Innihald: / 1 tsk kókosolía eða ghee / 1 laukur / 1 vorlaukur / 2 pressaðir hvítlauksgeirar / 150 g beikon / 6 egg / 250 ml rjómi / 1 1/2 bolli frosnar grænar baunir (peas) látnar þiðna / 150-200 g mosarella eða cheddar ostur / smá himalayasalt / smá mulinn svartur pipar / nokkur fersk myntublöð / skreytt með avocado og ferskum myntublöðum.
- Hitið ofninn á 175 gr og setjið kókosolíu eða ghee á pönnu.
- Byrjið á að saxa laukinn og mýkið hann í olíunni í ca. 5 mínútur, bætið hvítlauknum út í í smá stund og takið laukinn til hliðar í stóra skál.
- Setjið beikonið á pönnuna og eldið í ca. 5 mínútur á hvorri hlið eða þar til brúnt og stökkt.
- Setjið svo beikonið á disk með eldhúsbréfi og látið renna aðeins af því. Skerið í bita þegar það hefur kólnað.
- Brjótið 6 egg í stóru skálina.
- Bætið rjómanum út í ásamt baununum, ostinum, beikoninu, myntunni og salti og pipar.
- Smyrjið eldfast mót að innan með kókosolíu eða smjöri og hellið blöndunni í.
- Bakið við 175 gr í u.þ.b. klukkustund eða þar til gullið.
- Skreytið með myntu og avocado og berið fram með fullt af salati.
Ég notaði 26 cm eldfast mót. Það tekur ekki langan tíma að undirbúa þennan rétt en hann þarf að vera í ofni í klukkustund.
Þegar ég var au-pair í Frakklandi fyrir langa löngu kynntist ég fyrst Quiche Lorraine og váááá hvað ég elskaði það. Quiche Lorraine er með hveitibotni og svo er fylling sett ofan á botninn. Ég stenst engan veginn svona bökur, finnst þær sjúklega góðar og þegar ég rakst á þessa uppskrift á netinu varð ég bara að prófa. Þetta quiche eða þessi baka er ekki með hveitibotni, sem mér finnst reyndar alveg hrikalega gott að hafa, en hún er alveg ótrúlega bragðgóð og flottur hádegis- eða kvöldmatur. Alla vega kláraðist allt upp til agna hjá okkur og enginn afgangur var til að hafa með í vinnuna daginn eftir.
Þessi hugmynd kemur frá http://zagleft.com