April 2014 archive

Besta Pasta

IMG_6020Innihald: / 450 g speltpasta / 100 g sólþurrkaðir tómatar  / 1 rautt chili / 2 msk ferskur sítrónusafi / 50 g furuhnetur / 50 g mosarellaostur / rifinn parmesanostur / sjávarsalt / nýmalaður pipar / val: kjúklingur

Sósa: / 100 g klettasalat / 25 g fersk basilíka / 3 stk hvítlauksrif / 1 dl ólífuolía.

  1. Sjóðið pastað, látið vatnið renna vel af því og setjið í fallega skál.
  2. Skerið tómatana í strimla, fræhreinsið chili og skerið í langa strimla, þurrristið furuhneturnar og setjið allt í skálina ásamt sítrónusafanum og mosarellaostinum.
  3. Búið til sósuna með því að setja allt í matvinnsluvélina, maukið vel og hellið yfir pastað.
  4. Saltið og piprið eftir smekk og rífið parmesanost yfir.

Þennan rétt held ég að ég hafi gert langoftast í mínu eldhúsi og hann er ekki glútenlaus. Krakkanir mínir elska hann og alltaf þegar ég hef hann í boðum þá er ég beðin um uppskriftina. Hann er auðvitað frá Sollu og er í Hagkaupsbókinni Grænn Kostur undir nafninu Speltpasta með klettasalatpestó. Mér finnst við hæfi að kalla hann bara Besta Pasta þar sem þetta er besti pastaréttur í heimi að mínu mati og okkar allra í fjölskyldunni. Hann klikkar einfaldlega aldrei þessi réttur. Við erum reyndar farin að kalla hann Pastað á Gló því þar fæst mjög líkur pastaréttur sem við tökum oft heim þegar við nennum ekki að elda. Svo er líka mjög gott að bæta kjúkling út í fyrir þá sem vilja það.

Eggjahræra

IMG_6086Innihald: / smá ólífuolía, kókosolía eða ghee / 3-4 egg / 1 lúka spínat eða grænkál / 2 hvítlauksgeirar / 1-2 cm engifer / smá turmeric / smá salt / 1 msk hörfræ / 1 msk sesamfræ / smá hampfræ.

  1. Setjið olíuna á pönnu léttsteikið spínatið.
  2. Þið getið hrært eggin saman í skál, kryddað og sett svo allt á pönnuna en ég set eggin bara beint á pönnuna. Kreisti hvítlaukinn yfir og engiferrótina líka í hvítlaukspressu og krydda. Hræri svo öllu saman á pönnunni til að gera þetta eins einfalt og hægt er.
  3. Setjið 1 msk hörfræ og 1 msk sesamfræ í kaffikvörn og búið til mulning sem þið stráið yfir þegar eggjahræran er komin á diskinn. Þar með er þetta orðið omega/kalk bomba!
  4. Setið smá hampfræ yfir líka.

Þessa eggjahræru geri ég mér rosalega oft á morgnana eftir æfingu því egg eru það einfaldasta sem hægt er að elda og súperholl. Stundum þegar ég á turmeric rót nota ég hana í staðinn fyrir duft, kreisti bara úr hvítlaukspressu eða ríf í litlu rifjárni. Turmeric rót er erfitt að fá á Íslandi því miður og er oft auglýst sérstaklega fyrstur kemur fyrstur fær þegar hún er til. Þegar ég fer í vinnuna til Ameríku fer ég yfirleitt í dásamlegu Whole Foods og næli mér í turmeric rót.

Glútenlausar vöfflur

IMG_5973Innihald: / 1 bolli bókhveiti / 1 bolli rísmjöl / 1/2 bolli hirsiflögur / 1 1/2 tsk vínsteinslyftiduft / smá sjávarsalt / 1 1/2 msk sesamfræ / 1 1/2 msk hampfræ / 2 egg / 4-5 msk ólífuolía/kókosolía eða smjör / 2 bollar vatn, möndlu- eða hrísmjólk / smá erythritol eða stevia.

  1. Blandið þurrefnunum saman og hrærið út með hluta af vökvanum.
  2. Bætið eggjunum út í og hrærið vel.
  3. Blandið olíunni saman við og síðan restinni af vökvanum.
  4. Skellt í vöfflujárnið eða búið til lummur.

Namminamminamm…….. það er svo gott að fá sér nýbakaða vöfflu. Þessar komu svo sannarlega á óvart og ekki skemmir fyrir hvað þær eru hollar. Ég notaði 3 msk af ólífuolíu og 2 msk af kókosolíu í þessa uppskrift en það er örugglega bragðbest að nota smá smjör. Mér finnst allt verða gott með smjöri, úps!  Reyndar átti ég ekki nema 1/2 bolla af rísmjöli svo ég notaði 1/2 bolla af Tapica mjöli á móti en svo las ég einhvers staðar að Tapica er víst ekki gott fyrir skjaldkirtilinn. Alla vega, þá vitum við það :)

IMG_6007

 

Súkkulaði espresso kaka

IMG_6511-3Botn: / 3/4 bolli (100 g) heslihnetur / 1/4 bolli (60 ml) kókosolía / 3 msk hlynsíróp / 1/4 tsk maldon salt / 1 1/2 bolli (150 g) haframjöl (má vera glútenlaust).

  1. Hitið ofninn í 180 gr. og smyrjið 23 cm form að innan með kókosolíu.
  2. Myljið 1/2 bolla af höfrum í blandara þar til þeir verða að grófu mjöli og setjið í skál.
  3. Malið síðan heslihneturnar þar til þær verða sandkenndar.
  4. Bætið út í blandarann kókosolíunni, hlynsírópinu, saltinu og hafrablöndunni þar til verður að deigi.
  5. Setjið svo restina af höfrunum út í en passið að blanda þeim ekki í mauk. Deigið á að festast saman milli fingra. Ef ekki prufið þá að setja meira hlynsíróp og blandið betur saman.
  6. Þrýstið deiginu í form með fingrunum og farið vel upp kantana. Því betur sem þú þrýstir, því betur helst botninn saman.
  7. Stingið með gaffli á nokkrum stöðum í botninn til að hleypa út gufu.
  8. Bakið í 10-13 mínútur eða þar til gullið. Látið svo kólna í ca. 15 mín.

Fylling: / 1 1/2 bolli (200 g) kasjúhnetur lagðar í bleyti í amk. 4 tíma / 3/4 bolli (175 ml) hlynsíróp / 1/2 bolli (125 ml) kókosolía / 1/3 bolli (30 g) kakóduft / 1/3 bolli (75 ml) dökkt bráðið súkkulaði (ca ein plata) / 2 tsk vanilla extract / 1/2 tsk maldon salt / 1/2 tsk espresso duft eða annað kaffiduft / smá súkkulaði til skrauts og kókosflögur eða kasjúkrem.

  1. Skolið kasjúhneturnar, setjið í blandarann ásamt restinni af uppskriftinni nema skrautinu og blandið þar til verður mjúkt. Getur alveg tekið smá stund, fer eftir blandaranum. Hægt að bæta við matskeið af möndlumjólk ef það þarf meiri vökva.
  2. Hellið fyllingunni í botninn og skreytið með rifnu súkkulaði eða kókosflögum.
  3. Setjið beint í frysti í nokkra tíma, þar eftir lokiði fatinu með filmu og frystið yfir nótt eða amk. í 4-6 tíma.

Leyfið kökunni að standa í 10 mínútur áður en hún er skorin. Kökuna á að bera fram frosna. Einnig er hægt að bera hana fram með kasjúkremi og rifnu súkkulaði. Ef það er afgangur þá geymist kakan í loftþéttum umbúðum í frysti í 1 – 1 1/2 viku.

Kasjúkrem: / 1/2 bolli kasjúhnetur lagðar í bleyti í amk. 4 tíma / 3 msk hlynsíróp / 4 msk vatn / smá sjávarsalt.

  1. Skolið kasjúhneturnar.
  2. Setjið allt í blandarann og blandið þar til silkimjúkt.
  3. Saltið og sætið að vild og geymið í kæli.

Þessi kaka er algjört lostæti og inniheldur bæði kaffi og súkkulaði sem gerir hana að spariköku. Þess vegna er tilvalið að eiga hana um páskana. Hún er upprunalega frá Oh She Glows en ég fann hana á http://www.mynewroots.org sem er æðislega falleg matarbloggsíða.

IMG_6478-2

Hrökkbrauð með laukbragði

IMG_5068Innihald: 1 dl maísmjöl / 1 dl bókhveiti (eða möndlumjöl) / 1 dl sesamfræ / 1/2 dl mulin hörfræ (í kaffikvörn) / 1/2 dl sólblómafræ / 1/2 dl hampfræ / 1/4 dl chiafræ  / 2 1/4 msk kókosolía / 2 1/2 dl soðið vatn / 1-2 tsk laukduft / birkifræ / smá salt í deigið og til að strá yfir

  1. Hrærið saman þurrefnunum (ég nota frekar mikið laukduft, gefur svo gott bragð).
  2. Sjóðið vatnið, setjið kókosolíuna út í og hrærið saman við deigið.
  3. Setjið bökunarpappír á plötu, síðan deigið og annan bökunarpappír ofaná og dreifið um plötuna með höndunum. Þannig klístrast ekki hendurnar og mun auðveldara að eiga við.
  4. Stráið smá birkifræjum og salti yfir og setjið aftur bökunarpappírinn yfir og þrýstið smá.
  5. Skerið í kex með pizzaskera.
  6. Bakið við 175gr í 25-35 mín.

Ég elska hrökkbrauð og gæti borðað það í öll mál. Þetta hrökkbrauð er svooooo gott og svakalega einfalt að gera. Áður en ég komst upp á lagið með að búa það til sjálf var ég áskrifandi á Finn Crisp, þessu þunna brúna. Núna geri ég mér mitt eigið hrökkbrauð sem er svo mikliu, miklu betra og hollara. Svo ótrúlega gott með t.d. hummus, rauðrófumauki eða bara smjöri og osti þess vegna. Ég hef einnig bætt við rifnum parmesan osti ofaná og sett svo inn í ofn og það var algjör snilld. Ég skora á þig að prófa, þú verður ekki fyrir vonbrigðum.

IMG_5896-4

Hugmyndin að þessu hrökkbrauði kemur frá yndislegu síðunni hennar Hönnu Göransson http://hurbrasomhelst.se

Heimsins besta quinoa súkkulaðikaka

IMG_6197Innihald: / 2 bollar (300 g) soðið quinoa (ca. 3/4 bollar ósoðið lagt í bleyti) / 1/3 bolli (1 dl) möndlumjólk (ósæt) / 4 egg / 1 tsk vanillu extract / 1/2 bolli (50 g) smjör  / 1/4 bolli (3/4 dl) kókosolía / 1 bolli (150 g) kókospálmasykur / 1 bolli (100 g) kakóduft / 1/2 tsk matarsódi / 2 tsk vínsteinslyftiduft / 1/2 tsk maldon salt

Krem: / 1 dós kókosmjólk / 200 g 70% eða 85% súkkulaði.

Hefur þú prófað að baka köku úr quinoa? Spennandi! Áður en þið byrjið er gott að vera búin að græja quinoa og kremið. Það þarf að láta quinoa liggja í bleyti yfir nótt, skola síðan vel, elda og kæla. Quinoa á að vera mjúkt og létt þegar það er tilbúið. En ef ekki þá verður kakan eins og frönsk súkkulaðikaka sem er líka allt í lagi. U.þ.b. 3/4 bollar af þurru quinoa gera 2 bolla af því soðnu. Til að búa til kremið þá er best að geyma kókosmjólkina inni í ísskáp yfir nótt svo að hún nái að skilja sig. Það er mjög gott að búa til kremið daginn áður en þó ekki nauðsynlegt.

  1. Stillið ofninn á 175 gr.
  2. Takið fram tvö kökuform, klippið börkunarpappír í tvo hringi og leggið í botnana.
  3. Bræðið smjörið, kælið það smá og setjið kókosolíukrukkuna undir heitt vatn til að fá hana fljótandi.
  4. Blandið saman eggjum, mjólk og vanillu extract í blandaranum í ca. 10 sek.
  5. Bætið síðan tilbúnu quinoa, smjörinu og kókosolíunni út í blandarann þar til allt verður mjúkt eða í ca. 1/2 – 1 mín.
  6. Setjið þurrefnin í skál og hrærið blöndunni úr blandaranum vel saman við.
  7. Skiptið deiginu í tvennt og bakið í 30 mínútur og kælið þegar tilbúið.
  8. Til að búa til kremið þá bræðið þið súkkulaðið á lágum hita í potti.
  9. Takið kókosmjólkina úr ísskápnum en passið að hrista ekki dósina. Við viljum nota þykka hlutann af kókosmjólkinni. Setið hann út í pottinn og bræðið saman við súkkulaðið. Ef blandan er enn mjög dökk þá bætið þið meira af kókosmjólkinni út í.
  10. Setjið síðan kremið í skál og látið kólna í smá stund á borði, lokið skálinni og kælið í ísskápnum í nokkrar klukkustundir eða þar til kremið hefur þykknað. Þess vegna gæti verið gott að gera kremið kvöldið áður.
  11. Þegar kremið er orðið þykkt þá er það þeytt með handþeytara á miklum hraða í 1/2 – 1 mínútu eða þar til það er orðið að flottu kökukremi.

Þessi kaka er frekar viðkvæm svo færið hana bara einu sinni. Ég mundi taka hana beint úr mótinu, setja hana á fallegan kökudisk og setja kremið á hana þar. Látið botninn snúa upp á kökunni og ekki gleyma að setja krem á milli botnanna! Geymið kökuna í ísskáp þar til á að bera hana fram því kremið bráðnar þegar það er heitt en við vitum að þannig veður er ekki vandamál hér á Íslandi svo kakan ætti að vera góð í nokkra tíma á borði.

Líka gaman að segja frá því að Edda mín 12 ára vill hafa þessa í afmælinu sínu. Ekki slæm meðmæli!

Verði ykkur að góðu :)

IMG_6262

Þessa köku fann ég á makingthymeforhealth.com

 

 

RMVJ

IMG_4402Innihald: / 2 gulrætur / 2 stk sellerí / 2 græn epli / 1/3 rauðrófa / 1/3 gúrka eða eitthvað grænt eins og spínat / 1/2 sítróna / 1 hvítlauksgeiri / smá engiferbiti

Aðferð: þessi safi er pressaður í safapressu en ef þið eigið ekki svoleiðis þá notiði bara blandarann og síið djúsinn frá hratinu gegnum síupoka (fæst í Ljósinu Langholtsvegi).

RMVJ stendur fyrir Raw Mixed Vegetable Juice og er talinn einn sá næringarríkasti sem þið getið skellt í ykkur. Sumum finnst kannski skrítið að djúsa hvítlauk en hvítlaukur er t.d. ótrúlega sveppa- og bakteríudrepandi. Þessi safi er notaður í The Great Liquid Diet eða GLD sem Dr. Leonard Mehlmauer þróaði í sinni lækningafræði (1). Try it!

 

Bleikur próteinsjeik

IMG_5581Innihald: / 3 dl möndlumjólk1 mæliskeið vanilluprótein / 1/2 avocado eða banani / 1 dl frosin hindber og bláber / 1 msk hörfræ (möluð) / 1 msk sesamfræ (möluð) / smá sítrónusafi / smá kanill / bee pollen ofaná.

Aðferð: Ég mala hörfræin og sesamfræin í kaffikvörn eða bara í blandaranum á undan og skelli svo öllu hinu útí.

Frábær sjeik eftir æfingu. Þið getið notað hvaða fræ sem er eins og t.d. hampfræ eða chiafræ.

Glútenlaus föstudagspizza

IMG_4520Innihald: / 1 1/2 dl bókhveitimjöl eða maísmjöl, teffmjöl, kókoshveiti eða möndlumjöl (ég blandaði tveim tegundum saman 50/50) / 1 dl fjölkornablanda frá LÍF eða önnur fræ / 1 msk psyllium husks / 1 tsk vínsteinslyftiduft / 3 egg / 1 dl möndlumjólk / 2 msk oregano / 1 hvítlauksrif pressað / smá salt

Heimagerð pizzusósa: 2 dl maukaðir tómatar / 1 dl tómatpúrra / 1-2 hvítlauksrif 1-2 tsk oregano

  1. Stillið ofninn á 220gr.
  2. Blandið saman þurrefnunum.
  3. Hrærið saman eggjunum og mjólkinni og blandið út í. Látið standa í ca. 5 mínútur. Deigið á að vera blautt svo ekki setja meira mjöl út í.
  4. Búið til eina stóra pizzu eða tvær minni og bakið í 5-8 mínútur.
  5. Takið svo pizzuna úr ofninum og smyrjið pizzusósu yfir botninn. Setjið á hana það sem ykkur finnst gott og má fara inn í ofn. Ég notaði sólþurrkaða tómata, rauða papriku og parmesan ost. Örugglega gott að nota sveppi fyrir þá sem finnst þeir góðir.
  6. Setjið pizzuna aftur inn í ofninn í 10-15 mín.
  7. Þegar pizzan kom úr ofninum setti ég rauðlauk, rucola, avocado og aðeins meiri parmesan ofaná. Svo fullt af hvítlauksolíu. Algjört must.

Passið bara að ef þið notið kókoshveiti þá þarf meiri vökva í uppskriftina. Hér er líka frábært að nota rauðrófuhummus með. Ég studdist hér við uppskrift af hurbrasomhelst.se og bætti aðeins við hana. Eigið dásamlega helgi :) 

 

 

 

Bláberjamuffins

IMG_6146-2Innihald: / 3 egg / 1 eggjarauða / 1 1/2 dl sukrin melis (eða flórsykur) / 4 msk kókosolía / 3/4 dl möndlumjólk / 3/4 dl kókoshveiti / 3 msk whole psyllium husk / smá salt / 1 1/2 tsk vínsteinslyftiduft / 2 tsk kanill / 1/2 tsk vanilluduft / 1 tsk kardimommuduft / 3 dl bláber / 1 msk kartöflumjöl eða tapica mjöl / 2 msk sukrin melis (eða flórsykur) / ca. 1/2 dl hakkaðar möndlur.

  1. Þeytið saman í hrærivél egg, eggjahvítu og sukrin melis þar til það verður létt og ljóst.
  2. Bræðið kókosolíuna (ég set krukkuna bara undir sjóðandi vatn), blandið henni saman við mjólkina ásamt vanilluduftinu, kardimommunni og saltinu og hellið öllu saman við eggin. Þeytið saman.
  3. Blandið saman kókoshveiti, vínsteinslyftidufti, huski og salti og setjið saman við deigið.
  4. Hrærið saman þar til þetta fer að líta út eins og deig og látið svo standa í 15-20 mín.  Deigið er samt klístrað og er ekki eins og venjulegt deig.
  5. Því næst hrærið þið saman kartöflumjölinu og sukrin melis og veltið bláberjunum upp úr. Þá blandið þið bláberjunum varlega saman við deigið.
  6. Setjið í muffinsform og stráið hökkuðum möndlum yfir.
  7. Þessi uppskrift er í ca. 8 muffinsform.
  8. Bakið við 175gr í 12-15 mínútur eða þar til liturinn er orðinn fallegur.

Hverjum finnst ekki bláber góð? HALLÓ! Bláber eru ofurfæða og eitt það allra hollasta sem fyrirfinnst. Ég notaði frosin bláber en það er örugglega alveg rosalega gott að nota fersk.

Glútenlaus bakstur er alls ekki eins og venjulegur bakstur og deigin eru oftast mjög blaut. Þannig eiga þau að vera og þess vegna á ekki að bæta við hveitimjöli til að ráða betur við deigið því þá verður útkoman algjör steypuklumpur.