August 2014 archive

Sellerírótarsúpa

IMG_5110Innihald: / ghee eða kókosolía til steikingar / 1 sellerírót / 3 gulrætur / 100 g þurrkaðir tómatar / 2 hvítlauksrif / 2 msk grænmetiskraftur / 1 msk oregano / 1 msk turmeric / 500-750 ml vatn / 1 dós kókosmjólk / nokkrir dropar fiskisósa / salt og pipar.

  1. Skerðu sellerírótina og gulræturnar smátt og láttu mýkjast í olíunni.
  2. Bættu svo tómötunum, hvítlauknum og kryddinu við og passaðu að láta tómatana mýkjast.
  3. Settu vatnið út í og láttu malla í ca. 10 mín.
  4. Taktu þá töfrasprota og maukaðu súpuna. Áferðin á að vera frekar gróf.
  5. Settu svo kókosmjólkina út í og kryddaðu til .

Þessi súpa er sprengholl og stútfull af frábærri næringu. Haustið er einmitt súputími og snilld að nota haustuppskeruna í súpugerð. Þessi klikkar ekki og mér finnst frábært að nota kókosmjólk í súpur. Ég sá þessa uppskrift í bókinni hennar Þorbjörgu Hafsteinsdóttur 9 leiðir til lífsorku en breytti henni bara örlítið. Ég er að lesa bækurnar hennar þessa stundina og rekst á svo endalaust mikið gott og sniðugt sem ég verð bara að deila. Þessi bók hennar Þorbjargar er frábær og fullt af flottum og súperhollum uppskriftum þar.

Mömmukaka

IMG_4463Botn: / 100 g möndlur / 100 g kókosmjöl / 4 msk kakó / 250 g döðlur lagðar í bleyti í ca 15 mín í volgt vatn

Aðferð: setjið allt í matvinnsluvél + þrýstið með fingrum í fallegt mót.

Súkkulaði: / 1 dl kakó / 1 dl kókosolía (fljótandi) / 1/2 dl hlynsíróp (maple syrup) / val: 2-3 dropar piparmyntuolía út í súkkulaðið (Young Living) eða 3 dropar piparmyntu-stevia.

Aðferð: hrært saman + hellt yfir botninn + sett í frysti + tilbúið eftir ca. 1-2 tíma.

Ég hef alltaf notað 1/2 dl af agave sírópi í súkkulaðið en núna notaði ég hlynsíróp í staðinn. Hér getið þið lesið um muninn á hlynsírópi og agave. Svo bætti ég út í þremur dropum af piparmyntu-steviu. Kannski er alveg eins gott að nota bara piparmyntuolíuna og sleppa steviunni. Alveg nóg af sykri hinsegin. Ég prufa það næst. En þessi kaka kom mjög vel út og eiginlega miklu betur með hlynsírópinu.

Ég nota eldfast mót undir þessa köku sem er 18×25 (innri botn). Svo set ég bara filmu :/ yfir og inn í frysti.

Þetta er uppáhaldskakan á heimilinu og við eigum þessa köku mjög oft til í frystinum. Krakkarnir fundu nafnið á hana því ég var alltaf að stelast í frystinn endalaust og þau urðu forvitin hvað ég væri alltaf að ná mér í. Þeim finnst kakan svo góð að þau biðja mig reglulega um að búa hana til. Hún er samt full af sykri (döðlur, agave eða hlynsírópið, kókosmjöl) svo ég hef róast mjög mikið í því að stelast í frystinn :) Ef þið setjið piparmyntudropa út í skúkkulaðið eru þið komin með After Eight bragð!

Já kókosmjöl hagar sér pínu eins og sykur í líkamanum því miður, eins og það er nú dásamlega gott.

Blómkáls-Fusilli “Alfredo” pasta

IMG_6374Innihald: / 1 blómkálshöfuð (lítið eða meðalstórt) / 1/2 msk ólífuolía / 3 hvítlauksgeirar / 1 dl hrís- eða möndlumjólk / 1/2 dl næringarger / 1 msk ferskur sítrónusafi / 1/2 tsk laukduft / 1 tsk hvítlauksduft / 1-2 msk smjör (má sleppa) / smá sjávarsalt / smá pipar / 250 g glútenlaust fettuccini pasta (eða bara ykkar val af pasta) / 1 brokkolíhöfuð / 1 rautt chili / nokkrir sólþurrkaðir tómatar / steinselja.

  1. Setjið blómkálið í pott og látið vatnið ná alveg yfir. Látið suðuna koma upp og sjóðið í 5-7 mín. eftir að suðan er komin upp eða þangað til að blómkálið er orðið mjúkt. Látið svo vatnið renna af.
  2. Setjið olíu á pönnu og mýkið hvítlaukinn, ekki brúna.
  3. Skerið brokkolíið og sólþurrkuðu tómatana í fallega bita og saxið chili. Ég sýð vatn og helli yfir brokkolíið til að mýkja það aðeins.
  4. Setjið blómkálið, hvítlaukinn ásamt olíunni af pönnunni, mjólkina, næringargerið, sítrónusafann, laukduftið, hvítlauksduftið, smjörið, saltið og piparinn í blandarann og blandið þar til það verður að fallegri sósu. Gæti alveg tekið smá stund. Hér má setja smjörið út í ef þið viljið gera sósuna aðeins extra.
  5. Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum og látið vatnið renna af þegar tilbúið gegnum sigti.
  6. Setjið pastað aftur í pottinn ásamt grænmetinu og hellið svo sósunni yfir allt. Hitið aðeins og smakkið til. Stráið steinseljunni yfir í lokin. Tilbúið!

Þessi uppskrift er frá Oh She Glows sem er frábær síða. Þar heitir uppskriftin Fettuccini “Alfredo” pasta en þar sem ég hef vanið mig á að borða ekki hvítt pasta heldur brúnt þá gat ég bara ekki keypt hvítt, glútenlaust fettuccini pasta. Ég fann mjög flott brúnt lífrænt glútenlaust pasta og notaði það í þessa uppskrift. Að sjálfsögðu má alveg nota venjulegt pasta, heilhveiti- eða speltpasta með þessum rétti og sjálfri finnst mér speltpasta lang bragðbest. Ég er sem betur fer ekki með neitt glútenóþol heldur langaði mig bara að prófa að taka það út sem ég gerði í nokkra mánuði og fann þá þessa uppskrift. Sósa er mjög góð “rjóma”pastasósa án þess að innihalda rjóma né ost og því góður kostur fyrir þá sem vilja ekki nota mjólkurvörur. Það væri líka hægt að skella kjúklingabitum út í sem er örugglega mjög gott.

 

 

 

 

 

 

Geimfarafæði fyrir æfingu

IMG_8618Innihald: / 2 dl vatn / 1 dl eplasafi (trönuberjasafi) / 1 msk spirulina duft eða grænt duft / 1 msk omega 3-6-9 olía (ég set yfirleitt hörfræolíu) / 2 dl rauðrófusafi.

Þessa uppskrift er að finna í bókinni hennar Þorbjargar Hafsteinsdóttur 10 árum yngri á 10 vikum. Ég hef nokkrum sinnum hlaupið 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu og sumarið 2011 var ég mjög dugleg að hlaupa úti. Ég náði mínum besta tíma í ágúst 2011 og ég byrjaði hlaupadaginn á þessum drykk. Ég er alveg sannfærð um að hann hjálpaði mikið til. Rauðrófusafi er súper hollur, eykur úthald og lækkar blóðþrýsting. Stundum nenni ég að djúsa hann en kaupi oftast tilbúinn rauðrófu-heilsusafa í flöskum.

Ég nota yfirleitt trönuberjasafa frá Healthy People í staðinn fyrir eplasafa.

Hér getur þú lesið mjög góða grein um rauðrófusafa.

Rosa Mexicano Guacamole

IMG_8715Innihald: / 1 laukur / 1/2 – 1 ferskt jalapeno / 4 kúfullar msk kóríander / 3 avocado / 1-2 saxaðir tómatar / tortilla flögur.

Chile paste: uppskrift fyrir ca fjóra

  1. Takið ca. 3 msk af fínsöxuðum lauk, 2 kúfullar msk af fínsöxuðu kóríander, 2 msk eða meira af fínsöxuðu jalapeno og 1 tsk salt.
  2. Setjið allt í mortel og stappið eða kremjið þar til laukurinn er næstum horfinn og þar til allt er vel blandað saman. Ef þú átt ekki mortel gætir þú notað gaffal og víða skál.

IMG_8669

  1. Takið síðan þrjú miðlungsþroskuð avocado og skerið eftir endilangri miðju. Snúið helmingunum til að skilja þá að. Takið steininn úr með hníf og skerið svo fjórar renndur niður og fjórar þversum án þess að skera niður í skinnið. Þannig náið þið avocadoinu best upp úr skinninu (sést betur í myndbandinu hér að neðan).

IMG_8680

  1. Bætið út í 2 kúfullum msk af fínsöxuðu kóríander, 2 msk af fínsöxuðum lauk, smá salti og blandið varlega saman. Þið ráðið hversu þykka þið viljið hafa avocado bitana eftir því hversu mikið þið stappið þessu saman.
  2. Setjið 3-4 msk af söxuðum tómötum út í síðast. Ég reyndar set alltaf svolítið mikið meira af tómötum, mér finnst það svo miklu betra.
  3. Ef ykkur finnst mikið eftir af hráefni þá bara bætið þið meiru út í grunninn eins og af lauknum eða kóríander. Þetta er ekkert heilagt heldur notið bara sem viðmið. Kannski einna helst að passa upp á jalapeno-ið því það er svo sterkt.

IMG_8695

Stundum þegar ég fer til New York stelst ég á veitingastað sem heitir Rosa Mexicano við Union Square og fæ mér besta guacamole í heimi. Það eru þrír Rosa Mexicano veitingastaðir í New York og þeir eru víðar um Bandaríkin. Það sem gerir þetta guacamole svo ómótstæðilegt er að það er handgert í mortel og búið til við borðið þitt. Rosa Mexicano opnaði fyrst árið 1984 og þeir eru þekktir fyrir guacamole gerð sína. Ef þú átt leið til New York eða aðra staði í Bandaríkjunum þar sem Rosa Mexicano er þá verður þú að prófa guacamole-ið þeirra.

Hér getur þú horft á stutt og flott myndband hvernig þeir á Rosa Mexicano gera þetta og heldur betur af lífi og sál.

Ég keypti mortelið mitt í DUKA fyrir löngu, löngu síðan en mig langar að segja þér frá dásamlegri eldhúsbúð sem heitir SUR-LA-TABLE sem er að finna í Bandaríkjunum. Ég hreinlega elska þessa búð og fer yfirleitt í hana þegar ég fer til Seattle en hún er niðri við Pike Place markaðinn. Hún er líka í Soho NY og á mörgum öðrum stöðum. Rauðu sleifarnar á uppskriftarmyndunum hér að ofan eru úr þeirri búð og þær eru meiriháttar.

IMG_8526

Verði ykkur að góðu :)

 

Súkkulaðibitakökur

IMG_8400Innihald: / 1 1/2 bolli bókhveiti / 1 tsk vínsteinslyftiduft / 1 tsk vanilluduft / 1/2 tsk maldon salt / 100 g kókosolía / 1/2 bolli hlynsíróp / 1 egg / 100 g dökkt súkkulaði 85%.

  1. Hitið ofninn á 160 gr og setjið bökunnarpappír á tvær bökunarplötur.
  2. Blandið saman hveiti, lyftidufti, vanilludufti og salti í skál.
  3. Blandið saman kókosolíunni og hlynsírópinu í aðra skál og þeytið eggið saman við.
  4. Blandið vökvanum saman við þurrefnin með trésleif og setjið brytjað súkkulaðið út í að lokum.
  5. Búið til litlar kökur með teskeið og bakið í ca. 20 mín eða þar til gullið.

Nammigott í útileguna :)