Posts Tagged ‘næringager’

Blómkáls-Fusilli “Alfredo” pasta

IMG_6374Innihald: / 1 blómkálshöfuð (lítið eða meðalstórt) / 1/2 msk ólífuolía / 3 hvítlauksgeirar / 1 dl hrís- eða möndlumjólk / 1/2 dl næringarger / 1 msk ferskur sítrónusafi / 1/2 tsk laukduft / 1 tsk hvítlauksduft / 1-2 msk smjör (má sleppa) / smá sjávarsalt / smá pipar / 250 g glútenlaust fettuccini pasta (eða bara ykkar val af pasta) / 1 brokkolíhöfuð / 1 rautt chili / nokkrir sólþurrkaðir tómatar / steinselja.

  1. Setjið blómkálið í pott og látið vatnið ná alveg yfir. Látið suðuna koma upp og sjóðið í 5-7 mín. eftir að suðan er komin upp eða þangað til að blómkálið er orðið mjúkt. Látið svo vatnið renna af.
  2. Setjið olíu á pönnu og mýkið hvítlaukinn, ekki brúna.
  3. Skerið brokkolíið og sólþurrkuðu tómatana í fallega bita og saxið chili. Ég sýð vatn og helli yfir brokkolíið til að mýkja það aðeins.
  4. Setjið blómkálið, hvítlaukinn ásamt olíunni af pönnunni, mjólkina, næringargerið, sítrónusafann, laukduftið, hvítlauksduftið, smjörið, saltið og piparinn í blandarann og blandið þar til það verður að fallegri sósu. Gæti alveg tekið smá stund. Hér má setja smjörið út í ef þið viljið gera sósuna aðeins extra.
  5. Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum og látið vatnið renna af þegar tilbúið gegnum sigti.
  6. Setjið pastað aftur í pottinn ásamt grænmetinu og hellið svo sósunni yfir allt. Hitið aðeins og smakkið til. Stráið steinseljunni yfir í lokin. Tilbúið!

Þessi uppskrift er frá Oh She Glows sem er frábær síða. Þar heitir uppskriftin Fettuccini “Alfredo” pasta en þar sem ég hef vanið mig á að borða ekki hvítt pasta heldur brúnt þá gat ég bara ekki keypt hvítt, glútenlaust fettuccini pasta. Ég fann mjög flott brúnt lífrænt glútenlaust pasta og notaði það í þessa uppskrift. Að sjálfsögðu má alveg nota venjulegt pasta, heilhveiti- eða speltpasta með þessum rétti og sjálfri finnst mér speltpasta lang bragðbest. Ég er sem betur fer ekki með neitt glútenóþol heldur langaði mig bara að prófa að taka það út sem ég gerði í nokkra mánuði og fann þá þessa uppskrift. Sósa er mjög góð “rjóma”pastasósa án þess að innihalda rjóma né ost og því góður kostur fyrir þá sem vilja ekki nota mjólkurvörur. Það væri líka hægt að skella kjúklingabitum út í sem er örugglega mjög gott.

 

 

 

 

 

 

Hráfæðipasta Jönu

IMG_7555-2Innihald: / 1 kúrbítur / 1 sæt kartafla / 1 rauðrófa

  1. Skerið grænmetið í pastastrimla með julienne peeler eða mandólín rifjárni og mýkið milli fingra með ólífuolíu. Ég set pínu salt líka.

Avocado basil pestó: / 2 avocado / 2 hvítlauksrif / handfylli af ferskri basilíku / hálf lúka af steinselju / 1/4 tsk þurrkar chili / 1/2 lime / smá ólífuolía / salt og pipar

  1. Allt sett í blandarann.
  2. Notið safann og börkinn úr lime-inu.

Kasjú”osta”sósa: / 1 bolli kasjúhnetur / 2 msk næringager / 1 tsk laukduft / lúka af graslauk / smá sítrónusafi / smá vatn til að þynna / salt og pipar

  1. Setjið kasjúhnetur í bleyti í ca. 2 klst.
  2. Setjið þær ásamt öllu hinu í blandarann og blandið þar til verður að sósu.

Mangótwist: / 1-2 mangó / bláber / mynta söxuð yfir. Svooooo gott!!!

Ég fékk þessa dásemdar uppskrift hjá elsku vinkonu minni henni Jönu. Hún heldur úti frábærri facebook síðu, Healthy Jana sem er full af allskonar fróðleik. Kíkið á hana.

Blómkálspopp

.

IMG_4196-2Innihald: 1 lítið blómkálshöfuð / 2 msk ólífuolía / 2-3 msk næringarger / smá salt.

  1. Takið eins mikið blómkál og þið ætlið að borða, segjum 1/2 stórt eða heilt lítið og rífið niður í höndunum í munnbita.
  2. Best er að nota ílát sem hægt er að loka eins og t.d. nestisbox.
  3. Setjið slatta af ólífuolíu, smá salt og ca. 3 msk næringarger yfir.
  4. Lokið boxinu og hristið…. þá eru þið að poppa (það kemur popphljóð án gríns).

Ef ykkur finnst vanta bragð þá bara setja meira næringarger.  Þetta er uppskriftin sem Solla snillingur gerði í þættinum Heilsugengið fyrir Lindu P.  Næringager getur þó farið í magann á sumum svo takið eftir því ef það gerist hjá ykkur og ég þarf að passa mig að borða ekki of mikið af hráu blómkáli út af skjaldkirtlinum.