Posts Tagged ‘mjólkurlaust’

Sesam tamari kjötbollur

IMG_2681_2Fyrir 4

Kjötbollur: / 450 g nautahakk / 2 vorlaukar / 1 stórt egg / 1/4 bolli brauðteningar / 3 msk kóríanderlauf / 1 msk tamarisósa / 2 tsk ristuð sesamolía / 1 tsk ferskt rifið engifer / smá himalayan salt / smá svartur mulinn pipar.

  1. Hitið ofninn í 200-220 gr.
  2. Saxið laukinn gróft niður, pískið eggið létt, saxið kóríanderlaufin smátt og rífið engiferið niður.
  3. Setjið nautahakkið í stóra skál ásamt lauknum, egginu, brauðteningunum (bara rista brauð og skera smátt), kóríanderlaufunum, tamarisósunni, sesamolíunni, engiferinu, saltinu og piparnum og blandið öllu vel saman.
  4. Notið hendurnar til að búa til kjötbollur.
  5. Setjið bollurnar á bökunarpappír í ofnskúffu eða í eldfast mót og inn í ofn í ca. 15-20 mínútur eða þar til þær eru gullnar og að fullu eldaðar. Eldunartíminn fer auðvitað eftir því hversu stórar þið viljið hafa bollurnar en þessi uppskrift miðast við ca. 12 bollur.
  6. Gott að bera fram með fetaosti, sultuðum rauðlauk, sultu og hvítlauksbrauði.

Rauðrófu- og elpasalat: / 1 rauðrófa / 2 lífræn epli / safi úr hálfri lime eða sítrónu / 1-2 cm rifið engifer / smá sesamfræ / ólífuolía / salt.

  1. Rífið rauðrófuna og eplin niður.
  2. Ágætt er að láta rauðrófurnar liggja aðeins í sítrónusafanum áður en öllu er blandað saman því þá mýkjast þær smá.
  3. Síðan er hægt að bæta hverju sem er útí eins og sellerí, kóríander, zukkini eða bara hverju sem er.

Ég er í ótrúlega skemmtilegum matarklúbbi sem samanstendur af 16 hressum stelpum. Við höldum klúbb tvær og tvær saman og hver klúbbur eldar mat frá ákveðnu landi. Þegar klúbburinn er búinn að fara einn hring drögum við hverjar elda saman og hvert teymi dregur land. Það er alltaf svaka spenna. Ég og Gunna sæta fengum Noreg… roooosa spennandi! En við dóum nú alls ekki ráðalausar og skelltum í kjötbollur. Það er alltaf svo skandinavískt eitthvað. Gunna er svona heilsugúrú eins og ég og fannst ekkert að því að færa kjötbollurnar í aðeins hollari búning. Hún bjó svo til ótrúlega hollt og gott salat með úr rauðrófum og eplum sem kom rosalega vel út með kjötbollunum. Frábær matarklúbbur og ísinn hennar Ebbu sló í gegn í desert.

Heimild: http://www.yummly.com

 

Ljomandi-bordi4

 

Appelsínu saffran kjúklingasalat

IMG_2541Réttur fyrir ca. 6 manns.

Appelsínu- og saffran paste: / 1 appelsína / 50 g hunang (ég notaði akasíu) / 1/2 tsk saffranþræðir / ca. 300 ml. vatn

Salat: / 1 kg kjúklingabringur / 4 msk ólífuolía / 2 lítil fennel / 15 g kóríanderlauf / 15 g basillauf rifin / 15 g myntulauf rifin / 2 msk sítrónusafi / 1 rautt chili / 1 hvítlauksgeiri / salt og pipar.

Svona gerið þið appelsínupaste-ið:

  1. Byrjið á að hita ofninn í 180 gr.
  2. Skerið toppinn og botninn af appelsínunni, skerið í 12 báta og takið kjarnann burt.
  3. Setjið bátana með hýðinu í pott ásamt saffranþráðunum, hunanginu og vatni þannig að rétt fljóti yfir appelsínurnar.
  4. Látið suðuna koma upp og sjóðið við vægan hita í klukkustund.
  5. Útkoman á að vera mjúkar appelsínur og ca. 3 msk af þykku sýrópi en það gerðist ekki hjá mér. Appelsínurnar urðu mjúkar en ég fékk ekki þykkt sýróp svo ég notaði ekki allan vökvann þegar ég setti appelsínurnar í matvinnsluvélina til að mauka þetta saman. En úr matvinnsluvélinni á að koma þykkt mauk en samt þannig að það renni.

Salatið:

  1. Skolið kjúklingabringurnar, þerrið, setjið í ílát og veltið þeim upp úr helmingnum af ólífuolíunni og nægu af himalayan salti og pipar.
  2. Setjið síðan á heita pönnu, helst grillpönnu og brúnið í 2 mínútur á hvorri hlið.
  3. Því næst í eldfast mót og inn í 180 gr. heitan ofninn og eldið í 15-20 mínútur eða þar til tilbúið.
  4. Útbúið salatið á meðan með því að skera fennelið í þunnar sneiðar, rífa basiliku og myntu niður, bæta við kóríander og skera eitt rautt chili í þunnar sneiðar og setjið á það fat sem þið viljið bera fram á.
  5. Ég setti svo sítrónusafann, restina af ólífuolíunni og kraminn hvítlauksgeirann í litla skál og hrærði saman, setti yfir salatið og blandaði vel.
  6. Þegar kjúklingurinn hefur kólnað lítillega rífið hann þá í strimla með höndunum og setjið í skál. Hellið helmingnum af appelsínu- og saffran maukinu yfir og veltið kjúklingnum upp úr því. Hinn helminginn getið þið geymt í kæli og notað í alls konar sem ykkur dettur í hug t.d. með feitum fisk.

Gott að bera fram með bökuðum rauðlauk í valhnetusalsa. Uppskrift kemur inn von bráðar.

Jana vinkona mín benti mér á að prófa þennan rétt en hann kemur frá Ottolenghi og er mjög vinsæll réttur á veitingastað þeirra. Trikkið við þennan rétt er appelsínan, það gerist eitthvað meiriháttar þegar hún er soðin heil í mauk  Óóótrúlega gott.

 

 

Ljomandi-bordi4

Sólþurrkað tómatpestó

IMG_2133_2Sólþurrkað tómatpestó: 1 bolli sólþurrkaðir tómatar (eða ein krukka sem er ca. 300 g) / smá sítrónusafi og sítrónubörkur / 2 hvítlauksgeirar / lúka af ferskri basilíku / 1/2 rauður laukur / 1/2 bolli kaldpressuð ólífuolía / 1/2 bolli furuhnetur / smá himalayan salt / 1/3 bolli parmesan ostur.

  1. Setjið alllt í matvinnsluvélina eða blandara og mixið í smá stund en samt ekki þannig að það verði of þunnt, gott að hafa smá áferð.
  2. Frábært að setja innan í grænmetisblað í staðinn fyrir brauð og fá próteinið úr eggjunum.

IMG_2117_2

Ég elska pestó og gæti lifað á því. Þegar við förum í ferðalög tek ég alltaf eitthvað svona með okkur. Frábært meðlæti með mat og milli mála.

 

Ljomandi-bordi4

Kakópróteinsjeik með lakkrísrótardufti

IMG_1547_2Innihald: / 2 dl haframjólk (oat) eða möndlumjólk, hrísmjólk / 1 kúfuð mæliskeið vanilluprótein / 1 msk hrátt kakóduft / 1/2 avocado / 1/2 tsk lakkrísrótarduft / 1 msk hörfræolía / 1 msk chiafræ / smá himalayasalt / klakar / VAL: smá acai-duft

  1. Setja allt í blandarann, mixa vel og drekka. Bragðgóður og súperhollur sjeik.

Mig langar aðeins að segja þér hvað lakkrísrótarduft gerir fyrir líkamann.

Lakkrísrótarduft er ekki bara gott á bragðið og harmónar vel með hráu kakódufti (hver elskar ekki bragðið af súkkulaði og lakkrís) heldur hefur það nokkra frábæra eiginleika:

  • verndar lifrina og lætur blóðið streyma í gegnum hana.
  • örvar lifrina til að framleiða meira gall. Alveg nauðsynlegt!
  • jafnar starfsemi í brisi og þá verður blóðsykurinn svooo happy.
  • örvar hægðir og eykur þol gegn streitu. Ef það er ekki nauðsynlegt þá hvað???
  • losar slím úr öndunarfærum.
  • mýkir og græðir meltingarveg.
  • er bólgueyðandi.

Að sjálfsögðu getum við fengið allt okkar prótein úr venjulegum mat og það væri æskilegast en mér líkar að nota hreint mysuprótein og geri það af og til. Spirulina er t.d. mjög próteinrík og ég nota hana líka stundum. Plöntuprótein úr hamp er líka mjög flott. Ég persónulega er ekki hrifin af casein próteini og hér getur þú lesið af hverju. Flókið mál en bara ekki fyrir mig. Ást og friður :)

IMG_1556_2

 

Ljomandi-bordi_3

 

 

 

Kjúklingaréttur með kasjúhnetum

IMG_1617_2Innihald: / 1 msk kókosolía / 2 rauðar paprikur / 200g heilar kasjúhnetur / 1 kg kjúklingabringur / 1 msk kókoshveiti (eða annað hveiti) / 1/2 tsk himalayan salt / 1 búnt vorlaukur.

Sósa: / 1/3 bolli tamarisósa eða sojasósa / 1/4 bolli eplaedik (eða hrísgrjónaedik) / 2 msk tómatpúrra / 2 msk kókospálmasykur / 1 msk akasíuhunang eða hrátt hunang (eða bara 3 msk af annarri hvorri sætunni) / 3 hvítlauksgeirar / 1 msk ferskt rifið engifer / smá svartur mulinn pipar.

  1. Byrjið á að skera paprikurnar og kjúklinginn í munnbita.
  2. Hitið olíuna á pönnu, skellið papríkunni yfir og látið malla í nokkrar mínútur eða þar til mjúkar. Takið svo af pönnunni.
  3. Setjið kjúklingabitana á pönnuna, setjið kókoshveitið eða það hveiti sem þið viljið nota yfir, saltið og hrærið af og til í þar til kjúklingurinn er að mestu eldaður í gegn.
  4. Á meðan kjúklingurinn er að eldast er hægt að gera sósuna sem fer yfir og hún fer á pönnuna þegar kjúklingurinn er að mestu tilbúinn.
  5. Bætið paprikunni út á pönnuna ásamt kasjúhnetunum.
  6. Lækkið hitann og látið malla í nokkrar mínútur.
  7. Setjið vorlaukinn yfir réttinn þegar hann er tilbúinn.

 Réttur fyrir ca. 4-6, tekur 10 mínútur að undirbúa og ca. 15 mín  að elda.

IMG_1646_2

Þessi ótrúlega einfalda og góða uppskrift dugar fyrir ca. 4-6, tekur 10 mínútur að undirbúa og ca. korter að elda. Í upprunalegu uppskriftinni er notað hrísgrjónaedik en ég skipti því út fyrir eplaedik. Þessi kjúklingaréttur hefur algjörlega slegið í gegn hérna á heimilinu og er orðinn okkar nýjasta uppáhald. Gott að bera fram með fullt af brakandi salati og flottu brauði.

Þessi kemur frá http://www.aspicyperspective.com

 

 

Ljomandi-bordi_3

Einfaldur kókos & karrý baunapottréttur

IMG_1265_2Innihald: / kókosolía til steikingar / 1 laukur / 1 bolli (þurrar) rauðar eða grænar linsubaunir / 1 sæt kartafla / 2 stórar gulrætur / 1/2 tsk turmeric / 1 msk karrý / 1 tsk engiferkrydd / smá salt / nokkur svört piparkorn / 3 – 3 1/2 bolli vatn / 1 msk grænmetiskraftur / 1/2 bolli kókosmjólk.

  1. Laukurinn skorinn frekar smátt.
  2. Skerið sætu karföfluna niður í teninga og gulræturnar langsum.
  3. Hitið olíuna og mýkið laukinn.
  4. Bætið svo kartöflunni, gulrótunum, baununum og kryddinu útí.
  5. Setjið vatnið út í pottinn og hitið að suðu, minnkið þá hitann og sjóðið í amk. 25 mínútur. Mér finnst betra að nota minna vatn en meira, annars verður þetta meira súpa.
  6. Bætið kókosmjólkinni út í.
  7. Berið fram heitt og jafnvel með quinoa.

Þessi vegan pottréttur er ótrúlega einfaldur og góður grænmetisréttur fyrir ca. 4.  Mér finnst algjör snilld að gera frekar stóra uppskrift og eiga daginn eftir í afgang til að taka með í vinnuna. Ef þú átt cast iron pott þá er gott að nota hann í þetta.

Þar sem ég er að taka út allan sykur og korn (þá sleppi ég quinoa-inu) í ákveðinn tíma er ég eiginlega búin að lifa á svona mat sem er alls ekkert mál þegar maður dettur niður á svona lostæti því þetta er mjög bragðgóður og ljúffengur pottréttur sem fljótlegt er að gera og frábært að bera fram með fullt af grænmeti.

IMG_1251_2

Uppskrift frá http://www.detoxinista.com

 

 

Bordi2

 

 

 

Kókosmakkarónur með pistasíum og trönuberjum

IMG_1059_2

 

IMG_1087_2Innihald: / 120 g kókosmjöl / 2 egg / 60 g erýtrítol m stevíu / 1 tsk vanillu extrakt / sítrónubörkur af einni sítrónu (allra helst lífræn) / 25 g kókosolía (fljótandi) / smá salt

Súkkulaði : / 50 g bráðið súkkulaði (jafnvel aðeins meira ef þið viljið hafa súkkulaðið þykkt) / 1 tsk kókosolía (fljótandi) / 1 msk pistasíuhnetur / nokkur trönuber eða annar þurrkaður ávöxtur

  1. Hitið ofninn í 175 gr.
  2. Þeytið saman egg, sykur, vanillu, sítrónubörk og salt þangað til verður létt og ljóst, getur tekið smá tíma.
  3. Hrærið olíunni og kókosmjölinu út í og látið standa í amk. 15 mínútur eða þar til kókosmjölið hefur dregið í sig vökvann og deigið er orðið frekar stíft. Mér fannst 15 mínútur of stuttur tími svo ég setti skálina inn í ísskáp í ca. klukkustund.
  4. Mótið litlar keilur úr tæplega 1 msk af deiginu og setjið á bökunarpappír.
  5. Bakið í ofni í ca. 8-10 mínútur og takið úr ofninum þegar þær byrja að gyllast því ef deigið er of lengi í ofninum verður það alltof þurrt.
  6. Látið alveg kólna.
  7. Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði.
  8. Saxið pistastíuhneturnar niður og trönuberin. Það er hægt að nota hvaða ávöxt sem er eins og þurrkað mangó og jafnvel að nota þurrkað, sætt engifer.
  9. Dýfið flata endanum á keilunum í súkkulaðið, jafnvel 2X og setjið á bakka með mjórri endann niður.
  10. Stráið pistasíunum og berjunum yfir.
  11. Geymist í kæli í ca. viku og lengur í frysti.
  12. Njótið!

IMG_1081_2

Tími á jólanammi og þetta nammi er svo fallegt og sætt eitthvað. Uppskriftin kemur frá frábærri síðu sem heitir http://atastylovestory.com en ég notaði trönuber, fannst eitthvað svo jólalegt að nota rauða litinn :)

 

Bordi2

 

 

Sítrónukaka

photo-7Innihald: / 1 1/2 bolli (ca 180gr) möndlumjöl / 1/4 tsk kardimomma / 2 tsk vínsteinslyftiduft / 4 egg (rauður og hvítur aðskildar) / 1/2 bolli kókospálmasykur (skipt í helming) / 1/2 bolli kókosolía / 1/2 tsk vanillusykur  / 1 tsk vanillu extract eða vanilludropar / 1/2 tsk sítrónudropar / rifinn sítrónubörkur af einni sítrónu (ca 1/2 tsk) / smá sítrónusafi / 1 tsk hvítt edik / smá salt

  1. Smyrjið 20 cm (8 in) kökuform eða klippið til bökunarpappír i botninn. Þessi uppskrift/kaka er frekar lítil.
  2. Setjið möndlumjöl, kardimommu og vínsteinslyftiduft í skál og geymið til hliðar.
  3. Skiljið að eggjarauður og hvítur. Setjið eggjarauðurnar bara beint í hrærivélaskálina og hvíturnar í skál sem þið getið þeytt þær í. Passið vel að engin rauða sé í hvítunum þá verða hvíturnar ekki léttar og loftkenndar eins og við viljum.
  4. Hrærið saman í hrærivél eggjarauðum, rúmlega helmingnum af sykrinum, kókosolíunni, vanillusykrinum, vanilludropunum, sítrónudropum og sítrónusafanum. Hér má líka nota sítrónuilmkjarnaolíu frá t.d. Young Living en þá er nóg að setja bara 6-7 dropa.
  5. Bætið þurrefnunum út í og að lokum sítrónuberkinum. Deigið er frekar klístrað og á ekki að vera þurrt.
  6. Þeytið hvíturnar. Ég gerði það s.s. í annarri skál með handþeytara. Byrjið rólega og þegar loftbólur byrja að myndast setjið þá smá salt út í ásamt edikinu því það hjálpar hvítunum að flottar. Bætið síðan restinni af sykrinum út í hvíturnar hægt og rólega og hrærið saman.
  7. Setjið eggjahvíturnar saman við deigið rólega svo deigið verði léttara.
  8. Bakið í ca. 30 mínútur við 175 gráður.

Þessi litla kaka er alveg dásamleg en það er búið að taka nokkrar tilraunir í að mastera hana. Fyrst varð hún rosalega stökk að utan en það var vegna þess að eitthvað tókst ekki nógu vel með eggjahvíturnar hjá mér. Ég notaði líka mjög mikið af skálum fyrst en nú er ég búin að einfalda vinnuaðferðina eins og ég mögulega get. Ég elska möndlu, sítrónu- og vanillubragð og vantaði hollan staðgengil möndlukökunnar með bleika kreminu. Þessi gefur henni ekkert eftir. Fjölskyldan mín eru bestu dómararnir á það sem tekst vel og ekki vel hjá mér og maðurinn minn sem borðar aldrei kökur borðaði hálfa kökuna loksins þegar hún tókst vel svo ég varð að gera hana aftur til að ná almennilegri mynd af henni. En það eru bestu meðmælin og gladdi mig óendanlega mikið :) Svo er þetta uppáhaldskakan hans Bjarka míns. Eddu kaka er gulrótarkakan svo nú eigum við bara eftir að finna uppáhaldið hennar Hönnu Birnu sykursætu :)

Ég studdist við uppskrift af http://www.simplyrecipes.com en breytti henni smá.

IMG_8652

Grænmetispottrétturinn minn

IMG_0477Innihald: /  1-2 msk olífuolía, kókosolía eða ghee / 1 laukur / 1/2 jalapeno / 2-3 cm ferskt engifer / 1 sæt kartafla / 2 stilkar sellerí / 1 lítið brokkolíhöfuð / 3-4 gulrætur / 1 rauð papríka / 1 bolli rauðar linsubaunir.

Krydd: / 2 msk hollur grænmetiskraftur / 1/4 tsk kardimomma / 1/4 tsk kanill / 1/2 tsk karrí / 1/2 tsk turmeric / 2-3 lárviðarlauf / nokkur svört piparkorn / smá maldonsalt / 1/2 líter vatn / 1 dós kókosmjólk / 3 dl maukaðir tómatar í flösku.

Þessi uppskrift er frekar stór eða fyrir ca. 6-8 manns. En mér finnst gott að elda mikið og taka með í nesti daginn eftir.

  1. Byrjið á skera allt grænmetið niður.
  2. Skerið laukinn frekar smátt og mýkjið hann í olíu eða ghee en ekki brúna.
  3. Skerið engiferið og jalapeno-ið smátt niður og setjið út í.
  4. Bætið síðan við sætu kartöflunni, selleríinu, gulrótunum, brokkolíinu og papríkunni.
  5. Kryddið.
  6. Setjið svo vatnið út í og látið malla í ca. 1/2 tíma þannig að rétt sjóði. Ekki hafa of mikinn hita.
  7. Hreinsið linsubaunirnar og setjið út í.
  8. Bætið tómötunum í flösku og kókosmjólkinni út í.
  9. Látið malla í 1/2 tíma.
  10. Því lengur sem þið getið látið réttinn vera í pottinum, því betra. Ég t.d. set þennan rétt stundum upp á morgnana þegar ég er heima og læt hann malla við lágan hita. Ég slekk bara undir þegar ég skrepp út og kveiki aftur undir seinnipartinn þegar ég kem heim. En auðvitað þarf það alls ekki, bara svo gott svoleiðis ef tími leyfir.

Ég keypti mér leirpott síðast þegar ég fór til Seattle í búðinni Sur la Table. Ég var að skoða Le Creuset potta en þessi var á svo frábæru tilboði að ég gat ekki annað en keypt hann þó hann væri nýþungur og erfitt að rogast með alla þessa leið. Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom heim (eftir að ég var sko búin að hvíla mig) var að kíkja á netið og googla cast iron pot recipes. Ég skoðaði nokkrar og ákvað svo bara að skella því sem ég átti í pottinn. Úr varð þessi dásamlegi pottréttur sem átti fyrst að vera súpa. Systir mín kom svo daginn eftir og fékk að smakka hann kaldan. Kannski var hún súpersvöng en hún alla vega malaði meðan hún borðaði :) Ég elska þegar fólk verður svona hrifið af því sem ég geri. Best í heimi!

Það sem er svo frábært við þennan pott er að hann getur líka farið inn í ofninn. Hér geturðu kíkt á pottinn og séð litina sem til eru :http://www.surlatable.com/product/PRO-1315373/Sur+La+Table+Red+Round+Oven+7+qt.

IMG_0403

Hveitilausar súkkulaðimuffins

IMG_0158-2Innihald: / 1 bolli hnetusmjör / 2 mjög þroskaðir bananar / 1/4 bolli hlynsíróp / 1/3 bolli kakóduft.

  1. Hitið ofninn í 180 gr.
  2. Setjið öll innihaldsefnin í matvinnsluvélina, þú þarft kannski að stoppa og skafa meðfram hliðunum en deigið er mjög klístrað og á að vera svoleiðis.
  3. Þegar allt er vel blandað saman þá seturðu deigið í muffinsform með skeið. Mér finnst best að bleyta skeiðina af og til út af deiginu.
  4. Þú ræður hvort þú brytur smá súkkulaði yfir.
  5. Inn í ofn í 12-15 mínútur og bíddu með að taka þær úr muffinsformunum þar til þær eru orðnar alveg kaldar.

Ég fann þessa litlu uppskrift á mywholedoodlife.com. Bara fjögur innihaldsefni. Þú ert fljótari að skella í svona en að keyra út í bakarí og kaupa sykursnúð. Svo bara að toppa með rjóma…

 

1 2 3 6