Archive of ‘Álegg’ category

Quesadillas à la Ottolenghi

IMG_2426_2Svartbaunamauk: / 1 1/2 bolli (400g) svartar baunir (niðursoðnar eru fínar) / 1 tsk kóríanderduft / 1/2 tsk cuminduft / 1/4 tsk cayenne pipar / 30 g ferskt kóríander (lauf og stiklar) / safi úr einni lime / 1/4 tsk himalayan salt

  1. Allt sett í matvinnsluvél og búið til mauk.

Salsa: / 1/2 rauðlaukur, skorinn í mjög þunnar sneiðar / 1/2 msk hvítvínsedik / 3 vorlaukar (grænu blöðin) skornir smátt / 5 tómatar, kjötið tekið burt innan úr / 1 pressaður hvítlauksgeiri / 1 rautt chili, skorið smátt / 30 g ferskt kóríander (lauf og stilkar) skorið smátt / 3/4 tsk himalayan salt / 2 avókadó skorið í teninga

  1. Leggið rauðlaukinn í bleyti í hvítvínsedikið í nokkrar mínútur. Skerið allt grænmetið niður, hrærið saman og setjið í skál.

Annað: / tortillur – sýrður rjómi – mosarella eða cheddar ostur, jafnvel parmesan – etv. pikklað jalapeno.

  1. Smyrjið baunamaukið á tortillu, setjið sýrðan rjóma ofan á og rifinn ost yfir.
  2. Setjið smá salsa ofaná og jafnvel pikklað jalapeno.
  3. Brjótið tortilluna saman í tvennt.
  4. Setjið á grillið eða á rifflaða pönnu og hitið í 2-3 mínútur á hvorri hlið. Fyllingin á að vera heit og tortillurnar lítilsháttar brenndar.
  5. Skerið tortillurnar í helming og berið fram með auka salsa og fersku kóríander.

Við gerðum þetta aðeins öðruvísi. Við byrjuðum á að hita tortillurnar í ofni, settum svo allt gúmmelaðið innan í og borðuðum þannig eða eiginlega meira eins og vefjur. Það kom mjög vel út en ég hlakka til að prófa þessa uppskrift aftur og þá að grilla þegar allt er komið innan í tortillurnar.

IMG_2360_2

 

IMG_2376_2

 

Þetta eru tortillurnar sem ég kaupi yfirleitt þegar ég er í Ameríku. Aðrar eru hveitilausar og úr lífrænu, spíruðu korni og hinar eru lífrænar heilhveititortillur. Tortillurnar eru kælivara og svo miklu, miklu betri en pappatortillur með geymsluþol út í hið óendanlega. Svona vara þarf virkilega að fást hér á landi og ef einhver veit um ferskar, flottar tortillur þá endilega megið þið láta mig vita.

 

IMG_2357_2

Ég kíkti í Barnes and Nobles í Seattle og datt í fjórar bækur eftir Yotam Ottolenghi. Hann hefur skrifað bækurnar Ottolenghi: The Cookbook –  Plenty – Plenty More og Jerusalem. Ottolenghi og samstarfsaðili hans, Sami Tamimi, sem eru mennirnir á bak við fyrirtækið Ottolenghi og velgengni þess, ólust upp í Ísrael og Palestínu og nutu góðs af því í sínum uppvexti að borða mat eldaðan frá grunni af foreldrum sínum sem aðallega notuðu ferskt, árstíðabundið hráefni keypt af heimamönnum sem voru arabískir bændur og gyðingar. Þó svo að bókin Plenty, þaðan sem þessi uppskrift kemur, er grænmetisbók notar Ottolenghi bæði kjöt og fisk í sínum uppskriftum en út af uppruna sínum finnst honum ekkert tiltökumál að elda aðeins úr grænmeti að eigin sögn. Bókin er full af skemmtilegum frásögnum og maður bókstaflega finnur ástríðu hans gagnvart matseld.

Ottolenghi rekur fimm veitingastaði í London. Ef þú rekst á bækurnar hans þá skora ég á þig að kíkja í þær. Fallegar myndir, frábærar uppskriftir og fallegur heimur.

IMG_2359_2

 

 

Ljomandi-bordi4

Sólþurrkað tómatpestó

IMG_2133_2Sólþurrkað tómatpestó: 1 bolli sólþurrkaðir tómatar (eða ein krukka sem er ca. 300 g) / smá sítrónusafi og sítrónubörkur / 2 hvítlauksgeirar / lúka af ferskri basilíku / 1/2 rauður laukur / 1/2 bolli kaldpressuð ólífuolía / 1/2 bolli furuhnetur / smá himalayan salt / 1/3 bolli parmesan ostur.

  1. Setjið alllt í matvinnsluvélina eða blandara og mixið í smá stund en samt ekki þannig að það verði of þunnt, gott að hafa smá áferð.
  2. Frábært að setja innan í grænmetisblað í staðinn fyrir brauð og fá próteinið úr eggjunum.

IMG_2117_2

Ég elska pestó og gæti lifað á því. Þegar við förum í ferðalög tek ég alltaf eitthvað svona með okkur. Frábært meðlæti með mat og milli mála.

 

Ljomandi-bordi4

Rauða pestóið hennar Ragnhildar

IMG_0506Innihald: / 100 gr möndlur / 1 krukka sólþurrkaðir tómatar / 50 gr fersk basil / 1-2 hvítlauksrif / 1 rautt chili / 1-2 msk hunang / safi úr 1/2 lime / smá salt.

  1. Byrjið á að rista möndlurnar á pönnu.
  2. Malið möndlurnar frekar gróft í matvinnsluvél og takið frá.
  3. Setjið alla krukkuna af sólþurrkuðu tómötunum í matvinnsluvélina ásamt olíunni og öll hin innihaldsefnin.
  4. Hrærið síðan möndlunum saman við með sleif.
  5. Það gæti þurft að setja smá auka olíu út í.
  6. Tilbúið.

IMG_0480Vinkona mín hún Ragnhildur Eiríksdóttir bauð mér og vinkonum okkar í hádegisverð og gerði handa okkur dásamlega súpu, heimabakað brauð og þetta klikkaða pestó. Ég fékk uppskriftina hjá henni og er búin að gera þessa uppskrift svo oft síðan að nú græja ég þetta pestó með augun lokuð. Alveg ómótstæðilega gott. Takk elsku Ragnhildur, þú ert snillingur.

 

Grænt pestó

IMG_0520Innihald: / 50 gr fersk basílika / 35 gr klettasalat / 50 gr furuhnetur / 100 gr parmesan ostur / 1 1/2 dl kaldpressuð ólífuolía / nokkur svört piparkorn / smá sítrónusafi.

  1. Setjið allt í blandara eða matvinnsluvél og maukið vel saman.

Mér finnst alveg nauðsynlegt að eiga eitthvað svona álegg í ísskápnum og ef ég á ekki pestó, hummus eða eitthvað annað mauk þá finnst mér ég eiginlega ekki getað fengið mér neitt almennilegt á milli mála. Mér finnst gott að nota klettasalat með basílikunni en það er ekki nauðsynlegt og þá notið þið bara 50 gr af basílíkunni og minnkið magnið af ostinum í ca. 80 gr. og 1 dl af olíunni. Uppskriftin verður líka aðeins minni þannig en við borðum svo mikið af þessu að það dugar ekkert minna en að gera væna uppskrift. Einnig má leggja furuhneturnar í bleyti í smá stund en það er ekki nauðsynlegt. Það er líka hægt að rista þær en það er heldur ekki nauðsynlegt. Pestó geymist í kæli í ca. 3 daga þá helst út af sítrónusafanum sem lengir aðeins geymslutímann.

Hér studdist ég við uppskrift frá Ebbu sætu :)

photo-pesto

Rosa Mexicano Guacamole

IMG_8715Innihald: / 1 laukur / 1/2 – 1 ferskt jalapeno / 4 kúfullar msk kóríander / 3 avocado / 1-2 saxaðir tómatar / tortilla flögur.

Chile paste: uppskrift fyrir ca fjóra

  1. Takið ca. 3 msk af fínsöxuðum lauk, 2 kúfullar msk af fínsöxuðu kóríander, 2 msk eða meira af fínsöxuðu jalapeno og 1 tsk salt.
  2. Setjið allt í mortel og stappið eða kremjið þar til laukurinn er næstum horfinn og þar til allt er vel blandað saman. Ef þú átt ekki mortel gætir þú notað gaffal og víða skál.

IMG_8669

  1. Takið síðan þrjú miðlungsþroskuð avocado og skerið eftir endilangri miðju. Snúið helmingunum til að skilja þá að. Takið steininn úr með hníf og skerið svo fjórar renndur niður og fjórar þversum án þess að skera niður í skinnið. Þannig náið þið avocadoinu best upp úr skinninu (sést betur í myndbandinu hér að neðan).

IMG_8680

  1. Bætið út í 2 kúfullum msk af fínsöxuðu kóríander, 2 msk af fínsöxuðum lauk, smá salti og blandið varlega saman. Þið ráðið hversu þykka þið viljið hafa avocado bitana eftir því hversu mikið þið stappið þessu saman.
  2. Setjið 3-4 msk af söxuðum tómötum út í síðast. Ég reyndar set alltaf svolítið mikið meira af tómötum, mér finnst það svo miklu betra.
  3. Ef ykkur finnst mikið eftir af hráefni þá bara bætið þið meiru út í grunninn eins og af lauknum eða kóríander. Þetta er ekkert heilagt heldur notið bara sem viðmið. Kannski einna helst að passa upp á jalapeno-ið því það er svo sterkt.

IMG_8695

Stundum þegar ég fer til New York stelst ég á veitingastað sem heitir Rosa Mexicano við Union Square og fæ mér besta guacamole í heimi. Það eru þrír Rosa Mexicano veitingastaðir í New York og þeir eru víðar um Bandaríkin. Það sem gerir þetta guacamole svo ómótstæðilegt er að það er handgert í mortel og búið til við borðið þitt. Rosa Mexicano opnaði fyrst árið 1984 og þeir eru þekktir fyrir guacamole gerð sína. Ef þú átt leið til New York eða aðra staði í Bandaríkjunum þar sem Rosa Mexicano er þá verður þú að prófa guacamole-ið þeirra.

Hér getur þú horft á stutt og flott myndband hvernig þeir á Rosa Mexicano gera þetta og heldur betur af lífi og sál.

Ég keypti mortelið mitt í DUKA fyrir löngu, löngu síðan en mig langar að segja þér frá dásamlegri eldhúsbúð sem heitir SUR-LA-TABLE sem er að finna í Bandaríkjunum. Ég hreinlega elska þessa búð og fer yfirleitt í hana þegar ég fer til Seattle en hún er niðri við Pike Place markaðinn. Hún er líka í Soho NY og á mörgum öðrum stöðum. Rauðu sleifarnar á uppskriftarmyndunum hér að ofan eru úr þeirri búð og þær eru meiriháttar.

IMG_8526

Verði ykkur að góðu :)

 

Hvítlaukshummus

IMG_4375Innihald: / 1 dós kjúklingabaunir / 2 msk sesamsmjör eða tahini / 1-2 pressuð hvítlaukrif / 1 tsk ferskur sítrónusafi / 1 tsk rifið engifer / 1 tsk cumin / 3 msk ólífuolía / smá cayenne pipar / salt og pipar / vatn ef þarf.

Aðferð: skolið kjúklingabaunirnar undir köldu vatni, blandið öllu saman í blandara eða matvinnsluvél.

Hummus geymist 4-5 daga í loftþéttum umbúðum í kæli. Algjör snilld með t.d. hrökkbrauði.

Græn og guðdómleg sósa

IMG_5945Innihald: / 4 lúkur spínat eða annað grænt kál / 1 dl grænar ólífur / 1 lúka fersk basil (líka hægt að nota þurrkaða) / 1 dl kasjúhnetur / 3 dl ólífuolía / smá salt / smá svartur pipar.

Aðferð: setjið allt í blandarann og maukið. Gæti verið gott að setja ólífuolíuna út í í mjórri bunu. Smakkið til.

Þessa afar einföldu sósu sá ég í Happ Happ Húrra bókinni. Þar heitir hún einfaldlega græn sósa og er pizzasósa. Ég veit ekki hversu oft ég hef gert þessa sósu og ég nota hana yfirleitt sem álegg eða meðlæti því hún er svo þykk og bragðgóð. Hún er góð með brauði, hrökkbrauði, með fersku grænmeti eins og gulrótum og gúrku. Hún er einfaldlega frábær til að eiga í ísskápnum og reddar manni oft þegar sykurpúkinn mætir seinnipartinn og vill fá sitt. Það tekur enga stund að búa hana til, ekkert að leggja í bleyti eða neitt þannig. Sósan geymist ekki mjög lengi svo mér finnst betra að búa til minna en meira og þá geri ég hana bara oftar.

IMG_5925

Paprikuhummus

IMG_5174Innihald: / 1 dós kjúklingabaunir / 3 msk tahini / 2 hvítlauksrif / 1/2 rauð paprika / 2 msk ólífuolía / 1/2 tsk tamarisósa / 1/4 tsk cummin / ögn cayennepipar / smá vatn

Aðferð: setjið allt í blandarann eða matvinnsluvélina og maukið þar til verður að hummus. Einfalt, hollt og gott. Gott með hrökkbrauði.

Rauðrófuhummus

IMG_4716Innihald: 1 rauðrófa meðalstór / 1 msk sjávarsalt  / 2 msk ólífuolía eða meira ef þarf / 1 rifið hvítlauksrif / 1 msk cummin / 2 msk sítrónusafi / 2 msk tahini / 2 msk vatn.

  1. Stillið ofninn á 200gr.
  2. Afhýðið og skerið rauðrófuna í bita og setjið í eldfast mót.
  3. Hellið ólífuolíu yfir, saltið og bakið í ca. 30 mín.
  4. Þegar þær eru bakaðar eru rauðrófurnar og olían af þeim sett í matvinnsluvél ásamt öllu hinu og maukað.

Rauðrófur eru ótrúlega hollur matur, rosalega járnríkar og af því ég er frekar blóðlítil og þarf að passa upp á járnmagnið var mér ráðlagt að borða og djúsa rauðrófur. Mér fannst það ekki spennandi en lét mig hafa það að djúsa þær. Svo komst upp á lagið með að gera þetta ótrúlega góða rauðrófumauk sem er algjör snilld. Hugmyndin af því kemur úr Happ, happ, húrra bókinni en þar er notað hunang til að sæta áður en rauðrófurnar eru settar inn í ofninn sem er óóótrúlega gott. En þetta er alls ekki verra og minni sykur :O)  Ég nota það mest sem álegg, með gulrótum og gúrkum og það er geggjað með heimagerðum pizzum.

IMG_5646-2

Jarðarberja-sultulína

IMG_5500Innihald: / 250g jarðarber /  2 msk chiafræ / 10 steviudropar.

  1. Setjið fersk eða frosin jarðarber í pott ásamt chiafræjunum og hitið eða sjóðið í ca. 5 mínútur.
  2. Hrærið í þar til verður að mauki.
  3. Sætið með steviudropunum. Tilbúin sulta!

Þessi sulta er svo mikið lostæti og yfirburða holl að auki. Elín vinkona mín er snillingur í eldhúsinu og meistari í kökugerð. Hún kenndi mér að gera þessa sultu og þess vegna heitir hún sultulína :O)