Löng heilunarhreinsun

IMG_1173-2Enn og aftur nýtt ár og mitt áramótaheit er yfirleitt það sama, bætt heilsa. Ég hef ákveðið að fara aftur eftir sama prógrammi og ég gerði fyrir ári síðan sem er sett upp í þremur hlutum. Það prógram tók ca. 20 vikur hjá mér en var sett upp sem 30 vikur (jebb, ekki grín) og ég kláraði aldrei ferlið almennilega. Núna ætla ég að taka þetta á laufléttum 13-14 vikum sem þýðir ca. til páska og taka þriðja og síðasta áfangann mun betur en síðast en þá er verið að styrkja meltingarveginn eftir hreinsunina sem er alls ekki síður mikilvægt ferli. Ég ætla að taka 1. áfanga á tveim vikum, 2 . áfanga á fjórum vikum og 3ja áfanga ca. 2 mánuði. Já þetta er mjög langur tími en ég hef gert þetta áður svo ég alveg óhrædd í þetta skiptið. Vissulega er þetta erfitt og krefst skipulagni og margir spurja af hverju ég sé eiginlega að þessu. Svarið er einfalt, ég þarf virkilega á þessu að halda. Frásog næringarefna úr fæðunni er frekar lélegt hjá mér, ég hef þurft B-12 sprautur og hef greinst með járnskort svo eitthvað sé nefnt. Maginn minn ýlfrar líka af vanlíðan þegar bakteríuflóran er í ójafnvægi og þegar meltingin er ekki í lagi er ekkert í lagi hjá mér. Og það tekur tíma að laga hana, það gerist ekki á einni nóttu en verðlaunin eru ótvíræð.

Ekki hætta að lesa því þegar þú lest þennan lista þó langur sé þá sérðu að það er alveg fullt af dýrindis mat sem þú mátt borða. Þetta er ekki megrunarkúr, þetta er heilunarkúr sem byggist á því að þú borðar hreinan mat og sleppir sykri og sterkju.

Ferlið er s.s. í þremur áföngum og er í bókinni hennar Kolbrúnar grasalæknis, Betri næring – betra líf en þar eru einnig uppskriftir eftir Sollu á Gló sem hægt er að styðjst við og gera sjálfur með sínu nefi. Notaðar eru jurtir til að styðja ferlið og gera enn áhrifaríkara en með því að fara þessa leið getur þú bætt almenna heilsu, meltingarvegurinn fer að starfa eðlilega, slímhúðin verður frísk og heilbrigð og öll starfsemi í meltingarvegi verður virk. Aukabónus er að léttast (þó svo þetta sé ekki hugsað sem megrunarkúr), verða liðugri og ýmisir líkamlegir og andlegir kvillar hverfa. Ég mæli með því að kaupa bókina en ég stikla hér á stóru um hvað ferlið snýst. Það fylgja leiðbeiningar fyrir hvern áfanga og er nákvæmlega tekið fram hvað má borða – annað má ekki borða.

Matur sem á að taka út alveg í byrjun

Allur eftirfarandi matur á ekki að vera á boðstólum í sex mánuði eða í þann tíma sem þið takið í ferlið:

 • Sykur
  Allt einfalt kolvetni sem er sykur, hrásykur, hunang, hreinn ávaxtasykur, þurrkaðir ávextir , agave-síróp, hlynsíróp, tilbúnir ávaxtasafar í fernum, ávaxtate, sætt kakó, sætt súkkulaði, xylitol, aspartame, nutra sweet, maltodextrin, súkkrós, mannitól, sorbitól, monosaccaride, polysaccaride og melassi.
 • Korn
  Allt hreinsað korn er í banni í öllu bataferlinu, hvítt hveiti, hvít grjón, hvítt pasta og önnur matvæli sem unnin eru úr korni sem búið er að hreinsa. Einnig korn sem inniheldur ger eða sykur. Sem þýðir að allt venjulegt brauð er bannað. Kókosmjöl er í banni allan tímann. Glútenlaust korn er leyft í öðrum áfanga og glúten er leyft í þriðja áfanga.
 • Ger/gerjaður matur
  Ger, gerbrauð, bjór, vín, sterkt áfengi, grænar ólívur, sveppir, snakk með osti (vegna þess að ostur er gerjaður), ostur, sýrðar mjólkurvörur, sinnep, tómatsósa, worcester-sósa, grillsósa, sojasósa, tamarisósa, edik, eplaedik, tófú, temphe, majónes, unnar kjötvörur, trufflur, melónur, löngu malað kaffi, gamalt te og gamlar jurtir. Jurtir, krydd, te og löngu malað kaffi myndar gró í sér með tímanum. Matarafganga má nota dagsgamla en ekki eldri en það. Allar hollustugerjunarvörurnar eru svo leyfðar á ný í þriðja áfanga.
 • Allir þurrkaðir ávextir en ferskir ávextir með undantekningu
  Ferskir ávextir eru ekki leyfðir fyrstu þrjá mánuðina nema með smá undantekningu í áfanga 2. Þurrkaðir ávextir eru í banni allan tíman og eru ekki leyfðir aftur fyrr en að lokinum þriðja áfanga.
 • Sveppir, jarðhnetur og pistasíuhnetur
  Sveppir og hnetur eru ekki leyfð en jarðhnetur og pistasíuhnetur hafa myglu á sér sem er ekki góð fyrir fólk sem er viðkvæmt fyrir myglu og geri. Hnetusmjör er því ekki leyfilegt né salthnetur.
 • Mjólkurvörur
  Unnar mjólkurvörur – sem eru í raun allar mjólkurvörur. Fyrsta mánuðinn má ekki láta ofan í sig neinar mjólkurvörur þó að þær séu ógerilsneyddar vegna þess að kolvetnið í mjólkinni er tvísykra sem er næring fyrir slæmu bakteríurnar. Smjör og rjóma má svo fara að nota í 2. áfanga.
 • Unnar kjöt- og fiskvörur
  Það má borða kjöt og fisk en bara ekki þetta unna. Sleppið einnig þurrkuðu, reyktu og edikslegnu kjöti og fiskmeti. Það þýðir að harðfiskur er bannaður, hann hefur ekki verið hitaður og mikið af bakteríum.
 • Passa msg krydd
  Ekki nota nein krydd með þriðja kryddinu sem hefur mörg nöfn eins og MSG, E-621 (notað á íslensku vörurnar), monosodiumglutamate (notað á erlendu vörurnar).
 • Annað
  Kolsýrt gos.

Það er mjög mikilvægt að trappa sig niður hægt og rólega áður en farið er í 1. áfanga. Það er t.d. gott að taka 3 daga í að hætta að borða sykur, gos, brauð, kaffi, hvítt hveiti, salt, unna kjötvöru og fleira sem er ekki æskilegt. Nota svo næstu 3 daga á eftir í létt detox sem byggist á hreinum, léttum mat (án dýraafurða) og djúsum og byrja síðan á 1. áfanga.

1. áfangi (2-4 vikur)

Ef fólk er mjög grannt er ráðlagt að fara beint í 2. áfanga eða fá leiðbeiningar hjá grasalækni eða öðrum sem kann á þetta.

Efni sem þarf í 1. áfanga

 1. Gripnir duft eða hylki / er sveppadrepandi og blóðhreinsandi (hreinsar nýru og lífur). Fyrir fólk sem er viðkvæmt í maga þá er þetta nóg sem sveppadrepandi og kannski smá auka ólífulauf með. Takið 3 hylki/1 tsk duft 3X á dag fyrir mat.
 2. Vaðgelmir duft eða hylki/ inniheldur jurtir sem hreinsa ristil eins og leir, husk og þara. Þær hreinsa á lengri tíma og því þarf að taka Vaðgelmi í 2-3 mánuði til að fá fulla virkni. Takið 3hylki/1 tsk 3X á dag fyrir mat.
 3. Skjöldur duft eða hylki/ nauðsynleg fyrir þá sem þurfa að næra og styrkja slímhúð í meltingarvegi. 3 hylki/1 tsk * 3 á dag fyrir mat
 4. Fönn blanda af ilmkjarnaolíum og grunnolíu. Er mjög sveppa og bakteríudrepandi. Er of sterkt í maga fyrir fólk með magabólgur. 15 dropar þrisvar á dag í 1 mánuð. Ég kaupi grænmetishylki (hylki sem eru utan um vítamín til að segja olíuna í).
 5. Hörfræolía eða önnur sambærileg góð omega 3 olía. Takið 2 msk á dag.
 6. Ekki er endilega nauðsynlegt að taka hér góðan acidophilus því það er verið að drepa svo mikið en má taka eina á dag og ekki taka acidophilus með Fönn því hún drepur. Takið acidophilus strax eftir mat 2x á dag.
 7. Spírur innihalda mikið af virkum ensímum og er ein næringrríkasta fæða sem hægt er að fá. Það er gott að nota þær á hverjum degi en það þarf að skola þær vel því það getur leynst mygla á spírunum.
 8. Fjölvítamín, sérstaklega B-vítmín vegna þess að það vantar sum næringarefni í matinn.

Matur sem má borða í fyrsta áfanga og ekkert annað. 

Þegar þú lest þennan lista sérðu að það er alveg fullt af dýrindis mat sem þú mátt borða. Þetta er ekki megrunarkúr, þetta er heilunarkúr sem byggist á því að þú borðar hreinan mat og sleppir sykri og sterkju. 

Prótein:

 • Egg
 • Lambakjöt
 • Nautakjöt – lífrænt hægt.
 • Kjúklingur – athugið að lesa innihaldslýsingu.
 • Villt kjöt – rjúpa, svartfugl, gæs, lundi og hreindýr.
 • Allar fisktegundir – ómeðhöndlaðar. Athugið að eldisfiskur getur innihaldið sýklalyf og miklu máli skiptir að allt sé vel soðið út af rotnunarbakteríum.
 • Allar baunategundir – mungbaunir, adukibaunir, rauðar nýrnabaunir, linsubaunir, kjúklingabaunir og smjörbaunir. Mungbaunir og adukibaunir afeitra líkamann. Baunir eru lagðar í bleyti og soðnar við hægan hita.
 • Fræ – sesamfræ, chiafræ, hörfræ, sólblómafræ, graskersfræ, hampfræ og birkifræ.
 • Hnetur – brasilíuhnetur, pecanhnetur, möndlur, kasjúhnetur, valhnetur, furuhnetur og heslihnetur. Hráar hnetur og fræ meltast betur ef lagt er í bleyti yfir nóttina og einnig skolast í leiðinni burt gró sem geta myndast.

Próteinríkt álegg er t.d. möndlusmjör, kasjúsmjör og tahini (sesamsmjör) sem er best að geyma í ísskáp. Í fyrstu er betra að borða meira af kjöti og fiski heldur en baunum og hnetum nema þið látið baunirnar spíra og leggið hneturnar í bleyti. Rautt kjöt einu sinni í viku, hvítt kjöt einu sinni í viku, fiskur tvisvar til þrisvar í viku og baunir þrisvar til fjórum sinnum í viku.

Grænmeti:

 • Allt grænmeti (nema sveppir) og mikið af því, sérstaklega af sterkjulitlu grænmeti.
 • Spergilkál er sérlega gott, hvítkál, rósakál, blómkál, hvítlaukur, engifer, sellerírót, steinseljurót og sellerí.
 • Borða minna af kartöflum, sætum kartöflum, rófum, graskerjum og gulrótum fyrsta mánuðinn en svo má nota þetta grænmeti frjálslega eftir það.
 • Hér þarf að hlusta á líkamann, því það er auðvitað ekki eðlilegt mataræði að sleppa alveg öllu korni. Kolvetnið kemur þá bara frá grænmeti, baunum og fræjum. Það er mikilvægt að þú hafir hætt að borða hvítan sykur, hvítt hveiti og ger áður en þú byrjar á þessu. Því annars verða fyrstu dagarnir svo erfiðir.

Drykkir:
Vatn, jurtate (ekki ávaxtate), grænmetissafar (heimapressaðir) og ekkert annað. Drekktu 30 ml af vatni/te/safa fyrir hvert kíló af þinni líkamsþyngd á dag.

Ávextir:
Sítrónur, límónur og kókosvatn (ekki kókosmjöl).

Mjólk:
Kókosmjólk, sesammjólk, möndlumjólk og engar aðrar mjólkurvörur. Venjuleg mjólk er ekki í lagi vegna þess að hún inniheldur tvísykru (einfalt kolvetni).

Krydd:
Allt ferskt krydd og þurrkað sem inniheldur engin aukaefni. Notið ekki krydd sem eru meira en árs gömul, gömul krydd og jurtir innihalda gró (myglu). Maldonsalt, himalajasalt og sjávarsalt – notið ekki það sem kallað er borðsalt.

Þang:
Söl, kombuþang, wakameþang, arameþang og noriþang. Hægt að nota í salöt, súpur og pottrétti.

Olíur:
Notið helst lífrænar og kaldpressaðar olíur því þá eru öll næringarefnin enn í olíunni. Kókosolía og ólívuolía eru báðar sveppadrepandi og þess vegna er mjög gott að nota eina matskeið á dag af hvorri olíu. Olíurnar sem hér eru taldar upp eru ríkastar af omegaolíu og innihalda allar fleiri en eina gerð af omegaolíu. Hér sérðu hvaða omegaolía er mest af í hverri.

 • Ólívuolía (omega-9)
 • Kókosolía (mjög lítið af omega en mest af olíu- og palmitínsýru)
 • Sesamolía (omega-6)
 • Sólblómaolía (omega-6)
 • Graskersfræjaolía (jafnmikið af omega-6 og omega-9)
 • Hörfræjaolía (omega-3)
 • Hampolía (omega-6)
 • Hafþyrnisolía (jafnmikið af omega-6 og omega-9)
 • Kvöldvorrósarolía (omega-6).

2. áfangi (2-4 mánuðir)

Matur sem kemur inn og bætist við 1. áfanga:

 1. Glúteinlaust korn eins og bókhveiti, maís, quinoa, hirsi, hrísgrjón og teff.
 2. Ef mjólkur vörur eru í lagi fyrir þig þá kemur inn smjör og rjómi.
 3. Ber og epli (en ekki vínber).

Efni sem þarf að taka:
Sama og í 1. áfanga nema af Fönn eru teknir 15 dropar 2 sinnum á dag í 2 mánuði.

3. áfangi (2-4 mánuðir)

Matur sem kemur inn:

 1. Glúteinkorn – heilhveiti, spelt, bygg, rúgur og hafrar.
 2. Gerjaður hollur matur – fólk sem er viðkvæmt fyrir myglu gæti þurft að halda sig lengur frá þessum mat. Þessi matur er samt mjög mikilvægur fyrir allt ferlið og því er alveg nauðsynlegt að setja þennan mat inn. Súrkál, ógerilsneitt eplaedik, miso, temphe, tamari sojasósa, lífrænt hreint jógúrt, ógerilsneidd mysa, molkosan, kornspírusafi, mjólk beint úr kúnni, lífrænt hvítvín, balsamik edik og ferskir ostar.
 3. Ferskir ávextir – nú má setja inn alla ávexti, en gott að byrja fyrst á þeim súru og halda áfram að hafa þessu sætu í hófi.

Efni sem þarf að taka:

 1. Ægishjálmur – blanda af mörgum jurtum sem næra og styrkja.
 2. Fönn – 15 dropar einu sinni á dag eða sleppa og einbeita sér vel að góðu bakteríunum í acidophilus töflum og gerjaða matnum.
 3. Hörfræolía – ómega 3 olíur er eitthvað sem maður á alltaf að taka.
 4. Góðferlar – 2-3 sinnum á dag eða minna eftir þörfum allt niður í eina á dag. Gott er að taka 2 vikur í að taka meira og muna að taka ekki Fönn á sama tíma og mjólkursýrugerla.

Ef þú gerir flesta daga eins og lýst er í 3. áfanga er þá ert þú í fínum málum þrátt fyrir að gera eitthvað sem þú átt ekki að gera öðru hvoru, það má bara ekki vera of oft.

Gangi þér og mér vel :)

Ps. hvað varðar félagslegu hliðina þá er alltaf erfitt að fara í svona langt prógram og þess vegna gæti verið gott að hafa einhvern með sér. Það sem ég rakst á síðast var að það þarf talsverðan styrk til að standa með sjálfum sér þegar aðrir reyna að telja manni trú um að þetta sé nú bara vitleysa og að það sé í lagi að fá sér eitthvað sem er á bannlistanum, bara einu sinni því það er nú afmæli, veisla eða saumaklúbbur. Það eru og verða alltaf afmæli og veislur og etv. aldrei réttur tími til að byrja á svona ferli. Það er alltaf hægt að finna afsakanir. En allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi og janúar og febrúar eru hvort sem er leiðinlegustu mánuðir heims. Ekki að þetta þurfi að vera drepleiðinlegt og erfitt, það fer allt eftir hugarfarinu þínu. Ég hlakka alla vega til núna og ég finn að ég er svo tilbúin því ég veit að eftir þennan tíma verður líkaminn minn ekki eins viðkvæmur fyrir því sem er miður hollt og minni hætta á að meltingarstarfsemin fari í uppnám við smá útúrdúra.

Bordi2

2 Comments on Löng heilunarhreinsun

 1. Rósa
  6. January, 2015 at 8:33 am (10 years ago)

  Já…þetta langar mig til að gera! Hef ég úthaldið? Það er spurningin.
  Takk fyrir bloggið <3

  Reply
  • Ljómandi
   6. January, 2015 at 2:23 pm (10 years ago)

   Já Rósa þetta er langt en alveg þess virði. Ég mæli með að prófa einu sinni að gera þetta svona vel og vandlega.

   Reply

Leave a reply to Rósa Cancel reply