Posts Tagged ‘kjúklingur’

Appelsínu saffran kjúklingasalat

IMG_2541Réttur fyrir ca. 6 manns.

Appelsínu- og saffran paste: / 1 appelsína / 50 g hunang (ég notaði akasíu) / 1/2 tsk saffranþræðir / ca. 300 ml. vatn

Salat: / 1 kg kjúklingabringur / 4 msk ólífuolía / 2 lítil fennel / 15 g kóríanderlauf / 15 g basillauf rifin / 15 g myntulauf rifin / 2 msk sítrónusafi / 1 rautt chili / 1 hvítlauksgeiri / salt og pipar.

Svona gerið þið appelsínupaste-ið:

  1. Byrjið á að hita ofninn í 180 gr.
  2. Skerið toppinn og botninn af appelsínunni, skerið í 12 báta og takið kjarnann burt.
  3. Setjið bátana með hýðinu í pott ásamt saffranþráðunum, hunanginu og vatni þannig að rétt fljóti yfir appelsínurnar.
  4. Látið suðuna koma upp og sjóðið við vægan hita í klukkustund.
  5. Útkoman á að vera mjúkar appelsínur og ca. 3 msk af þykku sýrópi en það gerðist ekki hjá mér. Appelsínurnar urðu mjúkar en ég fékk ekki þykkt sýróp svo ég notaði ekki allan vökvann þegar ég setti appelsínurnar í matvinnsluvélina til að mauka þetta saman. En úr matvinnsluvélinni á að koma þykkt mauk en samt þannig að það renni.

Salatið:

  1. Skolið kjúklingabringurnar, þerrið, setjið í ílát og veltið þeim upp úr helmingnum af ólífuolíunni og nægu af himalayan salti og pipar.
  2. Setjið síðan á heita pönnu, helst grillpönnu og brúnið í 2 mínútur á hvorri hlið.
  3. Því næst í eldfast mót og inn í 180 gr. heitan ofninn og eldið í 15-20 mínútur eða þar til tilbúið.
  4. Útbúið salatið á meðan með því að skera fennelið í þunnar sneiðar, rífa basiliku og myntu niður, bæta við kóríander og skera eitt rautt chili í þunnar sneiðar og setjið á það fat sem þið viljið bera fram á.
  5. Ég setti svo sítrónusafann, restina af ólífuolíunni og kraminn hvítlauksgeirann í litla skál og hrærði saman, setti yfir salatið og blandaði vel.
  6. Þegar kjúklingurinn hefur kólnað lítillega rífið hann þá í strimla með höndunum og setjið í skál. Hellið helmingnum af appelsínu- og saffran maukinu yfir og veltið kjúklingnum upp úr því. Hinn helminginn getið þið geymt í kæli og notað í alls konar sem ykkur dettur í hug t.d. með feitum fisk.

Gott að bera fram með bökuðum rauðlauk í valhnetusalsa. Uppskrift kemur inn von bráðar.

Jana vinkona mín benti mér á að prófa þennan rétt en hann kemur frá Ottolenghi og er mjög vinsæll réttur á veitingastað þeirra. Trikkið við þennan rétt er appelsínan, það gerist eitthvað meiriháttar þegar hún er soðin heil í mauk  Óóótrúlega gott.

 

 

Ljomandi-bordi4

Kjúklingaréttur með kasjúhnetum

IMG_1617_2Innihald: / 1 msk kókosolía / 2 rauðar paprikur / 200g heilar kasjúhnetur / 1 kg kjúklingabringur / 1 msk kókoshveiti (eða annað hveiti) / 1/2 tsk himalayan salt / 1 búnt vorlaukur.

Sósa: / 1/3 bolli tamarisósa eða sojasósa / 1/4 bolli eplaedik (eða hrísgrjónaedik) / 2 msk tómatpúrra / 2 msk kókospálmasykur / 1 msk akasíuhunang eða hrátt hunang (eða bara 3 msk af annarri hvorri sætunni) / 3 hvítlauksgeirar / 1 msk ferskt rifið engifer / smá svartur mulinn pipar.

  1. Byrjið á að skera paprikurnar og kjúklinginn í munnbita.
  2. Hitið olíuna á pönnu, skellið papríkunni yfir og látið malla í nokkrar mínútur eða þar til mjúkar. Takið svo af pönnunni.
  3. Setjið kjúklingabitana á pönnuna, setjið kókoshveitið eða það hveiti sem þið viljið nota yfir, saltið og hrærið af og til í þar til kjúklingurinn er að mestu eldaður í gegn.
  4. Á meðan kjúklingurinn er að eldast er hægt að gera sósuna sem fer yfir og hún fer á pönnuna þegar kjúklingurinn er að mestu tilbúinn.
  5. Bætið paprikunni út á pönnuna ásamt kasjúhnetunum.
  6. Lækkið hitann og látið malla í nokkrar mínútur.
  7. Setjið vorlaukinn yfir réttinn þegar hann er tilbúinn.

 Réttur fyrir ca. 4-6, tekur 10 mínútur að undirbúa og ca. 15 mín  að elda.

IMG_1646_2

Þessi ótrúlega einfalda og góða uppskrift dugar fyrir ca. 4-6, tekur 10 mínútur að undirbúa og ca. korter að elda. Í upprunalegu uppskriftinni er notað hrísgrjónaedik en ég skipti því út fyrir eplaedik. Þessi kjúklingaréttur hefur algjörlega slegið í gegn hérna á heimilinu og er orðinn okkar nýjasta uppáhald. Gott að bera fram með fullt af brakandi salati og flottu brauði.

Þessi kemur frá http://www.aspicyperspective.com

 

 

Ljomandi-bordi_3

Quinoa kjúklingasalat með engifersósu

IMG_6232Innihald: / 3-4 dl kínóa / 6-8 dl vatn / 1 heill kjúklingur / 1/2-1 poki spínat eða annað grænt kál / 1 rauð papríka / 1 gul papríka / 1 appelsínugul papríka / furuhnetur eftir smekk / graskersfræ eftir smekk / 1 krukka fetaostur / 1 avocado (betra að það sé ekki of mjúkt) / 1 mangó.

  1. Byrjið á að leggja kasjúhnetur í bleyti fyrir salatdressinguna (2 tíma).
  2. Sjóðið kínóað og kælið. 4 dl af þurru kínóa til að sjóða gerir stórt salat. Hér sérðu hvernig mér finnst best að sjóða kínóa.
  3. Eldið kjúklinginn, ég nota yfirleitt heilan kjúkling og kryddaði með kjúklingakryddi, fersku timjan og rósmarín.
  4. Skerið niður allt grænmeti (líka spínatið) og skerið kjúklinginn í bita.
  5. Öllu blandað vel saman á stóran disk eða í skál og mangóið sett síðast ofan á.
  6. Það getur verið gott að setja sítrónusafa yfir kínóað meðan það er að kólna.
  7. Þetta salat er fyrir ca. 4-6 manns.

Engiferdressing: / 1 hvítlauksgeiri / 2-3 cm engifer / 1 1/2 dl kasjúhnetur sem hafa legið í bleyti í amk 2 tíma / 3 msk eplaedik eða ris vinegar / 1/2 dl kaldpressuð ólífuolía /  3 msk hlynsíróp / smá þurrkað chili / smá maldon salt / 3 msk vatn.

Ég bara elska þetta salat og það er t.d. algjör snilld í saumaklúbbinn eða í veislu þar sem þú vilt bjóða upp á einfalt og gott salat. Engifersósan fer sérstaklega vel með því og ég fékk uppskriftina hjá henni hjá Jönu minni. Þessi salatdressing er alveg meiriháttar góð. Um daginn keyptum reyndar engiferdressingu á LOCAL sem er lítill, kósí heilsustaður í Borgartúninu og notuðum með þessu salati. Ég held reyndar að dressingin hafi verið japönsk en þau selja einnig sesarsósu og mexíkóska dressingu og þær eru allar frábærar :) LOCAL er alveg málið.

Besta Pasta

IMG_6020Innihald: / 450 g speltpasta / 100 g sólþurrkaðir tómatar  / 1 rautt chili / 2 msk ferskur sítrónusafi / 50 g furuhnetur / 50 g mosarellaostur / rifinn parmesanostur / sjávarsalt / nýmalaður pipar / val: kjúklingur

Sósa: / 100 g klettasalat / 25 g fersk basilíka / 3 stk hvítlauksrif / 1 dl ólífuolía.

  1. Sjóðið pastað, látið vatnið renna vel af því og setjið í fallega skál.
  2. Skerið tómatana í strimla, fræhreinsið chili og skerið í langa strimla, þurrristið furuhneturnar og setjið allt í skálina ásamt sítrónusafanum og mosarellaostinum.
  3. Búið til sósuna með því að setja allt í matvinnsluvélina, maukið vel og hellið yfir pastað.
  4. Saltið og piprið eftir smekk og rífið parmesanost yfir.

Þennan rétt held ég að ég hafi gert langoftast í mínu eldhúsi og hann er ekki glútenlaus. Krakkanir mínir elska hann og alltaf þegar ég hef hann í boðum þá er ég beðin um uppskriftina. Hann er auðvitað frá Sollu og er í Hagkaupsbókinni Grænn Kostur undir nafninu Speltpasta með klettasalatpestó. Mér finnst við hæfi að kalla hann bara Besta Pasta þar sem þetta er besti pastaréttur í heimi að mínu mati og okkar allra í fjölskyldunni. Hann klikkar einfaldlega aldrei þessi réttur. Við erum reyndar farin að kalla hann Pastað á Gló því þar fæst mjög líkur pastaréttur sem við tökum oft heim þegar við nennum ekki að elda. Svo er líka mjög gott að bæta kjúkling út í fyrir þá sem vilja það.