Jóga nidra og karma

maxresdefault

Kamini Desai Ph. D. einn fremsti jóga nidra kennari heims hélt jóga og karma fyrirlestur í Rope Yoga setrinu undir lok síðasta árs. Þar fjallaði hún um hvernig karma og samskaras (eða root pattern) móta líf okkar og hvernig við högum okkur ómeðvitað í þjónustu þessara viðhorfa. Ég ákvað að skella mér á fyrirlesturinn og hef prófað nokkra tíma í jóga nidra. Ég s.s. stunda það ekki reglulega en mér finnst það gera mér ótrúlega gott, sérstaklega í vikulok.

Kamini er útskrifuð í mannfræði og sálfræði frá virtum háskólum í Bandaríkjunum og er forseti Amrit Yoga Institute en þar er hægt að stunda 90 klukkustunda viðurkennt jóga nidra nám sem hún þróaði í samvinnu við föður sinn Yogi Amrit Desai. Þar sameina þau austræna heimspeki, vestræna sálfræði og læknavísindi. Einn helsti ávinningur þess að stunda jóga nidra felst í því að leysa upp okkar ómeðvituðu vanaferli sem hindra breytingar, framgöngu og velsæld – kennir okkur að sleppa takinu og uppræta karma í daglegu lífi.

Hvað er jóga nidra og karma?

Það getur verið erfitt að hugleiða og það krefst talsverðar æfingar í byrjun enda ekki auðvelt að sleppa tökum á huganum. Jóga nidra er forn jógaástundun og mætti kalla hana liggjandi hugleiðslu sem virkjar heilunarmátt líkamans og hjálpar til við að losa djúpstæð tilfinningaferli áreynslulaust. Þessi aðferð losar um streitu og spennu sem fylgir auknu álagi, hraða og annríki nútímans. Orðið nidra þýðir svefn og jóga nidra er jógískur svefn þar sem líkaminn hvílist á meðan undirmeðvitundin er leidd í djúpt slökunarástand handan skilningarvitanna þar sem engin streita býr og fullkomin eining ríkir. Þessi djúpa slökun hjálpar til við að losa um spennu og hindranir hugans sem geta dregið úr okkur í daglegu lífi. Til að það takist verðum við að sleppa tökum á hugsunum okkar en hugsanirnar hverfa áreynslulaust þegar við erum við það að sofna. Svefnleysi orsakast einmitt vegna þess að við getum ekki slökkt á hugsunum okkar. Oft tökum jafnvel ekki eftir allri streitunni sem er í kringum okkur fyrr en hún er farin að valda vandamálum og er jóga nidra ein af mörgum aðferðum til að vakna til vitundar.

Karma er það sem við vorum í fyrra lífi og sú manneskja sem við verðum í framtíðinni mótast af þeirri persónu sem við erum í dag. Karma er eins og náttúrulögmál, eins og þyngdaraflið. Karma er alls ekki eitthvað slæmt sem er á höttunum eftir okkur til að ná sér niðri á okkur heldur hefur karma áhrif á hvernig lífi við lifum. Karma er s.s. ekki endilega gott né slæmt. Karma þýðir ekki bara fyrri líf heldur hvernig við höfum brugðist við ákveðnum aðstæðum fram að þessu, hvert endurtekið viðbragð er; karma, orskök og afleiðing. Samskara eða root pattern er meira hegðun okkar og hugsun sem er sprottin af fyrri reynslu okkar.

Hvernig virkar Karma?

Kamini Desai talaði um ytra og innra karma sem hefur áhrif á líf okkar. Ef við skiljum karma getur það haft jákvæð áhrif bæði á innra og ytra karma. Þegar við höfum öðlast skilning á samskaras (root pattern) og hvernig karma virkar þá getum við nýtt okkur þá þekkingu til að hafa áhrif á þá þætti sem halda aftur af okkur og þannig skapað okkur það líf sem við viljum og óskum. Við stjórnum kannski ekki hvað hendir okkur í lífinu en við höfum alltaf áhrif á útkomuna og hvernig við bregðumst við. Desai tók t.d. dæmi af tvíburum er ólust upp við alkóhólisma, annar snerti aldrei áfengi á meðan hinn varð alkóhólisti. Annar sagðist vera alkahólisti vegna föður síns á meðan hinn vildi ekki smakka áfengi einmitt vegna drykkju föður síns. Sumt fólk á það til að bregðast alltaf við á neikvæðan hátt vegna þess að það stjórnast af sínu innra karma sem kann ekki annað en að endurtaka sömu viðbrögð aftur og aftur sem endar þar með alltaf í sömu líðan. Flest fólk skilur ekki hið innra karma en þú ert einmitt skapari þinnar eigin reynslu og þinnar gæfu smiður. “Karma is not what happens to you. Karma is how you are with what happens”.

Stjórnum ekki eigin tilfinningum

Jógafræðin kenna okkur að uppræta rætur karma svo hægt sé að skapa framtíð sem byggist á okkar eigin vali fremur en að bregðast stöðugt við einhverju sem gerðist í svokallaðri fortíð og við höfum tileinkað okkur eða samskaras (root pattern). Margir eru haldnir svokallaðri fullkomnunaráráttu og eiga það til að taka að sér of mörg verkefni enda finnst þeim enginn annar geta unnið þau eins vel. Þetta verður að ávana og fólk sér ekki aðra kosti. Ávaninn verður til þess að fólk upplifir höfnun, finnur engan stuðning og finnst sem enginn skilji hversu mikið álagið á það er. Fólk kann ekki að breyta þessari hegðun og því verður upplifunin alltaf sú sama. Þetta á líka við um fólk sem er alltaf að geðjast öðrum í stað þess að standa með sjálfu sér. Við stjórnum ekki tilfinningum okkar en við getum haft áhrif á hvernig við bregðumst við þeim og ákveðið hvort við viljum alltaf lifa innan eigin takmarkana, en innan þeirra náum við ekki að blómstra né standa með sjálfum okkur. Karma uppljóstrar um okkar innra karma og má segja að það innihaldi lítil fræ sem við erum búin að sá. En oft geta þessi fræ orðið að illgresi.

En hvernig brjótum við mynstið sem við höfum búið okkur til?

Gott er að gefa sér umhugsunarfrest þegar ákveðin tilfinning vaknar eins og t.d. reiði eða höfnun og við gerum okkur grein fyrir að enn eina ferðina ætlum við að bregðst eins við og ávallt áður. Ef óþægileg tilfinning vaknar er það oftast merki um að eitthvað sé ekki að virka fyrir okkur. En með því að gefa okkur tíma fáum við tækifæri til að bregðast við á annan hátt en við höfum alltaf gert og viljum ekki lengur gera. Oft reynum við að stjórna öðrum eftir okkar höfði til að gera það sem er rétt fyrir okkur. Þetta gerum við til að þurfa ekki að horfast í augu við það sem leynist undir yfirborðinu hjá okkur sjálfum. Flest erum við hrædd við höfnun og viljum ekki segja sannleikann um hvernig okkur líður í raun því það er einfaldlega of erfitt. En í rauninni eru þeir sem fá okkur til að horfast í augu við okkur sjálf, blessun. Það fólk sýnir okkur það sem við sjáum ekki í okkur sjálfum. Og aðeins þannig getum við sleppt takinu. Einn ávinningur af því að stunda jóga nidra er að það hjálpar okkur að bregðast við með því að bregðast ekki við, þ.e.a.s. við eigum þá auðveldara með að sjá hlutina utanfrá og vega þá og meta áður en við bregðumst við.

Sjálfstyrking og það að spurja sjálfan sig hvað það er í raun sem við viljum er afar mikilvægt. Og við þurfum að endurtaka ferlið aftur og aftur, þ.e. að segja nei þegar við viljum og fyrir okkur sjálf en það þarfnast virkilega æfingar. Í þessu felst þó mikið frelsi og hægt er að sækja þessa visku, hvað sé rétt fyrir okkur, í undirmeðvitundina áreynslulaust gegnum jógískan svefn. Við þurfum því ekki að vera meistarar í hugleiðslu til að stunda jóga nidra því líkaminn kann svo vel að slaka á fyrir svefn. Farið er inn á dýpstu svið slökunar þar sem líkaminn getur heilað sig, náð jafnvægi og losað um streitu, kvíða og órólegar hugsanir og hentar hraustu fólki við að takast á við mikið álag eða jafnvel veiku fólki til að losna við sjúkdóma.

“Lífið er ekki verkefni til að leysa heldur leyndardómur til að uppgötva” Amrit Desai 

Jóga nidra er m.a. kennt á öllum barna- og fullorðins námskeiðum hjá Hugarfrelsi, það er einnig kennt í Yoga Húsinu Hafnarfirði og í Yoga Shala.

Meiri upplýsingar er að finna á http://www.kaminidesai.com

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Leave a Reply