Posts Tagged ‘sykurlaust’

Sellerírótarsúpa

IMG_5110Innihald: / ghee eða kókosolía til steikingar / 1 sellerírót / 3 gulrætur / 100 g þurrkaðir tómatar / 2 hvítlauksrif / 2 msk grænmetiskraftur / 1 msk oregano / 1 msk turmeric / 500-750 ml vatn / 1 dós kókosmjólk / nokkrir dropar fiskisósa / salt og pipar.

  1. Skerðu sellerírótina og gulræturnar smátt og láttu mýkjast í olíunni.
  2. Bættu svo tómötunum, hvítlauknum og kryddinu við og passaðu að láta tómatana mýkjast.
  3. Settu vatnið út í og láttu malla í ca. 10 mín.
  4. Taktu þá töfrasprota og maukaðu súpuna. Áferðin á að vera frekar gróf.
  5. Settu svo kókosmjólkina út í og kryddaðu til .

Þessi súpa er sprengholl og stútfull af frábærri næringu. Haustið er einmitt súputími og snilld að nota haustuppskeruna í súpugerð. Þessi klikkar ekki og mér finnst frábært að nota kókosmjólk í súpur. Ég sá þessa uppskrift í bókinni hennar Þorbjörgu Hafsteinsdóttur 9 leiðir til lífsorku en breytti henni bara örlítið. Ég er að lesa bækurnar hennar þessa stundina og rekst á svo endalaust mikið gott og sniðugt sem ég verð bara að deila. Þessi bók hennar Þorbjargar er frábær og fullt af flottum og súperhollum uppskriftum þar.

Blómkáls-Fusilli “Alfredo” pasta

IMG_6374Innihald: / 1 blómkálshöfuð (lítið eða meðalstórt) / 1/2 msk ólífuolía / 3 hvítlauksgeirar / 1 dl hrís- eða möndlumjólk / 1/2 dl næringarger / 1 msk ferskur sítrónusafi / 1/2 tsk laukduft / 1 tsk hvítlauksduft / 1-2 msk smjör (má sleppa) / smá sjávarsalt / smá pipar / 250 g glútenlaust fettuccini pasta (eða bara ykkar val af pasta) / 1 brokkolíhöfuð / 1 rautt chili / nokkrir sólþurrkaðir tómatar / steinselja.

  1. Setjið blómkálið í pott og látið vatnið ná alveg yfir. Látið suðuna koma upp og sjóðið í 5-7 mín. eftir að suðan er komin upp eða þangað til að blómkálið er orðið mjúkt. Látið svo vatnið renna af.
  2. Setjið olíu á pönnu og mýkið hvítlaukinn, ekki brúna.
  3. Skerið brokkolíið og sólþurrkuðu tómatana í fallega bita og saxið chili. Ég sýð vatn og helli yfir brokkolíið til að mýkja það aðeins.
  4. Setjið blómkálið, hvítlaukinn ásamt olíunni af pönnunni, mjólkina, næringargerið, sítrónusafann, laukduftið, hvítlauksduftið, smjörið, saltið og piparinn í blandarann og blandið þar til það verður að fallegri sósu. Gæti alveg tekið smá stund. Hér má setja smjörið út í ef þið viljið gera sósuna aðeins extra.
  5. Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum og látið vatnið renna af þegar tilbúið gegnum sigti.
  6. Setjið pastað aftur í pottinn ásamt grænmetinu og hellið svo sósunni yfir allt. Hitið aðeins og smakkið til. Stráið steinseljunni yfir í lokin. Tilbúið!

Þessi uppskrift er frá Oh She Glows sem er frábær síða. Þar heitir uppskriftin Fettuccini “Alfredo” pasta en þar sem ég hef vanið mig á að borða ekki hvítt pasta heldur brúnt þá gat ég bara ekki keypt hvítt, glútenlaust fettuccini pasta. Ég fann mjög flott brúnt lífrænt glútenlaust pasta og notaði það í þessa uppskrift. Að sjálfsögðu má alveg nota venjulegt pasta, heilhveiti- eða speltpasta með þessum rétti og sjálfri finnst mér speltpasta lang bragðbest. Ég er sem betur fer ekki með neitt glútenóþol heldur langaði mig bara að prófa að taka það út sem ég gerði í nokkra mánuði og fann þá þessa uppskrift. Sósa er mjög góð “rjóma”pastasósa án þess að innihalda rjóma né ost og því góður kostur fyrir þá sem vilja ekki nota mjólkurvörur. Það væri líka hægt að skella kjúklingabitum út í sem er örugglega mjög gott.

 

 

 

 

 

 

Rosa Mexicano Guacamole

IMG_8715Innihald: / 1 laukur / 1/2 – 1 ferskt jalapeno / 4 kúfullar msk kóríander / 3 avocado / 1-2 saxaðir tómatar / tortilla flögur.

Chile paste: uppskrift fyrir ca fjóra

  1. Takið ca. 3 msk af fínsöxuðum lauk, 2 kúfullar msk af fínsöxuðu kóríander, 2 msk eða meira af fínsöxuðu jalapeno og 1 tsk salt.
  2. Setjið allt í mortel og stappið eða kremjið þar til laukurinn er næstum horfinn og þar til allt er vel blandað saman. Ef þú átt ekki mortel gætir þú notað gaffal og víða skál.

IMG_8669

  1. Takið síðan þrjú miðlungsþroskuð avocado og skerið eftir endilangri miðju. Snúið helmingunum til að skilja þá að. Takið steininn úr með hníf og skerið svo fjórar renndur niður og fjórar þversum án þess að skera niður í skinnið. Þannig náið þið avocadoinu best upp úr skinninu (sést betur í myndbandinu hér að neðan).

IMG_8680

  1. Bætið út í 2 kúfullum msk af fínsöxuðu kóríander, 2 msk af fínsöxuðum lauk, smá salti og blandið varlega saman. Þið ráðið hversu þykka þið viljið hafa avocado bitana eftir því hversu mikið þið stappið þessu saman.
  2. Setjið 3-4 msk af söxuðum tómötum út í síðast. Ég reyndar set alltaf svolítið mikið meira af tómötum, mér finnst það svo miklu betra.
  3. Ef ykkur finnst mikið eftir af hráefni þá bara bætið þið meiru út í grunninn eins og af lauknum eða kóríander. Þetta er ekkert heilagt heldur notið bara sem viðmið. Kannski einna helst að passa upp á jalapeno-ið því það er svo sterkt.

IMG_8695

Stundum þegar ég fer til New York stelst ég á veitingastað sem heitir Rosa Mexicano við Union Square og fæ mér besta guacamole í heimi. Það eru þrír Rosa Mexicano veitingastaðir í New York og þeir eru víðar um Bandaríkin. Það sem gerir þetta guacamole svo ómótstæðilegt er að það er handgert í mortel og búið til við borðið þitt. Rosa Mexicano opnaði fyrst árið 1984 og þeir eru þekktir fyrir guacamole gerð sína. Ef þú átt leið til New York eða aðra staði í Bandaríkjunum þar sem Rosa Mexicano er þá verður þú að prófa guacamole-ið þeirra.

Hér getur þú horft á stutt og flott myndband hvernig þeir á Rosa Mexicano gera þetta og heldur betur af lífi og sál.

Ég keypti mortelið mitt í DUKA fyrir löngu, löngu síðan en mig langar að segja þér frá dásamlegri eldhúsbúð sem heitir SUR-LA-TABLE sem er að finna í Bandaríkjunum. Ég hreinlega elska þessa búð og fer yfirleitt í hana þegar ég fer til Seattle en hún er niðri við Pike Place markaðinn. Hún er líka í Soho NY og á mörgum öðrum stöðum. Rauðu sleifarnar á uppskriftarmyndunum hér að ofan eru úr þeirri búð og þær eru meiriháttar.

IMG_8526

Verði ykkur að góðu :)

 

Quinoa kjúklingasalat með engifersósu

IMG_6232Innihald: / 3-4 dl kínóa / 6-8 dl vatn / 1 heill kjúklingur / 1/2-1 poki spínat eða annað grænt kál / 1 rauð papríka / 1 gul papríka / 1 appelsínugul papríka / furuhnetur eftir smekk / graskersfræ eftir smekk / 1 krukka fetaostur / 1 avocado (betra að það sé ekki of mjúkt) / 1 mangó.

  1. Byrjið á að leggja kasjúhnetur í bleyti fyrir salatdressinguna (2 tíma).
  2. Sjóðið kínóað og kælið. 4 dl af þurru kínóa til að sjóða gerir stórt salat. Hér sérðu hvernig mér finnst best að sjóða kínóa.
  3. Eldið kjúklinginn, ég nota yfirleitt heilan kjúkling og kryddaði með kjúklingakryddi, fersku timjan og rósmarín.
  4. Skerið niður allt grænmeti (líka spínatið) og skerið kjúklinginn í bita.
  5. Öllu blandað vel saman á stóran disk eða í skál og mangóið sett síðast ofan á.
  6. Það getur verið gott að setja sítrónusafa yfir kínóað meðan það er að kólna.
  7. Þetta salat er fyrir ca. 4-6 manns.

Engiferdressing: / 1 hvítlauksgeiri / 2-3 cm engifer / 1 1/2 dl kasjúhnetur sem hafa legið í bleyti í amk 2 tíma / 3 msk eplaedik eða ris vinegar / 1/2 dl kaldpressuð ólífuolía /  3 msk hlynsíróp / smá þurrkað chili / smá maldon salt / 3 msk vatn.

Ég bara elska þetta salat og það er t.d. algjör snilld í saumaklúbbinn eða í veislu þar sem þú vilt bjóða upp á einfalt og gott salat. Engifersósan fer sérstaklega vel með því og ég fékk uppskriftina hjá henni hjá Jönu minni. Þessi salatdressing er alveg meiriháttar góð. Um daginn keyptum reyndar engiferdressingu á LOCAL sem er lítill, kósí heilsustaður í Borgartúninu og notuðum með þessu salati. Ég held reyndar að dressingin hafi verið japönsk en þau selja einnig sesarsósu og mexíkóska dressingu og þær eru allar frábærar :) LOCAL er alveg málið.

Grunnur að morgungraut

IMG_5673-2Innihald: / 1-2 dl tröllahafrar (e.t.v. glútenlausir) / 1/2 dl chiafræ / möndlumjólk (helst heimagerð) / kanill / vanilluduft / salt.

  1. Setjið allt saman í skál og látið liggja í bleyti helst yfir nótt. Mjólkin á rétt að fljóta yfir.

Ég geri mér stundum svona morgunmat. Hægt er að leika sér fram og tilbaka með því að bæta við ávöxtum og alls kyns fræjum en þetta er amk. grunnurinn. Hann er ekki tilbúinn hér á myndinni heldur tilbúinn í ísskápinn fyrir nóttina.

Fiskur í sinnepssósu

IMG_7280Innihald: / 2 ýsu- eða þorskflök (bein- og roðlaus) / 1 laukur / 2 gulrætur / 1 lítið brokkolí / 2 msk grænmetiskraftur / 2-3 cm engifer / 150-200 ml rjómi / 3 msk dijon sinnep / salt og pipar / kókosolía til steikingar.

  1. Mýkið grænmetið á pönnu í olíunni og kryddið með grænmetiskraftinum.
  2. Takið grænmetið af pönnunni og setjið fiskinn á pönnuna.
  3. Hellið rjómanum út á, bætið sinnepinu út í og engiferinu. Leyfið að malla í smá stund.
  4. Setjið grænmetið út á pönnuna. Tilbúið fyrir 5 manna fjölskyldu :)

Ég verð að deila þessum fiskrétti sem ég bjó til því hann tókst svona ljómandi vel. Meira að segja krökkunum fannst hann rosa góður… eða kannski voru þau bara svona svöng :) Ég hef alla vega gert hann nokkrum sinnum og þeim finnst hann alltaf jafn góður. Ég viðurkenni að ég kaupi mjög oft tilbúna fiskrétti en passa alltaf að spurja hvað sé í þeim og vel hollasta kostinn ef mér líst á hann.

 

 

 

Paleo hamborgari

IMG_7319Innihald: / 700 g nautahakk / 2 hvítlauksrif / 1/2 laukur / 1 egg / 1 eggjarauða / 1 tsk sjávarsalt / 1 tsk pipar  (gerir fjóra borgara) / 1-2 sætar kartöflur fyrir brauð.

  1. Steikið lauk og hvítlauk á pönnu, setjið í skál og blandið við hakkið.
  2. Bætið eggi og eggjarauðu við hakkið og blandið vel.
  3. Mótið fjóra hamborgara og steikið á pönnu við meðalhita.
  4. Hægt að bera fram með spældu eggi og beikoni fyrir þá sem vilja það.
  5. Frábært með avocado- og wasabimajonesi.

Sætar kartöflur (hamborgarabrauð): / 1-2 sætar kartöflur. Veljið þá stærð sem hentar til að skera niður í 8 sneiðar og kryddið með uppáhalds kryddinu ykkar. Ég notaði franskt kartöflukrydd frá Pottagöldrum, smá túrmerik, olíu og salt. Ég skar þær í frekar þunnar sneiðar og setti þær í ofninn á 180g. þar til þær verða mjúkar.

Þessi uppskrift er í bókinni hennar Berglindar Sigmarsdóttur Nýjir Heilsuréttir fjölskyldunnar sem er dásamleg bók og ætti að vera til á öllum heimilum. Berglind notar beikon og spæld egg með sem er örugglega guðdómlega gott en ég sleppti því hér. Þegar ég hef ekki mikinn tíma og get ekki undirbúið hamborgarana á þennan hátt fer ég í Frú Laugu og kaupi tilbúna hamborgara úr fyrsta flokks nautahakki. Þeir eru dýrir en svo gjörsamlega þess virði.

Hvítlaukshummus

IMG_4375Innihald: / 1 dós kjúklingabaunir / 2 msk sesamsmjör eða tahini / 1-2 pressuð hvítlaukrif / 1 tsk ferskur sítrónusafi / 1 tsk rifið engifer / 1 tsk cumin / 3 msk ólífuolía / smá cayenne pipar / salt og pipar / vatn ef þarf.

Aðferð: skolið kjúklingabaunirnar undir köldu vatni, blandið öllu saman í blandara eða matvinnsluvél.

Hummus geymist 4-5 daga í loftþéttum umbúðum í kæli. Algjör snilld með t.d. hrökkbrauði.

Uppáhalds pizzan okkar

IMG_7203Innihald: / 5 dl spelti eða heilhveiti / 1 1/2 dl fjölkornablanda frá LÍF eða einhver önnur fræ / 1 1/2 dl gróft haframjöl / 2 msk oregano / 1/2 tsk sjávarsalt / 2 msk vínsteinslyftiduft / 2 1/2  dl volgt vatn / 8 msk ólífuolía

  1. Blandið þurrefnunum saman, hellið vatni og olíu út í og bætið auka mjöli út í ef þarf.
  2. Hnoðið saman og skiptið upp í hluta eða búið til stóra botna.
  3. Ef þið viðjið bara setja ferskt hráefni ofaná pizzuna eins og græna sósu, sólþurrkaða tómata, ferskt grænmeti, ferskan parmesan, hráskinku þá bakiði botnana í ca. 10-15 mín við 200gr og setjið svo ferska hráefnið ofnaá. Hér er t.d. ég með rauðrófumaukið góða.
  4. Ef þið viljið gera venjulega pizzu, þ.e. með pizzasósu, skinku, pepperoni, osti og ananas sem þarf að fara aftur inn í ofn þá bakið þið botninn í ca. 5 mín. Setjið svo aftur inn í ofn með öllu gúmmelaðinu á þar til osturinn er bráðinn og pizzan tilbúin.
  5. Hér er nauðsynlegt að sulla vel af hvítlauksolíu ofan á.

Þegar ég geri pizzu geri ég eiginlega alltaf þessa botna og krakkarnir biðja um holla pizzu í hverri viku. Þau hreinlega elska þennan rétt en þeirra pizza er ennþá svona þessi týpíska með áleggi, osti og ananas. Ég er bara glöð að þau vilji þennan botn en ekki tilbúinn hveitibotn. Eldri stelpan mín er reyndar dugleg og prófar alltaf hollari útgáfuna sem er frábært.

Uppskriftin af botninum kemur úr bókinni Happ Happ Húrra.

Eplasnarl

IMG_5796Innihald: / 4 græn epli / 3-5 cm engiferrót / 30 blöð fersk mynta / 1/2 – 1 lime.

Aðferð: allt sett í safapressuna og best að pressa myntublöðin og engiferið milli eplanna.

Þetta er einn uppáhalds djúsinn minn. Svo ferskur og einfaldur með aðeins fjórum innihaldsefnum. Ég fékk þessa uppskrif senda frá Telmu Matt á fitubrennsla.is. Telma er algjör heilsusnillingur og er með frábæra facebook síðu.

1 2 3 4 5