Svartbaunamauk: / 1 1/2 bolli (400g) svartar baunir (niðursoðnar eru fínar) / 1 tsk kóríanderduft / 1/2 tsk cuminduft / 1/4 tsk cayenne pipar / 30 g ferskt kóríander (lauf og stiklar) / safi úr einni lime / 1/4 tsk himalayan salt
- Allt sett í matvinnsluvél og búið til mauk.
Salsa: / 1/2 rauðlaukur, skorinn í mjög þunnar sneiðar / 1/2 msk hvítvínsedik / 3 vorlaukar (grænu blöðin) skornir smátt / 5 tómatar, kjötið tekið burt innan úr / 1 pressaður hvítlauksgeiri / 1 rautt chili, skorið smátt / 30 g ferskt kóríander (lauf og stilkar) skorið smátt / 3/4 tsk himalayan salt / 2 avókadó skorið í teninga
- Leggið rauðlaukinn í bleyti í hvítvínsedikið í nokkrar mínútur. Skerið allt grænmetið niður, hrærið saman og setjið í skál.
Annað: / tortillur – sýrður rjómi – mosarella eða cheddar ostur, jafnvel parmesan – etv. pikklað jalapeno.
- Smyrjið baunamaukið á tortillu, setjið sýrðan rjóma ofan á og rifinn ost yfir.
- Setjið smá salsa ofaná og jafnvel pikklað jalapeno.
- Brjótið tortilluna saman í tvennt.
- Setjið á grillið eða á rifflaða pönnu og hitið í 2-3 mínútur á hvorri hlið. Fyllingin á að vera heit og tortillurnar lítilsháttar brenndar.
- Skerið tortillurnar í helming og berið fram með auka salsa og fersku kóríander.
Við gerðum þetta aðeins öðruvísi. Við byrjuðum á að hita tortillurnar í ofni, settum svo allt gúmmelaðið innan í og borðuðum þannig eða eiginlega meira eins og vefjur. Það kom mjög vel út en ég hlakka til að prófa þessa uppskrift aftur og þá að grilla þegar allt er komið innan í tortillurnar.
Þetta eru tortillurnar sem ég kaupi yfirleitt þegar ég er í Ameríku. Aðrar eru hveitilausar og úr lífrænu, spíruðu korni og hinar eru lífrænar heilhveititortillur. Tortillurnar eru kælivara og svo miklu, miklu betri en pappatortillur með geymsluþol út í hið óendanlega. Svona vara þarf virkilega að fást hér á landi og ef einhver veit um ferskar, flottar tortillur þá endilega megið þið láta mig vita.
Ég kíkti í Barnes and Nobles í Seattle og datt í fjórar bækur eftir Yotam Ottolenghi. Hann hefur skrifað bækurnar Ottolenghi: The Cookbook – Plenty – Plenty More og Jerusalem. Ottolenghi og samstarfsaðili hans, Sami Tamimi, sem eru mennirnir á bak við fyrirtækið Ottolenghi og velgengni þess, ólust upp í Ísrael og Palestínu og nutu góðs af því í sínum uppvexti að borða mat eldaðan frá grunni af foreldrum sínum sem aðallega notuðu ferskt, árstíðabundið hráefni keypt af heimamönnum sem voru arabískir bændur og gyðingar. Þó svo að bókin Plenty, þaðan sem þessi uppskrift kemur, er grænmetisbók notar Ottolenghi bæði kjöt og fisk í sínum uppskriftum en út af uppruna sínum finnst honum ekkert tiltökumál að elda aðeins úr grænmeti að eigin sögn. Bókin er full af skemmtilegum frásögnum og maður bókstaflega finnur ástríðu hans gagnvart matseld.
Ottolenghi rekur fimm veitingastaði í London. Ef þú rekst á bækurnar hans þá skora ég á þig að kíkja í þær. Fallegar myndir, frábærar uppskriftir og fallegur heimur.