Morgunvenjurnar mínar

IMG_5581Þessi grein birtist á ibn.is sem er fallegasti íslenski heilsuvefurinn að mínu mati. Í boði náttúrnnar fékk að forvitnast um morgunvenjurnar mínar:

Hvenær og hvernig vaknar þú á morgnanna?

Yfirleitt er klukkan stillt á 7 en mér finnst best að vakna tíu mínútum fyrr. Þá hef ég meiri tíma fyrir mig og næ að gera það sem ég þarf að gera í ekki eins miklum flýti. Stundum er þó vaknað 10 mínútur yfir og þá þarf að drífa sig svolítið. Vegna vinnu minnar vakna ég nokkrum sinnum í mánuði kl. 4.45 en ég er orðin svo vön því að það eru bara fyrstu mínúturnar sem eru erfiðar og klukkutíma seinna er ég komin með uppsett hár og í hælaskó með varalit eldsnemma morguns sem verður varla toppað. Ég græja alltaf nesti í vinnuna og hef gert í mörg ár og það er alveg misjafnt hvað ég tek með mér. Ég geri það bara um leið og ég geng frá kvöldmatnum og þannig tekur það enga stund. Þegar ég er heima á laugardagsmorgnum vakna ég um 8.45 og fer í hot jóga. Það er næstum orðin heilög helgarstund hjá mér. Þegar sunnudagar eru ekki vinnudagar þá eru þeir letidagar.

Hvernig eru morgunvenjurnar?

Ég byrja á að fá mér sítrónuvatn, hreinsa andlitið, set á mig andlitskrem og fer í íþróttafötin. Stundum opna ég gluggann á baðherberginu og dreg andann nokkrum sinnum. Það er svo súperfrískandi. Ég er að reyna að festa þá venju í sessi að gera oil pulling á morgnana en ég á það til að gleyma því áður en allir vakna og ekki get ég farið að fylla munninn af olíu þegar allir eru vaknaðir og að reyna að ná sambandi. Þannig að ég er rosa glöð þá morgna sem ég fylli munninn af kókosolíu og hef þar í heilar 20 mín. Yfirleitt græja ég grænan djús fyrir okkur hjónin sem við drekkum áður en við förum saman í ræktina ásamt því sem ég fæ mér vel af hörfræolíu og góðgerla. Við skiptum morgunhlutverkunum afar vel á milli okkar, ég fer í eldhúsið meðan hann skríður upp í hjá krökkunum og vekur þau. Ég elska að heyra í þeim inn í eldhús að flissa og hlægja með pabba sínum því hann hefur einstakt lag á að taka úr þeim morgunþreytuna.

Hvernig heldur þú í þessar venjur?

Mér líður einfaldlega best þegar ég get byrjað daginn á sítrónuvatninu og græna djúsnum. Að vinna óreglulega vinnu hentar mér mjög vel og það er eins með venjurnar mínar. Ef ég næ ekki að gera eitthvað einn morguninn þá er það bara allt í lagi og mér fer að leiðast ef hlutirnir fara í alltof fastar skorður. Mér finnst langbest að hreyfa mig á morgnana strax eftir að krakkarnir eru farin í skólann og að fá mér lítið að borða áður. Minn eiginlegi morgunmatur er um miðmorgun eftir að hafa hreyft mig og það hentar mér best. Þá tek ég líka jurtablönduna mína, vítamínin og fæ mér eitthvað geggjað gott jurtate.

Valdís Sigurgeirsdóttir er móðir, eiginkona og flugfreyja hjá Icelandair. Hún hefur lengi haft mikinn áhuga á heilsu og heilsusamlegum mat og hefur m.a. stundað nám við Heilsumeistaraskólann. Hún ákvað í byrjun árs 2014 að minnka til muna sykur- og glútenmagn og bjó í kjölfarið til blogg sem hefur aldeilis slegið gegn: ljomandi.is þar sem hún deilir uppskriftum og heilsuráðum með einstaklega fallegu myndefni sem hún tekur sjálf, enda ferlega laginn áhugaljósmyndari.

Leave a Reply