5 vikur með Þorbjörgu Hafsteins

IMG_2116_2

Þorbjörg Hafsteinsdóttir næringarþerapisti hefur undanfarið staðið fyrir námskeiðinu Ljómandi og 10 árum yngri á 5 vikum en undirskrift námskeiðsins er meiri orka, kjörþyngd og fallegri húð á 28 dögum. Ég skellti mér á námskeiðið hennar með hóp af bráðskemmtilegu fólki. Hér getur þú lesið um það helsta sem fram fór á námskeiðinu.

Námskeiðið er ekki sett fram sem átaksnámskeið þó svo farið sé í eina öfluga hreinsunarviku af þessum fimm, heldur er um að ræða ákveðna kynningu á lífsstílsbreytingu sem vonandi opnar dyr að áframhaldandi lífsstíl sem fólk vill halda í. Námskeiðið er bæði hugsað fyrir þá sem eru að taka sín fyrstu spor í áttina að sykurlausum lífsstíl og meiri sjálfsábyrgð og einnig þá sem eru löngu komnir af stað en vilja fá stuðning og nýjan innblástur.

Á námskeiðinu fer Þorbjörg skref fyrir skref í gegnum þau verkfæri sem við getum notað ef:

  • meltingin er í ólagi og maginn uppblásinn
  • skammdegisþreytan gerir þig lata og vondaufa
  • húðin er þreytt, slöpp og gráleit
  • hormónarnir eru í ójafnvægi
  • álagið og streitan sést í andlitinu þínu
  • svefninn er í ólagi
  • þú glímir við bólgur og vökvasöfnun
  • þú ert farin að borða allt of mikinn sykur og allt of mikið brauð

VIKA 1 – VAKNAÐU

Fyrsta vikan fór í að kynna hvaða fæða skapar jafnvægi og var okkur kennt hvaða bætiefni koma blóðsykrinum í lag og orkunni upp. Í rauninni var engu sleppt fyrstu vikuna þó svo Þorbjörg ráðlegði okkur að byrja hægt og rólega að minnka kaffidrykkju, slæmu kolvetnin og sykurát. Útskýringar Þorbjargar eru allar á mannamáli. Hún segir að kolvetnaríkur morgunmatur (einföld kolvetni) kalli á kolvetni allan daginn. Ef þú borðar kolvetnaríkan morgunmat sem inniheldur einföld kolvetni og er sykurmikill vill líkaminn meira af þeim allan daginn, þá eykst kaffineyslan til að fá orkuna upp aftur. Þess vegna er betra að byrja daginn á próteinum.

VIKA 2 – HREINSAÐU

Hér byrjuðum við á svokölluðu „hellisbúamataræði“ en það er visst afturhvarf til þess tíma þegar við borðuðum mun meira af próteinum en við gerum í dag og hreyfðum okkur einnig miklu meira. Það sem við tókum út úr mataræðinu var matur sem býr til streitu og bólgum eins og korn, sykur, áfengi og ýmislegt fleira. Lögð var áhersla á að borða hreinan og ferskan mat. Þegar fólk fer virkilega að hugsa betur út í það hvað það setur ofan í sig verða flestir varir við hversu ótrúlega lítið vatn þeir drekka og það kom hópnum nokkuð á óvart. Þorbjörg fór skemmtilega í allt samskiptakerfi líkamans og gaf okkur bætiefnaplan fyrir orku og húð.

VIKA 3 – GLEÐSTU

Í þriðju vikunni tíndi Þorbjörg meira af matarlistanum okkar eins og allt kjöt en fullt af öðrum próteingjöfum var haldið inni. Og nú mátti ekkei drekka neitt kaffi, ekkert súkkulaði og lítið var um ávexti. Við áttum líka að kíkja í eldhússkápana og taka burt matvælin sem ræna okkur orku. Þegar fólk tekur til í mataræði sínu skiptist það yfirleitt í tvo hópa. Annars vegar eru þeir sem henda öllu og skipta alveg yfir á einni nóttu og svo hinir sem klára hægt og rólega það sem til er og kaupa svo inn betri kost næst þegar eitthvað vantar. Ég tilheyri seinni hópnum og geri yfirleitt breytingar hægt og rólega. Þessa viku fengum við einnig kynningu á hreinum húðvörum og fræðslu um hvaða efni ætti helst að forðast í snyrtivörum.

 VIKA 4 – DETOX VIKAN

Þegar við höfum ekki vandað okkur í fæðuvalinu sést það vel í andlitinu og systurnar þreyta og streita verða fastagestir í lífi okkar. Hópurinn var settur á fljótandi fæði í eina viku, dagarnir byrjuðu á einum grænum afsýringardrykk og í tvo daga tókum við inn hreinsunar-detox-sjokk drykk. Það er alveg ótrúlega gott að taka eina viku á fljótandi fæði en það er alls ekki átakalaust, sérstaklega ekki síðustu dagana. Þess vegna er svo gott að fara í gegnum svona prógram með öðru fólki og með stuðningi frá leiðbeinanda sem átti sér stað í gegnum facebook hóp sem var stofnaður í kringum námskeiðið. Í detox viku er gott að fara í gufu, jóga, nudd, hugleiðslu, hvíla sig vel og fara í gegnum þetta á jákvæðu nótunum.

VIKA 5 – LIFÐU

Það er mikil áskorun að taka heila viku á fljótandi fæði en það kom þó flestum á óvart að það reyndist auðveldara en þeir höfðu gert sér í hugarlund. Fyrir mig reyndust fjórði og fimmti dagurinn erfiðastir og ég hefði örugglega gefist upp fyrr ef ég hefði ekki haft stuðning frá hópnum og þá vissu að ég var ekki að þessu ein. Svo skiptir máli að annað fólk sýni manni tillitssemi. Mér var t.d. boðið í ótrúlega flott stelpumatarboð en þar sem ég var búin með heila tvo daga tímdi ég ekki að rjúfa föstuna til þess eins að þurfa að byrja upp á nýtt á öllu saman. Ef ég hefði verið að þessu ein hefði ég sennilega hætt þarna í matarboðinu en vegna þess að svo var ekki þá sagði ég vinkonum mínum að ég væri að fasta og í stað þess að gagnrýna ig sýndu þær mér fullan skilning og það skiptir ótrúlega miklu máli. Að vera á fljótandi fæði léttir og hvílir meltingarkerfið og eftir á upplifir fólk ákveðna vakningu, fer að fylgjast miklu betur með hvað það lætur ofan í sig, velur meðvitað í stað þess að grípa það sem hendi er næst og fer að kaupa inn með öðru hugarfari. Fólk fer að skoða hvað það hefur verið að borða og hefur jafnvel verið háð. Bragðskyn getur breyst, því allt í einu er græni safinn sem var ekki svo góður í byrjun orðinn algjörlega ómissandi og sætt nammi orðið óþægilega mikið sætt. Svona reynsla fær mann til að staldra við og hugsa hvort eitthvað sé þess virði að borða og hvort maður nenni að vera að borga fyrir það næstu daga á eftir.

FASTAN REYNDI Á

Það var gaman að sjá hversu ótrúlega ánægt fólk var eftir þessar fimm vikur enda ákveðinn persónulegur sigur unninn. Mörgum fannst þetta eitt það besta sem þeir höfðu gert fyrir líkamann, sumir misstu mikinn vökva og losuðu sig við bjúg, aðrir öðluðust meiri ró og nokkur aukakíló fuku. Sjálf er ég frekar dugleg að halda í gott mataræði en það er samt engin afsökun fyrir því að sækja ekki svona námskeið því það er alltaf eitthvað nýtt sem lærist og það er endalaust hægt að bæta við sig og rifja upp það sem hefur gleymst. Ég fór t.d. að taka in tvær bætiefnategundir sem ég hafði ekki áður tekið inn. Það er líka frábært að eiga góðar leiðbeiningar sem hægt er að leita í aftur og aftur. Fyrir mér var það lærdómsríkt að vera á fljótandi fæði í heila viku. Ég hef aldrei dugað svo lengi áður enda aldrei haldið inni próteindrykkjum eins og Þorbjörg kenndi okkur að skipti miklu máli að gera. En góðir hlutir gerast hægt og það er gott markmið að taka einn fljótandi dag í viku því það er engin lygi að þér líður betur ef þú tekur til í mataræðinu þínu.

Leave a Reply