Archive of ‘Morgunmatur’ category

Kakópróteinsjeik með lakkrísrótardufti

IMG_1547_2Innihald: / 2 dl haframjólk (oat) eða möndlumjólk, hrísmjólk / 1 kúfuð mæliskeið vanilluprótein / 1 msk hrátt kakóduft / 1/2 avocado / 1/2 tsk lakkrísrótarduft / 1 msk hörfræolía / 1 msk chiafræ / smá himalayasalt / klakar / VAL: smá acai-duft

  1. Setja allt í blandarann, mixa vel og drekka. Bragðgóður og súperhollur sjeik.

Mig langar aðeins að segja þér hvað lakkrísrótarduft gerir fyrir líkamann.

Lakkrísrótarduft er ekki bara gott á bragðið og harmónar vel með hráu kakódufti (hver elskar ekki bragðið af súkkulaði og lakkrís) heldur hefur það nokkra frábæra eiginleika:

  • verndar lifrina og lætur blóðið streyma í gegnum hana.
  • örvar lifrina til að framleiða meira gall. Alveg nauðsynlegt!
  • jafnar starfsemi í brisi og þá verður blóðsykurinn svooo happy.
  • örvar hægðir og eykur þol gegn streitu. Ef það er ekki nauðsynlegt þá hvað???
  • losar slím úr öndunarfærum.
  • mýkir og græðir meltingarveg.
  • er bólgueyðandi.

Að sjálfsögðu getum við fengið allt okkar prótein úr venjulegum mat og það væri æskilegast en mér líkar að nota hreint mysuprótein og geri það af og til. Spirulina er t.d. mjög próteinrík og ég nota hana líka stundum. Plöntuprótein úr hamp er líka mjög flott. Ég persónulega er ekki hrifin af casein próteini og hér getur þú lesið af hverju. Flókið mál en bara ekki fyrir mig. Ást og friður :)

IMG_1556_2

 

Ljomandi-bordi_3

 

 

 

Próteinsjeik með bananabragði án banana

IMG_1600_2Innihald: / 2 dl haframjólk (oat) eða möndlumjólk, hrísmjólk / 1 kúfuð mæliskeið vanilluprótein / 1/2 avocado / 1 – 2 msk hörfræolía með banana- og jarðarberjabragði / 1 msk chiafræ /  1/2 – 1 tsk kanill / 1/2 tsk vanilluduft / smá himalayasalt / klakar / VAL: mér finnst gott að setja smá dass af venjulegri hörfræolíu líka :) olíur gera okkur svo gott.

Síðust 5 vikurnar hef ég setið mjög skemmtilegt, hvetjandi og fróðlegt námskeið á GLÓ hjá henni Þorbjörgu Hafsteinsdóttur ásamt mjög hressum og skemmtilegum hópi fólks þar sem Þorbjörg leiddi hópinn skref fyrir skref í áttina að bættu mataræði. Fjórðu vikuna var hópurinn settur á fljótandi fæði í eina heila viku. Ég hef oft reynt að vera á fljótandi fæði (hreinum djús) í nokkra daga en aldrei liðið almennilega vel og alltaf verið frekar svöng og ómöguleg. En á námskeiðinu hennar Þorbjargar kenndi hún okkur að halda inni próteinsjeikum í svona ferli því amínósýrurnar eru nauðsynlegar fyrir lifrina og hjálpa til við afeitrun og mysuprótein er stútfullt af amínósýrum. Þau sem sátu námskeiðið voru sammála um að þetta hefði gert þeim ótrúlega gott og voru allir frekar mikið glaðir og ánægðir með sig í lok námskeiðsins.

En að boostinu hér að ofan. Því miður eru bananar of sætir fyrir mína meltingu nema í örlitlu magni og þess vegna er ég hætt að nota þá í próteinboostið mitt. Ég nota avocado í staðinn en ég sakna bara svooo rosalega bananabragðsins. Þess vegna ákvað ég að prófa Omega Swirl hörfræolíu með banana- og jarðarberjabragði og það svoleiðis svínvirkaði fyrir mig. Olían fæst t.d. á GLÓ.

Frábært boost, virkilega bragðgott, einfalt og næringarríkt.

 

Ljomandi-bordi_3

Ljómandi grænt boost

IMG_0787_2Innihald: / 1/2 greip / 1/2 grænt epli / 1/3 gúrka / handfylli grænt salat / 1/2 sítróna / handfylli mynta eða kóríander / 1 tsk chiafræ / 1 bolli vatn eða kókosvatn / 2 tsk græna bomban.

  1. Setjið allt í blandarann og mixið saman.
  2. Ef þið viljið nota djúsvél þá djúsið þið greipið, eplið, gúrkuna, salatið, sítrónuna og kryddjurtirnar og hrærið svo restinni út.

Grænu bombuna hef ég tekið lengi. Hún er öflug og næringarrík jurtabanda sem fæst í Jurtaapótekinu sem inniheldur spirulina, bygggras, steinselju, cholrellu og rauðrófur. Hún styrkir ónæmiskerfið, örvar brennslu hitaeininga, lækkar kólesterólið í blóðinu og vinnur gegn öldrun ásamt því sem hún hreinsar lifrina, styrkir flóruna í ristlinum og brýtur niður fitu. Græna bomban inniheldur m.a. amínósýrur, beta-karótín, fólínsýru, járn, joð, kalk, kalíum, kísil, magnesíum, selen, SOD-ensím, zink, A-vítamín, B12-vítamín, C-vítamín, E-vítamín.

Uppskriftin af þessum annars basíska djús er innblásin frá I Quit Sugar Cookbook eftir Sarah Wilson. Hún segist drekka svona djús þá daga sem hún nær ekki að borða eins hollt og hún mundi vilja. Chiafræin og greipið, sem er mjög C-vítamínríkt, þykkja hann aðeins og skapa áferðina.

Svona til gamans má geta þá á ég hæfileikaríka frænku sem er hönnuður og heitir Inga Sól. Hún hannaði einstaka lampaseríu úr endurunnum mjólkufernum og skírði lampana Ljómandi. Hvorug okkar vissi af því að við hrifumst svona af sama orðinu fyrr en fyrir stuttu. Hér getur þú kíkt á lampana hennar :)

Bordi2

 

Grísk jógúrtsæla með bláberjum

photo-7 copyInnihald: / 1 dós grísk jógúrt / 1 dós lífræn mangójógúrt / 1-2 tsk hunang / smá múslí / örlítið af söxuðu lakkríssúkkulaði / bláber eins mikið og þú vilt.

  1. Hrærið saman grísku jógúrtinni og mangójógúrtinni með skeið eða gaffli og setjið í botninn á nokkrum fallegum glösum eða skálum. Þessi uppskrift er fyrir ca. 5.
  2. Setjið smá hunang þar ofan á í hvert glas. Það er kannski alveg óþarfi að setja heila teskeið í hvert glas sérstaklega ef múslíið er sætt. Ég notaði akasíuhunang.
  3. Því næst veljið þið ykkar uppáhalds múslí (gott að hafa köggla) og setjið ofaná ásamt söxuðu lakkríssúkkulaðinu og bláberjunum.
  4. Geymið í kæli þar til borið fram.

Ég fékk þennan guðdómlega desert í matarboði hjá vinkonu minni og gat ekki hætt að hugsa um hann. Ég fékk því góðfúslegt leyfi hjá henni til að deila honum með ykkur. Frábær sem desert og örugglega ekki verri sem morgunmatur. En hann er kannski örlítið í sætari kantinum sem morgunmatur og þá mundi ég sleppa súkkulaðinu, nema það væru sjálf jólin :)

Og talandi um jólin að þá er örugglega alveg ótrúlega smart að nota jólalakkrísinn frá LAKRIDS by Johan Bulow en hann er gylltur. Ég ætla að prófa að saxa hann niður næst, sko þegar ég geri desert, ekki morgunmat :) :)

 

Kúrbíts-eggjaklattar

IMG_3946Innihald: / 450 g kúrbítur / 30 g ferskur parmesan / 2 egg / 4 tsk bókhveitimjöl / 1 tsk whole psyllium husks / smá chili / salt og pipar

  1. Rífið kúrbítinn, setjið í síupoka (fæst í Ljósinu Langholtsvegi) og kreistið vatnið úr.
  2. Blandið saman við restina.
  3. Hitið pönnu með ghee, ólífuolíu eða kókosolíu, búið til klatta og steikið í 2-3 mínútur á hvorri hlið. Gott bara eintómt eða með góðu salati og rauðrófuhummus.

 

 

 

Gerjaður hvítkálssafi

IMG_7982Ég sat eitt sinn námslotu í Heilsumeistaraskólanum í lifandi fæði og lærði ég að gera kornspírusafa (rejuvelac). Kornspírusafi er ein aðal uppistaðan í lifandi fæði, sem er ekki það sama og hráfæði, en hann inniheldur góðgerla sem eru afar mikilvægir fyrir meltinguna því þeir framleiða ensím sem hjálpa okkur að melta matinn. En hvort sem þú ert með einhver heilsuvandamál eins og t.d. meltingarvandræði eða stútfull af orku- og vítamínum þá er gott fyrir þig að drekka kornspírusafa af og til. Þegar við förum í hreinsun eða detox einblínum við á að losa okkur við slæmu bakteríurnar í meltingarveginum en eigum það til að gleyma að byggja flóru hans aftur upp og styrkja. Það er hægt að gera á margan hátt eins og m.a. að taka inn mjólkursýrugerla, borða gerjaðan mat eins og súrkál eða annað gerjað grænmeti, borða ósæta AB-mjólk og drekka kornspírusafa. Gæða kornspírusafi á að bragðast eins og skrítið sódavatn og alls ekki drekka hann ef hann er hrikalega vondur á bragðið og vond lykt því þá hefur eitthvað ekki heppnast í ferlinu. Það er hægt að búa til kornspírusafa úr t.d. hveitikorni og quinoa.

Að búa til hvítkálssafa finnst mér auðveldasta leiðin að búa til gerjaðan safa því ég mikla oft fyrir mér að spíra fræ þó það sé í raun og veru ekkert mál. Hann inniheldur þó fullt af góðgerlum og mér finnst hann bragðbetri. Þetta er samt ekkert það besta sem ég drekk :) en þá er um að gera að setja safann í fallegar flöskur. Ég tek tarnir í að drekka hann og þá helst eftir e.k. tiltekt í mataræðinu. Þú getur sett hann í boost en mér finnst best að drekka hann á morgnana og milli mála.

Hvítkálssafi: / 4 dl vatn / 7 dl ferskt grófskorið hvítkál.

  1. Setjið í blandarann og blandið þar til kekkjalaust.
  2. Setjið í glerkrukku og látið standa á borði í 3 sólarhringa við stofuhita. Ég loka krukkunni ekki alveg heldur leyfi smá lofti að komast inn og klæði krukkuna með viskastykki. Annars er hætta á að hann súrni.
  3. Eftir 3 daga ef safinn tilbúinn en þá síið þið hratið frá gegnum síupoka (fært í Ljósinu Langholtsvegi). Setjið á flösku og geymið í kæli.
  4. Hægt er að gera annan skammt og þá hellið þið 1/2 dl af nýja safanum í blandarann ásamt 3,5 dl vatn og 7 dl af söxuðu hvítkáli. Blandið saman og látið standa á borði í sólarhring.
  5. Eftir þann tíma gerið þið eins, síið safann gegnum pokann og geymið í kæli í vel lokaðri flösku.

Kornspírusafi úr spíruðu hveitikorni: / 1-2 dl heil hveitikorn.

  1. Byrjið á því að leggja 1-2 dl af heilum hveitikornum í bleyti í 6-12 tíma.
  2. Skolið og látið kornin spíra. Mér finnst best að setja kornin í glerkrukku, setja viskastykki yfir opið og láta krukkuna standa á hvolfi en samt þannig að loft komist inn um opið. Skolið 2-3x á dag.
  3. Þegar spírurnar eru orðnar 2-3x lengri en kornin eru þau tilbúin. Skolið vel og krukkuna líka.
  4. Setjið spírurnar aftur í krukkuna, setjið 3x meira vatn yfir, hyljið með grisju eða viskastykki og látið standa á borði í 2 sólarhringa.
  5. Eftir þann tíma þá síið þið safann frá gegnum síupoka (fært í Ljósinu Langholtsvegi). Setjið á flösku og inn í kæli.
  6. Hægt er að gera annan skammt en þá setjið þið 2x meira vatn yfir sömu spírur og látið standa í sólarhring. Síið aftur frá og hendið spírunum. Geymið í kæli í vel lokaðri flösku.

 

 

 

 

 

Geimfarafæði fyrir æfingu

IMG_8618Innihald: / 2 dl vatn / 1 dl eplasafi (trönuberjasafi) / 1 msk spirulina duft eða grænt duft / 1 msk omega 3-6-9 olía (ég set yfirleitt hörfræolíu) / 2 dl rauðrófusafi.

Þessa uppskrift er að finna í bókinni hennar Þorbjargar Hafsteinsdóttur 10 árum yngri á 10 vikum. Ég hef nokkrum sinnum hlaupið 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu og sumarið 2011 var ég mjög dugleg að hlaupa úti. Ég náði mínum besta tíma í ágúst 2011 og ég byrjaði hlaupadaginn á þessum drykk. Ég er alveg sannfærð um að hann hjálpaði mikið til. Rauðrófusafi er súper hollur, eykur úthald og lækkar blóðþrýsting. Stundum nenni ég að djúsa hann en kaupi oftast tilbúinn rauðrófu-heilsusafa í flöskum.

Ég nota yfirleitt trönuberjasafa frá Healthy People í staðinn fyrir eplasafa.

Hér getur þú lesið mjög góða grein um rauðrófusafa.

Grísk jógúrt með chiafræjum

IMG_8015Innihald: / 350 g grísk jógúrt / 4 msk tröllahafrar / 3 msk chiafræ / 1/2 dl kalt vatn / 1-2 msk jarðarberjasulta.

  1. Hrærið öllu saman og geymið í ísskáp í amk. 3 klst eða helst yfir nótt.
  2. Ég hræri sultunni saman við rétt áður en ég fæ mér þennan dásamlega góða morgunmat en auðvitað er alveg hægt að setja sultuna út í um leið og allt hitt.
  3. Ég nota frönsku sultuna í löngu glösunum því í henni er enginn viðbættur sykur.

Þetta er held ég uppáhalds morgunmaturinn minn sem inniheldur mjólkurvöru. Hann er alveg ótrúlega einfaldur og svakalega góður. Þessi uppskrift dugar fyrir ca. tvo og krökkunum mínum finnst mjög gott að skera banana út í. Þetta er líkja frábært nesti og ég tek þetta oft með mér í flug á morgnana því þetta er svo einfalt að búa til og svakalega gott. Ég fékk þessa uppskrift senda frá Telmu á Fitubrennslu. Hún hefur oft búið til prógram fyrir mig, bæði matarprógram og æfingaprógram og er algjör snillingur í því sem hún er að gera.

 

Grunnur að morgungraut

IMG_5673-2Innihald: / 1-2 dl tröllahafrar (e.t.v. glútenlausir) / 1/2 dl chiafræ / möndlumjólk (helst heimagerð) / kanill / vanilluduft / salt.

  1. Setjið allt saman í skál og látið liggja í bleyti helst yfir nótt. Mjólkin á rétt að fljóta yfir.

Ég geri mér stundum svona morgunmat. Hægt er að leika sér fram og tilbaka með því að bæta við ávöxtum og alls kyns fræjum en þetta er amk. grunnurinn. Hann er ekki tilbúinn hér á myndinni heldur tilbúinn í ísskápinn fyrir nóttina.

Súkkulaði-hindberja þeytingur með grænni bombu

IMG_6461Innihald: / 1 mæliskeið prótein (ég nota Dr. Mercola Pure Power vanilla prótein)  / 4 tsk hreint kakó / 1 tsk grænt duft (Græna Bomban frá Jurtaapótekinu eða pHion Green Superfood Powder) / 1 tsk akai duft / 1 tsk chia fræ / 1 tsk hampfræ / 3 dl möndlu- eða hrísmjólk / 2 dl frosin hindber (getið líka sett 1 dl hindber og 1 dl frosið spínat eða annað grænt kál).

Aðferð: allt sett í blandarann!

Ég tók út ávexti í nokkrar vikur og þurfti að finna mér gott boost með engum banana. Ég sleppti því hindberjunum fyrst um sinn og setti frosið spínat í staðinn. Þá kemur auðvitað allt annað bragð en það bragðaðist bara ágætlega. Núna finnst mér eiginlega betra að hafa bæði eitthvað grænt kál og hindber, ekki bara hindberin. Og ég elska kakóbragð.

Þetta boost er mjög gott, stútfullt af vítamínum, steinefnum og er próteinríkt. Tilvalið eftir æfingu eða sem sem orkuskot síðdegis. Þegar ég kaupi spínat finnst mér best að kaupa það beint af Lambhaga. Svo er um að gera að breyta til og nota eitthvað annað grænt kál.

 

1 2 3