Archive of ‘Olíur’ category

Hvítlauksolía

IMG_3884Innihald: / 1 dl kaldpressuð, lífræn ólífuolía eða ghee (nýtt uppáhalds) / 4 pressuð hvítlauksrif.

Aðferð: setjið olíuna í pott og hitið við lágan hita (mikilvægt). Kreistið hvítlaukinn út í og setjið síðan í krukku.

Ég geri alltaf svona hvítlauksolíu með pizzu. Tekur enga stund. Ég reyndar prufaði að gera hana síðast úr ghee í staðinn fyrir að nota ólífuolíuna og krökkunum fannst hún æðisleg. Ég kláraði hana með skeið upp út krukkunni meðan ég gekk frá. Án gríns það gerðist!

Ghee

IMG_4030-2Innihald: / 500g ósaltað smjör.

  1. Setjið smjörið í pott og bræðið við meðalhita án þess að setja lok á pottinn.
  2. Eftir um ca. 10 mínútur á smjörið að vera að byrja að rétt sjóða. Þá lækkiði hitann og leyfið að malla rólega í um 30-45 mínútur. Ekki hræra!
  3. Eftir um ca. 20 mínutur byrjar smjörið að skilja sig og mynda froðu. Takið hana af varlega. Þarf að gera nokkrum sinnum.
  4. Þið sjáið e.k. karamellu myndast í botninum á pottinum (mjólkurpróteininin). Passið að ofelda ekki smjörið né brenna karmelluna sem myndast.
  5. Þegar þið farið að finna lykt af karamellu, slökkvið undir og leyfið að kólna í ca. 15 mín.
  6. Þá má sýja olíuna gegnum bómullarklút eða kaffifilter gegnum trekkt.
  7. Geymið í hreinni flösku/krukku en ekki setja lokið á fyrr en það hefur alveg kólnað. Ghee er olíukennt við hita en í föstu formi kalt.

Ghee er algjör snilld og rosalega hitaþolin. Það verður eiginlega allt gott ef maður notar ghee og að poppa upp úr þessari olíu er rosalegt! Poppið verður svo hættulega gott að maður borðar yfir sig af poppi. Það er einfaldara að búa ghee til en maður heldur og mjög ódýr olía til að eiga í skápnum. Það er best að búa það til úr hreinu, ósöltuðu smjöri (ég nota græna íslenska).

Ghee er s.s. smjör án laktósa (mjólkursykur) og kaseins (mjólkurprótein) svo það er auðmeltanlegra fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir mjólkurvörum (1, 2). Þið sjáið á myndinni hér að ofan hvernig smjörið skilur sig og það sem við viljum burt er í skeiðinni.

Snillingurinn hún Ragnhildur Eiríksdóttir kenndi mér að búa til ghee. Ragnhildur er ein af þeim sem getur allt held ég. Svona töfrakona pínu :O) Ég fann alveg örstutt snilldar myndband sem sýnir vel hvernig á að búa til ghee. Myndbandið er stutt en bara dásamlega krúttað.