Sushihrísgrjón: / 3 bollar sushi hrísgrjón eða stutt hýðishrísgrjón / 3 1/3 bolli vatn (10% meira en grjón).
- Skolið grjónin vel í köldu vatni. Mér finnst best að leggja þau í bleyti í 10-15 mín og hella af þeim 3-4x þar til vatnið er orðið glært. Tekur þá ca. 45-60 mín. Þetta er gert til að losna við umfram sterkju. Ef þetta er ekki gert verða grjónin klístruð og ónothæf eftir suðu.
- Þegar búið er að skola grjónin þá setjiði þau í pott sem er ekki of breiður og vatnið mælt út í.
- Næst er lok sett á pottinn og stillt á háan hita. Um leið og grjónin byrja að sjóða (gufa sleppur framhjá lokinu) má ALLS EKKI taka lokið af pottinum heldur er stillt á lágan hita og tími tekinn í 15 mín. Ef þið notið hrísgrjónasuðupott þá verða grjónin alltaf fullkomin.
- Gerið edikblönduna (sjá neðar).
- Eftir þessar 15 mín er potturinn tekinn til hliðar og látinn standa í aðrar 15 mín.
- Þá má taka lokið af, grjónin sett á breytt fat og edikblöndunni dreift vel yfir á meðan hrært er varlega í með trésleif.
- Gott er að kæla grjónin og velta þeim fram og aftur með léttum hreyfingum þar til engir kekkir eru eftir.
- Grjónin eru tilbúin þegar þau eru stofuheit.
- Ég sá Sollu nota quinoa í einum þætti af Heilsugenginu sem er svo miklu hollara og ég ætla svo sannarlega að prófa það. Hér sérðu hvernig á að sjóða quinoa.
Edikblanda: / 1/2 bolli hrísgrjónaedik / 1/4 bolli hrásykur / 1/2 tsk salt.
- Sjóðið saman í potti þar til allt er uppleyst (ca.1-2 mín).
Að gera maki-rúllur:
- Leggið nori þarablað á bambusmottu og látið glansandi hliðina snúa niður.
- Setjið hrísgrjónin á 2/3 hluta noriblaðsins, smá brún á að vera auð á blaðinu nær ykkur og ca. 3 cm fjær ykkur (grjónin mega alveg vera aðeins hærra upp á noriblaðinu en myndin sýnir). Þrýstið þeim niður með höndunum. Grjónin eiga að vera ca. 1/2 cm þykk á blaðinu.
- Smyrjið þunnu lagi af wasabi mauki langsum á grjónin.
- Ég setti smá spicy mayo (sjá neðar) þar ofaná, ekki alveg það heilsusamlegasta en… svooo gott.
- Hér notar þú hugmyndaflugið og það sem þér finnst gott. Ég notaði t.d. lax sem ég skar í þunnar ræmur, avocado, gúrku og klettasalat. Í aðrar rúllur notaði ég bara gúrku og avocado því krakkarnir borða það en ég setti alltaf wasabi maukið fyrst (alls ekki mikið) og svo majónesið. Ég skar einnig niður rauða papriku og setti í nokkrar rúllur.
- Notið bambusmottuna til að hjálpa ykkur að rúlla þessu þétt upp. Byrjið á endanum næst ykkur og rúllið svo frá ykkur en togið alltaf á móti til að þetta verði þétt (vona að þetta skiljist).
- Gott er að bleyta kantinn efst til að loka blaðinu svo rúllan límist vel saman.
- Skerið í bita og berið fram með soja- eða tamarisósu og pikluðu engifer.
Spicy mayonaise: / japanskt majónes (fæst t.d. í asískum matvörubúðum) og sterk chilisósa blandað saman. Ég kaupi stundum bara tilbúið spicy majo á Tokyo sushi.
Soyasósa/tamarisósa er alltaf notuð með sushi til að krydda sushi-ið og oft er wasabi maukið sett út í hana til að gefa meira bragð. Ég nota alltaf tamarisósu því hún er búin til úr óerfðabreyttum, lífrænum sojabaunum, er glútenlaus og náttúrulega gerjuð.
Wasabi er japönsk, græn piparrót sem er rotverjandi og bakteríudrepandi og er sett á nigiribita og innan í maki rúllur en aðeins í litlu magni því hún er rótsterk.
Piklað engifer er borðað milli bita til að sótthreinsa munninn, hreinsa bragðlaukana og bæta meltinguna.
Hún Hildigunnur vinkona mín, sem eldar svo ótrúlega góðan mat, dró mig einu sinni fyrir nokkrum árum á sushi námskeið. Ég ætlaði varla að nenna því ég hélt ég mundi aldrei hafa það í mér að búa til sushi heima og svo er Hildigunnur svo skemmtileg að ég gat ekki sagt nei við hana. Síðan þá hef ég oft gert sushi og sé sko aldeilis ekki eftir því að hafa drifið mig með henni. Það er mjög gaman að búa til sitt eigið sushi en þið þurfið að gefa ykkur smá tíma því í það. Það tekur ca. 45 mín að skola grjónin og svo 1/2 tíma að sjóða þau. Síðan þarf að kæla þau og þá getiði byrjað að rúlla þannig að þetta er ekki eitthvað sem er gert á hálftíma. Ef þið skoðið myndina hér að ofan þá notaði ég bæði venjuleg hvít grjón og brún hrísgrjón. Þau hvítu er auðveldara að vinna með og krökkunum finnst þau betri en mér fannst mjög gaman að prófa hin. Hvít grjón eru nú ekki alveg það hollasta í heimi svo næst ætla ég að prófa að nota quinoa eins og áður sagði. Bambusmottan sem ég nota keypti ég í EPAL og er frá STELTON.
Verði ykkur að góðu!