May 2014 archive

Súkkulaði-hindberja þeytingur með grænni bombu

IMG_6461Innihald: / 1 mæliskeið prótein (ég nota Dr. Mercola Pure Power vanilla prótein)  / 4 tsk hreint kakó / 1 tsk grænt duft (Græna Bomban frá Jurtaapótekinu eða pHion Green Superfood Powder) / 1 tsk akai duft / 1 tsk chia fræ / 1 tsk hampfræ / 3 dl möndlu- eða hrísmjólk / 2 dl frosin hindber (getið líka sett 1 dl hindber og 1 dl frosið spínat eða annað grænt kál).

Aðferð: allt sett í blandarann!

Ég tók út ávexti í nokkrar vikur og þurfti að finna mér gott boost með engum banana. Ég sleppti því hindberjunum fyrst um sinn og setti frosið spínat í staðinn. Þá kemur auðvitað allt annað bragð en það bragðaðist bara ágætlega. Núna finnst mér eiginlega betra að hafa bæði eitthvað grænt kál og hindber, ekki bara hindberin. Og ég elska kakóbragð.

Þetta boost er mjög gott, stútfullt af vítamínum, steinefnum og er próteinríkt. Tilvalið eftir æfingu eða sem sem orkuskot síðdegis. Þegar ég kaupi spínat finnst mér best að kaupa það beint af Lambhaga. Svo er um að gera að breyta til og nota eitthvað annað grænt kál.

 

Græn og guðdómleg sósa

IMG_5945Innihald: / 4 lúkur spínat eða annað grænt kál / 1 dl grænar ólífur / 1 lúka fersk basil (líka hægt að nota þurrkaða) / 1 dl kasjúhnetur / 3 dl ólífuolía / smá salt / smá svartur pipar.

Aðferð: setjið allt í blandarann og maukið. Gæti verið gott að setja ólífuolíuna út í í mjórri bunu. Smakkið til.

Þessa afar einföldu sósu sá ég í Happ Happ Húrra bókinni. Þar heitir hún einfaldlega græn sósa og er pizzasósa. Ég veit ekki hversu oft ég hef gert þessa sósu og ég nota hana yfirleitt sem álegg eða meðlæti því hún er svo þykk og bragðgóð. Hún er góð með brauði, hrökkbrauði, með fersku grænmeti eins og gulrótum og gúrku. Hún er einfaldlega frábær til að eiga í ísskápnum og reddar manni oft þegar sykurpúkinn mætir seinnipartinn og vill fá sitt. Það tekur enga stund að búa hana til, ekkert að leggja í bleyti eða neitt þannig. Sósan geymist ekki mjög lengi svo mér finnst betra að búa til minna en meira og þá geri ég hana bara oftar.

IMG_5925

Kókossúpa

IMG_4218Innihald: / 1 msk ghee eða olía / 1 laukur / 3 gulrætur / 1/2 sæt kartafla / 1 sellerístilkur / 2 hvítlauksgeirar / 2 msk hollur grænmetiskraftur / 1/2 l vatn / 1 dós kókosmjólk / 1 tsk karrý / smá salt / ögn cayenne pipar.

  1. Setjið olíu í pott, saxið laukinn, skerið grænmetið niður og setjið út í.
  2. Bætið vatninu við þegar grænmetið er orðið gullið.
  3. Kryddið og látið sjóða í ca. 15 mín.
  4. Maukið með töfrasprota í pottinum.
  5. Síðan bætiði kókosmjólkinni út í og hitið smá.

Ég setti smá kasjúhnetur út í en þá er uppskriftin auðvitað ekki lengur hnetulaus. Mild og góð súpa. Algjört uppáhalds, love it!

Þú finnur kókosmjólk hjá asísku vörunum í flestum búðum og svo er til hollari útgáfa sem er yfirleitt í lífrænu deildinni.

Holla gulrótarkakan góða

IMG_6837-2Innihald: / 200 g möndlumjöl / 3 msk kókoshveiti / 3/4 tsk matarsódi / 1 tsk vínsteinslyftiduft / 2 tsk kanill / 1 tsk engifer / 1/2 tsk múskat / smá salt / 3 egg / 1/2 bolli (110 g) kókosolía (fljótandi) / 1/2 bolli (140 g) hlynsíróp / 4 tsk vanilla extract / 100 g rifnar gulrætur.

  1. Stillið ofninn á 175 gr.
  2. Smyrjið  23 cm form að innan og setið bökunarpappír í botninn.
  3. Blandið þurrefnunum saman og geymið í skál.
  4. Blandið saman eggjum, kókosolíu, hlynsírópi og vanillu í hrærivél.
  5. Hellið síðan þurrefnunum út í og bætið rifnu gulrótunum varlega út í.
  6. Bakið í ca. 20 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn úr ef þið stingið í miðju kökunnar.
  7. Látið kólna alveg áður en þið setjið kremið á.

Krem: / 150 g rjómaostur / 50 g ósaltað smjör (við stofuhita) / 70 g sukrin melis eða flórsykur / 1 tsk vanillusykur (helst heimagerður) eða 1/2 tsk vanillu extract / 1 tsk sítrónusafi.

  1. Setjið allt í hrærivél og hrærið vel saman. Ef ykkur finnst kremið of þykkt er hægt að bæta einni teskeið af mjólk út í.

Hönnu Birnu minni (9 ára) finnst súkkulaðibragð ekki gott svo hún biður mig stundum að gera gulrótarköku. Ég fór því að leita að eins hollri og góðri gulrótarköku og ég gat og ég held ég hafi fundið hana. Ef þið skoðið innihaldið þá sjáið þið að þessi dásemdar kaka er ekkert nema meinholl. Nema þið klárið sjálf alein alla kökuna :)IMG_6709Þessi uppskrift er frá http://www.texanerin.com

DYI – heimagerður vanillusykur

IMG_6533Innihald: 1 1/2 bolli erythritol / 2 vanillustangir

  1. Setjið erythritol í glerkrukku.
  2. Skerið vanillustangirnar í tvennt, langsum.
  3. Skafið vanillubaunirnar innan úr með hnífi og setjið baunirnar saman við erythritol.
  4.  Skerið vanillustangirnar í nokkra bita og setjið í krukkuna.
  5. Hristið vel saman og látið standa í amk. eina viku.
  6. Takið vanillustangirnar upp úr krukkunni og setjið í matvinnsluvél/blandara ásamt helmingnum af erythritol. Mixið saman þar til baunirnar eru alveg saxaðar niður.
  7. Setjið þetta í fallega krukku ásamt restinni af erythritol og hristið. Tilbúið!

Af hverju að gera sinn eigin vanillusykur? Jú þessi vanillusykur er miklu, miklu kaloríuminni og kolvetnasnauðari en sá sem þú kaupir út í búð. 200 g af venjulegum vanillusykri innihalda 770 kaloríur á meðan þessi inniheldur 50 kaloríur. HALLÓ!!! Ég verð að viðurkenna að ég gleymdi minni krukku upp í hillu og þar sat hún í alla vega 3 vikur áður en ég fattaði að klára ferlið. En það kom ekki að sök og úr varð þetta fallega hráefni. Tilvalið í allan bakstur.

Thai-salat

IMG_6077Innihald: / 1 lambalund / 1 brokkolíhöfuð / 1 rauð paprika / 1 rauðlaukur / 1 gúrka / 3 tómatar / 3 gulrætur / belgbaunir.

Dressing: 1/2 msk fiskisósa / 2 msk ristuð sesamolía / 1 msk hlynsýróp eða akasíuhunang / 1 msk tamarisósa / 2 hvítlauksrif / 2-3 cm engifer / 1/2 rautt saxað chili / smá limesafi.

Hnetur: setjið kasjúhnetur í eldfast mót og kryddið með karríi, smá agave eða einhverju til að sæta og chili. Hitið í ofni í smá stund eða þar til þær verða pínu harðar.

  1. Kryddið lambalundina og eldið.
  2. Sjóðið vatn í katli og hellið yfir brokkolíið, látið standa í ca. 1 mínútu.
  3. Skerið niður grænmetið og setjið í fallega skál.
  4. Skerið lambalundina í þunnar sneiðar og blandið saman við grænmetið.
  5. Hellið dressingunni yfir.
  6. Stráið ristuðum sesamfræjum yfir og hnetunum.

Ég fékk þetta salat hjá Jönu vinkonu minni þegar ég heimsótti hana til Lúxemborgar. Jana er algjör snillingur í eldhúsinu og stútfull af alls konar fróðleik varðandi mat og heilsu almennt. Hún sér um eldhúsið á HaPP Luxembourg. Þannig að þetta salat klikkar alls ekki.

Verði ykkur að góðu :)

 

 

 

Berjabrauð

IMG_6347Innihald: / 2 dl maísmjöl / 1/2 dl hörfræ (mulin í kaffikvörn) / 1 msk psyllium husks / 3 tsk vínsteinslyftiduft / smá salt / 3 dl möndlu- eða hrísmjólk / 3-4 msk kókosolía / 1 dl frosin hindber.

  1. Hitið ofninn á 250gr.
  2. Blandið saman öllum þurrefunum.
  3. Blandið saman kókosolíunni og mjólkinni og hellið saman við þurrefnin.
  4. Látið deigið standa í ca. 5-10 mínútur.
  5. Bætið varlega nokkrum berjum við deigið en passið að liturinn smiti ekki með því að vera að hræra mikið í deiginu eftir að berin eru komin út í.
  6. Setjið í form og bakið í ca. 12-15 mínútur.

Þetta fallega brauð er ég búin að gera nokkrum sinnum. Mér finnst betra að setja það ekki í of djúpt form, þ.e.a.s. það er betra að brauðið sé í þynnra lagi. Ótrúlega gott nýbakað brauð með uppáhalds berjunum mínum.

IMG_6364Þessi uppskrift er frá http://www.hurbrasomhelst.se