Fyrr í vetur sat ég fyrirlesturinn The Superfood Show þar sem Sólveig Eiríksdóttir eða Solla á Gló, Ólafur Stefánsson handboltakappi, Þorbjörg Hafsteinsdóttir næringarþerapisti og David Wolfe heilsubókaútgefandi voru fyrirlesarar. Mér finnst alltaf gaman og gott að fara af og til á svona fyrirlestra til að fá innblástur og hvatningu. Ég hef einu sinni áður hlustað á David Wolfe á fyrirlestri tala um eitt hans aðal áhugaefni sem er súperfæða. Þá talaði hann mikið um hrátt kakó, kakóbaunir, gojiber og aðra súperfæðu. David sagðist ávallt reyna að finna kalda uppsprettu til að baða sig í þegar hann kemur á nýja staði því hann telur það eitt það besta sem hægt er að gera fyrir líkamann. Hann sagði okkur einnig að hann drykki aldrei vatn úr plastflösku, ekki einu sinni í flugvél þar sem vatnið er einungis í plasti. Hann telur mjög mikilvægt að undirbúa sig vel hvern dag og lykillinn sé að eiga alltaf eitthvað til að grípa í eins hnetur og þess háttar til að falla ekki í freistni þegar hungrið kallar. Ég man samt best eftir hversu ótrúlega hvít mér fannst hvítan í augunum hans, svo mikið að mér varð starsýnt. Hann er nefnilega algjört heilsufrík og það sést langar leiðir. En hér stikla ég á stóru um það sem kom fram á þessum fyrirlestri The Superfood Show.
Það er staðreynd að við eldumst öll og á hverjum degi fáum við skilaboð frá líkamanum okkar um hvað við eigum að gera til að bæta heilsu okkar. Samkvæmt David er bólgumyndun í líkamanum aðalástæða ótímabærrar öldrunnar og hana er hægt að minnka eða koma í veg fyrir með réttum aðferðum. Við höfum allt við hendi til að lifa vel og lengi vill hann meina og hér á Íslandi vex ofurfæðan villt eins og t.a.m. hvönn, krækiber, fjallagrös og söl. En það er langur vegur frá því sem við ættum að gera og því sem við í raun gerum og því miður hunsum við skilaboð líkamans í flestum tilfellum. David fjallaði töluvert um mikilvægi þess að halda beinmergnum okkar heilbrigðum en sjálfur sannfærðist hann um mikilvægi þess þegar móðir hans var orðin svo illa haldin af gigt að hún var komin í hjólastól og gat sig varla hreyft. David keypti þá meðferð fyrir hana þar sem beinmergur var tekinn úr mjöðmum hennar og sprautað í æð. Meðferðin tók ekki nema fjórar mínútur og að henni lokinni gekk móðir hans út af stofunni og hefur ekki fundið til meins síðan. Hann heldur því fram að í beinmergnum sé í raun að finna lífskraft okkar og þegar t.d. kalt sest í beinin kemst beinmergurinn ekki út í blóðið.
Hvað táknar litur matarins?
David talaði mjög mikið um litaflóru matarins og að ákveðnir litirnir tengist ákveðnum líkamskerfum.
- Rauður: Fyrir blóðið og hjartað. David segir t.d. rauða litinn á rauðrófum mjög öflugan fyrir orku og þrótt. Það er einnig til rautt quinoa en quinoa, sem er í raun fræ en ekki korn, er mjög harðgert og getur þrifist við mjög léleg jarðvegsskilyrði. Fólk sem er hjartveikt ætti að einblína á að borða rauðan mat. Reishi sveppurinn er t.d. rauður og er frábær til að styrkja ónæmiskerfið – bakteríudrepandi og slímlosandi.
- Svartur: Táknar langlífi, lífskraft, þrek og allt sem er langtíma. Svartur matur er t.d. þari, krækiber og söl. Einnig minntist hann á chaga sem er sveppur og t.d. er hægt að drekka chaga te. Í kínverskum lækningum eru þessir sveppir mikið notaðir. ” Chaga is the king, reishi is the queen.”
- Fjólublár: Verndar miðtaugakerfið okkar. Vínber, rauðkál, eggaldin, brómber, rauðlaukur og plómur svo eitthvað sé nefnt.
- Grænn: Núllstilir og afeitrar. Besta leiðin til að koma öllu þessu græna ofan í okkur er annað hvort að djúsa eða mixa saman í blandara. Það er líka miklu auðveldara fyrir meltinguna ef ein máltíð á dag er í vökvaformi.
- Gulur: Fyrir þá sem eru komnir á hin gullnu ár (the golden years) því hann viðheldur heilbrigði vefja og stuðlar að endurnýjun þeirra. Turmeric er t.d. mjög bólgueyðandi og David nefndi sérstaklega golden beets eða gular rauðrófur sem fást því miður sjaldan á Íslandi.
- Brúnn: Táknar lit meltingarkerfisins. Súkkulaði er brúnt sem og kaffi og auðvitað erum við þá að tala um gæða súkkulaði og gæðakaffi. Meginefni kanils er tannin sem er gott fyrir blóðsykurinn.
Einföld skref í átt að réttu mataræði
Þegar breytt er um mataræði er mikilvægt að hafa hlutina ekki of flókna í byrjun því þá gefst fólk frekar upp. Samkvæmt David er auðvelt að gera grænan smoothie með því að blanda saman avocado eða banana, kasjúhnetum, grænu grænmeti og t.d. ferskjum eða einhverjum sætum berjum. Þegar ég sjálf byrjaði að huga að hollu mataræði haustið 2006 sá ég uppskrift af smoothie eftir Þorbjörgu Hafsteinsdóttur í Morgunblaðinu. Ég klippti hana út, fór út í búð og keypti það hráefni sem Þorbjörg lagði til. Sumt af þessu hafði ég aldrei notað áður og vissi ekki einu sinni að væru til. Þennan smoothie gerði ég í marga mánuði og breytti engu öðru hjá mér. Ég hreinsaði ekkert úr skápunum hjá mér heldur kláraði það sem var til eins og hvíta hveitipokann og sykurinn sem ég átti en keypti svo hollari hráefni til að baka upp úr þegar hitt var búið og hef hvorki keypt hvítt hveiti né hvítan sykur síðan. Það er nefnilega galdurinn og akkúrat það sem David talar um, þ.e. að gera breytingar hægt og rólega. Byrja á einföldum hlutum eins og að fá sér góðan blandara, djúsa og gera smoothie, koma þessu upp í vana og færa sig þannig skref fyrir skref í áttina að nota ofurfæðu eða hvað það er sem fólk vill. Með því að auka ofurfæðu í mataræði okkar aukum við tíma okkar því þá þurfum við ekki eins mikinn svefn og afköstum meira því súperfæða gefur okkur meiri orku. En þetta þarf s.s. að gerast hægt og rólega og ekki með neinum látum segir David.
Solla fór á kostum og bjó til mjög bragðgóðan, brúnan smoothie sem virkar flókinn en ef þú átt allt í hann þá er þetta ekkert mál:
- 3 pokar af Three Cinnamon Pukka te í 1/2 líter af soðnu vatni
- 3 kubbar kakósmjör
- 1/2 líter kókosmjólk eða möndlumjólk
- 4 msk kakó (1msk kakó á hverja 250ml af vökva)
- 1 tsk engifer
- 1/2 tsk maca
- 1/2 tsk reishi
- Smá salt
- 1 tsk xylitol, hlynsíróp, kókospálmasykur eða stevia (ef dropar þá bara nokkrir)
- Nokkrir dropar af vanillu, karamellu og súkkulaði frá Medicin Flower.
- Ef þið notið 50:50 kókosmjólk og hrísmjólk þá þarf ekki sætu því hrísmjólkin er svo sæt.
Mótvægi mikilvægt við örvandi þáttum
David lagði líka mikla áherslu á að koma á mótvægi við allt það sem er örvandi í umhverfi okkar. Sjónvarpsgláp, sykurát, reykingar, kaffidrykkja, candy crush og margt, margt fleira virkar örvandi. Þess vegna er mjög mikilvægt róa sig niður og koma með mótvægi við öllu áreitunu sem er í kringum okkur. Þorbjörg mælir með því að fá sér kaffi á morgnana með kókosolíu, kakósmjöri, smjöri og e.t.v. rjóma út í en þannig má minnka hin örvandi áhrif sem kaffið annars hefur. Einnig sagðist hún taka inn kollagen á morgnana á undan kaffinu sínu og þá blandar hún því m.a. saman við kókosvatn og acai duft en kollagen er eitt aðaluppbyggingarprótein líkamans. Hún minntist einnig á mikilvægi glutathione, mjög sterks andoxunarefnis sem við framleiðum í líkama okkar. Það myndast þegar við borðum t.d. kál, lauk og hvítlauk og því gott að hafa þær fæðutegundir á borðum hvern dag. Talið er að sjúkdómar á borð við sykursýki og krabbamein geti tengst of lágu glutathionemagni í líkamanum (1). Svo er mikilvægt að hafa í huga að húð okkar endurnýjast á 28 daga frestu og ef meltingin er í lagi þá er húðin okkar ljómandi. Eða eins og Þorbjörg sagði: ” You can not get your act together if you are not eating right.”
Áhrif á andlegu hliðina
Mikilvægt er þó að hafa í huga að það sem hentar einum hentar ekki endilega öllum eins og Ólafur Stefánsson benti réttilega á. Best væri að prófa allt sjálfur og finna út hvað hentar enda þekkir hver og einn sinn líkama best sjálfur. Hann minntist sérstaklega á að t.d. maca færi ekki vel í hann sjálfan en að hann væri mjög hrifinn af bi pollen. Einnig benti hann á að heilsa væri ekki aðeins heilbrigt mataræði, heldur væri mikilvægt ef þú sem persóna gætir aukið orku fólks með nærveru þinni og verið því hvatning. Ef þú getur verið léttur og skemmtilegur í stað þess að draga fólk niður þá ertu að gera góða hluti. Eða eins og David sagði: ” People who are sick all the time have a personality that is sick all the time.” Mataræði hefur nefnilega ekki mikið að segja um líkamlega líðan okkar heldur líka andlegu hliðina.
Veitum réttum hlutum athygli
Að lokum koma hér nokkur heilræði frá David: “Where attention goes, energy flows,” eða “Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar.” Það gildir þá bæði um það sem er gott og það sem er slæmt. Hugsum því fallega, skrifum niður markmiðin okkar, lesum meira af efni sem við höfum áhuga á. Þannig verðum við sérfræðingar í þeim málefnum og það beinir athygli okkar í rétta átt. Ef þér finnst þú ekki hafa nægan tíma er hollt mataræði lykillinn því þá líður þér betur og þú hefur meiri orku til að láta drauma þína rætast.