Hráefnið

IMG_4527

GLÚTENLAUST HVEITIMJÖL

Ég vill byrja á að taka fram að oftast nota ég spelt í minni matargerð og er ekki með óþol fyrir glúteini en mig langaði að prófa að nota glútenlaust hveitimjöl. Ég er búin að lesa og lesa og hef komist að því að ekkert eitt glútenlaust korn kemur í staðinn fyrir hveiti þar sem hveiti inniheldur glúten sem bindiefni. Það er til mikið af alls konar glútenlausu korni og sumt hafði ég aldrei séð áður. Það er víst gott í glútenlausum bakstri að blanda saman mismunandi mjöli til að fá fram ákveðið bragð og áferð. Þá erum við að tala um 2-3 tegundir í einni uppskrift. En við skulum gera okkur strax grein fyrir því að glútenlaus brauð munu aldrei bragðast eins og venjuleg brauð né verða lauflétt og full af lofti eins og frönsk baguette. Já eitt enn, glútenlaus brauð geymast ekki mjög vel, þau eru best beint úr ofninum. En hvað er betra en heitt brauð beint úr ofninum?

Gróf mjöl

Bókhveitimjöl – milt á bragðið og næstum fullkominn staðgengill hveitis í uppskriftum. Vei!!! Gott að nota í brauð, pönnukökur, bollur, pizzadeig, muffins og kökur. Gott að blanda við sterkjumeira mjöl eins og potato starch eða tapioca ef deigið á að ná að rúllast vel út í þannig bakstri (1).

Möndlumjöl  sætt möndlubragð. Sumir fá smá kransakökufíling;) Gott að nota í brauð, bollur, kökur, vefjur, pizzur og sætabrauð. Eykur raka deigsins og gefur því meira bindiefni (2).

Kókoshveiti: sætt á bragðið. Gott að nota í brauð, bollur, kökur og próteinstykki. Hægt er að skipta allt að 25% af hveiti út í hefðbundnum uppskriftum fyrir kókoshveiti og minnka þannig kolvetnamagn og auka trefjar. Það er hægt að skipta því út 100%, en það er betra að nota með öðru mjöli. Það er sérstaklega trefjaríkt og lágt í kolvetnum og drekkur í sig meiri vökva en flestar aðrar tegundir af mjöli. Þess vegna þurfiði að passa að nota minna magn af kókoshveiti þegar það er notað í stað hveitis (tæplega helmingi minna (3)) eða bæta við vökva.

Maísmjöl – milt á bragðið og fagurgult á litinn. Gott að nota í brauð, kökur, bollur, muffins, bökur (4). Inniheldur töluvert af sterkju, gott að vita fyrir þá sem það vilja forðast. Fer illa í mig.

Rísmjöl – hentar vel í brauð, kökur,  pönnukökur og til að þykkja sósur (5).

Hirsimjöl – örlítið þurrara hveiti. Gott að blanda saman við teff-, hamp-, eða möndlumjöl en ekki mælt með eitt og sér (6).

Sorghum mjöl – próteinríkt mjöl. Mjög gott í staðinn fyrir hveiti í mörgum uppskriftum, sérstaklega ef blandað er við þéttari mjöl. Hef lesið mikið um þetta og finnst spennandi út af próteininnihaldi en ekki enn fundið á Íslandi (7).

Teff mjöl – hnetubragð og dekkra á litinn. Mjög næringarríkt. Gott að nota í alls konar bakstur.  Ég fann það í Whole Foods í Ameríku en hef ekki enn fundið á Íslandi (8).

Sterkja

Þau mjöl sem innihalda sterkju eru t.d. arrowroot, cornstarch (maizena mjöl), potato starch, tapica flour og white rice flour.

Það er hægt að kaupa tilbúna All-Purpose-Baking-Flour en sumir búa sér til sína eigin glútenlausa hveitiblöndu. Þá er hægt að blanda saman 60% af sterkjumjöli (1-2 teg) og 40% af grófu mjöli (2-3 teg) til að nota í alls konar bakstur. Það er líka hægt að gera sína eigin heilhveitiblöndu og nota um 70% af grófu mjöli (2-4 teg) og 30% af sterkju (1-2 teg (9)).

Af því að glútenlaust mjöl hefur ekkert bindiefni (glúten) hef ég notað psyllium husks (trefjar). Það er líka hægt að nota guar gum og xnathan gum. Hægt er að nota psyllium husks eitt og sér eða blanda því saman við chiafræ og hörfræ og nota það sem bindiefni (glúten) í bakstur. Þá eru fræin möluð í kaffikvörn.

Ég nota heilhveiti og spelti heilmikið í mínu eldhúsi en þau innihalda auðvitað glúten. Hvítt hveiti hef ég ekki keypt í mörg ár.

 

 

IMG_4581

SYKUR OG SÆTA 

Ég er algjör sykurpúki og eftir því sem ég borða meiri sykur langar mig bara í meiri sykur. Sætt kallar nefnilega á meira sætt. Í mínu tilfelli ræð ég bara ekki við sykurinn í meltingunni og verður illt eins og mér finnast kökur og nammi gott. Í raun er enginn sykur góður fyrir okkur því miður og viðbættur sykur er auðvitað allra verstur (10). T.d. er of mikil neysla ávaxta ekki talin æskileg og á heimasíðu Sarah Wilson sem hætti alveg að borða sykur er spurt hvort frúktósi sé slæmur þrátt fyrir að vera náttúrulegur. Hún segir að frúktósi sé ekki óhollur EN líkaminn okkar þolir bara mjög lítið af honum: “We’re just designed to eat VERY LITTLE of it. Studies say the amount in about 1-2 pieces of fruit. Which as David (Gillespie) says in Sweet Poison”Ekki ætla ég að fara að mæla gegn neyslu ávaxta, bara fróðleikskorn.

Ég fór eftir ráðleggingum Kolbrúnar grasalæknis í nokkuð margar vikur og á því tímabili neytti ég næstum engra ávaxta fyrir utan öll ber nema vínber. Það var alveg rosalega erfitt, ég viðurkenni það. Mér fannst erfiðast að hætta að nota banana sem ég elska að setja í boostið mitt. Bananar eru alveg dísætir en það vissi maður svo sem. Þetta vandist samt furðulega vel. Jú auðvitað féll ég og stundum langaði mig að skalla veggi en þá byrjaði ég bara aftur.  Það sem kom mér í gegnum verstu kaflana þegar ég var alveg að springa úr sykurþörf var möndlusmjör (fæst t.d. í Bónus frá Himneskt, líka til frá Rapunzel í Nettó). Ég beinlínis át það beint úr krukkunni með skeið eins og ís til að losna við sykurþörfina. Það er nefnilega þannig að slæmu púkarnir í þörmunum þrífast einmitt á sykri hvaðan svo sem hann kemur, “hollur” eða óhollur og til að taka til verður maður víst að gera þetta almennilega og ekkert rugl með það því miður. Svo allt í einu einn daginn þegar ég var að teygja mig inn í ísskápinn eftir möndlusmjörniu, kannski svona 3 vikum eftir að ég tók sykurinn burt, starði ég á krukkuna og setti hana aftur í ísskápinn. Mig langaði ekki í það lengur mér til svo stórkostlegrar undrunar að mig langaði að hringja í vin. Það hjálpaði líka að taka inn króm-töflur og lakkrísrót. Hver og einn er misjafn og mér finnst best að nota mest 1-2 ávexti í boostið mitt. Og ég er alls ekki hætt að borða banana, ég borða bara minna af þeim en áður. Það hentar mér best að borða ávöxt á tóman maga, helst eina tegund í einu og þegar ávextir eru á salati sleppi ég þeim. Melónur ætti alltaf að borða sér og alls ekki með neinu öðru því þær fara svo svakalega hratt í gegnum meltinguna. Að borða ávexti á eftir steik finnst mér algjör steik einmitt út af því hversu miklu hraðar þeir fara gegnum meltinguna en annar matur. En svo kemur sumar og allt fer úr röð og reglu og þá fer maður í sama gamla farið en þó með allt öðru hugarfari og miklu meðvitaðri um hvað sé gott fyrir mann og hvernig manni líður eftir sykurát. En þá tekur maður sykurinn bara aftur út einhvern tíma og gerir það auðveldlega.

En svona venjulega til að sæta þá nota ég þetta sem er í listanum hér að neðan en alls ekki í þessari röð og líka eitt og annað sem mig langar að kynna mér betur í sætudeildinni og tileinka mér meira:

Þurrkaðir ávextir – það er mikill náttúrulegur sykur (frúktósi) í þurrkuðum ávöxtum eins og döðlum, fíkjum og rúsínum. Þurrkaðir ávextir fara frekar illa í mig. Eitthvað með lifrina og frúktósann sennilega. Þegar ég nota þá reyni ég að hafa þá lífræna en það tekst alls ekki alltaf.

Erythritol – 70% sætt og sykur þannig að gott er að nota steviu á móti. Inniheldur brot af kaloríum m.v. sykur. Finnst t.d. í perum, melónum og sveppum. Skaðar ekki tannheilsu, er nánast kaloríulaust og hefur ekki áhrif á insúlín né blóðsykur. Það eina neikvæða sem ég rakst á var að það gæti ollið minniháttar meltingartruflunum hjá sumum en s.s. telst hinn besti kostur til að sæta uppskriftir. Svona í alvöru þá hljómar þetta lýginni líkast og ég nota þetta helst í baksturinn (11).

Agave sýróp – karamellubragð. Þarf mjög lítið því það er svo rosalega sætt á bragðið. Inniheldur mjög hátt hlufall ávaxtasykurs (frúktósa) og mallinn á mér fer í keng þegar ég borða það svo ég er hætt að nota það. Haldið er fram að agave sé verra en venjulegur sykur (12). En til að skipta út í uppskriftum er hlutfallið 1 dl sykur = 3/4 dl agave.

Stevía – steviudroparnir eru snilld en passa bara að nota mjög lítið því þeir eru svo rosalega sætir. Innihalda engar hitaeiningar (13).

Akasíu hunang – er hrein náttúruafurð en með frekar afgerandi bragð. Kaloríuríkt. Talið hafa læknandi áhrif en ákv. ensím eyðast ef það er hitað yfir 40gr. Hunang er gott út í te við særindum í hálsi (14). Hunang er oft kallað efnislegur kærleikur. Það finnst mér fallegt. Akasíu hunang er minna slæmt en sykur EN það þarf að nota sparlega og í hófi (15).

Sukrin – Sukrin er náttúrulegur staðgengill sykurs og er mest erythritol, alveg án kaloría og inniheldur engin kolvetni. Sukrin gold kemur í stað púðursykurs (16).

Rice Malt Syrop – bragðast eins og milt, gullið sýróp en er án frúktósa sem er snilld! Samt er sykurstuðullinn hár eða GI98. Langar voða mikið að kynna mér það betur. Hægt er að skipta út 1 dl af sykri í 1 1/4 dl rice malt syrop í uppskriftum (17). Hef ekki fundið á Íslandi því miður :O(

Kókospálmasykur – er með mjög lágan sykurstuðul (GI35). Er alltaf að auka hann í bakstri. Lífrænn, vegan og glútenlaus. Ebba Guðný notar hann mikið og ég treysti henni 100%.

Hrásykur  er óhreinsaður sykur.

Kókosmjöl hagar sér líka pínu eins og sykur í líkamanum. Þannig að það þýðir ekkert að úða í sig endalaust af “hollum hrákökum” sem eru stútfullar af döðlum, kókosmjöli, agave og fleiru og hugsa: guð hvað ég er alltaf endalaust holl. Þ.e.a.s. ef þú ert eitthvað að spá í sykurinn.

Hlynsíróp (maple syrup) – mjög góður kostur og kannski einn sá besti því það er ekki svo hátt í frúktósa og glúkósa. Nota það mikið. Hér er góð grein um muninn á agave og hlynsírópi.

Bara svona í gamni ef þú þarft að taka út allan sykur í einhvern smá tíma og ert alveg að gugna á limminu þá eru hér nokkrar tegundir sem gera mat sætari án þess að nota sykur: kanill, vanilla, vanilla extract, kakó, smá salt, malaðar kardimommur, negull, múskat, carob og kókosmjöl sem er búið að þurrista, kæla og mala.

 

 

IMG_4856

HNETUR, FRÆ OG KORN

Hnetur: það sem þarf að varast varðandi hnetur og fræ er gró eða mygla sem getur fundist í hnetum sem hafa t.d. verið geymdar lengi. Ekki spennandi! Jarðhnetur og pistasíuhnetur hafa á sér myglu sem er ekki góð fyrir fólk sem er með viðkvæma meltingu. Hún skolast þó í burtu ef lagt er í bleyti og þannig meltast hráar hnetur og fræ betur. Ég mætti alveg vera duglegri við að leggja í bleyti og þetta er allt spurning um vana.

Í frábæru bókinni hans Davíðs Kristinssonar 30 dagar leið til betra lífs sá ég frábært ráð varðandi hnetur. Ég lagði fullan poka af valhnetum og pecanhnetum í bleyti í 2-6 klst. með salti út í (4 bollar hnetur – 2 msk himalayasalt). Síðan dreifði ég þeim á bökunarplötu, stillti á 60 gráður og þurrkaði hneturnar yfir nótt (12 tíma). Þannig meltast hneturnar miklu betur sérstaklega ef meltingin er léleg. Frábært ráð finnst mér og hneturnar bragðast ótrúlega vel.

Fræ: ég reyni yfirleitt að eiga alltaf chiafræ (próteinrík, trefjar, omega-3), hörfræ (terfjar, omega-3), hampfræ (próteinrík, omega-3,6,9), sesamfræ (kalkrík), sólblómafræ (próteinrík, E-vít) og graskersfræ (omega-3, E-vít). Smá vesen, það þarf að mylja hörfræin svo að líkaminn geti nýtt næringarefnin en ef þið eigið kaffikvörn þá tekur það innan við eina mínútu að framkvæma. Snillingurinn hún Ragga Nagli segir hörfræin hamast eins og skúringakonur í þörmnum sem er hárrétt hjá henni:O)

Ég mala hörfræ eða sesamfræ í kaffikvörn. Það er víst langbest að gera það rétt áður en þeirra er neytt en það er líka hægt að geyma í ísskáp í krukku. Geymið bara ekki of lengi því olían þránar. Það tekur líka enga stund að mylja þau, það að muna eftir því er erfiðast. Ég nota stundum mulninginn út í boostið, í brauðið, út á morgunmatinn….. og reyni að muna að stelst til að lauma því í morgunmatinn hjá krökkunum en ég er svo gleymin og oft eru þau komin út í skóla þegar ég fatta það :O) En með þessari aðferð fáum við flott næringarefni til viðbótar.

Korn: quinoa korn eru uppáhalds. Þau eru súper próteinrík, gefa mikla fyllingu og er þvílíkt undur. Það er mikilvægt að skola þau því utan um þau er náttúrlegt lag sem heitir sapónín sem getur gert bragðið af þeim biturt og sápulegt. Sumir vilja meina að það sé betra að leggja quinoa í bleyti en það þarf ekki, bara skola mjög vel. Hér sérðu hvernig er lang best að sjóða quinoa.

Hrísgrjón eru líka glútenlaus en mér finnst þau bara ekkert rosalega góð. Krakkarnir elska hrísgrjónagraut og í hann nota ég venjuleg grjón en annars hýðishrísgrjón með mat. Þau eru mjög B-vítamínrík og það er gott fyrir húðina. Það er eins með kartöflur og hrísgrjón hjá okkur. Við borðum eiginlega ekki kartöflur nema kannski helst þegar haustuppskeran er. Ég veit eiginlega ekki af hverju við borðum sárasjaldan kartöflur. Kartöflur eru próteinlitlar þó svo að próteinið sé gæðaprótein og þær eru einnig fitulitlar og sterkjumiklar. Þær eru samt trefjaríkar sem er gott. Það skiptir líka máli hvernig þær eru matreiddar. Soðnar kartöflur hafa lægri sykurstuðul en bakaðar og einnig hafa kaldar kartöflur lægri sykurstuðul en ef þær eru borðaðar heitar. Hins vegar borðum við endalaust af sætum kartöflum og eiginlega of mikið :O) en þær eru sem betur fer mjög B-vítamínríkar.

Ég nota alveg korn sem innihalda glúten eins haframjölbygg og heila hafra. Það er snilld að sjóða slatta af heilum hörfum og geyma í ísskáp því það þarf að sjóða þá svo lengi og nota síðan 2-3 msk út í hafragrautinn sinn á morgnana. Klikkaðu á hafra-linkinn hér að ofan til að fá leiðbeiningar um hvernig er best að gera. Svo er hægt að kaupa glútenlaust haframjöl sem er frábært en verðið er auðvitað djók. Það eina með haframjöl er að fínmalað haframjöl virkar eins og sykur í líkamanum þannig að best er að nota tröllahafra samkv. Þorbjörgu Hafsteinsdóttur. En til að koma hafragraut ofan í krakkana finnst mér betra að blanda saman einum poka af fínmöluðum höfrum og einum af tröllahöfrum í stóra krukku og búa til morgungraut úr því.

 

 

IMG_5024

OLÍUR OG SALT

Hreinar fitusýrur til inntöku: ég hef sannreynt á sjálfri mér að fitusýrur gera kraftaverk fyrir húðina. Ég hef verið dugleg að taka inn fitusýrur lengi en þegar ég fór til Kolbrúnar grasalæknis sagði hún mér að ég þyrfti að auka inntöku á hörfræolíunni úr 1 msk í 3 msk á morgnana í smá tíma og minnka svo niður í 2 msk. Ég var s.s. ekki að taka nóg.

Ég byrja s.s. á morgnana að sturta í mig olíunni eftir sítrónuglasið mitt (þegar ég man eftir því). Svo seinna um daginn eða á kvöldin jafnvel reyni ég að muna eftir að taka inn fiskiolíu, stundum tek ég inn hveitikímsolíu (omega-3, E-vít) eða hampolíu en hún inniheldur fullkomið jafnvægi milli omega-3 og omega-6. Það er einmitt það sem er langmikilvægast í þessu, að það ríki jafnvægi milli þessara tveggja fitusýra í líkamanum.

Jóhanna Vilhjálmsdóttir talar mikið um þetta í sinni bók Heilsubók Jóhönnu. Omega-3 fitusýrur virka bólgueyðandi í líkamanum á meðan omega-6 geta orsakað bólgu ef þær eru t.d. ekki lífrænar, kaldpressaðar og keyptar í brúnum glerflöskum. Ekki misskilja, báðar þessar fitusýrur eru okkur lífsnauðsynlegar en flestir eru að fá um fjórðungi meira af omega-6 en omega-3. Það sem gerist er að líkaminn myndar bólguviðbrögð og þegar bólga er til staðar er líkamanum hættara við alls kyns kvillum eins og t.d. krabbameini. Neysla á gæðaolíum eykur jafnvægið milli omega-3 og 6. Smellið á linkinn, hann segir allt sem segja þarf um þetta (1).

Svo er það Krill olía. Munurinn á Krill olíu og fiskiolíu er einna helst sá að fiskiolía er meira unnin og á það til að oxast. Oxun leiðir til myndunar sindurefna sem eykur enn meiri þörf fyrir andoxunarefnum. Fiskiolía inniheldur ekki mikið af andoxunarefnum en Krill olía inniheldur astaxanthin sem er sennilega eitt af öflugustu andoxunarefnum í náttúrunni. Það þarf að taka minna af henni og það er sáralítil hætta á að hún innihaldi kvikasilfur og þungmálma (1,2). Ekki það að ég sé að dissa lýsi, bara gott að vita af þessu. EN hörfræolía er betri en Krill og Krill er betri en lýsi af því það er svo mikið unnið samkvæmt Kollu.

Olíur í matargerð: ég nota ólífuolíukókosolíu og ghee á pönnuna. Ghee er algjör snilld og rosalega hitaþolin. Það verður eiginlega allt gott ef maður notar ghee. Svo er það líka ódýr kostur. Alls ekki kaupa gular matarolíur í plastflöskum (omega-6) nema kannski til að bera á hjarir eða eitthvað þannig því þær fitusýrur oxast sem er mjög slæmt. Omega-6 finnast t.d. í kexi, kökum og unnum kjötvörum. Við þurfum samt á Omega-6 að halda eins og fyrir æðasamdrátt en þessi fitusýra á helst ekki að koma úr skinkubréfi (2).

Olíur eru hitaeiningaríkar og þeir sem eru að spá í þyngdaraukningu við að taka inn svona mikið af olíum ættu ekki að óttast ef þeir draga úr kolvetnaneyslu á móti.

Salt: best er að nota Himalayasalt  því flest önnur sölt hafa verið hituð og þá tapast næringarefni. Þetta kenndi Kolbrún grasalæknir mér :O)

IMG_4837

ÓTRÚLEGA STUFFIÐ

Acai-duft: ég nota acai duft stundum út í boostið mitt því það er berja- og súkkulaðibragð af því. Hverjum finnst það ekki gott? Svo er það superfood, stútfull af andoxunarefnum og fitusýrum (1). Notað sem þynnkulyf í Brasilíu án gríns ;O)

Blómafrjókorn: þessi litlu fræ eru algjör terabyte. Þau innihalda hvorki meira né minna en 22 mismunandi amínósýrur, allar sem líkaminn þarf. Þau eru súper súper próteinrík, auka orku og styrkja ónæmiskerfið. Mér finnst bragðið mjög ríkjandi svo ég set það ekki út í boostið fyrr eftir að ég hef blandað það í blandaranum eins og hér eða út í jurtablöndu og drekk (2).

Macaduft: maca-rótin kemur jafnvægi á hormónabúskap líkamans, hvort sem er hjá konum eða körlum, eykur orku, frjósemi og kynhvöt. Er orkugefandi eins og fyrir íþróttafólk og eykur einbeitingu fyrir t.d. námsmenn. Mér finnst ekki gott að setja maca í boostið út af bragðinu heldur bara skelli í glas og fæ mér skot. Ég tek hana ekki að staðaldri heldur tek skorpur því það er ekki gott að festast í einhverju í langan tíma hvað svo sem það er (3).

Grænt duft/spirulina: ég nota annað hvort Grænu Bombuna úr Jurtaapótekinu eða pHion Green Superfood Powder. Ég annað hvort set smá út í boost en þar sem bragðið er ekkert svo sérstakt þá bara skelli ég 1 tsk. í glas, hræri og drekk.

Hrátt kakó: nota það í sjeika og bakstur enda elska ég súkkulaðibragð. Inniheldur mjög mikið af járni sem er gott fyrir blóðið og magnesíum (4). Kakó er samt örvandi því það inniheldur koffín og alls ekki fyrir alla. Þeir sem eru með viðkvæmt taugakerfi ættu að fara varlega í það og það fer ekkert rosalega vel í mig en mér finnst það bara svo gooooott. Það er ríkt af andoxunarefnum sem kallast flavonoids. Flavonoids vernda líkamann gegn sindurefnum (free radicals), minnka kólesteról og blóðþrýsting (5).

Camu-camu duft: svakalega C-vítamínríkt. Góð leið til að fá C-vítamín skammtinn ekki í pilluformi (6).

Aloe-vera safi: ég drekk stundum aloe vera djús frá Forever Living. Hann er alls ekki góður á bragðið en mjög góður fyrir meltinguna. Ég hef prufað aðrar tegundir en þessi er einfaldlega langbestur (7).

Lucumaduft: er mjög steinefnaríkt og ég nota það stundum til að sæta boostið (8).

Molkosan: er þykkni úr mysu, sem látin er gerja með völdum bakteríum. Molkosan örvar og jafnar mismunandi efnaskiptastarfsemi og léttir á meltingunni. Það virkar vel á öll efnaskiptin, einkum starfsemi lifrar og nýrna sem skila hlutverki sínu við losun úrgangsefna betur fyrir vikið. Ég kaupi molkosan af og til og tek tarnir og drekk þá 1 msk. í glas af vatni (9).

Ég vona að þið hafið haft gagn af og gaman væri að heyra frá ykkur hvað þið eruð að nota sniðugt.

xoxo Valdís.

 

Bordi2

 

Leave a Reply