Posts Tagged ‘bláber’

Grísk jógúrtsæla með bláberjum

photo-7 copyInnihald: / 1 dós grísk jógúrt / 1 dós lífræn mangójógúrt / 1-2 tsk hunang / smá múslí / örlítið af söxuðu lakkríssúkkulaði / bláber eins mikið og þú vilt.

  1. Hrærið saman grísku jógúrtinni og mangójógúrtinni með skeið eða gaffli og setjið í botninn á nokkrum fallegum glösum eða skálum. Þessi uppskrift er fyrir ca. 5.
  2. Setjið smá hunang þar ofan á í hvert glas. Það er kannski alveg óþarfi að setja heila teskeið í hvert glas sérstaklega ef múslíið er sætt. Ég notaði akasíuhunang.
  3. Því næst veljið þið ykkar uppáhalds múslí (gott að hafa köggla) og setjið ofaná ásamt söxuðu lakkríssúkkulaðinu og bláberjunum.
  4. Geymið í kæli þar til borið fram.

Ég fékk þennan guðdómlega desert í matarboði hjá vinkonu minni og gat ekki hætt að hugsa um hann. Ég fékk því góðfúslegt leyfi hjá henni til að deila honum með ykkur. Frábær sem desert og örugglega ekki verri sem morgunmatur. En hann er kannski örlítið í sætari kantinum sem morgunmatur og þá mundi ég sleppa súkkulaðinu, nema það væru sjálf jólin :)

Og talandi um jólin að þá er örugglega alveg ótrúlega smart að nota jólalakkrísinn frá LAKRIDS by Johan Bulow en hann er gylltur. Ég ætla að prófa að saxa hann niður næst, sko þegar ég geri desert, ekki morgunmat :) :)

 

Hráfæðipasta Jönu

IMG_7555-2Innihald: / 1 kúrbítur / 1 sæt kartafla / 1 rauðrófa

  1. Skerið grænmetið í pastastrimla með julienne peeler eða mandólín rifjárni og mýkið milli fingra með ólífuolíu. Ég set pínu salt líka.

Avocado basil pestó: / 2 avocado / 2 hvítlauksrif / handfylli af ferskri basilíku / hálf lúka af steinselju / 1/4 tsk þurrkar chili / 1/2 lime / smá ólífuolía / salt og pipar

  1. Allt sett í blandarann.
  2. Notið safann og börkinn úr lime-inu.

Kasjú”osta”sósa: / 1 bolli kasjúhnetur / 2 msk næringager / 1 tsk laukduft / lúka af graslauk / smá sítrónusafi / smá vatn til að þynna / salt og pipar

  1. Setjið kasjúhnetur í bleyti í ca. 2 klst.
  2. Setjið þær ásamt öllu hinu í blandarann og blandið þar til verður að sósu.

Mangótwist: / 1-2 mangó / bláber / mynta söxuð yfir. Svooooo gott!!!

Ég fékk þessa dásemdar uppskrift hjá elsku vinkonu minni henni Jönu. Hún heldur úti frábærri facebook síðu, Healthy Jana sem er full af allskonar fróðleik. Kíkið á hana.

Bláberjamuffins

IMG_6146-2Innihald: / 3 egg / 1 eggjarauða / 1 1/2 dl sukrin melis (eða flórsykur) / 4 msk kókosolía / 3/4 dl möndlumjólk / 3/4 dl kókoshveiti / 3 msk whole psyllium husk / smá salt / 1 1/2 tsk vínsteinslyftiduft / 2 tsk kanill / 1/2 tsk vanilluduft / 1 tsk kardimommuduft / 3 dl bláber / 1 msk kartöflumjöl eða tapica mjöl / 2 msk sukrin melis (eða flórsykur) / ca. 1/2 dl hakkaðar möndlur.

  1. Þeytið saman í hrærivél egg, eggjahvítu og sukrin melis þar til það verður létt og ljóst.
  2. Bræðið kókosolíuna (ég set krukkuna bara undir sjóðandi vatn), blandið henni saman við mjólkina ásamt vanilluduftinu, kardimommunni og saltinu og hellið öllu saman við eggin. Þeytið saman.
  3. Blandið saman kókoshveiti, vínsteinslyftidufti, huski og salti og setjið saman við deigið.
  4. Hrærið saman þar til þetta fer að líta út eins og deig og látið svo standa í 15-20 mín.  Deigið er samt klístrað og er ekki eins og venjulegt deig.
  5. Því næst hrærið þið saman kartöflumjölinu og sukrin melis og veltið bláberjunum upp úr. Þá blandið þið bláberjunum varlega saman við deigið.
  6. Setjið í muffinsform og stráið hökkuðum möndlum yfir.
  7. Þessi uppskrift er í ca. 8 muffinsform.
  8. Bakið við 175gr í 12-15 mínútur eða þar til liturinn er orðinn fallegur.

Hverjum finnst ekki bláber góð? HALLÓ! Bláber eru ofurfæða og eitt það allra hollasta sem fyrirfinnst. Ég notaði frosin bláber en það er örugglega alveg rosalega gott að nota fersk.

Glútenlaus bakstur er alls ekki eins og venjulegur bakstur og deigin eru oftast mjög blaut. Þannig eiga þau að vera og þess vegna á ekki að bæta við hveitimjöli til að ráða betur við deigið því þá verður útkoman algjör steypuklumpur.