Posts Tagged ‘quinoa’

Quinoa kjúklingasalat með engifersósu

IMG_6232Innihald: / 3-4 dl kínóa / 6-8 dl vatn / 1 heill kjúklingur / 1/2-1 poki spínat eða annað grænt kál / 1 rauð papríka / 1 gul papríka / 1 appelsínugul papríka / furuhnetur eftir smekk / graskersfræ eftir smekk / 1 krukka fetaostur / 1 avocado (betra að það sé ekki of mjúkt) / 1 mangó.

  1. Byrjið á að leggja kasjúhnetur í bleyti fyrir salatdressinguna (2 tíma).
  2. Sjóðið kínóað og kælið. 4 dl af þurru kínóa til að sjóða gerir stórt salat. Hér sérðu hvernig mér finnst best að sjóða kínóa.
  3. Eldið kjúklinginn, ég nota yfirleitt heilan kjúkling og kryddaði með kjúklingakryddi, fersku timjan og rósmarín.
  4. Skerið niður allt grænmeti (líka spínatið) og skerið kjúklinginn í bita.
  5. Öllu blandað vel saman á stóran disk eða í skál og mangóið sett síðast ofan á.
  6. Það getur verið gott að setja sítrónusafa yfir kínóað meðan það er að kólna.
  7. Þetta salat er fyrir ca. 4-6 manns.

Engiferdressing: / 1 hvítlauksgeiri / 2-3 cm engifer / 1 1/2 dl kasjúhnetur sem hafa legið í bleyti í amk 2 tíma / 3 msk eplaedik eða ris vinegar / 1/2 dl kaldpressuð ólífuolía /  3 msk hlynsíróp / smá þurrkað chili / smá maldon salt / 3 msk vatn.

Ég bara elska þetta salat og það er t.d. algjör snilld í saumaklúbbinn eða í veislu þar sem þú vilt bjóða upp á einfalt og gott salat. Engifersósan fer sérstaklega vel með því og ég fékk uppskriftina hjá henni hjá Jönu minni. Þessi salatdressing er alveg meiriháttar góð. Um daginn keyptum reyndar engiferdressingu á LOCAL sem er lítill, kósí heilsustaður í Borgartúninu og notuðum með þessu salati. Ég held reyndar að dressingin hafi verið japönsk en þau selja einnig sesarsósu og mexíkóska dressingu og þær eru allar frábærar :) LOCAL er alveg málið.

Heimsins besta quinoa súkkulaðikaka

IMG_6197Innihald: / 2 bollar (300 g) soðið quinoa (ca. 3/4 bollar ósoðið lagt í bleyti) / 1/3 bolli (1 dl) möndlumjólk (ósæt) / 4 egg / 1 tsk vanillu extract / 1/2 bolli (50 g) smjör  / 1/4 bolli (3/4 dl) kókosolía / 1 bolli (150 g) kókospálmasykur / 1 bolli (100 g) kakóduft / 1/2 tsk matarsódi / 2 tsk vínsteinslyftiduft / 1/2 tsk maldon salt

Krem: / 1 dós kókosmjólk / 200 g 70% eða 85% súkkulaði.

Hefur þú prófað að baka köku úr quinoa? Spennandi! Áður en þið byrjið er gott að vera búin að græja quinoa og kremið. Það þarf að láta quinoa liggja í bleyti yfir nótt, skola síðan vel, elda og kæla. Quinoa á að vera mjúkt og létt þegar það er tilbúið. En ef ekki þá verður kakan eins og frönsk súkkulaðikaka sem er líka allt í lagi. U.þ.b. 3/4 bollar af þurru quinoa gera 2 bolla af því soðnu. Til að búa til kremið þá er best að geyma kókosmjólkina inni í ísskáp yfir nótt svo að hún nái að skilja sig. Það er mjög gott að búa til kremið daginn áður en þó ekki nauðsynlegt.

  1. Stillið ofninn á 175 gr.
  2. Takið fram tvö kökuform, klippið börkunarpappír í tvo hringi og leggið í botnana.
  3. Bræðið smjörið, kælið það smá og setjið kókosolíukrukkuna undir heitt vatn til að fá hana fljótandi.
  4. Blandið saman eggjum, mjólk og vanillu extract í blandaranum í ca. 10 sek.
  5. Bætið síðan tilbúnu quinoa, smjörinu og kókosolíunni út í blandarann þar til allt verður mjúkt eða í ca. 1/2 – 1 mín.
  6. Setjið þurrefnin í skál og hrærið blöndunni úr blandaranum vel saman við.
  7. Skiptið deiginu í tvennt og bakið í 30 mínútur og kælið þegar tilbúið.
  8. Til að búa til kremið þá bræðið þið súkkulaðið á lágum hita í potti.
  9. Takið kókosmjólkina úr ísskápnum en passið að hrista ekki dósina. Við viljum nota þykka hlutann af kókosmjólkinni. Setið hann út í pottinn og bræðið saman við súkkulaðið. Ef blandan er enn mjög dökk þá bætið þið meira af kókosmjólkinni út í.
  10. Setjið síðan kremið í skál og látið kólna í smá stund á borði, lokið skálinni og kælið í ísskápnum í nokkrar klukkustundir eða þar til kremið hefur þykknað. Þess vegna gæti verið gott að gera kremið kvöldið áður.
  11. Þegar kremið er orðið þykkt þá er það þeytt með handþeytara á miklum hraða í 1/2 – 1 mínútu eða þar til það er orðið að flottu kökukremi.

Þessi kaka er frekar viðkvæm svo færið hana bara einu sinni. Ég mundi taka hana beint úr mótinu, setja hana á fallegan kökudisk og setja kremið á hana þar. Látið botninn snúa upp á kökunni og ekki gleyma að setja krem á milli botnanna! Geymið kökuna í ísskáp þar til á að bera hana fram því kremið bráðnar þegar það er heitt en við vitum að þannig veður er ekki vandamál hér á Íslandi svo kakan ætti að vera góð í nokkra tíma á borði.

Líka gaman að segja frá því að Edda mín 12 ára vill hafa þessa í afmælinu sínu. Ekki slæm meðmæli!

Verði ykkur að góðu :)

IMG_6262

Þessa köku fann ég á makingthymeforhealth.com

 

 

Ebbugrautur

IMG_4422Innihald: / 1 dl quinoa / 2 dl vatn / 1/2 dl chiafræ / ferskir mangóbitar eða annar ávöxtur / smá sítrónuólífuolía

  1. Munið að leggið quinoa í bleyti yfir nótt.
  2. Morguninn eftir skolið quinoa með köldu vatni, setjið í pott ásamt 2 dl af vatni og sjóðið í 10-15 mín.
  3. Á meðan setjið þið chiafræ í bleyti og hrærið af og til í á meðan fræin eru að drekka í sig vökvann.
  4. Þegar grauturinn er tilbúinn fer quinoa í skál, blandið chiafræjunum saman við og skerið mangó út í.
  5. Hellið svo aðalatriðinu út, sítrónuólífuolíunni. Hún gerir svo mikið bragð og þá fáum við einnig aukaskammt af omega-9. Tilbúinn dásamlegur morgunmatur!

Mangó er með mjög hátt frúktósamagn þannig að ef þú ert að minnka við þig sykur og ávaxtasykur gæti verið sniðugt að nota kiwi í staðinn. Mangó er samt basískur ávöxtur en ekki súr fyrir líkamann. Kíkið á Dr. Mercola, þar finnið þið lista yfir frúktósamagn í nokkrum ávöxtum. Þið verðið að skrolla aðeins niður á síðunni þegar þið eruð búin að klikka á linkinn hér við hliðina til að finna þetta (1).

Þessi morgunmatur er svo mikil tær snilld og mér líður svo ótrúlega vel þegar ég byrja daginn á honum. Reyndar borða ég morgunmat frekar seint því mér líður yfirleitt best ef ég drekk bara í byrjun dags. Þessi grautur er fullur af næringarefnum og svo er höfundur hans bara svo dásamlega sjarmerandi kona, Ebba Guðný. Og það besta er að Edda mín 12 ára er farin að biðja um hann reglulega á morgnana sem er frábært.

http://www.mbl.is/smartland/heilsa/2012/08/21/chiagrautur_ebbu_gudnyjar/