Posts Tagged ‘sykurlaust’

Sesam tamari kjötbollur

IMG_2681_2Fyrir 4

Kjötbollur: / 450 g nautahakk / 2 vorlaukar / 1 stórt egg / 1/4 bolli brauðteningar / 3 msk kóríanderlauf / 1 msk tamarisósa / 2 tsk ristuð sesamolía / 1 tsk ferskt rifið engifer / smá himalayan salt / smá svartur mulinn pipar.

  1. Hitið ofninn í 200-220 gr.
  2. Saxið laukinn gróft niður, pískið eggið létt, saxið kóríanderlaufin smátt og rífið engiferið niður.
  3. Setjið nautahakkið í stóra skál ásamt lauknum, egginu, brauðteningunum (bara rista brauð og skera smátt), kóríanderlaufunum, tamarisósunni, sesamolíunni, engiferinu, saltinu og piparnum og blandið öllu vel saman.
  4. Notið hendurnar til að búa til kjötbollur.
  5. Setjið bollurnar á bökunarpappír í ofnskúffu eða í eldfast mót og inn í ofn í ca. 15-20 mínútur eða þar til þær eru gullnar og að fullu eldaðar. Eldunartíminn fer auðvitað eftir því hversu stórar þið viljið hafa bollurnar en þessi uppskrift miðast við ca. 12 bollur.
  6. Gott að bera fram með fetaosti, sultuðum rauðlauk, sultu og hvítlauksbrauði.

Rauðrófu- og elpasalat: / 1 rauðrófa / 2 lífræn epli / safi úr hálfri lime eða sítrónu / 1-2 cm rifið engifer / smá sesamfræ / ólífuolía / salt.

  1. Rífið rauðrófuna og eplin niður.
  2. Ágætt er að láta rauðrófurnar liggja aðeins í sítrónusafanum áður en öllu er blandað saman því þá mýkjast þær smá.
  3. Síðan er hægt að bæta hverju sem er útí eins og sellerí, kóríander, zukkini eða bara hverju sem er.

Ég er í ótrúlega skemmtilegum matarklúbbi sem samanstendur af 16 hressum stelpum. Við höldum klúbb tvær og tvær saman og hver klúbbur eldar mat frá ákveðnu landi. Þegar klúbburinn er búinn að fara einn hring drögum við hverjar elda saman og hvert teymi dregur land. Það er alltaf svaka spenna. Ég og Gunna sæta fengum Noreg… roooosa spennandi! En við dóum nú alls ekki ráðalausar og skelltum í kjötbollur. Það er alltaf svo skandinavískt eitthvað. Gunna er svona heilsugúrú eins og ég og fannst ekkert að því að færa kjötbollurnar í aðeins hollari búning. Hún bjó svo til ótrúlega hollt og gott salat með úr rauðrófum og eplum sem kom rosalega vel út með kjötbollunum. Frábær matarklúbbur og ísinn hennar Ebbu sló í gegn í desert.

Heimild: http://www.yummly.com

 

Ljomandi-bordi4

 

Appelsínu saffran kjúklingasalat

IMG_2541Réttur fyrir ca. 6 manns.

Appelsínu- og saffran paste: / 1 appelsína / 50 g hunang (ég notaði akasíu) / 1/2 tsk saffranþræðir / ca. 300 ml. vatn

Salat: / 1 kg kjúklingabringur / 4 msk ólífuolía / 2 lítil fennel / 15 g kóríanderlauf / 15 g basillauf rifin / 15 g myntulauf rifin / 2 msk sítrónusafi / 1 rautt chili / 1 hvítlauksgeiri / salt og pipar.

Svona gerið þið appelsínupaste-ið:

  1. Byrjið á að hita ofninn í 180 gr.
  2. Skerið toppinn og botninn af appelsínunni, skerið í 12 báta og takið kjarnann burt.
  3. Setjið bátana með hýðinu í pott ásamt saffranþráðunum, hunanginu og vatni þannig að rétt fljóti yfir appelsínurnar.
  4. Látið suðuna koma upp og sjóðið við vægan hita í klukkustund.
  5. Útkoman á að vera mjúkar appelsínur og ca. 3 msk af þykku sýrópi en það gerðist ekki hjá mér. Appelsínurnar urðu mjúkar en ég fékk ekki þykkt sýróp svo ég notaði ekki allan vökvann þegar ég setti appelsínurnar í matvinnsluvélina til að mauka þetta saman. En úr matvinnsluvélinni á að koma þykkt mauk en samt þannig að það renni.

Salatið:

  1. Skolið kjúklingabringurnar, þerrið, setjið í ílát og veltið þeim upp úr helmingnum af ólífuolíunni og nægu af himalayan salti og pipar.
  2. Setjið síðan á heita pönnu, helst grillpönnu og brúnið í 2 mínútur á hvorri hlið.
  3. Því næst í eldfast mót og inn í 180 gr. heitan ofninn og eldið í 15-20 mínútur eða þar til tilbúið.
  4. Útbúið salatið á meðan með því að skera fennelið í þunnar sneiðar, rífa basiliku og myntu niður, bæta við kóríander og skera eitt rautt chili í þunnar sneiðar og setjið á það fat sem þið viljið bera fram á.
  5. Ég setti svo sítrónusafann, restina af ólífuolíunni og kraminn hvítlauksgeirann í litla skál og hrærði saman, setti yfir salatið og blandaði vel.
  6. Þegar kjúklingurinn hefur kólnað lítillega rífið hann þá í strimla með höndunum og setjið í skál. Hellið helmingnum af appelsínu- og saffran maukinu yfir og veltið kjúklingnum upp úr því. Hinn helminginn getið þið geymt í kæli og notað í alls konar sem ykkur dettur í hug t.d. með feitum fisk.

Gott að bera fram með bökuðum rauðlauk í valhnetusalsa. Uppskrift kemur inn von bráðar.

Jana vinkona mín benti mér á að prófa þennan rétt en hann kemur frá Ottolenghi og er mjög vinsæll réttur á veitingastað þeirra. Trikkið við þennan rétt er appelsínan, það gerist eitthvað meiriháttar þegar hún er soðin heil í mauk  Óóótrúlega gott.

 

 

Ljomandi-bordi4

Sólþurrkað tómatpestó

IMG_2133_2Sólþurrkað tómatpestó: 1 bolli sólþurrkaðir tómatar (eða ein krukka sem er ca. 300 g) / smá sítrónusafi og sítrónubörkur / 2 hvítlauksgeirar / lúka af ferskri basilíku / 1/2 rauður laukur / 1/2 bolli kaldpressuð ólífuolía / 1/2 bolli furuhnetur / smá himalayan salt / 1/3 bolli parmesan ostur.

  1. Setjið alllt í matvinnsluvélina eða blandara og mixið í smá stund en samt ekki þannig að það verði of þunnt, gott að hafa smá áferð.
  2. Frábært að setja innan í grænmetisblað í staðinn fyrir brauð og fá próteinið úr eggjunum.

IMG_2117_2

Ég elska pestó og gæti lifað á því. Þegar við förum í ferðalög tek ég alltaf eitthvað svona með okkur. Frábært meðlæti með mat og milli mála.

 

Ljomandi-bordi4

Bolludagsbollur / sænskar semlur

IMG_1938_2-5Deig: / 100 g mjúkt smjör / 1/2 bolli mjólk / 25 g þurrger / 2 1/3 bolli (325 g) glútenlaust hveiti eins og Miel Mix (sjá mynd neðar) eða All Purpous Baking Flour / 1 egg / 50 g erýtrítól með stevíu / 1 tsk vínsteinslyftiduft / 2 tsk kardimommukrydd / 1/2 tsk salt.

Þessi uppskrift gerir 9 bollur

  1. Byrjið á að skera smjörið niður í litla bita, setjið í pott og bræðið við vægan hita.
  2. Bætið mjólkinni út í og hitið að 37 gráðum.
  3. Setjið þurrefnin í hrærivélaskál ásamt egginu og hellið vökvanum yfir. Hnoðið saman með hnoðaranum í hrærivélinni (ég er svo lánsöm að eiga Kitchen Aid græju). Deigið á að vera aðeins klístrað en samt verða þau að vera meðfærlegt.
  4. Setjið klút yfir hrærivélaskálina og látið hefast í 45 mín.

Möndlumassi/fylling: / 100 g möndlumjöl / 80 g erýtrítól / 3 msk vatn / 1/2-1 tsk kardimommukrydd / 1/4 tsk vanilluduft / 3 msk rjómi (óþeyttur) / VAL: 25 g fínt saxaðar eða hakkaðar, hvítar möndlur (hægt að rista á pönnu eða í ofni í 5 mín).

  1. Fyllinguna getið þið geymt í kæli meðan þið gerið bollurnar.
  2. Möndlumassinn er frekar sætur en það er hægt að minnka sætukeiminn með því að mylja deigið sem kemur úr holunni á bollunum út í möndlumassann (sjá neðar).

Þeyttur rjómi: / 300 ml rjómi / 1 msk fínmöluð strásæta frá Via Health eða flórsykur / smá vanilluduft eða 1/2 tsk vanilla extrakt / fínmöluð strásæta eða flórsykur til skreytingar.

 

Þegar deigið hefur hefast í 45 mínútur þá er hægt að búa til bollur og þá kveikir þú á ofninum og hitar í 220 gr. Ég vigtaði bollurnar (ca. 80 gr hver) og hnoðaði hverja mjög vel í höndunum. Síðan smurði ég smá eggi yfir til að fá gljáa. IMG_1870_2-2

Setjið klút yfir plötuna og látið hefast aftur í ca. 45 mínútur og bakið svo við 220 gr. í ca. 10-13 mínútur.

Þegar bollurnar eru tilbúnar og búnar að kólna þá skerið þið toppinn af og búið til smá holu í miðjunni á bollunni. Setjið fyllinguna þar í og dreifið henni líka um yfir brúnirnar.

Ég bjó einu sinni í Svíþjóð og Svíar borða svona bollur frá áramótum og fram að páskum, eða þá fást þær í bakaríunum. Í þeim er marsípanfylling en ekki sulta en hér notuðum við þessa möndlufyllingu.

IMG_1887_2-2

 

IMG_1888_2-2

 

IMG_1906_2

 

Þeytið rjómann, setjið í sprautupoka og ofan á hverja bollu og setjið lokið ofaná. Skreytið bollurnar með flórsykrinum/fínmöluðu strásætunni.

IMG_1908_2

 

IMG_1922_2-2

 

IMG_1953_2-3

 

IMG_1881_2Þessi frábæra hveitiblanda frá Bauckhof er glútenlaus og frábær í svona bakstur því hún er sterkjumikil. Ég hef stundum notað All Purpous Baking Flour í bakstur en finn alltaf eitthvað skrítið bragð af því. Ég fann það ekki þegar ég notaði þessa blöndu. Ég fékk þessa á Gló Fákafeni. Þeir hjá Bauckhof eru alveg frábærir – 100% lífrænir og vinna eftir hugsjónum Rudolph Steiner. Eru með eina allra, allra flottustu mylluna þar sem allt er steinmalað.

Ég rakst á þessa uppskrift á hinni ómótstæðilegu vefsíðu: http://www.callmecupcake.se en átti smá við uppskriftina. Ég held hreinlega að callmecupcake sé ein flottasta síða í heimi, myndirnar hennar Lindu Lomelino eru hreint ævintýri. Ég fann hana fyrst á Instagram. Fáránlega flott svo ég varð að prófa þessa uppskrift. Ég ólst upp við að mamma bakaði bollur á bolludaginn og sá dagur var alltaf svolítið hátíðlegur en litla fjölskyldan mín er ekki mikið bolludagsfólk, krakkarnir mínir eru ekki mikið fyrir rjóma og maðurinn minn er ekki mikið fyrir sætabrauð. En þau voru öll rosa ánægð með þessar bollur. Ég er heldur ekkert rosalega góð í svona gerbakstri og enn og aftur hringdi ég hotline í Elínu vinkonu sem er alltaf með svörin við öllu. Takk fyrir hjálpina elsku vinkona. Þú ert bara snillingur.

 

Ljomandi-bordi_3

Kakópróteinsjeik með lakkrísrótardufti

IMG_1547_2Innihald: / 2 dl haframjólk (oat) eða möndlumjólk, hrísmjólk / 1 kúfuð mæliskeið vanilluprótein / 1 msk hrátt kakóduft / 1/2 avocado / 1/2 tsk lakkrísrótarduft / 1 msk hörfræolía / 1 msk chiafræ / smá himalayasalt / klakar / VAL: smá acai-duft

  1. Setja allt í blandarann, mixa vel og drekka. Bragðgóður og súperhollur sjeik.

Mig langar aðeins að segja þér hvað lakkrísrótarduft gerir fyrir líkamann.

Lakkrísrótarduft er ekki bara gott á bragðið og harmónar vel með hráu kakódufti (hver elskar ekki bragðið af súkkulaði og lakkrís) heldur hefur það nokkra frábæra eiginleika:

  • verndar lifrina og lætur blóðið streyma í gegnum hana.
  • örvar lifrina til að framleiða meira gall. Alveg nauðsynlegt!
  • jafnar starfsemi í brisi og þá verður blóðsykurinn svooo happy.
  • örvar hægðir og eykur þol gegn streitu. Ef það er ekki nauðsynlegt þá hvað???
  • losar slím úr öndunarfærum.
  • mýkir og græðir meltingarveg.
  • er bólgueyðandi.

Að sjálfsögðu getum við fengið allt okkar prótein úr venjulegum mat og það væri æskilegast en mér líkar að nota hreint mysuprótein og geri það af og til. Spirulina er t.d. mjög próteinrík og ég nota hana líka stundum. Plöntuprótein úr hamp er líka mjög flott. Ég persónulega er ekki hrifin af casein próteini og hér getur þú lesið af hverju. Flókið mál en bara ekki fyrir mig. Ást og friður :)

IMG_1556_2

 

Ljomandi-bordi_3

 

 

 

Einfaldur kókos & karrý baunapottréttur

IMG_1265_2Innihald: / kókosolía til steikingar / 1 laukur / 1 bolli (þurrar) rauðar eða grænar linsubaunir / 1 sæt kartafla / 2 stórar gulrætur / 1/2 tsk turmeric / 1 msk karrý / 1 tsk engiferkrydd / smá salt / nokkur svört piparkorn / 3 – 3 1/2 bolli vatn / 1 msk grænmetiskraftur / 1/2 bolli kókosmjólk.

  1. Laukurinn skorinn frekar smátt.
  2. Skerið sætu karföfluna niður í teninga og gulræturnar langsum.
  3. Hitið olíuna og mýkið laukinn.
  4. Bætið svo kartöflunni, gulrótunum, baununum og kryddinu útí.
  5. Setjið vatnið út í pottinn og hitið að suðu, minnkið þá hitann og sjóðið í amk. 25 mínútur. Mér finnst betra að nota minna vatn en meira, annars verður þetta meira súpa.
  6. Bætið kókosmjólkinni út í.
  7. Berið fram heitt og jafnvel með quinoa.

Þessi vegan pottréttur er ótrúlega einfaldur og góður grænmetisréttur fyrir ca. 4.  Mér finnst algjör snilld að gera frekar stóra uppskrift og eiga daginn eftir í afgang til að taka með í vinnuna. Ef þú átt cast iron pott þá er gott að nota hann í þetta.

Þar sem ég er að taka út allan sykur og korn (þá sleppi ég quinoa-inu) í ákveðinn tíma er ég eiginlega búin að lifa á svona mat sem er alls ekkert mál þegar maður dettur niður á svona lostæti því þetta er mjög bragðgóður og ljúffengur pottréttur sem fljótlegt er að gera og frábært að bera fram með fullt af grænmeti.

IMG_1251_2

Uppskrift frá http://www.detoxinista.com

 

 

Bordi2

 

 

 

Grænmetispottrétturinn minn

IMG_0477Innihald: /  1-2 msk olífuolía, kókosolía eða ghee / 1 laukur / 1/2 jalapeno / 2-3 cm ferskt engifer / 1 sæt kartafla / 2 stilkar sellerí / 1 lítið brokkolíhöfuð / 3-4 gulrætur / 1 rauð papríka / 1 bolli rauðar linsubaunir.

Krydd: / 2 msk hollur grænmetiskraftur / 1/4 tsk kardimomma / 1/4 tsk kanill / 1/2 tsk karrí / 1/2 tsk turmeric / 2-3 lárviðarlauf / nokkur svört piparkorn / smá maldonsalt / 1/2 líter vatn / 1 dós kókosmjólk / 3 dl maukaðir tómatar í flösku.

Þessi uppskrift er frekar stór eða fyrir ca. 6-8 manns. En mér finnst gott að elda mikið og taka með í nesti daginn eftir.

  1. Byrjið á skera allt grænmetið niður.
  2. Skerið laukinn frekar smátt og mýkjið hann í olíu eða ghee en ekki brúna.
  3. Skerið engiferið og jalapeno-ið smátt niður og setjið út í.
  4. Bætið síðan við sætu kartöflunni, selleríinu, gulrótunum, brokkolíinu og papríkunni.
  5. Kryddið.
  6. Setjið svo vatnið út í og látið malla í ca. 1/2 tíma þannig að rétt sjóði. Ekki hafa of mikinn hita.
  7. Hreinsið linsubaunirnar og setjið út í.
  8. Bætið tómötunum í flösku og kókosmjólkinni út í.
  9. Látið malla í 1/2 tíma.
  10. Því lengur sem þið getið látið réttinn vera í pottinum, því betra. Ég t.d. set þennan rétt stundum upp á morgnana þegar ég er heima og læt hann malla við lágan hita. Ég slekk bara undir þegar ég skrepp út og kveiki aftur undir seinnipartinn þegar ég kem heim. En auðvitað þarf það alls ekki, bara svo gott svoleiðis ef tími leyfir.

Ég keypti mér leirpott síðast þegar ég fór til Seattle í búðinni Sur la Table. Ég var að skoða Le Creuset potta en þessi var á svo frábæru tilboði að ég gat ekki annað en keypt hann þó hann væri nýþungur og erfitt að rogast með alla þessa leið. Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim (eftir að ég var sko búin að hvíla mig) var að kíkja á netið og googla cast iron pot recipes. Ég skoðaði nokkrar og ákvað svo bara að skella því sem ég átti í pottinn. Úr varð þessi dásamlegi pottréttur sem átti fyrst að vera súpa. Systir mín kom svo daginn eftir og fékk að smakka hann kaldan. Kannski var hún súpersvöng en hún alla vega malaði meðan hún borðaði :) Ég elska þegar fólk verður svona hrifið af því sem ég geri. Best í heimi!

Það sem er svo frábært við þennan pott er að hann getur líka farið inn í ofninn. Hér geturðu kíkt á pottinn og séð litina sem til eru :http://www.surlatable.com/product/PRO-1315373/Sur+La+Table+Red+Round+Oven+7+qt.

IMG_0403

Kúrbíts-eggjaklattar

IMG_3946Innihald: / 450 g kúrbítur / 30 g ferskur parmesan / 2 egg / 4 tsk bókhveitimjöl / 1 tsk whole psyllium husks / smá chili / salt og pipar

  1. Rífið kúrbítinn, setjið í síupoka (fæst í Ljósinu Langholtsvegi) og kreistið vatnið úr.
  2. Blandið saman við restina.
  3. Hitið pönnu með ghee, ólífuolíu eða kókosolíu, búið til klatta og steikið í 2-3 mínútur á hvorri hlið. Gott bara eintómt eða með góðu salati og rauðrófuhummus.

 

 

 

Gulrótarköku paleokúlur & súkkulaði paleokúlur

IMG_0067GULRÓTARKÖKUKÚLUR

Innihald: / 3/4 bollar möndlur / 6 döðlur / 1/3 bolli kókosmjöl / 2 meðalstórar gulrætur / 1/2 msk kanill / 1/4 tsk negull / 2-4 msk kókosmjólk eða kókosolía.

  1. Setjið möndlur í matvinnsluvél og mixið þar til möndlurnar verða að fínu mjöli. Setjið til hliðar.
  2. Setjið döðlurnar og kókosmjölið í matvinnsluvélina og blandið saman þar til myndast hálfgert deig.
  3. Rífið gulræturnar niður með rifjárni.
  4. Setjið möndlurnar, gulræturnar og kryddið út í og blandið saman.
  5. Setjið að lokum kókosmjólkina út í og látið vélina vinna þar til að deigið hefur náð góðum þéttleika. Ef þú notar kókosolíu þá læturðu krukkuna standa smá stund í heitu vatnsbaði, þannig verður hún fljótandi á örskot stund. Ég notaði kókosmjólk.
  6. Mótið kúlur og geymið í kæli í ca. 2 tíma.

SÚKKULAÐIKÚLUR

Innihald: / 1/2 bolli möndlur / 1/2 bolli graskersfræ / 1/2 bolli heslihnetur / 6 döðlur / 1/4 bolli kókosmjöl / 2-3 msk kakóduft / 2-4 msk kókosmjólk eða kókosolía.

  1. Setjið hnetur og fræ í matvinnsluvélina og blandið þar til verður að fínu mjöli. Setjið til hliðar.
  2. Setjið döðlurnar og kókosmjölið í matvinnsluvélina og blandið saman þar til myndast hálfgert deig.
  3. Setjið mjölið út í og bætið kakóduftinu við. Hér má setja 1-2 msk af möluðu kaffi út í fyrir þá sem vilja það en ég sleppti því að þessu sinni.
  4. Að lokum setjiði kókosmjólkina út í.
  5. Mótið kúlur og geymið í kæli í 2 tíma.
  6. Það er örugglega mjög gott að súkkulaðihúða helminginn af þessum kúlum. Þ.e.a.s. að setja 85% súkkulaði á helming hverrar kúlu fyrir sig. Ég ætla að prófa það næst. Það er örugglega alveg geggjað að nota hvíta kókossúkkulaðið frá Rapunzel sem er uppáhalds súkkulaðið mitt og algjört spari. En eins og ég segi þá hef ég ekki prófað það, ennþá.

Mig vantaði eitthvað til að taka með í skemmtilegt boð fyrir Justin Timberlake tónleikana. Ég fann þessar bollur á heimasíðunni icookfree.com og ákvað að prófa. Heppnaðist voða vel og allir fóru saddir og sælir á frábæra tónleika í Kórnum :) Þetta eru samt meira svona kaffiboðs treat eða desert eftir máltíð heldur en partýsnakk mundi ég segja. Mig langaði alla vega í kaffibolla með og ég sem drekk varla kaffi.

 

Fiskisúpa

IMG_0025Innihald: / 1 kg langa og keila / 1 msk ghee eða kókosolía / 1 laukur / 2-3 sellerístilkar / 4 gulrætur / 1 rauð papríka / 1/2 ferskur jalapeno / 2-3 cm engifer / 3-4 hvítlauksrif / 3-4 lárviðarlauf / lúka ferskt kóríander / 2 msk grænmetiskraftur / smá salt / 2 tsk fennil / 1 líter vatn / 1 flaska (450gr) maukaðir tómatar / 2 dl hvítvín eða mysa / 1 dós kókosmjólk.

  1. Byrjið á að skola og skera allt grænmetið niður, passið að fræhreinsa jalapeno-ið (seinna mauka ég grænmetið með töfrasprota en ef þú vilt það ekki þá skerðu bara grænmetið smátt).
  2. Setjið olíu í meðalstóran pott, byrjið á að setja laukinn í pottinn og mýkið svo allt grænmetið upp í dágóða stund ásamt kryddinu. Ég setti kóríander út í grunninn, s.s. ekki bara sem skraut.
  3. Bætið síðan vatninu út í ásamt maukuðu tómötunum og hvítvíninu og hitið að suðu við meðalhita.
  4. Setjið kókosmjólkina út í.
  5. Maukið síðan grænmetið í pottinum með töfrasprota.
  6. Rétt áður en súpan er borin fram þá setjið þið fiskinn út í. Ég skar hann í litla bita og lét malla í heitri súpunni í örfáar mínútur.
  7. Gott að setja ferskan kóríander og rifinn parmesan yfir fyrir þá sem vilja.

Mig langaði allt í einu svo ótrúlega mikið í fiskisúpu. Ég skoðaði nokkrar uppskriftir á netinu og gerði þessa svo bara uppúr mér. Hún kom ljómandi vel út og krökkunum fannst hún æðisleg. Ég reyndar byrjaði á grunninum um miðjan dag og slökkti svo undir grænmetinu því ég þurfti að skreppa út. Þegar ég kom heim rétt undir kvöldmatarleytið hélt ég áfram og bætti þá vökvanum út í. Þannig fékk grænmetið góðan tíma í pottinum og kannski gerði það galdurinn. Mér finnst betra þegar ég geri súpur að mauka grænmetið með töfrasprota, þannig slepp ég við að þykkja súpuna með hveiti eða maizenamjöli.

Ég vissi ekki alveg hvaða fisk ég ætti að hafa í súpunni en fékk súpergóða þjónustu í Fiskbúðinni Sundlaugarvegi 12 og mig langar að þakka konunni sem afgreiddi mig. Hún á nokkuð í þessari uppskrift :)

Ég gerði speltbollur með úr bókinni hennar Sollu Grænn Kostur og kryddaði þær með fersku rósmarín og timjan. Það var bara geggjað með :)

1 2 3 5