Posts Tagged ‘kakó’

Kakópróteinsjeik með lakkrísrótardufti

IMG_1547_2Innihald: / 2 dl haframjólk (oat) eða möndlumjólk, hrísmjólk / 1 kúfuð mæliskeið vanilluprótein / 1 msk hrátt kakóduft / 1/2 avocado / 1/2 tsk lakkrísrótarduft / 1 msk hörfræolía / 1 msk chiafræ / smá himalayasalt / klakar / VAL: smá acai-duft

  1. Setja allt í blandarann, mixa vel og drekka. Bragðgóður og súperhollur sjeik.

Mig langar aðeins að segja þér hvað lakkrísrótarduft gerir fyrir líkamann.

Lakkrísrótarduft er ekki bara gott á bragðið og harmónar vel með hráu kakódufti (hver elskar ekki bragðið af súkkulaði og lakkrís) heldur hefur það nokkra frábæra eiginleika:

  • verndar lifrina og lætur blóðið streyma í gegnum hana.
  • örvar lifrina til að framleiða meira gall. Alveg nauðsynlegt!
  • jafnar starfsemi í brisi og þá verður blóðsykurinn svooo happy.
  • örvar hægðir og eykur þol gegn streitu. Ef það er ekki nauðsynlegt þá hvað???
  • losar slím úr öndunarfærum.
  • mýkir og græðir meltingarveg.
  • er bólgueyðandi.

Að sjálfsögðu getum við fengið allt okkar prótein úr venjulegum mat og það væri æskilegast en mér líkar að nota hreint mysuprótein og geri það af og til. Spirulina er t.d. mjög próteinrík og ég nota hana líka stundum. Plöntuprótein úr hamp er líka mjög flott. Ég persónulega er ekki hrifin af casein próteini og hér getur þú lesið af hverju. Flókið mál en bara ekki fyrir mig. Ást og friður :)

IMG_1556_2

 

Ljomandi-bordi_3

 

 

 

Hveitilausar súkkulaðimuffins

IMG_0158-2Innihald: / 1 bolli hnetusmjör / 2 mjög þroskaðir bananar / 1/4 bolli hlynsíróp / 1/3 bolli kakóduft.

  1. Hitið ofninn í 180 gr.
  2. Setjið öll innihaldsefnin í matvinnsluvélina, þú þarft kannski að stoppa og skafa meðfram hliðunum en deigið er mjög klístrað og á að vera svoleiðis.
  3. Þegar allt er vel blandað saman þá seturðu deigið í muffinsform með skeið. Mér finnst best að bleyta skeiðina af og til út af deiginu.
  4. Þú ræður hvort þú brytur smá súkkulaði yfir.
  5. Inn í ofn í 12-15 mínútur og bíddu með að taka þær úr muffinsformunum þar til þær eru orðnar alveg kaldar.

Ég fann þessa litlu uppskrift á mywholedoodlife.com. Bara fjögur innihaldsefni. Þú ert fljótari að skella í svona en að keyra út í bakarí og kaupa sykursnúð. Svo bara að toppa með rjóma…

 

Gulrótarköku paleokúlur & súkkulaði paleokúlur

IMG_0067GULRÓTARKÖKUKÚLUR

Innihald: / 3/4 bollar möndlur / 6 döðlur / 1/3 bolli kókosmjöl / 2 meðalstórar gulrætur / 1/2 msk kanill / 1/4 tsk negull / 2-4 msk kókosmjólk eða kókosolía.

  1. Setjið möndlur í matvinnsluvél og mixið þar til möndlurnar verða að fínu mjöli. Setjið til hliðar.
  2. Setjið döðlurnar og kókosmjölið í matvinnsluvélina og blandið saman þar til myndast hálfgert deig.
  3. Rífið gulræturnar niður með rifjárni.
  4. Setjið möndlurnar, gulræturnar og kryddið út í og blandið saman.
  5. Setjið að lokum kókosmjólkina út í og látið vélina vinna þar til að deigið hefur náð góðum þéttleika. Ef þú notar kókosolíu þá læturðu krukkuna standa smá stund í heitu vatnsbaði, þannig verður hún fljótandi á örskot stund. Ég notaði kókosmjólk.
  6. Mótið kúlur og geymið í kæli í ca. 2 tíma.

SÚKKULAÐIKÚLUR

Innihald: / 1/2 bolli möndlur / 1/2 bolli graskersfræ / 1/2 bolli heslihnetur / 6 döðlur / 1/4 bolli kókosmjöl / 2-3 msk kakóduft / 2-4 msk kókosmjólk eða kókosolía.

  1. Setjið hnetur og fræ í matvinnsluvélina og blandið þar til verður að fínu mjöli. Setjið til hliðar.
  2. Setjið döðlurnar og kókosmjölið í matvinnsluvélina og blandið saman þar til myndast hálfgert deig.
  3. Setjið mjölið út í og bætið kakóduftinu við. Hér má setja 1-2 msk af möluðu kaffi út í fyrir þá sem vilja það en ég sleppti því að þessu sinni.
  4. Að lokum setjiði kókosmjólkina út í.
  5. Mótið kúlur og geymið í kæli í 2 tíma.
  6. Það er örugglega mjög gott að súkkulaðihúða helminginn af þessum kúlum. Þ.e.a.s. að setja 85% súkkulaði á helming hverrar kúlu fyrir sig. Ég ætla að prófa það næst. Það er örugglega alveg geggjað að nota hvíta kókossúkkulaðið frá Rapunzel sem er uppáhalds súkkulaðið mitt og algjört spari. En eins og ég segi þá hef ég ekki prófað það, ennþá.

Mig vantaði eitthvað til að taka með í skemmtilegt boð fyrir Justin Timberlake tónleikana. Ég fann þessar bollur á heimasíðunni icookfree.com og ákvað að prófa. Heppnaðist voða vel og allir fóru saddir og sælir á frábæra tónleika í Kórnum :) Þetta eru samt meira svona kaffiboðs treat eða desert eftir máltíð heldur en partýsnakk mundi ég segja. Mig langaði alla vega í kaffibolla með og ég sem drekk varla kaffi.

 

Piparmyntu-avókadó nammi

IMG_0193-2Botn: / 2 1/2 dl möndlur / 2 1/2 dl döðlur / 1 msk kakóduft.

Myntufylling: / 1 avókadó / 3 msk fljótandi kókosolía / 2-3 msk hlynsíróp / 1 banani / 1/2 tsk vanilla extraxt eða vanilludropar / 5-10 dropar piparmyntuolía (eða dropar) / smá salt.

Súkkulaði: / 3 msk kakóduft / 3 msk fljótandi kókosolía / 2 msk hlynsíróp.

  1. Setjið allt sem á að fara í botninn í matvinnsluvélina og búið til deig. Ef döðlurnar eru ekki mjúkar er gott að leggja þær í bleyti í volgt vatn í ca. 15 mín.
  2. Setjið bökunarpappír í form sem er 18x18cm innanmál (8×8-inch) og pressið deigið ofan í.
  3. Búið síðan til mjúku, grænu fyllinguna í matvinnsluvél og hellið í formið ofan á botninn. Ég læt kókosolíukrukkuna standa í heitu vatni til að fá hana fljótandi.
  4. Setjið inn í frysti í ca. 30 mínútur.
  5. Græjið súkkulaðið með því að hella öllu í skál og hræra vel saman. Hellið því svo yfir og setjið í frysti. Ef botninn og græna fyllingin eru mjög köld (alveg frosið) þegar þið hellið súkkulaðinu yfir þá harðnar það mjög fljótt. Þannig að þið þurfið að vera svolítið snögg að ná því yfir allt.
  6. Þegar þið berið þessa dásemd fram er gott en alls ekki nauðsynlegt að láta hana þiðna í ca. 10-20 mínútur áður. Mér finnst reyndar best að borða þetta ískalt :)

Ég sá þessa uppskrift í bók sem heitir Rawsome Vegan Baking og leist svo vel á að ég ákvað að prófa. Ég var ekki illa svikin og Edda mín 12 ára elskar hreinlega þetta nammi. Ég nota Young Living piparmyntuolíu og þá þarf ég ekki svona mikið heldur ca. 5 dropa því þeir eru sterkir. Það er hægt að nota hvaða piparmyntuolíu sem er, jafnvel piparmyntu extract. Prófið ykkur bara áfram. Ég bara elska Young Living vörurnar og finnst svo mikil snilld að nota þær í matargerð því ekki skemmir fyrir að þær hafa ákveðinn undrakraft :)

Hér getur þú lesið meira um ilmkjarnaolíur.

 

 

Súkkulaði-hindberja þeytingur með grænni bombu

IMG_6461Innihald: / 1 mæliskeið prótein (ég nota Dr. Mercola Pure Power vanilla prótein)  / 4 tsk hreint kakó / 1 tsk grænt duft (Græna Bomban frá Jurtaapótekinu eða pHion Green Superfood Powder) / 1 tsk akai duft / 1 tsk chia fræ / 1 tsk hampfræ / 3 dl möndlu- eða hrísmjólk / 2 dl frosin hindber (getið líka sett 1 dl hindber og 1 dl frosið spínat eða annað grænt kál).

Aðferð: allt sett í blandarann!

Ég tók út ávexti í nokkrar vikur og þurfti að finna mér gott boost með engum banana. Ég sleppti því hindberjunum fyrst um sinn og setti frosið spínat í staðinn. Þá kemur auðvitað allt annað bragð en það bragðaðist bara ágætlega. Núna finnst mér eiginlega betra að hafa bæði eitthvað grænt kál og hindber, ekki bara hindberin. Og ég elska kakóbragð.

Þetta boost er mjög gott, stútfullt af vítamínum, steinefnum og er próteinríkt. Tilvalið eftir æfingu eða sem sem orkuskot síðdegis. Þegar ég kaupi spínat finnst mér best að kaupa það beint af Lambhaga. Svo er um að gera að breyta til og nota eitthvað annað grænt kál.

 

Heimsins besta quinoa súkkulaðikaka

IMG_6197Innihald: / 2 bollar (300 g) soðið quinoa (ca. 3/4 bollar ósoðið lagt í bleyti) / 1/3 bolli (1 dl) möndlumjólk (ósæt) / 4 egg / 1 tsk vanillu extract / 1/2 bolli (50 g) smjör  / 1/4 bolli (3/4 dl) kókosolía / 1 bolli (150 g) kókospálmasykur / 1 bolli (100 g) kakóduft / 1/2 tsk matarsódi / 2 tsk vínsteinslyftiduft / 1/2 tsk maldon salt

Krem: / 1 dós kókosmjólk / 200 g 70% eða 85% súkkulaði.

Hefur þú prófað að baka köku úr quinoa? Spennandi! Áður en þið byrjið er gott að vera búin að græja quinoa og kremið. Það þarf að láta quinoa liggja í bleyti yfir nótt, skola síðan vel, elda og kæla. Quinoa á að vera mjúkt og létt þegar það er tilbúið. En ef ekki þá verður kakan eins og frönsk súkkulaðikaka sem er líka allt í lagi. U.þ.b. 3/4 bollar af þurru quinoa gera 2 bolla af því soðnu. Til að búa til kremið þá er best að geyma kókosmjólkina inni í ísskáp yfir nótt svo að hún nái að skilja sig. Það er mjög gott að búa til kremið daginn áður en þó ekki nauðsynlegt.

  1. Stillið ofninn á 175 gr.
  2. Takið fram tvö kökuform, klippið börkunarpappír í tvo hringi og leggið í botnana.
  3. Bræðið smjörið, kælið það smá og setjið kókosolíukrukkuna undir heitt vatn til að fá hana fljótandi.
  4. Blandið saman eggjum, mjólk og vanillu extract í blandaranum í ca. 10 sek.
  5. Bætið síðan tilbúnu quinoa, smjörinu og kókosolíunni út í blandarann þar til allt verður mjúkt eða í ca. 1/2 – 1 mín.
  6. Setjið þurrefnin í skál og hrærið blöndunni úr blandaranum vel saman við.
  7. Skiptið deiginu í tvennt og bakið í 30 mínútur og kælið þegar tilbúið.
  8. Til að búa til kremið þá bræðið þið súkkulaðið á lágum hita í potti.
  9. Takið kókosmjólkina úr ísskápnum en passið að hrista ekki dósina. Við viljum nota þykka hlutann af kókosmjólkinni. Setið hann út í pottinn og bræðið saman við súkkulaðið. Ef blandan er enn mjög dökk þá bætið þið meira af kókosmjólkinni út í.
  10. Setjið síðan kremið í skál og látið kólna í smá stund á borði, lokið skálinni og kælið í ísskápnum í nokkrar klukkustundir eða þar til kremið hefur þykknað. Þess vegna gæti verið gott að gera kremið kvöldið áður.
  11. Þegar kremið er orðið þykkt þá er það þeytt með handþeytara á miklum hraða í 1/2 – 1 mínútu eða þar til það er orðið að flottu kökukremi.

Þessi kaka er frekar viðkvæm svo færið hana bara einu sinni. Ég mundi taka hana beint úr mótinu, setja hana á fallegan kökudisk og setja kremið á hana þar. Látið botninn snúa upp á kökunni og ekki gleyma að setja krem á milli botnanna! Geymið kökuna í ísskáp þar til á að bera hana fram því kremið bráðnar þegar það er heitt en við vitum að þannig veður er ekki vandamál hér á Íslandi svo kakan ætti að vera góð í nokkra tíma á borði.

Líka gaman að segja frá því að Edda mín 12 ára vill hafa þessa í afmælinu sínu. Ekki slæm meðmæli!

Verði ykkur að góðu :)

IMG_6262

Þessa köku fann ég á makingthymeforhealth.com