Hot jóga

bikram-yoga-capalaba-quotes-bHot jóga er krefjandi, líkamsmiðað jóga sem stundað er í 38-40 gráðu heitum sal. Það getur verið mjög krefjandi að stunda jóga í svo heitum og rökum sal þar sem hitinn er hærri en líkamshiti en rakinn er um 40%. Hitinn er gott hjálpartæki því auðveldara er að teygja á líkamanum þegar hann er vel heitur. Sumir halda að þeir þurfi að stunda einhverja aðra hreyfingu með hot jóga til að fá næga brennslu og styrk. Í hot jóga fer púlsinn vel upp í erfiðari stöðum og það krefst mikils styrks að gera æfingarnar rétt. Vöðvarnir eru fljótari að verða mýkri í hitanum og þannig er hægt að komast dýpra í stöðurnar en vert er þó að passa að fara sér ekki um of. Það er mikilvægt að hlusta á eigin líkama og alls ekki þvinga hann umfram getu því þú vilt ná að gera eins nágranninn á næstu dýnu. Það þarf að byggja upp styrk og liðleika stig frá stigi sem getur tekið misjafnlega langan tíma hjá fólki. Þetta er nákvæmlega það sem ég elska við jóga, þú getur alltaf bætt þig án þess að vera að keppa við tíma, hraða eða annað fólk.

Dagsformið spilar mikið inní hvernig jógað þitt er

Dagsformið okkar er misjafnt og stundum er orkan alveg í hámarki en svo eru aðrir dagar erfiðari. Það getur farið eftir svefni, mataræði, vinnuálagi, álagi í félagslífinu og alls kyns öðrum þáttum. Við erum líka misupplögð í að einbeita okkur að réttri öndun, ná að fókusa á að vera í tímanum og gera ekkert annað en að njóta augnabliksins. Það getur tekið tíma að venjast hitanum en hann kemur m.a. í veg fyrir meiðslahættu og það er ekkert óeðlilegt að finna fyrir ógleði fyrst ef maður er óvanur að hreyfa sig í svo miklum hita. Stundum getur t.d. verið mjög erfitt að gera jafnvægisæfingar eða æfingar sem reyna á hjartað en þá skiptir mestu máli að hlusta á líkamann og minna sjálfan sig á að dagsformið er misjafnt. Þá er bara að sýna þolinmóði gagnvart sjálfum sér, hafa skynsemina í fyrirrúmi, leggjast niður á dýnuna og kasta mæðunni í smástund. Það er heldur ekki gott að borða ca. 2 tímum fyrir jógatíma því svo mikill hiti kemur miklu flæði af stað í líkamanum og alls ekki gott að vera með fullan maga. Þú mætir bara saddur einu sinni í hot jóga!

Bikram jóga í Ameríku

Ég reyni að fara oft í viku í hot jóga en ég kynntist því fyrst kringum 2007 og varð strax hrifin. Stundum þegar ég er stödd í Ameríku starfs míns vegna, hef ég uppi á hot jóga stöð því mér finnst svo gaman að gera eitthvað með local fólki. Það er eitt áberandi öðruvísi við að stunda hot jóga erlendis og hér á landi. Erlendis eru allir mjög léttklæddir í heita salnum m.v. hérna heima, allir strákar berir að ofan og engar konur í síðbuxum. Hitinn í salnum er líka einhvern veginn öðruvísi og þyngri en hér heima og ég gleymi aldrei fyrsta skiptinu sem ég prófaði hot jóga erlendis. Það var í New York og kallast Bikram jóga eftir frumkvöðlinum Bikram Choudhury. Ég vissi ekkert hvað Bikram jóga var en ákvað að slá til og enn í dag sæki ég þessa tíma. Allir Bikram tímar eru 90 mínútur og byggist Bikram jóga á 26 stöðum og tveimur öndunaræfingum sem eru alltaf gerðar tvisvar sinnum. Kennararnir gera aldrei æfingarnar með heldur tala stanslaust í þessar 90 mínútur án þess að stoppa í svo mikið sem eina sekúndu. Mér fannst það mjög skrítið fyrst en það er alveg magnað að láta tala sig svona inn í stöðurnar og ég læri alltaf eitthvað nýtt í hverjum einasta tíma. Hver og einn kennari er misjafn og þeim tekst misvel að koma æfingunni til skila með orðum þó svo að ræðan sé allsstaðar sú sama í Bikram.

Það er líka meiri agi í jógatímum erlendis. Fólk er ekki að rápa inn og út úr salnum, það er eiginlega stranglega bannað. Ég gerði þau mistök í mínum fyrsta tíma að fara fram því ég var gjörsamlega að kafna og við það að gefast upp. Kennarinn sem var pínulítil, mjög grönn kona á milli 60-65 ára kom fram á eftir mér, dró mig inn á dýnuna mína og lagði mig niður eins og lítið barn. Þar jafnaði ég mig og hélt svo bara áfram. Hún útskýrði fyrir mér eftir á að það væri mjög mikilvægt að halda út tímann og að vera inni í salnum allan tímann. Það er verra að fara út því þá snöggkælistu auk þess sem heilunaráhrif seríunnar koma ekki fram nema með því að klára æfinguna. Ég man að ég sat frammi í afgreiðslunni í örugglega hálftíma eftir tímann þambandi vatn gjörsamlega dofin og gat mig hvergi hreyft. Þótt ég hafi gert flestar jógaæfingarnar í tímanum átti ég í mesta basli með að venjast hitanum og einbeitingin var ekki til staðar. Eftir tímann horfði ég á hina iðkendurna skutlast út í daginn endurnærðir á sál og líkama. Þarna hafði kviknað áhugi og ég hafði fundið eitthvað sem ögraði mér. Ég var því staðráðin í að koma aftur þrátt fyrir að vera gjörsamlega örmagna á þessari stundu. Þarna sannaðist að það sem líkaminn ekki þekkir er sjokk fyrir hann, en svo venst það og þá geturðu farið að bæta þig og æft þig í að leita inn á við um leið og þú gerir þessar krefjandi æfingar.

Barkan og vinyasa flæði er vinsælt hér á landi

Mér finnst langbest að drekka vel af vatni fyrir æfinguna, lítið meðan á henni stendur og svo fá mér vel af kókosvatni eftir æfingu því það er fullt af steinefnum sem eiga það til að tapast í hitanum en líkaminn losar sig einnig við ýmis eiturefni gegnum húðina í hitanum. Nokkrar tegundir eru til af hot jóga en Bikram var sá sem kom með heitt jóga til Vesturlanda. Barkan er jógaaðferð byggð á Bikram sem jógakennarinn Jimmy Barkan hefur sett saman en í henni er meira um flæði eða vinyasa og eru stöðurnar 58 talsins. Barkan er vinsælt hér á landi en Bikram jóga er ekki kennt á Íslandi.

Ég skora á þig ef þú stundar hot jóga að prófa tíma þegar þú ert einhvers staðar á ferðalagi.

Heimasíður:

http://solir.is

http://bikramyoganyc.com

http://bikramyogaboston.com

http://jivamuktiyoga.com

http://beluminousyoga.com

http://www.behotyogatoronto.com

http://tulahotyoga.com

 

 

 

 

 

 

Leave a Reply