Posts Tagged ‘fiskur’

Fiskisúpa

IMG_0025Innihald: / 1 kg langa og keila / 1 msk ghee eða kókosolía / 1 laukur / 2-3 sellerístilkar / 4 gulrætur / 1 rauð papríka / 1/2 ferskur jalapeno / 2-3 cm engifer / 3-4 hvítlauksrif / 3-4 lárviðarlauf / lúka ferskt kóríander / 2 msk grænmetiskraftur / smá salt / 2 tsk fennil / 1 líter vatn / 1 flaska (450gr) maukaðir tómatar / 2 dl hvítvín eða mysa / 1 dós kókosmjólk.

  1. Byrjið á að skola og skera allt grænmetið niður, passið að fræhreinsa jalapeno-ið (seinna mauka ég grænmetið með töfrasprota en ef þú vilt það ekki þá skerðu bara grænmetið smátt).
  2. Setjið olíu í meðalstóran pott, byrjið á að setja laukinn í pottinn og mýkið svo allt grænmetið upp í dágóða stund ásamt kryddinu. Ég setti kóríander út í grunninn, s.s. ekki bara sem skraut.
  3. Bætið síðan vatninu út í ásamt maukuðu tómötunum og hvítvíninu og hitið að suðu við meðalhita.
  4. Setjið kókosmjólkina út í.
  5. Maukið síðan grænmetið í pottinum með töfrasprota.
  6. Rétt áður en súpan er borin fram þá setjið þið fiskinn út í. Ég skar hann í litla bita og lét malla í heitri súpunni í örfáar mínútur.
  7. Gott að setja ferskan kóríander og rifinn parmesan yfir fyrir þá sem vilja.

Mig langaði allt í einu svo ótrúlega mikið í fiskisúpu. Ég skoðaði nokkrar uppskriftir á netinu og gerði þessa svo bara uppúr mér. Hún kom ljómandi vel út og krökkunum fannst hún æðisleg. Ég reyndar byrjaði á grunninum um miðjan dag og slökkti svo undir grænmetinu því ég þurfti að skreppa út. Þegar ég kom heim rétt undir kvöldmatarleytið hélt ég áfram og bætti þá vökvanum út í. Þannig fékk grænmetið góðan tíma í pottinum og kannski gerði það galdurinn. Mér finnst betra þegar ég geri súpur að mauka grænmetið með töfrasprota, þannig slepp ég við að þykkja súpuna með hveiti eða maizenamjöli.

Ég vissi ekki alveg hvaða fisk ég ætti að hafa í súpunni en fékk súpergóða þjónustu í Fiskbúðinni Sundlaugarvegi 12 og mig langar að þakka konunni sem afgreiddi mig. Hún á nokkuð í þessari uppskrift :)

Ég gerði speltbollur með úr bókinni hennar Sollu Grænn Kostur og kryddaði þær með fersku rósmarín og timjan. Það var bara geggjað með :)

Beikonvafðir þorskhnakkar með brokkolísalati

IMG_8200Innihald: / þorskhnakkar / beikon

  1. Reiknið með einum til tveim bitum af fiski á mann.
  2. Skerið niður í fallega bita og vefjið beikoninu utan um.
  3. Grillið í nokkrar mínútur á hvorri hlið, passa vel að ofelda ekki.

Kartöflur: / 1 sæt kartafla / 1 gulrófa / 1 sellerírót / 1 rauðlaukur / smá olía / smá salt

  1. Grænmetið er skorið niður í bita og sett í eldfast mót.
  2. Setjið olíu yfir, saltið og kryddið að vild og setjið inn í ofn á 180gr í 20-30 mín.

Brokkolísalat: / 150 g brokkolí / 2 dósir (200 g) sýrður rjómi / 1 rauðlaukur / 1 msk akasíu hunang / 2 msk rúsínur / salt og pipar.

  1. Brokkolíið mýkt í sjóðandi vatni í ca. 2 mín og kælt.
  2. Rauðlaukur fínt saxaður og svo er öllu blandað saman.
  3. Æðislega gott salat með fisk.

Ég fékk þennan rétt hjá mömmu eitt sinn er ég fór norður í heimsókn og hann var svo góður að ég varð að láta hann hér inn. Ég borða afar sjaldan beikon en þetta var alveg dásamlega gott og brokkolísalatið frábært. Ég væri líka til í að prófa að nota hráskinku utan um fiskinn en beikonið átti mjög vel með þorskhnökkunum. Verði ykkur að góðu.

IMG_8183-2