Salat: / 2 flök af reyktum makríl (má líka nota lax) / fullt af grænu salati / 1 sæt kartafla / 1/2 rauðlaukur / 1/2 púrrulaukur / 1 rauð papríka / 1 avókadó / parmesanostur yfir.
Graslaukssósa: / 125 g sýrður rjómi / 2 msk himneskt lífrænt majónes (eða bara venjulegt) / 1 msk sítrónusafi / 2 msk fínsaxaður graslaukur / 1 msk fínsöxuð mynta / himalayan salt og pipar.
- Skerið sætu kartöfluna í bita, setjið olíu yfir og kryddið að ykkar hætti. Ég notaði salt, pressaðan hvítlauk, turmeric, timian og eitthvað fleira.
- Bakið í ofni þar til tilbúið (ca. 20-25 mín).
- Skerið grænmetið fallega niður og setjið í skál.
- Þegar kartöflurnar eru tilbúnar er gott að láta þær kólna smá (mega samt alveg vera volgar) og setjið yfir salatið.
- Berið fram með graslaukssósunni og kannski góðu brauði.
Ég fór á Matarmarkað Búrsins í Hörpunni fyrir nokkru og keypti þar heitreyktan, handfæraveiddan makríl frá Hornafirði. Mér fannst hann líta svo vel út að ég ákvað að prófa en ég hef ekki oft borðað makríl. Ég ákvað að setja hann í salat og gerði þessa frábæru graslaukssósu með sem passar einmitt svo ótrúlega vel með reyktum fiski. Einhver sagði mér að það væri ger í parmesanosti svo ef þú vilt það ekki þá bara sleppurðu honum. Makríll inniheldur mikið magn af B-12 og ómega-3 fitusýrum.
Þetta salat er ekkert svo stórt, kannski fyrir ca. þrjá fullorðna. Mér finnst samt alltaf erfitt að áætla með magn matar, það er svo misjafnt hve mikið hver borðar og ef við erum með börn eða bara fullorðna í mat. Ég hef líka gert þetta salat og notað lax sem kom mjög vel út. Við keyptum of mikið af laxi og notuðum afganginn af honum í svona salat daginn eftir. Mjög gott.