Posts Tagged ‘kókospálmasykur’

Kjúklingaréttur með kasjúhnetum

IMG_1617_2Innihald: / 1 msk kókosolía / 2 rauðar paprikur / 200g heilar kasjúhnetur / 1 kg kjúklingabringur / 1 msk kókoshveiti (eða annað hveiti) / 1/2 tsk himalayan salt / 1 búnt vorlaukur.

Sósa: / 1/3 bolli tamarisósa eða sojasósa / 1/4 bolli eplaedik (eða hrísgrjónaedik) / 2 msk tómatpúrra / 2 msk kókospálmasykur / 1 msk akasíuhunang eða hrátt hunang (eða bara 3 msk af annarri hvorri sætunni) / 3 hvítlauksgeirar / 1 msk ferskt rifið engifer / smá svartur mulinn pipar.

  1. Byrjið á að skera paprikurnar og kjúklinginn í munnbita.
  2. Hitið olíuna á pönnu, skellið papríkunni yfir og látið malla í nokkrar mínútur eða þar til mjúkar. Takið svo af pönnunni.
  3. Setjið kjúklingabitana á pönnuna, setjið kókoshveitið eða það hveiti sem þið viljið nota yfir, saltið og hrærið af og til í þar til kjúklingurinn er að mestu eldaður í gegn.
  4. Á meðan kjúklingurinn er að eldast er hægt að gera sósuna sem fer yfir og hún fer á pönnuna þegar kjúklingurinn er að mestu tilbúinn.
  5. Bætið paprikunni út á pönnuna ásamt kasjúhnetunum.
  6. Lækkið hitann og látið malla í nokkrar mínútur.
  7. Setjið vorlaukinn yfir réttinn þegar hann er tilbúinn.

 Réttur fyrir ca. 4-6, tekur 10 mínútur að undirbúa og ca. 15 mín  að elda.

IMG_1646_2

Þessi ótrúlega einfalda og góða uppskrift dugar fyrir ca. 4-6, tekur 10 mínútur að undirbúa og ca. korter að elda. Í upprunalegu uppskriftinni er notað hrísgrjónaedik en ég skipti því út fyrir eplaedik. Þessi kjúklingaréttur hefur algjörlega slegið í gegn hérna á heimilinu og er orðinn okkar nýjasta uppáhald. Gott að bera fram með fullt af brakandi salati og flottu brauði.

Þessi kemur frá http://www.aspicyperspective.com

 

 

Ljomandi-bordi_3

Sítrónukaka

photo-7Innihald: / 1 1/2 bolli (ca 180gr) möndlumjöl / 1/4 tsk kardimomma / 2 tsk vínsteinslyftiduft / 4 egg (rauður og hvítur aðskildar) / 1/2 bolli kókospálmasykur (skipt í helming) / 1/2 bolli kókosolía / 1/2 tsk vanillusykur  / 1 tsk vanillu extract eða vanilludropar / 1/2 tsk sítrónudropar / rifinn sítrónubörkur af einni sítrónu (ca 1/2 tsk) / smá sítrónusafi / 1 tsk hvítt edik / smá salt

  1. Smyrjið 20 cm (8 in) kökuform eða klippið til bökunarpappír i botninn. Þessi uppskrift/kaka er frekar lítil.
  2. Setjið möndlumjöl, kardimommu og vínsteinslyftiduft í skál og geymið til hliðar.
  3. Skiljið að eggjarauður og hvítur. Setjið eggjarauðurnar bara beint í hrærivélaskálina og hvíturnar í skál sem þið getið þeytt þær í. Passið vel að engin rauða sé í hvítunum þá verða hvíturnar ekki léttar og loftkenndar eins og við viljum.
  4. Hrærið saman í hrærivél eggjarauðum, rúmlega helmingnum af sykrinum, kókosolíunni, vanillusykrinum, vanilludropunum, sítrónudropum og sítrónusafanum. Hér má líka nota sítrónuilmkjarnaolíu frá t.d. Young Living en þá er nóg að setja bara 6-7 dropa.
  5. Bætið þurrefnunum út í og að lokum sítrónuberkinum. Deigið er frekar klístrað og á ekki að vera þurrt.
  6. Þeytið hvíturnar. Ég gerði það s.s. í annarri skál með handþeytara. Byrjið rólega og þegar loftbólur byrja að myndast setjið þá smá salt út í ásamt edikinu því það hjálpar hvítunum að flottar. Bætið síðan restinni af sykrinum út í hvíturnar hægt og rólega og hrærið saman.
  7. Setjið eggjahvíturnar saman við deigið rólega svo deigið verði léttara.
  8. Bakið í ca. 30 mínútur við 175 gráður.

Þessi litla kaka er alveg dásamleg en það er búið að taka nokkrar tilraunir í að mastera hana. Fyrst varð hún rosalega stökk að utan en það var vegna þess að eitthvað tókst ekki nógu vel með eggjahvíturnar hjá mér. Ég notaði líka mjög mikið af skálum fyrst en nú er ég búin að einfalda vinnuaðferðina eins og ég mögulega get. Ég elska möndlu, sítrónu- og vanillubragð og vantaði hollan staðgengil möndlukökunnar með bleika kreminu. Þessi gefur henni ekkert eftir. Fjölskyldan mín eru bestu dómararnir á það sem tekst vel og ekki vel hjá mér og maðurinn minn sem borðar aldrei kökur borðaði hálfa kökuna loksins þegar hún tókst vel svo ég varð að gera hana aftur til að ná almennilegri mynd af henni. En það eru bestu meðmælin og gladdi mig óendanlega mikið :) Svo er þetta uppáhaldskakan hans Bjarka míns. Eddu kaka er gulrótarkakan svo nú eigum við bara eftir að finna uppáhaldið hennar Hönnu Birnu sykursætu :)

Ég studdist við uppskrift af http://www.simplyrecipes.com en breytti henni smá.

IMG_8652

Heimsins besta quinoa súkkulaðikaka

IMG_6197Innihald: / 2 bollar (300 g) soðið quinoa (ca. 3/4 bollar ósoðið lagt í bleyti) / 1/3 bolli (1 dl) möndlumjólk (ósæt) / 4 egg / 1 tsk vanillu extract / 1/2 bolli (50 g) smjör  / 1/4 bolli (3/4 dl) kókosolía / 1 bolli (150 g) kókospálmasykur / 1 bolli (100 g) kakóduft / 1/2 tsk matarsódi / 2 tsk vínsteinslyftiduft / 1/2 tsk maldon salt

Krem: / 1 dós kókosmjólk / 200 g 70% eða 85% súkkulaði.

Hefur þú prófað að baka köku úr quinoa? Spennandi! Áður en þið byrjið er gott að vera búin að græja quinoa og kremið. Það þarf að láta quinoa liggja í bleyti yfir nótt, skola síðan vel, elda og kæla. Quinoa á að vera mjúkt og létt þegar það er tilbúið. En ef ekki þá verður kakan eins og frönsk súkkulaðikaka sem er líka allt í lagi. U.þ.b. 3/4 bollar af þurru quinoa gera 2 bolla af því soðnu. Til að búa til kremið þá er best að geyma kókosmjólkina inni í ísskáp yfir nótt svo að hún nái að skilja sig. Það er mjög gott að búa til kremið daginn áður en þó ekki nauðsynlegt.

  1. Stillið ofninn á 175 gr.
  2. Takið fram tvö kökuform, klippið börkunarpappír í tvo hringi og leggið í botnana.
  3. Bræðið smjörið, kælið það smá og setjið kókosolíukrukkuna undir heitt vatn til að fá hana fljótandi.
  4. Blandið saman eggjum, mjólk og vanillu extract í blandaranum í ca. 10 sek.
  5. Bætið síðan tilbúnu quinoa, smjörinu og kókosolíunni út í blandarann þar til allt verður mjúkt eða í ca. 1/2 – 1 mín.
  6. Setjið þurrefnin í skál og hrærið blöndunni úr blandaranum vel saman við.
  7. Skiptið deiginu í tvennt og bakið í 30 mínútur og kælið þegar tilbúið.
  8. Til að búa til kremið þá bræðið þið súkkulaðið á lágum hita í potti.
  9. Takið kókosmjólkina úr ísskápnum en passið að hrista ekki dósina. Við viljum nota þykka hlutann af kókosmjólkinni. Setið hann út í pottinn og bræðið saman við súkkulaðið. Ef blandan er enn mjög dökk þá bætið þið meira af kókosmjólkinni út í.
  10. Setjið síðan kremið í skál og látið kólna í smá stund á borði, lokið skálinni og kælið í ísskápnum í nokkrar klukkustundir eða þar til kremið hefur þykknað. Þess vegna gæti verið gott að gera kremið kvöldið áður.
  11. Þegar kremið er orðið þykkt þá er það þeytt með handþeytara á miklum hraða í 1/2 – 1 mínútu eða þar til það er orðið að flottu kökukremi.

Þessi kaka er frekar viðkvæm svo færið hana bara einu sinni. Ég mundi taka hana beint úr mótinu, setja hana á fallegan kökudisk og setja kremið á hana þar. Látið botninn snúa upp á kökunni og ekki gleyma að setja krem á milli botnanna! Geymið kökuna í ísskáp þar til á að bera hana fram því kremið bráðnar þegar það er heitt en við vitum að þannig veður er ekki vandamál hér á Íslandi svo kakan ætti að vera góð í nokkra tíma á borði.

Líka gaman að segja frá því að Edda mín 12 ára vill hafa þessa í afmælinu sínu. Ekki slæm meðmæli!

Verði ykkur að góðu :)

IMG_6262

Þessa köku fann ég á makingthymeforhealth.com