Archive of ‘Pasta’ category

Blómkáls-Fusilli “Alfredo” pasta

IMG_6374Innihald: / 1 blómkálshöfuð (lítið eða meðalstórt) / 1/2 msk ólífuolía / 3 hvítlauksgeirar / 1 dl hrís- eða möndlumjólk / 1/2 dl næringarger / 1 msk ferskur sítrónusafi / 1/2 tsk laukduft / 1 tsk hvítlauksduft / 1-2 msk smjör (má sleppa) / smá sjávarsalt / smá pipar / 250 g glútenlaust fettuccini pasta (eða bara ykkar val af pasta) / 1 brokkolíhöfuð / 1 rautt chili / nokkrir sólþurrkaðir tómatar / steinselja.

  1. Setjið blómkálið í pott og látið vatnið ná alveg yfir. Látið suðuna koma upp og sjóðið í 5-7 mín. eftir að suðan er komin upp eða þangað til að blómkálið er orðið mjúkt. Látið svo vatnið renna af.
  2. Setjið olíu á pönnu og mýkið hvítlaukinn, ekki brúna.
  3. Skerið brokkolíið og sólþurrkuðu tómatana í fallega bita og saxið chili. Ég sýð vatn og helli yfir brokkolíið til að mýkja það aðeins.
  4. Setjið blómkálið, hvítlaukinn ásamt olíunni af pönnunni, mjólkina, næringargerið, sítrónusafann, laukduftið, hvítlauksduftið, smjörið, saltið og piparinn í blandarann og blandið þar til það verður að fallegri sósu. Gæti alveg tekið smá stund. Hér má setja smjörið út í ef þið viljið gera sósuna aðeins extra.
  5. Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum og látið vatnið renna af þegar tilbúið gegnum sigti.
  6. Setjið pastað aftur í pottinn ásamt grænmetinu og hellið svo sósunni yfir allt. Hitið aðeins og smakkið til. Stráið steinseljunni yfir í lokin. Tilbúið!

Þessi uppskrift er frá Oh She Glows sem er frábær síða. Þar heitir uppskriftin Fettuccini “Alfredo” pasta en þar sem ég hef vanið mig á að borða ekki hvítt pasta heldur brúnt þá gat ég bara ekki keypt hvítt, glútenlaust fettuccini pasta. Ég fann mjög flott brúnt lífrænt glútenlaust pasta og notaði það í þessa uppskrift. Að sjálfsögðu má alveg nota venjulegt pasta, heilhveiti- eða speltpasta með þessum rétti og sjálfri finnst mér speltpasta lang bragðbest. Ég er sem betur fer ekki með neitt glútenóþol heldur langaði mig bara að prófa að taka það út sem ég gerði í nokkra mánuði og fann þá þessa uppskrift. Sósa er mjög góð “rjóma”pastasósa án þess að innihalda rjóma né ost og því góður kostur fyrir þá sem vilja ekki nota mjólkurvörur. Það væri líka hægt að skella kjúklingabitum út í sem er örugglega mjög gott.

 

 

 

 

 

 

Besta Pasta

IMG_6020Innihald: / 450 g speltpasta / 100 g sólþurrkaðir tómatar  / 1 rautt chili / 2 msk ferskur sítrónusafi / 50 g furuhnetur / 50 g mosarellaostur / rifinn parmesanostur / sjávarsalt / nýmalaður pipar / val: kjúklingur

Sósa: / 100 g klettasalat / 25 g fersk basilíka / 3 stk hvítlauksrif / 1 dl ólífuolía.

  1. Sjóðið pastað, látið vatnið renna vel af því og setjið í fallega skál.
  2. Skerið tómatana í strimla, fræhreinsið chili og skerið í langa strimla, þurrristið furuhneturnar og setjið allt í skálina ásamt sítrónusafanum og mosarellaostinum.
  3. Búið til sósuna með því að setja allt í matvinnsluvélina, maukið vel og hellið yfir pastað.
  4. Saltið og piprið eftir smekk og rífið parmesanost yfir.

Þennan rétt held ég að ég hafi gert langoftast í mínu eldhúsi og hann er ekki glútenlaus. Krakkanir mínir elska hann og alltaf þegar ég hef hann í boðum þá er ég beðin um uppskriftina. Hann er auðvitað frá Sollu og er í Hagkaupsbókinni Grænn Kostur undir nafninu Speltpasta með klettasalatpestó. Mér finnst við hæfi að kalla hann bara Besta Pasta þar sem þetta er besti pastaréttur í heimi að mínu mati og okkar allra í fjölskyldunni. Hann klikkar einfaldlega aldrei þessi réttur. Við erum reyndar farin að kalla hann Pastað á Gló því þar fæst mjög líkur pastaréttur sem við tökum oft heim þegar við nennum ekki að elda. Svo er líka mjög gott að bæta kjúkling út í fyrir þá sem vilja það.