Posts Tagged ‘hnetulaust’

Eplasnarl

IMG_5796Innihald: / 4 græn epli / 3-5 cm engiferrót / 30 blöð fersk mynta / 1/2 – 1 lime.

Aðferð: allt sett í safapressuna og best að pressa myntublöðin og engiferið milli eplanna.

Þetta er einn uppáhalds djúsinn minn. Svo ferskur og einfaldur með aðeins fjórum innihaldsefnum. Ég fékk þessa uppskrif senda frá Telmu Matt á fitubrennsla.is. Telma er algjör heilsusnillingur og er með frábæra facebook síðu.

Kókossúpa

IMG_4218Innihald: / 1 msk ghee eða olía / 1 laukur / 3 gulrætur / 1/2 sæt kartafla / 1 sellerístilkur / 2 hvítlauksgeirar / 2 msk hollur grænmetiskraftur / 1/2 l vatn / 1 dós kókosmjólk / 1 tsk karrý / smá salt / ögn cayenne pipar.

  1. Setjið olíu í pott, saxið laukinn, skerið grænmetið niður og setjið út í.
  2. Bætið vatninu við þegar grænmetið er orðið gullið.
  3. Kryddið og látið sjóða í ca. 15 mín.
  4. Maukið með töfrasprota í pottinum.
  5. Síðan bætiði kókosmjólkinni út í og hitið smá.

Ég setti smá kasjúhnetur út í en þá er uppskriftin auðvitað ekki lengur hnetulaus. Mild og góð súpa. Algjört uppáhalds, love it!

Þú finnur kókosmjólk hjá asísku vörunum í flestum búðum og svo er til hollari útgáfa sem er yfirleitt í lífrænu deildinni.

Berjabrauð

IMG_6347Innihald: / 2 dl maísmjöl / 1/2 dl hörfræ (mulin í kaffikvörn) / 1 msk psyllium husks / 3 tsk vínsteinslyftiduft / smá salt / 3 dl möndlu- eða hrísmjólk / 3-4 msk kókosolía / 1 dl frosin hindber.

  1. Hitið ofninn á 250gr.
  2. Blandið saman öllum þurrefunum.
  3. Blandið saman kókosolíunni og mjólkinni og hellið saman við þurrefnin.
  4. Látið deigið standa í ca. 5-10 mínútur.
  5. Bætið varlega nokkrum berjum við deigið en passið að liturinn smiti ekki með því að vera að hræra mikið í deiginu eftir að berin eru komin út í.
  6. Setjið í form og bakið í ca. 12-15 mínútur.

Þetta fallega brauð er ég búin að gera nokkrum sinnum. Mér finnst betra að setja það ekki í of djúpt form, þ.e.a.s. það er betra að brauðið sé í þynnra lagi. Ótrúlega gott nýbakað brauð með uppáhalds berjunum mínum.

IMG_6364Þessi uppskrift er frá http://www.hurbrasomhelst.se

Glútenlausar vöfflur

IMG_5973Innihald: / 1 bolli bókhveiti / 1 bolli rísmjöl / 1/2 bolli hirsiflögur / 1 1/2 tsk vínsteinslyftiduft / smá sjávarsalt / 1 1/2 msk sesamfræ / 1 1/2 msk hampfræ / 2 egg / 4-5 msk ólífuolía/kókosolía eða smjör / 2 bollar vatn, möndlu- eða hrísmjólk / smá erythritol eða stevia.

  1. Blandið þurrefnunum saman og hrærið út með hluta af vökvanum.
  2. Bætið eggjunum út í og hrærið vel.
  3. Blandið olíunni saman við og síðan restinni af vökvanum.
  4. Skellt í vöfflujárnið eða búið til lummur.

Namminamminamm…….. það er svo gott að fá sér nýbakaða vöfflu. Þessar komu svo sannarlega á óvart og ekki skemmir fyrir hvað þær eru hollar. Ég notaði 3 msk af ólífuolíu og 2 msk af kókosolíu í þessa uppskrift en það er örugglega bragðbest að nota smá smjör. Mér finnst allt verða gott með smjöri, úps!  Reyndar átti ég ekki nema 1/2 bolla af rísmjöli svo ég notaði 1/2 bolla af Tapica mjöli á móti en svo las ég einhvers staðar að Tapica er víst ekki gott fyrir skjaldkirtilinn. Alla vega, þá vitum við það :)

IMG_6007

 

Hrökkbrauð með laukbragði

IMG_5068Innihald: 1 dl maísmjöl / 1 dl bókhveiti (eða möndlumjöl) / 1 dl sesamfræ / 1/2 dl mulin hörfræ (í kaffikvörn) / 1/2 dl sólblómafræ / 1/2 dl hampfræ / 1/4 dl chiafræ  / 2 1/4 msk kókosolía / 2 1/2 dl soðið vatn / 1-2 tsk laukduft / birkifræ / smá salt í deigið og til að strá yfir

  1. Hrærið saman þurrefnunum (ég nota frekar mikið laukduft, gefur svo gott bragð).
  2. Sjóðið vatnið, setjið kókosolíuna út í og hrærið saman við deigið.
  3. Setjið bökunarpappír á plötu, síðan deigið og annan bökunarpappír ofaná og dreifið um plötuna með höndunum. Þannig klístrast ekki hendurnar og mun auðveldara að eiga við.
  4. Stráið smá birkifræjum og salti yfir og setjið aftur bökunarpappírinn yfir og þrýstið smá.
  5. Skerið í kex með pizzaskera.
  6. Bakið við 175gr í 25-35 mín.

Ég elska hrökkbrauð og gæti borðað það í öll mál. Þetta hrökkbrauð er svooooo gott og svakalega einfalt að gera. Áður en ég komst upp á lagið með að búa það til sjálf var ég áskrifandi á Finn Crisp, þessu þunna brúna. Núna geri ég mér mitt eigið hrökkbrauð sem er svo mikliu, miklu betra og hollara. Svo ótrúlega gott með t.d. hummus, rauðrófumauki eða bara smjöri og osti þess vegna. Ég hef einnig bætt við rifnum parmesan osti ofaná og sett svo inn í ofn og það var algjör snilld. Ég skora á þig að prófa, þú verður ekki fyrir vonbrigðum.

IMG_5896-4

Hugmyndin að þessu hrökkbrauði kemur frá yndislegu síðunni hennar Hönnu Göransson http://hurbrasomhelst.se

Heimsins besta quinoa súkkulaðikaka

IMG_6197Innihald: / 2 bollar (300 g) soðið quinoa (ca. 3/4 bollar ósoðið lagt í bleyti) / 1/3 bolli (1 dl) möndlumjólk (ósæt) / 4 egg / 1 tsk vanillu extract / 1/2 bolli (50 g) smjör  / 1/4 bolli (3/4 dl) kókosolía / 1 bolli (150 g) kókospálmasykur / 1 bolli (100 g) kakóduft / 1/2 tsk matarsódi / 2 tsk vínsteinslyftiduft / 1/2 tsk maldon salt

Krem: / 1 dós kókosmjólk / 200 g 70% eða 85% súkkulaði.

Hefur þú prófað að baka köku úr quinoa? Spennandi! Áður en þið byrjið er gott að vera búin að græja quinoa og kremið. Það þarf að láta quinoa liggja í bleyti yfir nótt, skola síðan vel, elda og kæla. Quinoa á að vera mjúkt og létt þegar það er tilbúið. En ef ekki þá verður kakan eins og frönsk súkkulaðikaka sem er líka allt í lagi. U.þ.b. 3/4 bollar af þurru quinoa gera 2 bolla af því soðnu. Til að búa til kremið þá er best að geyma kókosmjólkina inni í ísskáp yfir nótt svo að hún nái að skilja sig. Það er mjög gott að búa til kremið daginn áður en þó ekki nauðsynlegt.

  1. Stillið ofninn á 175 gr.
  2. Takið fram tvö kökuform, klippið börkunarpappír í tvo hringi og leggið í botnana.
  3. Bræðið smjörið, kælið það smá og setjið kókosolíukrukkuna undir heitt vatn til að fá hana fljótandi.
  4. Blandið saman eggjum, mjólk og vanillu extract í blandaranum í ca. 10 sek.
  5. Bætið síðan tilbúnu quinoa, smjörinu og kókosolíunni út í blandarann þar til allt verður mjúkt eða í ca. 1/2 – 1 mín.
  6. Setjið þurrefnin í skál og hrærið blöndunni úr blandaranum vel saman við.
  7. Skiptið deiginu í tvennt og bakið í 30 mínútur og kælið þegar tilbúið.
  8. Til að búa til kremið þá bræðið þið súkkulaðið á lágum hita í potti.
  9. Takið kókosmjólkina úr ísskápnum en passið að hrista ekki dósina. Við viljum nota þykka hlutann af kókosmjólkinni. Setið hann út í pottinn og bræðið saman við súkkulaðið. Ef blandan er enn mjög dökk þá bætið þið meira af kókosmjólkinni út í.
  10. Setjið síðan kremið í skál og látið kólna í smá stund á borði, lokið skálinni og kælið í ísskápnum í nokkrar klukkustundir eða þar til kremið hefur þykknað. Þess vegna gæti verið gott að gera kremið kvöldið áður.
  11. Þegar kremið er orðið þykkt þá er það þeytt með handþeytara á miklum hraða í 1/2 – 1 mínútu eða þar til það er orðið að flottu kökukremi.

Þessi kaka er frekar viðkvæm svo færið hana bara einu sinni. Ég mundi taka hana beint úr mótinu, setja hana á fallegan kökudisk og setja kremið á hana þar. Látið botninn snúa upp á kökunni og ekki gleyma að setja krem á milli botnanna! Geymið kökuna í ísskáp þar til á að bera hana fram því kremið bráðnar þegar það er heitt en við vitum að þannig veður er ekki vandamál hér á Íslandi svo kakan ætti að vera góð í nokkra tíma á borði.

Líka gaman að segja frá því að Edda mín 12 ára vill hafa þessa í afmælinu sínu. Ekki slæm meðmæli!

Verði ykkur að góðu :)

IMG_6262

Þessa köku fann ég á makingthymeforhealth.com

 

 

RMVJ

IMG_4402Innihald: / 2 gulrætur / 2 stk sellerí / 2 græn epli / 1/3 rauðrófa / 1/3 gúrka eða eitthvað grænt eins og spínat / 1/2 sítróna / 1 hvítlauksgeiri / smá engiferbiti

Aðferð: þessi safi er pressaður í safapressu en ef þið eigið ekki svoleiðis þá notiði bara blandarann og síið djúsinn frá hratinu gegnum síupoka (fæst í Ljósinu Langholtsvegi).

RMVJ stendur fyrir Raw Mixed Vegetable Juice og er talinn einn sá næringarríkasti sem þið getið skellt í ykkur. Sumum finnst kannski skrítið að djúsa hvítlauk en hvítlaukur er t.d. ótrúlega sveppa- og bakteríudrepandi. Þessi safi er notaður í The Great Liquid Diet eða GLD sem Dr. Leonard Mehlmauer þróaði í sinni lækningafræði (1). Try it!

 

Speltvöfflur

IMG_5875Innihald: / 300 g gróft spelt / 100 g kókoshveiti / 5 msk kókosolía eða 50 g smjör / 2 egg / 2 tsk vanillu- eða möndludropar / 400 ml kókosmjólk og/eða möndlumjólk / 300 ml vatn.

  1. Hrærið saman þurrefnunum.
  2. Mér finnst gott að blanda saman öllum vökvanum og hella svo yfir þurrefnin og hræra þannig saman í deig.
  3. Gott með jarðarberja-sultulínu og þeyttum rjóma.

IMG_5835

Rauð linsusúpa

 

IMG_4995Innihald: / 1 msk ólífuolía, kókosolía eða ghee / 1 laukur / 2-3 hvítlauksrif / lítið blómkálshöfuð / lítið brokkolíhöfuð / 1 rauð paprika / 1 tsk oregano / 1 tsk basilika / smá salt / 2 msk hollur grænmetiskraftur / 1 flaska/dós maukaðir tómatar / 2 msk tómatpúrra / 750 ml vatn / 2 dl rauðar linsubaunir

  1. Hitið olíuna á pönnu og mýkið laukinn og hvítlaukinn.
  2. Setjið grænmetið saman við ásamt baununum og vökvanum og sjóðið í 30 mín. Tilbúin súperholl súpa.

Ég átti rauðar linsubaunir frá tveim mismunandi merkjum. Á öðrum stóð að rauðar linsubaunir þyrfti ekki að leggja í bleyti en á hinum voru leiðbeiningar um að baunirnar þyrftu að vera í bleyti í 10-12 tíma. Ég náði að hafa baunirnar í bleyti í 3 tíma og það virkaði bara ljómandi vel. Það er gott að muna eftir að setja 1 tsk af matarsóda í vatnið með baununum.

Hugmyndin að þessari uppskrift kemur úr bókinni Betri næring –  betra líf eftir Kolbrúnu Björnsdóttur.

Hvítlauksolía

IMG_3884Innihald: / 1 dl kaldpressuð, lífræn ólífuolía eða ghee (nýtt uppáhalds) / 4 pressuð hvítlauksrif.

Aðferð: setjið olíuna í pott og hitið við lágan hita (mikilvægt). Kreistið hvítlaukinn út í og setjið síðan í krukku.

Ég geri alltaf svona hvítlauksolíu með pizzu. Tekur enga stund. Ég reyndar prufaði að gera hana síðast úr ghee í staðinn fyrir að nota ólífuolíuna og krökkunum fannst hún æðisleg. Ég kláraði hana með skeið upp út krukkunni meðan ég gekk frá. Án gríns það gerðist!

1 2 3 4