Archive of ‘Salat’ category

Sesam tamari kjötbollur

IMG_2681_2Fyrir 4

Kjötbollur: / 450 g nautahakk / 2 vorlaukar / 1 stórt egg / 1/4 bolli brauðteningar / 3 msk kóríanderlauf / 1 msk tamarisósa / 2 tsk ristuð sesamolía / 1 tsk ferskt rifið engifer / smá himalayan salt / smá svartur mulinn pipar.

  1. Hitið ofninn í 200-220 gr.
  2. Saxið laukinn gróft niður, pískið eggið létt, saxið kóríanderlaufin smátt og rífið engiferið niður.
  3. Setjið nautahakkið í stóra skál ásamt lauknum, egginu, brauðteningunum (bara rista brauð og skera smátt), kóríanderlaufunum, tamarisósunni, sesamolíunni, engiferinu, saltinu og piparnum og blandið öllu vel saman.
  4. Notið hendurnar til að búa til kjötbollur.
  5. Setjið bollurnar á bökunarpappír í ofnskúffu eða í eldfast mót og inn í ofn í ca. 15-20 mínútur eða þar til þær eru gullnar og að fullu eldaðar. Eldunartíminn fer auðvitað eftir því hversu stórar þið viljið hafa bollurnar en þessi uppskrift miðast við ca. 12 bollur.
  6. Gott að bera fram með fetaosti, sultuðum rauðlauk, sultu og hvítlauksbrauði.

Rauðrófu- og elpasalat: / 1 rauðrófa / 2 lífræn epli / safi úr hálfri lime eða sítrónu / 1-2 cm rifið engifer / smá sesamfræ / ólífuolía / salt.

  1. Rífið rauðrófuna og eplin niður.
  2. Ágætt er að láta rauðrófurnar liggja aðeins í sítrónusafanum áður en öllu er blandað saman því þá mýkjast þær smá.
  3. Síðan er hægt að bæta hverju sem er útí eins og sellerí, kóríander, zukkini eða bara hverju sem er.

Ég er í ótrúlega skemmtilegum matarklúbbi sem samanstendur af 16 hressum stelpum. Við höldum klúbb tvær og tvær saman og hver klúbbur eldar mat frá ákveðnu landi. Þegar klúbburinn er búinn að fara einn hring drögum við hverjar elda saman og hvert teymi dregur land. Það er alltaf svaka spenna. Ég og Gunna sæta fengum Noreg… roooosa spennandi! En við dóum nú alls ekki ráðalausar og skelltum í kjötbollur. Það er alltaf svo skandinavískt eitthvað. Gunna er svona heilsugúrú eins og ég og fannst ekkert að því að færa kjötbollurnar í aðeins hollari búning. Hún bjó svo til ótrúlega hollt og gott salat með úr rauðrófum og eplum sem kom rosalega vel út með kjötbollunum. Frábær matarklúbbur og ísinn hennar Ebbu sló í gegn í desert.

Heimild: http://www.yummly.com

 

Ljomandi-bordi4

 

Appelsínu saffran kjúklingasalat

IMG_2541Réttur fyrir ca. 6 manns.

Appelsínu- og saffran paste: / 1 appelsína / 50 g hunang (ég notaði akasíu) / 1/2 tsk saffranþræðir / ca. 300 ml. vatn

Salat: / 1 kg kjúklingabringur / 4 msk ólífuolía / 2 lítil fennel / 15 g kóríanderlauf / 15 g basillauf rifin / 15 g myntulauf rifin / 2 msk sítrónusafi / 1 rautt chili / 1 hvítlauksgeiri / salt og pipar.

Svona gerið þið appelsínupaste-ið:

  1. Byrjið á að hita ofninn í 180 gr.
  2. Skerið toppinn og botninn af appelsínunni, skerið í 12 báta og takið kjarnann burt.
  3. Setjið bátana með hýðinu í pott ásamt saffranþráðunum, hunanginu og vatni þannig að rétt fljóti yfir appelsínurnar.
  4. Látið suðuna koma upp og sjóðið við vægan hita í klukkustund.
  5. Útkoman á að vera mjúkar appelsínur og ca. 3 msk af þykku sýrópi en það gerðist ekki hjá mér. Appelsínurnar urðu mjúkar en ég fékk ekki þykkt sýróp svo ég notaði ekki allan vökvann þegar ég setti appelsínurnar í matvinnsluvélina til að mauka þetta saman. En úr matvinnsluvélinni á að koma þykkt mauk en samt þannig að það renni.

Salatið:

  1. Skolið kjúklingabringurnar, þerrið, setjið í ílát og veltið þeim upp úr helmingnum af ólífuolíunni og nægu af himalayan salti og pipar.
  2. Setjið síðan á heita pönnu, helst grillpönnu og brúnið í 2 mínútur á hvorri hlið.
  3. Því næst í eldfast mót og inn í 180 gr. heitan ofninn og eldið í 15-20 mínútur eða þar til tilbúið.
  4. Útbúið salatið á meðan með því að skera fennelið í þunnar sneiðar, rífa basiliku og myntu niður, bæta við kóríander og skera eitt rautt chili í þunnar sneiðar og setjið á það fat sem þið viljið bera fram á.
  5. Ég setti svo sítrónusafann, restina af ólífuolíunni og kraminn hvítlauksgeirann í litla skál og hrærði saman, setti yfir salatið og blandaði vel.
  6. Þegar kjúklingurinn hefur kólnað lítillega rífið hann þá í strimla með höndunum og setjið í skál. Hellið helmingnum af appelsínu- og saffran maukinu yfir og veltið kjúklingnum upp úr því. Hinn helminginn getið þið geymt í kæli og notað í alls konar sem ykkur dettur í hug t.d. með feitum fisk.

Gott að bera fram með bökuðum rauðlauk í valhnetusalsa. Uppskrift kemur inn von bráðar.

Jana vinkona mín benti mér á að prófa þennan rétt en hann kemur frá Ottolenghi og er mjög vinsæll réttur á veitingastað þeirra. Trikkið við þennan rétt er appelsínan, það gerist eitthvað meiriháttar þegar hún er soðin heil í mauk  Óóótrúlega gott.

 

 

Ljomandi-bordi4

Makrílsalat með graslaukssósu

IMG_2277_2Salat: / 2 flök af reyktum makríl (má líka nota lax) / fullt af grænu salati  / 1 sæt kartafla / 1/2 rauðlaukur / 1/2 púrrulaukur / 1 rauð papríka / 1 avókadó / parmesanostur yfir.

Graslaukssósa: / 125 g sýrður rjómi / 2 msk himneskt lífrænt majónes (eða bara venjulegt) / 1 msk sítrónusafi / 2 msk fínsaxaður graslaukur / 1 msk fínsöxuð mynta / himalayan salt og pipar.

  1. Skerið sætu kartöfluna í bita, setjið olíu yfir og kryddið að ykkar hætti. Ég notaði salt, pressaðan hvítlauk, turmeric, timian og eitthvað fleira.
  2. Bakið í ofni þar til tilbúið (ca. 20-25 mín).
  3. Skerið grænmetið fallega niður og setjið í skál.
  4. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar er gott að láta þær kólna smá (mega samt alveg vera volgar) og setjið yfir salatið.
  5. Berið fram með graslaukssósunni og kannski góðu brauði.

Ég fór á Matarmarkað Búrsins í Hörpunni fyrir nokkru og keypti þar heitreyktan, handfæraveiddan makríl frá Hornafirði. Mér fannst hann líta svo vel út að ég ákvað að prófa en ég hef ekki oft borðað makríl. Ég ákvað að setja hann í salat og gerði þessa frábæru graslaukssósu með sem passar einmitt svo ótrúlega vel með reyktum fiski. Einhver sagði mér að það væri ger í parmesanosti svo ef þú vilt það ekki þá bara sleppurðu honum. Makríll inniheldur mikið magn af B-12 og ómega-3 fitusýrum.

Þetta salat er ekkert svo stórt, kannski fyrir ca. þrjá fullorðna. Mér finnst samt alltaf erfitt að áætla með magn matar, það er svo misjafnt hve mikið hver borðar og ef við erum með börn eða bara fullorðna í mat. Ég hef líka gert þetta salat og notað lax sem kom mjög vel út. Við keyptum of mikið af laxi og notuðum afganginn af honum í svona salat daginn eftir. Mjög gott.

 

IMG_2270_2

 

IMG_7668

 

 

Ljomandi-bordi4

Hveitikornssalat

IMG_0110-2Innihald: / 250 ml heil hveitikorn / 1 dós kjúklingabaunir / 1/2 dós fetaostur / 1 krukka grilluð rauð papríka / 1 poki klettasalat / 2 tómatar / 100 g furuhnetur / 1 1/2 msk ólífuolía / smá sítrónusafi / salt og pipar.

  1. Leggið heilu hveitikornin í bleyti yfir nótt.
  2. Skolið af kornunum og setjið í pott ásamt 5 dl að vatni. Látð suðuna koma upp og sjóðið í 1 klst.
  3. Skerið niður grilluðu papríkuna og tómatana og setjið í skál.
  4. Bætið kjúklingabaununum, fetaostinum, klettasalatinu og furuhnetunum út í ásamt tilbúnu hveitikornunum.
  5. Þið ráðið hvort þið notið olíuna af fetaostinum eða hellið saman ólífuolíu, sítrónusafa, salti og pipar og skellið yfir salatið.
  6. Gott er að láta þetta salat standa í amk klukkustund í kæli og bera svo fram.

Ég fór einu sinni fyrir mörgum árum á matreiðslunámskeið í Manni Lifandi og þar kynntist ég að nota heil hveitikorn sem mér hafði ekki dottið í hug áður að nota í salat. Þau fást í næstu heilsubúð og eru gæðakolvetni og trefjarík.

Hráfæðipasta Jönu

IMG_7555-2Innihald: / 1 kúrbítur / 1 sæt kartafla / 1 rauðrófa

  1. Skerið grænmetið í pastastrimla með julienne peeler eða mandólín rifjárni og mýkið milli fingra með ólífuolíu. Ég set pínu salt líka.

Avocado basil pestó: / 2 avocado / 2 hvítlauksrif / handfylli af ferskri basilíku / hálf lúka af steinselju / 1/4 tsk þurrkar chili / 1/2 lime / smá ólífuolía / salt og pipar

  1. Allt sett í blandarann.
  2. Notið safann og börkinn úr lime-inu.

Kasjú”osta”sósa: / 1 bolli kasjúhnetur / 2 msk næringager / 1 tsk laukduft / lúka af graslauk / smá sítrónusafi / smá vatn til að þynna / salt og pipar

  1. Setjið kasjúhnetur í bleyti í ca. 2 klst.
  2. Setjið þær ásamt öllu hinu í blandarann og blandið þar til verður að sósu.

Mangótwist: / 1-2 mangó / bláber / mynta söxuð yfir. Svooooo gott!!!

Ég fékk þessa dásemdar uppskrift hjá elsku vinkonu minni henni Jönu. Hún heldur úti frábærri facebook síðu, Healthy Jana sem er full af allskonar fróðleik. Kíkið á hana.

Quinoa kjúklingasalat með engifersósu

IMG_6232Innihald: / 3-4 dl kínóa / 6-8 dl vatn / 1 heill kjúklingur / 1/2-1 poki spínat eða annað grænt kál / 1 rauð papríka / 1 gul papríka / 1 appelsínugul papríka / furuhnetur eftir smekk / graskersfræ eftir smekk / 1 krukka fetaostur / 1 avocado (betra að það sé ekki of mjúkt) / 1 mangó.

  1. Byrjið á að leggja kasjúhnetur í bleyti fyrir salatdressinguna (2 tíma).
  2. Sjóðið kínóað og kælið. 4 dl af þurru kínóa til að sjóða gerir stórt salat. Hér sérðu hvernig mér finnst best að sjóða kínóa.
  3. Eldið kjúklinginn, ég nota yfirleitt heilan kjúkling og kryddaði með kjúklingakryddi, fersku timjan og rósmarín.
  4. Skerið niður allt grænmeti (líka spínatið) og skerið kjúklinginn í bita.
  5. Öllu blandað vel saman á stóran disk eða í skál og mangóið sett síðast ofan á.
  6. Það getur verið gott að setja sítrónusafa yfir kínóað meðan það er að kólna.
  7. Þetta salat er fyrir ca. 4-6 manns.

Engiferdressing: / 1 hvítlauksgeiri / 2-3 cm engifer / 1 1/2 dl kasjúhnetur sem hafa legið í bleyti í amk 2 tíma / 3 msk eplaedik eða ris vinegar / 1/2 dl kaldpressuð ólífuolía /  3 msk hlynsíróp / smá þurrkað chili / smá maldon salt / 3 msk vatn.

Ég bara elska þetta salat og það er t.d. algjör snilld í saumaklúbbinn eða í veislu þar sem þú vilt bjóða upp á einfalt og gott salat. Engifersósan fer sérstaklega vel með því og ég fékk uppskriftina hjá henni hjá Jönu minni. Þessi salatdressing er alveg meiriháttar góð. Um daginn keyptum reyndar engiferdressingu á LOCAL sem er lítill, kósí heilsustaður í Borgartúninu og notuðum með þessu salati. Ég held reyndar að dressingin hafi verið japönsk en þau selja einnig sesarsósu og mexíkóska dressingu og þær eru allar frábærar :) LOCAL er alveg málið.

Thai-salat

IMG_6077Innihald: / 1 lambalund / 1 brokkolíhöfuð / 1 rauð paprika / 1 rauðlaukur / 1 gúrka / 3 tómatar / 3 gulrætur / belgbaunir.

Dressing: 1/2 msk fiskisósa / 2 msk ristuð sesamolía / 1 msk hlynsýróp eða akasíuhunang / 1 msk tamarisósa / 2 hvítlauksrif / 2-3 cm engifer / 1/2 rautt saxað chili / smá limesafi.

Hnetur: setjið kasjúhnetur í eldfast mót og kryddið með karríi, smá agave eða einhverju til að sæta og chili. Hitið í ofni í smá stund eða þar til þær verða pínu harðar.

  1. Kryddið lambalundina og eldið.
  2. Sjóðið vatn í katli og hellið yfir brokkolíið, látið standa í ca. 1 mínútu.
  3. Skerið niður grænmetið og setjið í fallega skál.
  4. Skerið lambalundina í þunnar sneiðar og blandið saman við grænmetið.
  5. Hellið dressingunni yfir.
  6. Stráið ristuðum sesamfræjum yfir og hnetunum.

Ég fékk þetta salat hjá Jönu vinkonu minni þegar ég heimsótti hana til Lúxemborgar. Jana er algjör snillingur í eldhúsinu og stútfull af alls konar fróðleik varðandi mat og heilsu almennt. Hún sér um eldhúsið á HaPP Luxembourg. Þannig að þetta salat klikkar alls ekki.

Verði ykkur að góðu :)