Archive of ‘Drykkir og Boozt’ category

Hinn daglegi græni djús

IMG_4789 Innihald: / 2-3 lúkur spínat eða annað kál / 1/2 sítróna eða lime / 1/2 – 1 grænt epli / 1/3 gúrka / 1-2 sellerístilkar / 2-3 cm engiferrót / 4 dl vatn / val: lúka af myntu eða kóríander.

Aðferð: ég set allt í blandarann og sía svo hratið frá gegnum síupoka sem fæst í Ljósinu Langholtsvegi. Stundum þegar ég hef ekki mikinn tíma set ég allt í blandarakönnuna nema vatnið og geymi inni í ísskáp. Bæti svo vatninu út í um morguninn, sía hratið frá og þá er djúsinn tilbúinn strax fyrir tvo.

Ég hef gert þennan djús á morgnana í mörg ár og ætla að gera hann út lífið. Stundum tek ég pásu en mér finnst alltaf jafngott að byrja daginn á grænum djús og ekki bara mér heldur manninum mínum líka. Þetta er innblástur frá djúsnum hennar Sollu, hinn daglegi græni djús en stundum bæti ég í hann myntu og þá er hann extra góður. Hvar værum við án Sollu segi ég bara :)

EN það er vandlifað og ég má ekki ofnota spínat vegna þess að ég er með vanvirkan skjaldkirtil. Þess vegna er mjög gott að skipta um káltegund reglulega og festast ekki í einni tegund eingöngu heldur reyna að nota sem fjölbreyttast. Það tekur enga stund að útbúa hann þegar þetta er komið í rútínu.

Hveitigrasskot

IMG_4008Hveitigras er mjög orkugefandi og inniheldur allt að 70% blaðgrænu. Safinn sem pressaður er úr lífrænt ræktuðu hveitigrasi er fullur af næringarefnum, vítamínum, steinefnum, ensímum og  blaðgrænu (chlorophyll).

Blaðgrænan svipar mjög til uppbyggingar hemoglobíns í blóði, er auðmeltanleg og gefur orku því hún frásogast hratt út í blóðið. Þá losar hveitigrasið okkur við uppsöfnuð eiturefni. Það er best að fá sér hveitigras á morgnana, sérstaklega á fastandi maga. Til að gera hveitigrasskot heima þarftu að eiga safapressu með snigli.

Ég tek stundum svona tarnir í hveitigrasi og gleymi því svo lengi inn á milli. En ég finn það gerir mér gott þegar ég nenni þessu.

http://thechalkboardmag.com/50-reasons-to-drink-wheatgrass-everyday

Möndlumjólk

IMG_4078Innihald: / 2 dl möndlur / 8 dl vatn / smá salt / ½  tsk kanill / ½ tsk ekta vanilluduft  / það má sæta með t.d. 2 döðlum (mjúkum), smá agave, steviu… en þá er þessi uppskrift ekki lengur sykurlaus.

  1. Möndlurnar þurfa að liggja í bleyti í minnst 5-6 tíma eða yfir nótt.
  2. Vatninu er hellt af og allt sett í blandara (8 dl vatn). Möndluhratið er sigtað frá gegnum sigtipoka (fæst í Ljósinu Langholtsvegi). Hellið í flösku, geymist í kæli í 3 daga.

Ef þú vilt bæta kalki í möndlumjólkina má setja tahini í blandarann eða leggja sesamfræ í bleyti og blanda með möndlunum en þá fær mjólkin allt annað bragð. Sesamfræ eru beisk en mjöööög kalkrík. Ekki nota hratið af sesamfræjunum og munið að skola alltaf fræ vel eftir að þau hafa legið í bleyti.

Ég kaupi yfirleitt tilbúna möndlumjólk en auðvitað væri best að gera alltaf sína eigin. Kókosvatn er líka snilld sem grunnur í boost og eftir æfingar því það er svo ríkt af söltum og steinefnum.

 

 

 

 

1 2