Posts Tagged ‘gulrætur’

Einfaldur kókos & karrý baunapottréttur

IMG_1265_2Innihald: / kókosolía til steikingar / 1 laukur / 1 bolli (þurrar) rauðar eða grænar linsubaunir / 1 sæt kartafla / 2 stórar gulrætur / 1/2 tsk turmeric / 1 msk karrý / 1 tsk engiferkrydd / smá salt / nokkur svört piparkorn / 3 – 3 1/2 bolli vatn / 1 msk grænmetiskraftur / 1/2 bolli kókosmjólk.

  1. Laukurinn skorinn frekar smátt.
  2. Skerið sætu karföfluna niður í teninga og gulræturnar langsum.
  3. Hitið olíuna og mýkið laukinn.
  4. Bætið svo kartöflunni, gulrótunum, baununum og kryddinu útí.
  5. Setjið vatnið út í pottinn og hitið að suðu, minnkið þá hitann og sjóðið í amk. 25 mínútur. Mér finnst betra að nota minna vatn en meira, annars verður þetta meira súpa.
  6. Bætið kókosmjólkinni út í.
  7. Berið fram heitt og jafnvel með quinoa.

Þessi vegan pottréttur er ótrúlega einfaldur og góður grænmetisréttur fyrir ca. 4.  Mér finnst algjör snilld að gera frekar stóra uppskrift og eiga daginn eftir í afgang til að taka með í vinnuna. Ef þú átt cast iron pott þá er gott að nota hann í þetta.

Þar sem ég er að taka út allan sykur og korn (þá sleppi ég quinoa-inu) í ákveðinn tíma er ég eiginlega búin að lifa á svona mat sem er alls ekkert mál þegar maður dettur niður á svona lostæti því þetta er mjög bragðgóður og ljúffengur pottréttur sem fljótlegt er að gera og frábært að bera fram með fullt af grænmeti.

IMG_1251_2

Uppskrift frá http://www.detoxinista.com

 

 

Bordi2

 

 

 

Grænmetispottrétturinn minn

IMG_0477Innihald: /  1-2 msk olífuolía, kókosolía eða ghee / 1 laukur / 1/2 jalapeno / 2-3 cm ferskt engifer / 1 sæt kartafla / 2 stilkar sellerí / 1 lítið brokkolíhöfuð / 3-4 gulrætur / 1 rauð papríka / 1 bolli rauðar linsubaunir.

Krydd: / 2 msk hollur grænmetiskraftur / 1/4 tsk kardimomma / 1/4 tsk kanill / 1/2 tsk karrí / 1/2 tsk turmeric / 2-3 lárviðarlauf / nokkur svört piparkorn / smá maldonsalt / 1/2 líter vatn / 1 dós kókosmjólk / 3 dl maukaðir tómatar í flösku.

Þessi uppskrift er frekar stór eða fyrir ca. 6-8 manns. En mér finnst gott að elda mikið og taka með í nesti daginn eftir.

  1. Byrjið á skera allt grænmetið niður.
  2. Skerið laukinn frekar smátt og mýkjið hann í olíu eða ghee en ekki brúna.
  3. Skerið engiferið og jalapeno-ið smátt niður og setjið út í.
  4. Bætið síðan við sætu kartöflunni, selleríinu, gulrótunum, brokkolíinu og papríkunni.
  5. Kryddið.
  6. Setjið svo vatnið út í og látið malla í ca. 1/2 tíma þannig að rétt sjóði. Ekki hafa of mikinn hita.
  7. Hreinsið linsubaunirnar og setjið út í.
  8. Bætið tómötunum í flösku og kókosmjólkinni út í.
  9. Látið malla í 1/2 tíma.
  10. Því lengur sem þið getið látið réttinn vera í pottinum, því betra. Ég t.d. set þennan rétt stundum upp á morgnana þegar ég er heima og læt hann malla við lágan hita. Ég slekk bara undir þegar ég skrepp út og kveiki aftur undir seinnipartinn þegar ég kem heim. En auðvitað þarf það alls ekki, bara svo gott svoleiðis ef tími leyfir.

Ég keypti mér leirpott síðast þegar ég fór til Seattle í búðinni Sur la Table. Ég var að skoða Le Creuset potta en þessi var á svo frábæru tilboði að ég gat ekki annað en keypt hann þó hann væri nýþungur og erfitt að rogast með alla þessa leið. Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim (eftir að ég var sko búin að hvíla mig) var að kíkja á netið og googla cast iron pot recipes. Ég skoðaði nokkrar og ákvað svo bara að skella því sem ég átti í pottinn. Úr varð þessi dásamlegi pottréttur sem átti fyrst að vera súpa. Systir mín kom svo daginn eftir og fékk að smakka hann kaldan. Kannski var hún súpersvöng en hún alla vega malaði meðan hún borðaði :) Ég elska þegar fólk verður svona hrifið af því sem ég geri. Best í heimi!

Það sem er svo frábært við þennan pott er að hann getur líka farið inn í ofninn. Hér geturðu kíkt á pottinn og séð litina sem til eru :http://www.surlatable.com/product/PRO-1315373/Sur+La+Table+Red+Round+Oven+7+qt.

IMG_0403

Holla gulrótarkakan góða

IMG_6837-2Innihald: / 200 g möndlumjöl / 3 msk kókoshveiti / 3/4 tsk matarsódi / 1 tsk vínsteinslyftiduft / 2 tsk kanill / 1 tsk engifer / 1/2 tsk múskat / smá salt / 3 egg / 1/2 bolli (110 g) kókosolía (fljótandi) / 1/2 bolli (140 g) hlynsíróp / 4 tsk vanilla extract / 100 g rifnar gulrætur.

  1. Stillið ofninn á 175 gr.
  2. Smyrjið  23 cm form að innan og setið bökunarpappír í botninn.
  3. Blandið þurrefnunum saman og geymið í skál.
  4. Blandið saman eggjum, kókosolíu, hlynsírópi og vanillu í hrærivél.
  5. Hellið síðan þurrefnunum út í og bætið rifnu gulrótunum varlega út í.
  6. Bakið í ca. 20 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn úr ef þið stingið í miðju kökunnar.
  7. Látið kólna alveg áður en þið setjið kremið á.

Krem: / 150 g rjómaostur / 50 g ósaltað smjör (við stofuhita) / 70 g sukrin melis eða flórsykur / 1 tsk vanillusykur (helst heimagerður) eða 1/2 tsk vanillu extract / 1 tsk sítrónusafi.

  1. Setjið allt í hrærivél og hrærið vel saman. Ef ykkur finnst kremið of þykkt er hægt að bæta einni teskeið af mjólk út í.

Hönnu Birnu minni (9 ára) finnst súkkulaðibragð ekki gott svo hún biður mig stundum að gera gulrótarköku. Ég fór því að leita að eins hollri og góðri gulrótarköku og ég gat og ég held ég hafi fundið hana. Ef þið skoðið innihaldið þá sjáið þið að þessi dásemdar kaka er ekkert nema meinholl. Nema þið klárið sjálf alein alla kökuna :)IMG_6709Þessi uppskrift er frá http://www.texanerin.com