabitum út í sem er örugglega mjög gott.

 

 

 

 

 

 

1 2 3 4 7