Hvítt hveiti og áhrif þess á meltinguna

wheatNáttúrulækningafélag Íslands var stofnað árið 1937 á Sauðárkróki, mínum heimabæ. Tilgangurinn með stofnun félagsins var að fá fólk til að bera ábyrgð á eigin heilsu.

Málþing Náttúrulækningafélags Íslands fór fram í október sl. en umfjöllunarefni þingsins var hvaða áhrif hveiti, þ.e. malað og sigtað hveitikorn, hefur á meltinguna og þ.a.l. á heilsu okkar. Þegar málþing um sykur var haldið árið 2000 hélt einn frummælandinn því fram að sykur væri eitur og fíkniefni og allt ætlaði gjörsamlega um koll að keyra. Sigurjón VIlbergsson, lyf- og meltingarsérfræðingur var frummælandi í þetta sinn en hann hélt einmitt mjög fróðlegt erindi í vor á ráðstefnunni Flott flóra – leiðin til að tóra en þar útskýrði hann m.a. meltingarflóruflutning milli hjóna þar sem hægðir eiginmannsins voru notaðar sem lækningin og varð til þess að bjarga heilsu eiginkonunnar. Sigurjón hlustar á hægðarsögur allan daginn og kann því sitt fag. Meltingin er flókin og í meltingarveginum eru 10x fleiri bakteríur en frumur líkamans og grunnbakteríurnar í meltingunni verða að vera í lagi því “ef hægðir eru ekki í lagi, þá er ekkert í lagi” segir Sigurjón.

Meltingarvegurinn stjórnar andlegri og líkamlegri líðan

Bakteríurnar í meltingarveginum stjórna ónæmiskerfinu, andlegri líðan, hafa áhrif á kvíða og þunglyndi, bólgusjúkdóma, taugasjúkdóma, offitu og hægðatregðu. Sem dæmi er munurinn á tvíburum með sömu gen sem alast upp við sama mataræði þar sem annar fitnar en hinn ekki, þarmaflóran í þeim. Sigurjón sýndi áheyrendum röntgenmynd af ristli sem var fullur af formuðum hægðum en þannig getur ristillinn einmitt litið út þrátt fyrir að viðkomandi hafi hægðir á hverjum degi. Þetta getur valdið alls konar kvillum og orsakast af einhverju því sem við látum ofan í okkur. Í heilbrigðum ristli eiga hægðir að vera eins og súpa hægra megin (í risristli) en alls ekki formaðar og það er eitthvað sem við erum að borða sem veldur þessu. Sigurjón heldur því fram að það segi okkur ekkert um meltinguna þó svo viðkomandi hafi hægðir á hverjum degi því ristillinn getur samt sem áður verið stútfullur. Eðlilegt og innan normsins sé að hafa hægðir allt upp í 3x á dag eða á 3ja daga fresti.

En hvað hefur allt þetta tal um meltinguna að gera með hvítt hveiti?

Hveitikorn er gert úr þremur lögum. Yst er hveitihýði sem er ríkt af trefjum, síðan kjarninn sem inniheldur aðallega kolvetni, glúten og vatn. Innsti kjarninn er hveitikím sem er próteinríkt og inniheldur ýmis vítamín og steinefni. Til eru yfir 30.000 mismunandi tegundir af hveiti og ef það er ræktað í frjósömum jarðvegi þá er það ríkt af E- og B vítamínum, steinefnum og omega-3 fitusýrum. Þær kornvörur sem innihalda glúten eru hveiti, spelt, bygg, hafrar og rúgur en glútenlausar kornvörur eru bókhveiti, maísmjöl, möndlumjöl, hirsi, quinoa og amaranth svo eitthvað sé nefnt. Erfðabreytt hveiti inniheldur 5x meira glúten en venjulegt hveiti.

Nútímavætt hveiti

Það skiptir gríðarlegu máli hvernig hveiti er meðhöndlað eins og Sigfús Guðfinnsson bakarameistari hjá Brauðhúsinu Grímsbæ benti á. Þegar hveiti kom fyrst fram var það mikils metin fæða og bjargvættur og allar heimildir benda til þess að fólk réð mjög vel við að melta korn. Hveitið í dag er nútímvætt og ekki það sama og áður var. Í dag er hýðið og kímið oft hreinsað frá því þannig verður hveitið léttara í sér og inniheldur meira glúten sem eykur baksturseiginleika þess en rýrir á móti næringagildið. Kímið inniheldur olíur sem oxast og styttir þannig geymsluþol hveitisins. Ákveðnar hveititegundir vaxa hraðar en aðrar og þykir það gríðarlegur kostur því þannig er hægt að auka hagnað framleiðslunnar. Spelt er t.d. seinræktað. Einnig er í dag notað skordýraeitur við ræktun hveitis sem og tilbúið gervihormón sem kallast cycocel en það getur stjórnað spírun og aukið færni hveitis að vaxa í kaldara loftslagi. Skordýraeitur er einnig notað við ræktun ávaxta, grænmetis, í te-, kaffi- og vínrækt svo það er vandlifað. Þessi hraða framleiðsla felst m.a. í gjörnýtingu jarðvegarins og einhæf akuryrkja á stórum svæðum myndar eyðimörk með tímanum því með notkun skordýraeitursins hverfa öll skordýr og gróðurmoldin rýrnar.

Seliak sjúkdómurinn er ekki það sama og glútenóþol

Mikill munur er á seliak sjúkdómnum og glútenóþoli samkvæmt Ösp VIðarsdóttur og Birnu Óskarsdóttur sem stofnuðu Seliak og glútenóþolssamtök Íslands. Seliak er sjálfsofnæmissjúkdómur sem lýsir sér þannig að þarmatoturnar skemmast og er hann algengari hjá konum en körlum. Þeir sem þjást af seliak þola alls ekkert hveiti sem þýðir að áhöld sem notuð eru í hveiti mega alls ekki komast í snertingu við neitt sem viðkomandi á að neyta. Öll áhöld verða að vera alveg sér fyrir fólk með seliak. Glútenóþol er erfitt að greina en þá er ekki um að ræða þarmaskemmdir sem koma fram hjá fólki með seliak. Mikil vanþekking er á seliak sjúkdómnum meðal almennings og er fólk sem þjáist af honum oft dæmt histerískt en um er að ræða raunverulegan og alvarlegan sjúkdóm. Þeir sem vilja kynna sér starfsemi samtakanna geta kíkt á heimsíðu þeirra: http://www.seliak.com

Óþol og ofnæmi er alls ekki það sama

Flókin og mikil þolinmæðisvinna lækna liggur að baki greiningu á fæðuóþoli og fæðuofnæmi, samkvæmt Birni Rúnari Lúðvíkssyni, prófessor og yfirlækni ónæmisfræðideildar LSH. Margir sérfræðingar þurfa að koma að þessari greiningu og því er ferlið flókið. Fæðuofnæmi getur verið hættulegt en það er ekki hættulegt að vera með fæðuóþol nema mögulega mjög slæmt glútenóþol. Fjölmargar ástæður eru fyrir óþoli, t.d. að fólk þoli ekki ákveðin prótein eða skortir mikilvæg meltingarensím sem gefur einkenni fyrir óþoli. Í dag þekkjum við helstu ofnæmisvalda í hverri fæðutegund fyrir sig og þeir sem þjást af fæðuofnæmi eru með ofnæmi fyrir ákveðnum tegundum af próteinum en ekki próteinum yfirhöfuð. Fólk ber fæðuofnæmi ekki utan á sér og mætir því skilningsleysi í samfélaginu. Hveitiofnæmi getur elst af börnum, öfugt við t.d. hnetuofnæmi, og 65% þessara barna hafa losnað við hveitiofnæmi við 12 ára aldur. Algengt er að börn í dag þurfi að taka með sérbakað bakkelsi í veislur vegna hveitiofnæmi eða annars ofnæmis. Hveitiofnæmi getur verið lífshættulegt og eru einkenni frá húð, öndunarfærum og meltingu. Talið er að um 0,4% íslendingar séu með hveitiofnæmi. Hveitióþol er mjög erfitt að greina og mikil óvissa ríkir um það en talið er samt að um 4-6 % Íslendinga séu með hveitióþol. Um eitt prósent Íslendinga er með seliak eða um 3300 manns. Einkenni eru frá meltingarvegi, húð, blóðleysi, vítamín- og steinefnaskortur. Björn benti á að algengasti sjúkdómur heimsins sé vannæring og er hveiti okkur mikilvæg uppspretta en það ber að vara sig og í dag eru Íslendingar t.d. þriðja feitasta þjóð heims.

Margir spyrja sig hvaða hveiti við eigum að borða en vænlegra væri að spurja hvaðan kornið kemur; Hvort það sé erfðabreytt, hvort notað sé skordýraeitur við framleiðslu o.s.frv. Til gamans má geta þess að eftir að Sigurjón heimsótti Guinness bjórverkssmiðjuna í Dublin sannfærðist hann um að bjór er ekkert annað en fljótandi brauð. Þeir sem vilja fræðast frekar um efnið ættu að lesa bók sem heitir The Wheat Belly eftir William Davis sem fjallar um áhrif hveitis á offitu í heiminum, aukingu á bólgusjúkdómum, hormóna- og efnaskiptum, áhrif á sykursýki og hjartasjúkdóma, kvíða og þunglyndi og krabbamein.

Á heimasíðu Náttúrulækningafélagsins http://www.nlfi.is má nálgast hljóðupptökur af erindunum sem flutt voru.

 

Leave a Reply