Posts Tagged ‘hnetulaust’

Appelsínu saffran kjúklingasalat

IMG_2541Réttur fyrir ca. 6 manns.

Appelsínu- og saffran paste: / 1 appelsína / 50 g hunang (ég notaði akasíu) / 1/2 tsk saffranþræðir / ca. 300 ml. vatn

Salat: / 1 kg kjúklingabringur / 4 msk ólífuolía / 2 lítil fennel / 15 g kóríanderlauf / 15 g basillauf rifin / 15 g myntulauf rifin / 2 msk sítrónusafi / 1 rautt chili / 1 hvítlauksgeiri / salt og pipar.

Svona gerið þið appelsínupaste-ið:

  1. Byrjið á að hita ofninn í 180 gr.
  2. Skerið toppinn og botninn af appelsínunni, skerið í 12 báta og takið kjarnann burt.
  3. Setjið bátana með hýðinu í pott ásamt saffranþráðunum, hunanginu og vatni þannig að rétt fljóti yfir appelsínurnar.
  4. Látið suðuna koma upp og sjóðið við vægan hita í klukkustund.
  5. Útkoman á að vera mjúkar appelsínur og ca. 3 msk af þykku sýrópi en það gerðist ekki hjá mér. Appelsínurnar urðu mjúkar en ég fékk ekki þykkt sýróp svo ég notaði ekki allan vökvann þegar ég setti appelsínurnar í matvinnsluvélina til að mauka þetta saman. En úr matvinnsluvélinni á að koma þykkt mauk en samt þannig að það renni.

Salatið:

  1. Skolið kjúklingabringurnar, þerrið, setjið í ílát og veltið þeim upp úr helmingnum af ólífuolíunni og nægu af himalayan salti og pipar.
  2. Setjið síðan á heita pönnu, helst grillpönnu og brúnið í 2 mínútur á hvorri hlið.
  3. Því næst í eldfast mót og inn í 180 gr. heitan ofninn og eldið í 15-20 mínútur eða þar til tilbúið.
  4. Útbúið salatið á meðan með því að skera fennelið í þunnar sneiðar, rífa basiliku og myntu niður, bæta við kóríander og skera eitt rautt chili í þunnar sneiðar og setjið á það fat sem þið viljið bera fram á.
  5. Ég setti svo sítrónusafann, restina af ólífuolíunni og kraminn hvítlauksgeirann í litla skál og hrærði saman, setti yfir salatið og blandaði vel.
  6. Þegar kjúklingurinn hefur kólnað lítillega rífið hann þá í strimla með höndunum og setjið í skál. Hellið helmingnum af appelsínu- og saffran maukinu yfir og veltið kjúklingnum upp úr því. Hinn helminginn getið þið geymt í kæli og notað í alls konar sem ykkur dettur í hug t.d. með feitum fisk.

Gott að bera fram með bökuðum rauðlauk í valhnetusalsa. Uppskrift kemur inn von bráðar.

Jana vinkona mín benti mér á að prófa þennan rétt en hann kemur frá Ottolenghi og er mjög vinsæll réttur á veitingastað þeirra. Trikkið við þennan rétt er appelsínan, það gerist eitthvað meiriháttar þegar hún er soðin heil í mauk  Óóótrúlega gott.

 

 

Ljomandi-bordi4

Einfaldur kókos & karrý baunapottréttur

IMG_1265_2Innihald: / kókosolía til steikingar / 1 laukur / 1 bolli (þurrar) rauðar eða grænar linsubaunir / 1 sæt kartafla / 2 stórar gulrætur / 1/2 tsk turmeric / 1 msk karrý / 1 tsk engiferkrydd / smá salt / nokkur svört piparkorn / 3 – 3 1/2 bolli vatn / 1 msk grænmetiskraftur / 1/2 bolli kókosmjólk.

  1. Laukurinn skorinn frekar smátt.
  2. Skerið sætu karföfluna niður í teninga og gulræturnar langsum.
  3. Hitið olíuna og mýkið laukinn.
  4. Bætið svo kartöflunni, gulrótunum, baununum og kryddinu útí.
  5. Setjið vatnið út í pottinn og hitið að suðu, minnkið þá hitann og sjóðið í amk. 25 mínútur. Mér finnst betra að nota minna vatn en meira, annars verður þetta meira súpa.
  6. Bætið kókosmjólkinni út í.
  7. Berið fram heitt og jafnvel með quinoa.

Þessi vegan pottréttur er ótrúlega einfaldur og góður grænmetisréttur fyrir ca. 4.  Mér finnst algjör snilld að gera frekar stóra uppskrift og eiga daginn eftir í afgang til að taka með í vinnuna. Ef þú átt cast iron pott þá er gott að nota hann í þetta.

Þar sem ég er að taka út allan sykur og korn (þá sleppi ég quinoa-inu) í ákveðinn tíma er ég eiginlega búin að lifa á svona mat sem er alls ekkert mál þegar maður dettur niður á svona lostæti því þetta er mjög bragðgóður og ljúffengur pottréttur sem fljótlegt er að gera og frábært að bera fram með fullt af grænmeti.

IMG_1251_2

Uppskrift frá http://www.detoxinista.com

 

 

Bordi2

 

 

 

Heimagert sushi

IMG_7922Sushihrísgrjón: / 3 bollar sushi hrísgrjón eða stutt hýðishrísgrjón / 3 1/3 bolli vatn (10% meira en grjón).

  1. Skolið grjónin vel í köldu vatni. Mér finnst best að leggja þau í bleyti í 10-15 mín og hella af þeim 3-4x þar til vatnið er orðið glært. Tekur þá ca. 45-60 mín. Þetta er gert til að losna við umfram sterkju. Ef þetta er ekki gert verða grjónin klístruð og ónothæf eftir suðu.
  2. Þegar búið er að skola grjónin þá setjiði þau í pott sem er ekki of breiður og vatnið mælt út í.
  3. Næst er lok sett á pottinn og stillt á háan hita. Um leið og grjónin byrja að sjóða (gufa sleppur framhjá lokinu) má ALLS EKKI taka lokið af pottinum heldur er stillt á lágan hita og tími tekinn í 15 mín. Ef þið notið hrísgrjónasuðupott þá verða grjónin alltaf fullkomin.
  4. Gerið edikblönduna (sjá neðar).
  5. Eftir þessar 15 mín er potturinn tekinn til hliðar og látinn standa í aðrar 15 mín.
  6. Þá má taka lokið af, grjónin sett á breytt fat og edikblöndunni dreift vel yfir á meðan hrært er varlega í með trésleif.
  7. Gott er að kæla grjónin og velta þeim fram og aftur með léttum hreyfingum þar til engir kekkir eru eftir.
  8. Grjónin eru tilbúin þegar þau eru stofuheit.
  9. Ég sá Sollu nota quinoa í einum þætti af Heilsugenginu sem er svo miklu hollara og ég ætla svo sannarlega að prófa það. Hér sérðu hvernig á að sjóða quinoa.

Edikblanda: / 1/2 bolli hrísgrjónaedik / 1/4 bolli hrásykur / 1/2 tsk salt.

  1. Sjóðið saman í potti þar til allt er uppleyst (ca.1-2 mín).

Að gera maki-rúllur:

  1. Leggið nori þarablað á bambusmottu og látið glansandi hliðina snúa niður.
  2. Setjið hrísgrjónin á 2/3 hluta noriblaðsins, smá brún á að vera auð á blaðinu nær ykkur og ca. 3 cm fjær ykkur (grjónin mega alveg vera aðeins hærra upp á noriblaðinu en myndin sýnir). Þrýstið þeim niður með höndunum. Grjónin eiga að vera ca. 1/2 cm þykk á blaðinu.
  3. Smyrjið þunnu lagi af wasabi mauki langsum á grjónin.

IMG_0538

  1. Ég setti smá spicy mayo (sjá neðar) þar ofaná, ekki alveg það heilsusamlegasta en… svooo gott.

IMG_0547

  1. Hér notar þú hugmyndaflugið og það sem þér finnst gott. Ég notaði t.d. lax sem ég skar í þunnar ræmur, avocado, gúrku og klettasalat. Í aðrar rúllur notaði ég bara gúrku og avocado því krakkarnir borða það en ég setti alltaf wasabi maukið fyrst (alls ekki mikið) og svo majónesið. Ég skar einnig niður rauða papriku og setti í nokkrar rúllur.

IMG_0571

  1. Notið bambusmottuna til að hjálpa ykkur að rúlla þessu þétt upp. Byrjið á endanum næst ykkur og rúllið svo frá ykkur en togið alltaf á móti til að þetta verði þétt (vona að þetta skiljist).
  2. Gott er að bleyta kantinn efst til að loka blaðinu svo rúllan límist vel saman.
  3. Skerið í bita og berið fram með soja- eða tamarisósu og pikluðu engifer.

Spicy mayonaise: / japanskt majónes (fæst t.d. í asískum matvörubúðum) og sterk chilisósa blandað saman. Ég kaupi stundum bara tilbúið spicy majo á Tokyo sushi.

Soyasósa/tamarisósa er alltaf notuð með sushi til að krydda sushi-ið og oft er wasabi maukið sett út í hana til að gefa meira bragð. Ég nota alltaf tamarisósu því hún er búin til úr óerfðabreyttum, lífrænum sojabaunum, er glútenlaus og náttúrulega gerjuð.

Wasabi er japönsk, græn piparrót sem er rotverjandi og bakteríudrepandi og er sett á nigiribita og innan í maki rúllur en aðeins í litlu magni því hún er rótsterk.

Piklað engifer er borðað milli bita til að sótthreinsa munninn, hreinsa bragðlaukana og bæta meltinguna.

Hún Hildigunnur vinkona mín, sem eldar svo ótrúlega góðan mat, dró mig einu sinni fyrir nokkrum árum á sushi námskeið. Ég ætlaði varla að nenna því ég hélt ég mundi aldrei hafa það í mér að búa til sushi heima og svo er Hildigunnur svo skemmtileg að ég gat ekki sagt nei við hana. Síðan þá hef ég oft gert sushi og sé sko aldeilis ekki eftir því að hafa drifið mig með henni. Það er mjög gaman að búa til sitt eigið sushi en þið þurfið að gefa ykkur smá tíma því í það. Það tekur ca. 45 mín að skola grjónin og svo 1/2 tíma að sjóða þau. Síðan þarf að kæla þau og þá getiði byrjað að rúlla þannig að þetta er ekki eitthvað sem er gert á hálftíma. Ef þið skoðið myndina hér að ofan þá notaði ég bæði venjuleg hvít grjón og brún hrísgrjón. Þau hvítu er auðveldara að vinna með og krökkunum finnst þau betri en mér fannst mjög gaman að prófa hin. Hvít grjón eru nú ekki alveg það hollasta í heimi svo næst ætla ég að prófa að nota quinoa eins og áður sagði. Bambusmottan sem ég nota keypti ég í EPAL og er frá STELTON.

Verði ykkur að góðu!

 

Grænmetispottrétturinn minn

IMG_0477Innihald: /  1-2 msk olífuolía, kókosolía eða ghee / 1 laukur / 1/2 jalapeno / 2-3 cm ferskt engifer / 1 sæt kartafla / 2 stilkar sellerí / 1 lítið brokkolíhöfuð / 3-4 gulrætur / 1 rauð papríka / 1 bolli rauðar linsubaunir.

Krydd: / 2 msk hollur grænmetiskraftur / 1/4 tsk kardimomma / 1/4 tsk kanill / 1/2 tsk karrí / 1/2 tsk turmeric / 2-3 lárviðarlauf / nokkur svört piparkorn / smá maldonsalt / 1/2 líter vatn / 1 dós kókosmjólk / 3 dl maukaðir tómatar í flösku.

Þessi uppskrift er frekar stór eða fyrir ca. 6-8 manns. En mér finnst gott að elda mikið og taka með í nesti daginn eftir.

  1. Byrjið á skera allt grænmetið niður.
  2. Skerið laukinn frekar smátt og mýkjið hann í olíu eða ghee en ekki brúna.
  3. Skerið engiferið og jalapeno-ið smátt niður og setjið út í.
  4. Bætið síðan við sætu kartöflunni, selleríinu, gulrótunum, brokkolíinu og papríkunni.
  5. Kryddið.
  6. Setjið svo vatnið út í og látið malla í ca. 1/2 tíma þannig að rétt sjóði. Ekki hafa of mikinn hita.
  7. Hreinsið linsubaunirnar og setjið út í.
  8. Bætið tómötunum í flösku og kókosmjólkinni út í.
  9. Látið malla í 1/2 tíma.
  10. Því lengur sem þið getið látið réttinn vera í pottinum, því betra. Ég t.d. set þennan rétt stundum upp á morgnana þegar ég er heima og læt hann malla við lágan hita. Ég slekk bara undir þegar ég skrepp út og kveiki aftur undir seinnipartinn þegar ég kem heim. En auðvitað þarf það alls ekki, bara svo gott svoleiðis ef tími leyfir.

Ég keypti mér leirpott síðast þegar ég fór til Seattle í búðinni Sur la Table. Ég var að skoða Le Creuset potta en þessi var á svo frábæru tilboði að ég gat ekki annað en keypt hann þó hann væri nýþungur og erfitt að rogast með alla þessa leið. Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim (eftir að ég var sko búin að hvíla mig) var að kíkja á netið og googla cast iron pot recipes. Ég skoðaði nokkrar og ákvað svo bara að skella því sem ég átti í pottinn. Úr varð þessi dásamlegi pottréttur sem átti fyrst að vera súpa. Systir mín kom svo daginn eftir og fékk að smakka hann kaldan. Kannski var hún súpersvöng en hún alla vega malaði meðan hún borðaði :) Ég elska þegar fólk verður svona hrifið af því sem ég geri. Best í heimi!

Það sem er svo frábært við þennan pott er að hann getur líka farið inn í ofninn. Hér geturðu kíkt á pottinn og séð litina sem til eru :http://www.surlatable.com/product/PRO-1315373/Sur+La+Table+Red+Round+Oven+7+qt.

IMG_0403

Kúrbíts-eggjaklattar

IMG_3946Innihald: / 450 g kúrbítur / 30 g ferskur parmesan / 2 egg / 4 tsk bókhveitimjöl / 1 tsk whole psyllium husks / smá chili / salt og pipar

  1. Rífið kúrbítinn, setjið í síupoka (fæst í Ljósinu Langholtsvegi) og kreistið vatnið úr.
  2. Blandið saman við restina.
  3. Hitið pönnu með ghee, ólífuolíu eða kókosolíu, búið til klatta og steikið í 2-3 mínútur á hvorri hlið. Gott bara eintómt eða með góðu salati og rauðrófuhummus.

 

 

 

Sellerírótarsúpa

IMG_5110Innihald: / ghee eða kókosolía til steikingar / 1 sellerírót / 3 gulrætur / 100 g þurrkaðir tómatar / 2 hvítlauksrif / 2 msk grænmetiskraftur / 1 msk oregano / 1 msk turmeric / 500-750 ml vatn / 1 dós kókosmjólk / nokkrir dropar fiskisósa / salt og pipar.

  1. Skerðu sellerírótina og gulræturnar smátt og láttu mýkjast í olíunni.
  2. Bættu svo tómötunum, hvítlauknum og kryddinu við og passaðu að láta tómatana mýkjast.
  3. Settu vatnið út í og láttu malla í ca. 10 mín.
  4. Taktu þá töfrasprota og maukaðu súpuna. Áferðin á að vera frekar gróf.
  5. Settu svo kókosmjólkina út í og kryddaðu til .

Þessi súpa er sprengholl og stútfull af frábærri næringu. Haustið er einmitt súputími og snilld að nota haustuppskeruna í súpugerð. Þessi klikkar ekki og mér finnst frábært að nota kókosmjólk í súpur. Ég sá þessa uppskrift í bókinni hennar Þorbjörgu Hafsteinsdóttur 9 leiðir til lífsorku en breytti henni bara örlítið. Ég er að lesa bækurnar hennar þessa stundina og rekst á svo endalaust mikið gott og sniðugt sem ég verð bara að deila. Þessi bók hennar Þorbjargar er frábær og fullt af flottum og súperhollum uppskriftum þar.

Rosa Mexicano Guacamole

IMG_8715Innihald: / 1 laukur / 1/2 – 1 ferskt jalapeno / 4 kúfullar msk kóríander / 3 avocado / 1-2 saxaðir tómatar / tortilla flögur.

Chile paste: uppskrift fyrir ca fjóra

  1. Takið ca. 3 msk af fínsöxuðum lauk, 2 kúfullar msk af fínsöxuðu kóríander, 2 msk eða meira af fínsöxuðu jalapeno og 1 tsk salt.
  2. Setjið allt í mortel og stappið eða kremjið þar til laukurinn er næstum horfinn og þar til allt er vel blandað saman. Ef þú átt ekki mortel gætir þú notað gaffal og víða skál.

IMG_8669

  1. Takið síðan þrjú miðlungsþroskuð avocado og skerið eftir endilangri miðju. Snúið helmingunum til að skilja þá að. Takið steininn úr með hníf og skerið svo fjórar renndur niður og fjórar þversum án þess að skera niður í skinnið. Þannig náið þið avocadoinu best upp úr skinninu (sést betur í myndbandinu hér að neðan).

IMG_8680

  1. Bætið út í 2 kúfullum msk af fínsöxuðu kóríander, 2 msk af fínsöxuðum lauk, smá salti og blandið varlega saman. Þið ráðið hversu þykka þið viljið hafa avocado bitana eftir því hversu mikið þið stappið þessu saman.
  2. Setjið 3-4 msk af söxuðum tómötum út í síðast. Ég reyndar set alltaf svolítið mikið meira af tómötum, mér finnst það svo miklu betra.
  3. Ef ykkur finnst mikið eftir af hráefni þá bara bætið þið meiru út í grunninn eins og af lauknum eða kóríander. Þetta er ekkert heilagt heldur notið bara sem viðmið. Kannski einna helst að passa upp á jalapeno-ið því það er svo sterkt.

IMG_8695

Stundum þegar ég fer til New York stelst ég á veitingastað sem heitir Rosa Mexicano við Union Square og fæ mér besta guacamole í heimi. Það eru þrír Rosa Mexicano veitingastaðir í New York og þeir eru víðar um Bandaríkin. Það sem gerir þetta guacamole svo ómótstæðilegt er að það er handgert í mortel og búið til við borðið þitt. Rosa Mexicano opnaði fyrst árið 1984 og þeir eru þekktir fyrir guacamole gerð sína. Ef þú átt leið til New York eða aðra staði í Bandaríkjunum þar sem Rosa Mexicano er þá verður þú að prófa guacamole-ið þeirra.

Hér getur þú horft á stutt og flott myndband hvernig þeir á Rosa Mexicano gera þetta og heldur betur af lífi og sál.

Ég keypti mortelið mitt í DUKA fyrir löngu, löngu síðan en mig langar að segja þér frá dásamlegri eldhúsbúð sem heitir SUR-LA-TABLE sem er að finna í Bandaríkjunum. Ég hreinlega elska þessa búð og fer yfirleitt í hana þegar ég fer til Seattle en hún er niðri við Pike Place markaðinn. Hún er líka í Soho NY og á mörgum öðrum stöðum. Rauðu sleifarnar á uppskriftarmyndunum hér að ofan eru úr þeirri búð og þær eru meiriháttar.

IMG_8526

Verði ykkur að góðu :)

 

Beikonvafðir þorskhnakkar með brokkolísalati

IMG_8200Innihald: / þorskhnakkar / beikon

  1. Reiknið með einum til tveim bitum af fiski á mann.
  2. Skerið niður í fallega bita og vefjið beikoninu utan um.
  3. Grillið í nokkrar mínútur á hvorri hlið, passa vel að ofelda ekki.

Kartöflur: / 1 sæt kartafla / 1 gulrófa / 1 sellerírót / 1 rauðlaukur / smá olía / smá salt

  1. Grænmetið er skorið niður í bita og sett í eldfast mót.
  2. Setjið olíu yfir, saltið og kryddið að vild og setjið inn í ofn á 180gr í 20-30 mín.

Brokkolísalat: / 150 g brokkolí / 2 dósir (200 g) sýrður rjómi / 1 rauðlaukur / 1 msk akasíu hunang / 2 msk rúsínur / salt og pipar.

  1. Brokkolíið mýkt í sjóðandi vatni í ca. 2 mín og kælt.
  2. Rauðlaukur fínt saxaður og svo er öllu blandað saman.
  3. Æðislega gott salat með fisk.

Ég fékk þennan rétt hjá mömmu eitt sinn er ég fór norður í heimsókn og hann var svo góður að ég varð að láta hann hér inn. Ég borða afar sjaldan beikon en þetta var alveg dásamlega gott og brokkolísalatið frábært. Ég væri líka til í að prófa að nota hráskinku utan um fiskinn en beikonið átti mjög vel með þorskhnökkunum. Verði ykkur að góðu.

IMG_8183-2

Fiskur í sinnepssósu

IMG_7280Innihald: / 2 ýsu- eða þorskflök (bein- og roðlaus) / 1 laukur / 2 gulrætur / 1 lítið brokkolí / 2 msk grænmetiskraftur / 2-3 cm engifer / 150-200 ml rjómi / 3 msk dijon sinnep / salt og pipar / kókosolía til steikingar.

  1. Mýkið grænmetið á pönnu í olíunni og kryddið með grænmetiskraftinum.
  2. Takið grænmetið af pönnunni og setjið fiskinn á pönnuna.
  3. Hellið rjómanum út á, bætið sinnepinu út í og engiferinu. Leyfið að malla í smá stund.
  4. Setjið grænmetið út á pönnuna. Tilbúið fyrir 5 manna fjölskyldu :)

Ég verð að deila þessum fiskrétti sem ég bjó til því hann tókst svona ljómandi vel. Meira að segja krökkunum fannst hann rosa góður… eða kannski voru þau bara svona svöng :) Ég hef alla vega gert hann nokkrum sinnum og þeim finnst hann alltaf jafn góður. Ég viðurkenni að ég kaupi mjög oft tilbúna fiskrétti en passa alltaf að spurja hvað sé í þeim og vel hollasta kostinn ef mér líst á hann.

 

 

 

Paleo hamborgari

IMG_7319Innihald: / 700 g nautahakk / 2 hvítlauksrif / 1/2 laukur / 1 egg / 1 eggjarauða / 1 tsk sjávarsalt / 1 tsk pipar  (gerir fjóra borgara) / 1-2 sætar kartöflur fyrir brauð.

  1. Steikið lauk og hvítlauk á pönnu, setjið í skál og blandið við hakkið.
  2. Bætið eggi og eggjarauðu við hakkið og blandið vel.
  3. Mótið fjóra hamborgara og steikið á pönnu við meðalhita.
  4. Hægt að bera fram með spældu eggi og beikoni fyrir þá sem vilja það.
  5. Frábært með avocado- og wasabimajonesi.

Sætar kartöflur (hamborgarabrauð): / 1-2 sætar kartöflur. Veljið þá stærð sem hentar til að skera niður í 8 sneiðar og kryddið með uppáhalds kryddinu ykkar. Ég notaði franskt kartöflukrydd frá Pottagöldrum, smá túrmerik, olíu og salt. Ég skar þær í frekar þunnar sneiðar og setti þær í ofninn á 180g. þar til þær verða mjúkar.

Þessi uppskrift er í bókinni hennar Berglindar Sigmarsdóttur Nýjir Heilsuréttir fjölskyldunnar sem er dásamleg bók og ætti að vera til á öllum heimilum. Berglind notar beikon og spæld egg með sem er örugglega guðdómlega gott en ég sleppti því hér. Þegar ég hef ekki mikinn tíma og get ekki undirbúið hamborgarana á þennan hátt fer ég í Frú Laugu og kaupi tilbúna hamborgara úr fyrsta flokks nautahakki. Þeir eru dýrir en svo gjörsamlega þess virði.

1 2 3 4